2022
Hvernig takast skal á við þrjár ólíkar raunir
Mars 2022


„Hvernig takast skal á við þrjár ólíkar raunir?“ Til styrktar ungmennum, mars 2022.

Kom, fylg mér

1. Mósebók 37–50

Hvernig takast skal á við þrjár ólíkar raunir

Lífinu fylgja margar mismunandi áskoranir, en lausnin felst alltaf í því að snúa sér til Guðs.

Bræður Jósefs selja hann í ánauð

Myndskreyting eftir Simini Blocker

Bræður Jósefs voru afbrýðissamir út í hann og seldu hann í ánauð og sögðu síðan föður sínum að hann hefði orðið villidýrum að bráð.

Jósef frá Egyptalandi hefði getað spurt margra spurninga um ástæður þess hvert líf hans stefndi. Þið munuð læra um hann í þessum mánuði, en hér er stutt samantekt á því sem átti sér stað í lífi hans.

  • Bræður hans seldu hann í ánauð.

  • Sem þræll, var hann ranglega sakaður um að reyna að táldraga eiginkonu húsbónda síns.

  • Hann varð síðan fangi í tvö löng ár.

Hugsið ykkur hvernig ykkur hefði liðið í sporum Jósefs. Þið gætuð hið minnsta freistast til að spyrja: „Af hverju ég?“ „Hvað hef ég gert til að eiga þetta skilið?“

Jósef í fangelsi í Egyptalandi

Þótt Jósef hefði ekki framið glæp, var hann sendur í fangelsi í tvö löng ár.

Þrír þrengingarflokkar

Öldungur Neal A. Maxwell (1926–2004), í Tólfpostulasveitinni, skipti eitt sinn þrengingum lífsins í þrjá eftirfarandi flokka:

  • Flokkur 1: Þrengingar vegna eigin synda og mistaka.

  • Flokkur 2: Þrengingar vegna hins fallna heims sem er fylltur sjúkdómum og föllnu fólki.

  • Flokkur 3: Þrengingar sem Guð vill að við göngum í gegnum vegna þess að hann vill að við vöxum.

Mitt í þrengingum gætum við freistast til að spyrja: „Af hverju ég?“ Sú spurning er ef til vill ekki eins gagnleg og við væntum. Öldungur Maxwell skrifaði að hver sem orsök þrenginga okkar væri, þá „væri útkoman augljóslega sú sama; Guð vill að við tökumst á við þessa áskorun. Hann lofar okkur þó að náð hans nægi okkur.“1 Með öðrum orðum, þá leyfir himneskur faðir ekki að við tökumst á við þrengingar án þess að sjá okkur fyrir nauðsynlegri hjálp með friðþægingu Jesú Krists.

Fordæmi Jósefs

Við skulum skoða aðeins fyrstu meiriháttar þrengingar Jósefs: Bræður hans seldu hann í ánauð.

Falla þessar þrengingar í „flokk 1“? Kallaði Jósef þær yfir sig sjálfur? Nei, reyndar ekki. Í sakleysi sagði hann frá tveimur innblásnum draumum sem tengdust eldri bræðrum hans. Þessir draumar gerðu það ljóst að hann myndi einhvern tíma verða leiðtogi þeirra. Auðvitað hljómaði það illa í eyrum eldri bræðra hans. Í raun þá „hötuðu [þeir] hann enn meir vegna drauma hans“ (1. Mósebók 37:8).

Ef þið væruð í sporum Jósefs, gætuð þið mögulega hugsað: „Ef ég hefði aðeins sleppt því að segja þeim frá draumum mínum!“

Falla þessar þrengingar frekar í „flokk 2“? Var orsök þrenginga Jósefs vegna hins fallna heims, þar sem aðrir notuðu sjálfræði sitt slælega? Hugsanlega. Jósef hefði getað verið tamara að hrista bara höfuðið og hugsa hvernig allar hans þrengingar væru bræðrum hans að kenna eða lygum eiginkonu Pótífars eða jafnvel yfirþjóninum sem í tvö ár gleymdi að segja Faraó frá Jósef, þótt hann hefði lofað að gera það (sjá 1. Mósebók 40:23).

Falla þessar þrengingar ef til vill frekar í „flokk 3“? Var þetta, með öðrum orðum, það sem Guð leyfði að Jósef upplifði til að hjálpa honum að vaxa? Jósef fannst svarið við þessari spurningu vera já, hið minnsta að nokkru leyti. Þegar hann loks hitti bræður sína aftur, sagði hann: „Verið ekki daprir og ásakið ykkur ekki fyrir að hafa selt mig hingað. Það var Guð sem sendi mig hingað á undan ykkur til að bjarga lífi“ (1. Mósebók 45:5, skáletrað hér).

Minnist þess að Jósef var seldur í ánauð 17 ára gamall. Hann var 30 ára þegar hann stóð frammi fyrir Faraó og túlkaði draumana sem loks leiddi hann til frelsis. Í 13 ár, eða næstum helming ævi sinnar fram að því, hafði Jósef verið frelsissviptur, án þess að bera nokkra sök á því sjálfur. Hann trúði þó að „Guð hefði sent sig“ til varðveislu lífs. Hverjar sem þrengingarnar voru, þá vissi Jósef að lokum að Guð hafði tilgang með þeim.

Það nægði honum. Það getur líka nægt okkur.

Jósef með bræðrum sínum í Egyptalandi.

Jósef fyrirgaf bræðrum sínum og bjargaði jafnvel lífi þeirra í hungursneiðinni. Jósef vissi að Guð hafði verndað og varðveitt hann.

Raunir ykkar

Við getum eytt heilmikilli orku í að dvelja við fortíðina. Við gætum hugsað: „Af hverju gerði ég þetta?“ eða „ef aðeins þessi eða hinn hefði ekki svikið mig.“

Að dvelja við það sem hefði mátt fara betur eða hefði getað orðið, er aðeins til að ergja sig á því hvernig þrengingar verða á vegi okkar. Þegar allt kemur til alls, þá finnum við frið og styrk í því að koma til Krists og treysta honum, eins og Jósef frá Egyptalandi. Ef við getum það, geta allar okkar þrengingar gagnast okkur til að vaxa nær Guði og verða líkari honum.

Henry B. Eyring forseti, í Æðsta forsætisráðinu, hefur kennt: „Skiljanlega veltið þið ef til vill fyrir ykkur hvers vegna ástríkur og almáttugur Guð leyfi að jarðneskar prófraunir okkar séu svo erfiðar. Það er vegna þess að hann veit að við þurfum að vaxa og þroskast að andlegum hreinleika, til að geta lifað að eilífu með fjölskyldum okkar í návist hans.“2

Eilíf umbun

Ef við höfum syndgað, verðum við að iðrast. Ef við getum gert þrengingar okkar léttbærari, þá ættum við að gera það. Ýmsir erfiðleikar sem við tökumst á við í jarðlífinu hafa þó tilhneigingu til að vara lengur en við óskum – stundum alla ævi. Lausnin við því felst þó líka í því að snúa sér til Guðs.

Þessu lífi er ætlað að þroska okkur og sannreyna. Guð mun ganga með okkur, ef við leitum hans! Öldungur Dale G. Renlund, í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Trú ykkar á himneskan föður og Jesú Krist mun umbunað meira en þið fáið ímyndað ykkur. Öll ósanngirni – einkum sú sem vekur reiði – mun helguð ykkur til farsældar.“3

Var það „sanngjarnt“ að Jósef upplifði það sem hann gerði? Nei. Vegna þess sem hann upplifði, var honum þó mögulegt að bjarga lífi þjóða, einnig eigin fjölskyldu.

Þið gætuð verið mitt í raunum ykkar, eins og Jósef var. Verið getur að þið sjáið ekki tilganginn. Ekki heldur endinn.

Hafið þó hugfast að náð Guðs nægir. Snúið ykkur til hans og hann mun gera undur í lífi ykkar.