2010–2019
Fúsir og verðugir til þjónustu
Apríl 2012


Fúsir og verðugir til þjónustu

Kraftaverk gerast allsstaðar þar sem skilningur er á prestdæminu, kraftur þess er virtur og honum réttilega beitt, og trú er sýnd.

Kæru bræður, hve gott er að vera með ykkur aftur. Alltaf þegar ég kem á aðalfund prestdæmisins íhuga ég kenningar sumra göfugustu leiðtoga Guðs, sem talað hafa á aðalprestdæmisfundum kirkjunnar. Margir af þeim hafa horfið til sinna eilífu launa, en af birtu hugans, af dýpt sálarinnar og af ljúfleika hjartans, hafa þeir veitt okkur innblásna leiðsögn. Ég miðla ykkur í kvöld nokkrum kenningum þeirra um prestdæmið.

Frá spámanninum Joseph Smith: „Prestdæmið er ævarandi regla, sem verið hefur til hjá Guði frá eilífð og verður um eilífð, án upphafs daganna eða loka áranna.“1

Af Wilford Woodruff forseta lærum við: „Hið heilaga prestdæmi er sú rás sem Guð notar til að eiga samskipti við manninn á jörðu; og þeir himnesku sendiboðar sem hafa vitjað jarðarinnar til að eiga samskipti við manninn, eru menn sem hafa haft og heiðrað prestdæmið í holdinu; og allt sem Guð hefur látið gera manninum til sáluhjálpar, allt frá komu mannsins til jarðar til endurlausnar heimsins, hefur verið og verður gert með hinu ævarandi prestdæmi.“2

Joseph F. Smith útskýrði nánar: „Prestdæmið er ... kraftur Guðs veittur manninum, svo að menn geti starfað á jörðu að sáluhjálp mannkyns, í nafni föðurins og sonarins og hins heilaga anda, og starfað lögum samkvæmt, ekki með því að taka sér valdið, ekki fá það lánað frá genginni kynslóð, heldur með valdi sem veitt hefur verið nú á okkar tímum af þjónandi englum og öndum frá upphæðum, beint úr návist almáttugs Guðs.”3

Og loks frá John Taylor forseta: „Hvað er prestdæmið? … Það er stjórntæki Guðs, hvort heldur á jörðu eða himni, og fyrir kraft þess, áhrif eða reglu er öllu stjórnað á jörðu eða á himnum, og með krafti þess er allt staðfest og öllu viðhaldið. Það ríkir yfir öllu ‒ það stjórnar öllu ‒ það viðheldur öllu ‒ og hefur með allt að gera sem snertir Guð og sannleika hans.“4

Hve blessaðir við erum að vera hér á þessum síðustu dögum, þegar prestdæmi Guðs er á jörðunni. Hvílík forréttindi okkar eru, að hafa þetta prestdæmi. Prestdæmið er fremur umboð til að þjóna en gjöf, forréttindi til að lyfta, og tækifæri til að blessa líf annarra.

Þeim tækifærum fylgja ábyrgð og skyldur. Ég ann og met mikils hið göfuga hugtak skylda og allri merkingu þess.

Á einn eða annan hátt, á einum stað eða öðrum, hef ég sótt prestdæmisfundi síðastliðin 72 ár ‒ allt frá því að ég var vígður djákni 12 ára gamall. Tíminn líður sannlega hratt. Skyldan gengur í takt við tímann. Skyldan rýrnar hvorki né rénar. Hörmungarátök koma og fara, en stríðið um mannssálirnar heldur áfram sleitulaust. Líkt og lúðurhljómur berast orð Drottins til ykkar, til mín, og til prestdæmishafa alls staðar. „Lát því hvern mann læra skyldu sína og starfa af fullri kostgæfni í því embætti, sem hann hefur verið tilnefndur í.“5

Kall skyldunnar barst Adam, Nóa, Abraham, Móse, Samúel og Davíð. Það barst spámanninum Joseph Smith og öllum hans eftirmönnum. Kall skyldunnar barst drengnum Nefí þegar Drottinn bauð honum, fyrir tilstilli föður hans, Lehí, að fara til Jesúsalem með bræðrum sínum til að ná látúnstöflunum frá Laban. Bræður Nefís mögluðu og sögðu verkefnið erfitt sem þeim var boðið að leysa af hendi. Hverju svaraði Nefí? Hann sagði: „Ég mun fara og gjöra það, sem Drottinn hefur boðið, því að ég veit, að Drottinn gefur mannanna börnum engin fyrirmæli án þess að greiða þeim veg til að leysa af hendi það, sem hann hefur boðið þeim.“6

Hver verða viðbrögð okkar, þegar þetta sama kall berst okkur? Munum við mögla, líkt og Laman og Lemúel, og segja: „Þetta [er] erfitt verk“?7 Eða munum við, með Nefí, segja: „Ég skal fara. Ég skal gera“? Munum við verða fúsir til að þjóna og hlýða?

Stundum virðist viska Guðs heimska eða verkið bara of erfitt; en ein stærsta lexían sem við getum lært í jarðlífinu er sú, að þegar Guð talar og maðurinn hlýðir, þá hefur sá maður alltaf rétt fyrir sér.

Þegar ég íhuga hugtakið skylda og hvernig skylduverk okkar geta auðgað líf okkar og annarra, koma orð upp í hugann sem þekkt skáld og höfundur orti:

Ég svaf og mig dreymdi,

að lífið væri gleði.

Ég vaknaði og sá,

að lífið var skylda.

Ég framkvæmdi, og sjá,

skyldan var gleði.8

Robert Louis Stevenson orðaði þetta öðruvísi. Hann sagði: „Ég þekki ánægjuna, því ég hef gert góð verk.“9

Þegar við framfylgjum skyldum okkar og notum prestdæmið, munum við finna sanna gleði. Við munum gleðjst yfir því að leysa verk okkar af hendi.

Okkur hafa verið kenndar sértækar skyldur prestdæmisins sem við höfum, hvort heldur það er Aronsprestdæmið eða Melkísedeksprestdæmið. Ég hvet ykkur til að ígrunda þær skyldur og gera síðan allt sem þið getið til að framfylgja þeim. Í þeirri viðleitni er nauðsynlegt að vera verðugur. Höfum reiðubúnar hendur, hreinar hendur, viljugar hendur, svo við getum tekið þátt í að veita það sem okkar himneski faðir vill að aðrir meðtaki frá honum. Ef við erum ekki verðugir, er mögulegt að við glötum krafti prestdæmisins, og ef við glötum honum, höfum við glatað undirstöðu upphafningar. Verum verðugir þjónustu.

Harold B. Lee forseti, einn af hinum miklu kennurum kirkjunnr, sagði: „Þegar einhver verður prestdæmishafi, verður hann fulltrúi Drottins. Hann ætti að hugsa um köllun sína eins og hann gangi erinda Drottins.“10

Í Síðari heimstyrjöldinni, á fyrri hluta ársins 1944, átti sér stað nokkuð sem tengdist prestdæminu, þegar landgönguliðar Bandaríkjanna hertóku Kwajalein Atoll, sem var hluti af Marshall-eyjum, í Kyrrahafinu, um það bil mitt á milli Ástralíu og Havaí. Atburðarásinni lýsti fréttaritari ‒ sem ekki var meðlimur kirkjunnar ‒ er starfaði hjá fréttablaði á Havaí. Árið 1944 ritaði hann grein í fréttablaðið og greindi frá því að hann og fleiri fréttaritarar hefðu verið í öldurótinu á eftir landgönguliðunum við Kwajalein Atoll. Þegar þeir komu að landi tóku þeir eftir ungum landgönguliða sem flaut á grúfu í sjónum, augljóslega alvarlega særður. Grunnur sjórinn umhverfis hann var rauður af blóði hans. Og síðan sáu þeir annan landgönguliða koma að þessum særða félaga sínum. Sá landgönguliði var líka særður, vinstri armur hans hékk niður með síðunni. Hann lyfti upp höfði þess sem flaut í sjónum til að koma í veg fyrir að hann drukknaði. Örvæntingarfullur kallaði hann á hjálp. Fréttaritararnir litu aftur á piltinn sem hann var að hjálpa og hrópuðu til hans: „Félagi, það er ekkert sem þú getur gert fyrir hann.“

„Þá,“ sagði fréttaritarinn, „sá ég nokkuð sem ég hafði aldrei séð áður.“ Piltur þessi, sem sjálfur var alvarlega særður, dró að því er virtist líflausan líkama félaga síns upp í fjöruna. Hann „lagði höfuð félaga síns á hné sér. ... Hve dramatísk sjón ‒ tveir helsærðir piltar ‒ báðir ... hreinir, dásamlega fallegir ungir menn, í háskalegum aðstæðum. Og annar pilturinn laut höfði yfir hinum og sagði: ‚Ég býð þér, í nafni Jesú Krists og með valdi prestdæmisins, að lifa þar til ég kem þér í læknishendur.‘“ Fréttaritarinn lauk greininni: „Við þrír, [landgönguliðarnir tveir og ég], erum hér á sjúkrahúsinu. Læknarnir vita ekki ... [hvernig þeim tókst að halda lífi], en ég veit það.“11

Kraftaverk gerast allsstaðar þar sem skilningur er á prestdæminu, kraftur þess er virtur og honum réttilega beitt, og trú er sýnd. Þegar trúin kemur í stað efans, þegar óeigingjörn þjónusta kemur í stað eigingirni, mun kraftur Guðs koma tilgangi hans til leiðar.

Skyldukallið getur komið kyrrlátlega þegar við sem höfum prestdæmið sinnum þeim verkum sem okkur eru falin. Georg Albert Smith forseti, hinn hógværi en þó áhrifamikli leiðtogi, sagði: „Það er skylda ykkar fyrst og fremst að þekkja vilja Drottins og síðan með krafti og styrk hins heilags prestdæmis, að efla köllun ykkar í návist meðbræðra ykkar ... þannig að aðrir munu glaðir fylgja ykkur.“12

Slíkt skyldukall ‒ sem ekki var næstum jafn dramatískt, en varð þó sálu til bjargar ‒ barst mér árið 1950, þegar ég var nýkallaður biskup. Skylduverk mín sem biskups voru mörg og misjöfn og ég reyndi eftir bestu getu að leysa þau öll af hendi. Bandaríkin áttu á þeim tíma í öðru stríði. Þar sem svo margir af meðlimum okkar voru í herþjónustu, bárust tilmæli til allra biskupa um að þeir sæju til þess að þeim yrði öllum gefin áskrift að Church News og Improvement Era,, sem þá voru tímarit kirkjunnar. Öllum biskupum var líka boðið að skrifa mánaðarlega hverjum hermanni frá deild hans persónulegt bréf. Í deildinni okkar voru 23 í herþjónustu. Prestdæmissveitin lagði á sig að safna í sjóð fyrir áskirftargjaldi tímaritanna. Ég gekkst við verkefninu, já, skyldunni, að skrifa 23 mönnum persónulegt bréf í hverjum mánuði. Að öllum þessum árum liðnum á ég enn afrit af mörgum þessara bréfa og svarbréfa. Tárin koma óhindrað þegar ég les þau aftur. Það vekur gleði að rifja upp heitstrengingu hermanns um að lifa eftir fagnaðarerindinu, ákvörðun sjóliða um að varðveita trú sína með fjölskyldu sinni.

Kvöld eitt rétti ég systur í deildinni staflann með bréfunum 23 fyrir mánuðinn. Hún sá um að póstsetja þau og uppfæra hin stöðugt breyttu póstföng. Hún leit á eitt umslagið og spurði brosandi: „Biskup, lætur þú aldrei hugfallast? Hér er enn eitt bréf til bróður Bryson. Þetta er sautjánda bréfið sem þú sendir án þess að hann svari.“

Ég svaraði: „Já, en kannski fæ ég svar þennan mánuð.“ Og það gerðist einmitt, mér barst bréf í þeim mánuði. Hann svaraði bréfum mínum í fyrsta sinn. Svar hans er minjagripur, fjársjóður. Hann þjónaði á fjarlægri og afskekktri ströndu og var einmana, með heimþrá. Hann skrifaði: „Kæri biskup, mér ‚lætur ekki vel’ að skrifa bréf.“ (Ég hefði nú getað sagt honum það nokkrum mánuðum áður.) Bréf hans segir áfram: „Þakka þér fyrir Church News tímaritin, en framar öllu þakka ég þér fyrir bréfin þín. Ég hef fengið nýtt hlutverk. Ég hef verið vígður sem prestur í Aronsprestdæminu. Ég er glaður í hjarta. Ég er hamingjusamur maður.“

Biskup bróður Brysons var ekki síður hamingjusamur. Mér hafði lærst gildi þess að hagnýta mér spakmælið: „Gerðu skyldu þína, það er best; láttu Drottni eftir rest.“13

Árum síðar, þegar ég vitjaði Cottonwood-stikunnar í Salt Lake, er James E. Faust þjónaði þar sem stikuforeti, sagði ég frá þessu til að fanga athygli þeirra sem gegndu herþjónustu. Eftir samkomuna kom vel útlítandi ungur maður til mín. Hann tók í hönd mína og spurði: „Monson biskup, manstu eftir mér?“

Og skyndilega rann upp fyrir mér hver hann var. „Bróðir Bryson!“ hrópaði ég. „Hvernig hefur þú það?“ Hvað ertu að gera núna í kirkjunni?“

Af hlýju og augljósu stolti, svaraði hann: „Bara fínt. Ég þjóna í forsætisráði öldungasveitar minnar. Þakka þér aftur fyrir þá umhyggju sem þú sýndir mér og öll bréfin sem þú sendir mér, er ég varðveiti vel.“

Bræður, heimurinn þarfnast hjálpar okkar. Gerum við allt sem okkur ber? Munum við eftir orðum Johns Taylor forseta: „Ef þið eflið ekki kallanir ykkar, mun Guð gera ykkur ábyrga fyrir þeim sem þið gætuð hafa frelsað, hefðuð þið gert skyldu ykkar.“14 Það eru fætur sem styrkja þarf, hendur sem grípa þarf, hugir sem hvetja þarf, hjörtu sem snerta þarf og sálir sem frelsa þarf. Blessanir eilífðar bíða ykkar. Þau forréttindi eru ykkar að vera ekki aðeins áheyrendur heldur þátttakendur á sviði prestdæmisþjónustu. Við skulum hlíta þessum brýnu orðum í Jakobsbréfinu: „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.“15

Lærum og ígrundum skylduverk okkar. Verum fúsir og verðugir til þjónustu. Fetum í fótspor meistara okkar er við framfylgjum skyldu okkar. Þegar þið og ég göngum veg Jesú, mun okkur skiljast að hann er meira en barnið í Betlehem, meira en trésmiðssonur, meiri en mesti kennari sem lifað hefur. Við munum þá fara að þekkja hann sem son Guðs, frelsara okkar og lausnara. Þegar honum barst skyldukallið, svaraði hann: „Faðir, verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu.“16 Megi sérhver okkar breyta eins, það er bæn mín, í nafni Jesú Krists, Drottins, amen.

Heimildir

  1. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 103.

  2. Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff (2004), 38.

  3. Joseph F. Smith, Gospel Doctrine, 5. útg. (1939), 139–40; skáletrað hér.

  4. Teachings of Presidents of the Church: John Taylor (2001), 119.

  5. Kenning og sáttmálar 107:99; skáletrað hér.

  6. 1 Ne 3:7; sjá einnig vers 1–5.

  7. Sjá 1 Ne 3:5.

  8. Rabindranath Tagore, í William Jay Jacobs, Mother Teresa: Helping the Poor (1991), 42.

  9. Robert Louis Stevenson, í Elbert Hubbard II, samant., The Note Book of Elbert Hubbard: Mottoes, Epigrams, Short Essays, Passages, Orphic Sayings and Preachments (1927), 55.

  10. Stand Ye in Holy Places: Selected Sermons and Writings of President Harold B. Lee (1976), 255.

  11. í Ernest Eberhard Jr., „Giving Our Young Men the Proper Priesthood Perspective,” handrit, 19. júlí, 1971, 4–5, Sögusafn kirkjunnar.

  12. George Albert Smith, í Conference Report, apríl 1942, 14.

  13. Henry Wadsworth Longfellow, „The Legend Beautiful,” í The Complete Poetical Works of Longfellow (1893), 258.

  14. Teachings: John Taylor, 164.

  15. Jakbr 1:22.

  16. HDP Móse 4:2.