2010–2019
Þrá
Apríl 2011


Þrá

Til að ná eilífum ákvörðunarstað okkar, þurfum við að þrá og vinna að því að hljóta þá eiginleika sem nauðsynlegir eru fyrir eilífa tilveru.

Ég hef ákveðið að ræða um mikilvægi þrár. Ég vona að hvert okkar rannsaki hjarta sitt til að komast að því hvað við í raun þráum og hvernig við forgangsröðum okkar mikilvægustu þrám.

Þrár stjórna forgangsatriðum okkar, forgangsatriði ráðast af valkostum og valkostir ákveða verk okkar. Þær þrár sem verða að verkum ákveða framfarir okkar, afrek og persónuleika.

Fyrst ræði ég nokkrar almennar þrár. Sem jarðneskar verur búum við að líkamlegum þörfum. Þrár til að fullnægja þeim knýja okkur til þess að velja og ákveða verk okkar. Þrjú dæmi sýna hvernig við hunsum stundum þær þrár til að fullnægja öðrum þrám, sem við teljum mikilvægari.

Í fyrsta lagi er það matur. Matarlöngun er okkur eðlislæg, en um tíma getum við hunsað þá löngun, því löngun okkar til að fasta er sterkari.

Í öðru lagi er það húsaskjól. Þegar ég var 12 ára hélt ég aftur af þeirri löngun að þurfa húsaskjól, því ég þráði meira að uppfylla skátaskilyrðið um að sofa nótt úti í skógi. Ég var einn nokkurra drengja sem fóru úr þægilegu tjaldinu og útbjó skýli og frumstætt svefnstæði úr efnivið sem við fundum í náttúrunni.

Í þriðja lagi er það svefn. Við getum jafnvel hunsað þessa sterku löngun tímabundið vegna enn mikilvægari löngunar. Sem ungum hermanni í Þjóðvarðliði Utah, lærði ég dæmi um það af hersveitarforingja.

Á fyrstu mánuðum stríðsins í Kóreru, var stórskotaliði frá Richfield úr Þjóðvarðliði Utah, kallaður til virkrar herþjónustu. Ray Cox höfuðsmaður var yfir stórskotaliðsfylki hans og í því voru um fjörutíu mormónar. Að lokinni þjálfun og æfingum af öðrum hersveitum, voru þeir sendir til Kóreu, þar sem þeir upplifðu einhverjar harðvítugustu orrustur stríðsins. Í einni orrustunni urðu þeir að hörfa undan beinni árás hundruð óvinveittra fótgönguliða, sem fóru yfir og eyddu öðrum stórskotasveitum.

Hvað hefur þetta að gera með að sigrast á svefnlöngun? Eina erfiða nótt, eftir að óvinaliðið hafði brotist í gegnum framlínuna og inn á svæðin þar sem stórskotaliðið var, lét liðsforinginn leggja símaleiðslur inn í tjaldið sitt og gaf hinum ýmsu varðliðum fyrirmæli um að hringja í sig persónulega á klukkustundar fresti alla nóttina. Það hélt varðliðunum vakandi, en varð líka til þess að trufla stöðugt svefn Cox liðsforingja. „Hvers vegna gerðir þú það?“ spurði ég hann. Svar hans lýsir hvernig við getum látið stjórnast af sterkari þrá.

„Ég vissi að ef við kæmumst einhvern tíma heim, mundi ég þurfa að standa frammi fyrir foreldrum piltanna á götum litla bæjarins okkar og ég vildi ekki gera það, ef einhver þeirra hefði ekki komist heim, vegna einhverra mistaka minna sem foringja þeirra.“1

Þetta er gott dæmi um þrá sem við hunsum byggt á forgangi og verkum! Þetta er gott dæmi fyrir alla þá sem ábyrgir eru fyrir velferð annarra ‒ foreldra, kirkjuleiðtoga og kennara!

Til að ljúka frásögninni, þá fór Cox liðsforingi árla næsta morgun, eftir svefnlausa nótt, fyrir mönnum sínum í gagnárás gegn óvinaliðinu. Þeir tóku yfir 800 manns til fanga og aðeins tveir þeirra særðust. Cox var heiðraður fyrir hugrekki og sveitin hans fékk forsetaorðu fyrir hina einstöku hetjudáð sína. Líkt og hinir ungu stríðsmenn Helamans (sjá Alma 57:25–26), komust þeir allir heim.2

Í Mormónsbók eru ótal kenningar um mikilvægi þrár.

Eftir margra klukkustunda bænagjörð til Drottins, var Enos sagt að syndir hans væru fyrirgefnar. Eftir það „vaknaði hjá [honum] heit þrá“ eftir velfarnaði bræðra hans (Enos 1:9). Hann skrifaði: „Og … þegar ég hafði beðið heitt og lagt mig allan fram, sagði Drottinn við mig: Ég mun uppfylla óskir þínar, vegna trúar þinnar“ (vers 12). Takið eftir lykilatriðunum þremur sem komu á undan hinum fyrirheitnu blessunum: Þrá, erfiði og trú.

Í ræðu sinni um trú kennir Alma að trú geti vaknað „þótt ekki sé nema löngun til að trúa,“ ef við „[látum] undan þessari löngun“ (Alma 32:27).

Önnur undursamleg kennsla um þrá, einkum þá þrá sem ætti að vera okkar megin takmark, átti sér stað í frásögninni um trúboðann Aron er hann kenndi konungi Lamaníta. Þegar kennsla Arons náði athygli konungsins, spurði hann: „Hvað á ég að gjöra til að geta fæðst af Guði“ og „öðlast þetta eilífa líf“? (Alma 22:15). Aron svaraði: „Ef þú þráir þetta, … ef þú vilt iðrast allra synda þinna, lúta Guði og ákalla nafn hans í trú og trúa því, að þér muni gefast, þá mun rætast sú von, sem þú þráir“ (vers 16).

Konungurinn gerði það og í máttugri bæn lýsti hann yfir: „Ég mun láta af öllum syndum mínum til að þekkja þig … til þess að ég … frelsist á efsta degi“ (verse 18). Þessi skuldbinding hans og djúpa þrá varð til þess að hann hlaut undursamlega bænheyrslu.

Spámaðurinn Alma þráði innilega að boða öllum mönnum iðrun, en varð síðan ljóst að hann ætti ekki að þrá sannfæringarkraft sem það krafðist, því að „[réttvís] Guð … veitir mönnum … í samræmi við þrá þeirra, hvort heldur er til dauða eða lífs“ (Alma 29:4). Á líkan hátt lýsir Drottinn yfir í nútímaopinberun að hann „[muni] dæma alla menn samkvæmt verkum þeirra, samkvæmt því, sem hjörtu þeirra þrá“ (K&S 137:9).

Erum við undir það búin að láta hinn eilífa dómara dæma okkur í samræmi við raunverulega þrá okkar?

Ótal ritningargreinar setja þrá í samband við það sem við sækjumst eftir. „Sá, sem árla leitar mín, mun finna mig og ekki verða eftir skilinn“ (K&S 88:83). „Leitið af einlægni hinna bestu gjafa“ (K&S 46:8). „Sá, sem leitar af kostgæfni, mun finna“ (1. Nefí 10:19). „Nálgist mig og ég mun nálgast yður. Leitið mín af kostgæfni og þér munuð finna mig. Biðjið og yður mun gefast, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða“ (K&S 88:63).

Að vinna að því að þrá það sem mestu skiptir fyrir eilífðina er ekki auðvelt. Við upplifum öll þá freistingu að þrá eigur, frægð, heiður og vald. Við getum þráð allt þetta, en við ættum ekki að gera það að forgangi okkar.

Þeir falla í gryfju veraldarhyggju sem þrá mest af öllu að eignast eigur og auð. Þeir leiða hjá sér þessi aðvörunarorð: „Leitaðu ekki eftir auðæfum eða hégóma þessa heims“ (Alma 39:14; sjá einnig Jakob 2:18).

Þeir sem þrá frægð og frama eða vald ættu að fara að fordæmi hins frækna hershöfðingja, Morónís, sem leitaði ekki „eftir valdi“ eða „heiðri heimsins“ (Alma 60:36).

Hvernig sækjumst við eftir þrá? Fá okkar munu upplifa þau straumhvörf sem Aron Ralston gerði,3 en reynsla hans er okkur góð lexía um að rækta þrár. Þegar Ralston var á göngu í fáförnu gili í suðurhluta Utah, færðist um 360 kílógramma steinn til og skorðaði af hægri hendi hans svo hún festist. Í fimm erfiða daga reyndi hann að losa hendina. Þegar hann var að því kominn að gefast upp og sætta sig við dauðann, sá hann þriggja ára dreng í sýn sem hljóp í átt til hans og upp í vinstri arm hans. Ralston fannst hann þarna sjá son sem hann mundi eignast í framtíðinni og fannst hann enn eiga sér lífsvon og því taldi hann í sig kjark til að taka nauðsynlega ákvörðun um að bjarga eigin lífi áður en honum þryti kraftur. Hann braut bæði upphandleggsbein hinnar föstu hægri handar og notaði síðan hnífsblaðið í fjölnotatækinu til að sarga hana af. Hann safnaði síðan styrk til að ganga 8 kílómetra til að fá hjálp.4 Hve undursamlegt dæmi um að láta stjórnast af sterkri þrá! Þegar við höfum sýn um það sem við getum orðið, vex þrá okkar og þróttur til starfa gríðarlega.

Flest munum við aldrei standa frammi fyrir slíkri eldraun, en öll þurfum við að takast á hugsanlegar hindranir sem standa í vegi fyrir eilífri framþróun okkar. Ef réttlátar þrár okkar eru nægilega sterkar, munu þær gefa okkur kraft til að sarga okkur úr viðjum ávanafíknar og öðru syndsömu oki og forgangi sem hindrar eilífa framþróun okkar.

Við ættum að hafa í huga að réttlátar þrár geta ekki verið yfirborðskenndar, hvatvíslegar eða skammvinar. Þær verða að vera einlægar, óhagganlegar og varanlegar. Þannig innstillt munum við sækjast eftir því sem spámaðurinn Joseph Smith ræddi um, að „sigrast á hinu illa í lífi okkar og losa okkur við alla löngun til syndar.“5 Slíkt er afar persónuleg ákvörðun. Líkt og öldungur Neal A. Maxwell sagði:

„Þegar sagt er að fólk ‚hafi enga löngun til að syndga,‘ hefur það, og aðeins það, ákveðið af ráðnum hug að losa sig við rangar þrár, með því að ‚láta fúslega af öllum syndum,‘ til þess að þekkja Guð.“

Það sem við því þráum staðfastlega, er það sem gerir okkur að því sem við að lokum verðum og ákveður hvað við hljótum í eilífðinni.“6

Þótt mikilvægt sé að losa sig algjörlega við löngun til syndar, gerir eilíft líf meiri kröfur. Til að ná eilífum ákvörðunarstað okkar, þurfum við að þrá og vinna að því að hljóta þá eiginleika sem nauðsynlegir eru fyrir eilífa tilveru. Eilífir einstaklingar fyrirgefa til að mynda öllum þeim sem brotið hafa gegn þeim. Þeir huga meira að velferð annarra en eigin velferð. Þeir elska einnig öll börn Guðs. Ef þetta virðist erfitt ‒ og vissulega finnst engu okkar þetta auðvelt ‒ ættum við að byrja á því að þrá slíka eiginleika, og ákalla ástkæran himneskan föður um hjálp við tilfinningar okkar. Í Mormónsbók er okkur kennt: „Biðjið … til föðurins, … af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists“ (Moroni 7:48).

Ég lýk máli mínu með enn einu dæmi um þrá sem allir karlar og konur ættu að hafa í fyrirrúmi ‒ þau sem eru gift og þau sem eru einhleyp. Öll ættu þau að þrá og vinna að því af fyllstu alvöru að tryggja eilíft hjónaband. Þau sem þegar búa að musterishjónabandi, ættu að gera allt sem þeir geta til að varðveita það. Þeir sem eru einhleypir, ættu að þrá musterishjónaband og hafa að forgangi að vinna að því að hljóta það. Æskufólkið og ungir einhleypir ættu að standa gegn hinum pólitíska rétttrúnaði sem er rangur í eilífu samhengi og dregur úr mikilvægi hjónabands og barneigna.7

Þið einhleypu karlmenn, ígrundið áskorunina í bréfi þessu, skrifuðu af einhleypri systur. Hún talar fyrir munn „hinna réttlátu dætra Guðs, sem einlæglega leita sér verðugs lífsförunautar, og karlmenn virðast ekki sjá og ekki átta sig á þeirri skyldu sinni að nálgast þessar dásamlegu, kjörnu dætur himnesks föður og biðla til þeirra og vera fúsir til að gera og halda helga sáttmála í húsi Drottins.“ Hún ályktaði: „Margir SDH karlmenn hafa gaman af því að fara út að skemmta sér og á stefnumót, en vilja alls ekki og á engan hátt skuldbinda sig konu.“8

Ég þykist viss um að sumir ungir menn sem leita sér ákaft lífsförunautar, vildu líka að ég bætti við að sumar ungar konur þrá miklu fremur atvinnuframa eða aðra jarðneska hluti, heldur en verðugt hjónaband og barneignir. Bæði karlar og konur þurfa að tileinka sér réttlátar þrár sem leiða þau til eilífs lífs.

Munum eftir því að þrár okkar ákvarða forgangsröðun okkar, forgangsröðunin ákvarðar val okkar og valið ákvarðar verk okkar. Auk þess eru það verk okkar og þrár sem gera okkur að því sem við verðum, hvort heldur það er sannur vinur, hæfileikaríkur kennari eða sá sem hæfur er til að hljóta eilíft líf.

Ég ber vitni um Jesú Krist, sem gerir allt þetta mögulegt með kærleika sínum, kenningum og friðþægingu. Ég bið þess framar öllu að við þráum að líkjast honum, svo að við fáum dag einn snúið að nýju í návist hans til að meðtaka af fyllingu gleði hans. Í nafni Jesú Krists, amen.

  1. Persónulegar glósur úr viðtali við Ray Cox, Mount Pleasant, Utah, 1. ágúst 1985, sem staðfesta það sem hann sagði mér í Provo, Utah um 1953.

  2. Sjá Richard C. Roberts, Legacy: The History of the Utah National Guard (2003), 307–14; „Self-Propelled Task Force,“ National Guardsman, maí 1971, baksíða; Miracle at Kapyong: The Story of the 213th (kvikmynd framleidd af Southern Utah University, 2002).

  3. Sjá Aron Ralston, Between a Rock and a Hard Place (2004).

  4. Ralston, Between a Rock and a Hard Place, 248.

  5. Sjá Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 211.

  6. Neal A. Maxwell, „According to the Desire of [Our] Hearts,“ Ensign, nóv. 1996, 22, 21.

  7. Sjá Julie B. Beck, „Teaching the Doctrine of the Family,“ Liahona, mars 2011, 32–37; Ensign, mars 2011, 12–17.

  8. Bréf, 14. sept. 2006.