„Íklæð þig styrk þínum, Síon – Útdráttur,“ Til styrktar ungmennum, nóv. 2022.
Íklæð þig styrk þínum, Síon
Útdráttur
Ég bið þess einlæglega að heilagur andi upplýsi hvert og eitt okkar þegar við íhugum nú mikilvægi dæmisögunnar um hina konunglegu brúðkaupsveislu. …
Þegar konungur gekk inn í brúðkaupssalinn, virti hann fyrir sér áhorfendur og veitti því strax athygli að einn áberandi gestur var ekki í brúðkaupsklæðum. Maðurinn var leiddur fram og konungur spurði: „Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað“ [Matteus 22:12]. …
Neitun mannsins um að klæðast brúðkaupsklæðunum var til marks um augljóst virðingarleysi við bæði konunginn og son hans. Það var ekki svo að hann vantaði einfaldlega brúðkaupsklæði; heldur kaus hann að klæðast þeim ekki. … Viðbrögð konungsins voru skjót og afdráttarlaus: „Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna“ [Matteus 22:13]. …
Hann sýndi mótþróa gegn konunginum og fyrirmælum hans með því að klæðast ekki réttum fatnaði.
Dæmisögunni lýkur síðan á þessu óþægilega ritningarversi: „Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir“ [Matteus 22:14]. …
Guð er ekki með lista yfir uppáhalds einstaklinga, sem við verðum að vona að nafni okkar verði einhvern daginn bætt við. Hann takmarkar ekki „hina útvöldu“ eingöngu við fáa. Þess í stað ákvarðar hjarta okkar, þrá okkar, virðing okkar við helga sáttmála fagnaðarerindisins, hlýðni okkar við boðorðin og síðast en ekki síst hin endurleysandi náð frelsarans, hvort við teljumst vera ein af hinum útvöldu Guðs. …
Þegar við leitum á viðeigandi hátt eftir hinni andlegu gjöf að sjá með augum okkar og heyra með eyrum okkar, þá lofa ég því að við verðum blessuð með getu og dómgreind til að styrkja sáttmálssamband okkar við lifandi Drottin. Við munum einnig hljóta kraft guðleikans í lífi okkar – og að lokum verða bæði kölluð til og útvalin fyrir veislu Drottins.