Ákvarðanir fyrir eilífðina
Skynsamleg hagnýting á því frelsi, að geta tekið eigin ákvarðanir, skiptir sköpum fyrir andlegan þroska okkar, nú og um eilífð.
Kæru bræður mínir og systur, hver dagur er dagur ákvarðana. Thomas S. Monson forseti sagði að „ákvarðanir ákvarði örlögin.“1 Skynsamleg nýting á því frelsi, að geta tekið eigin ákvarðanir, skiptir sköpum fyrir andlegan þroska okkar, nú og um eilífð. Við erum aldrei of ung til að læra, aldrei of gömul til að breytast. Sú þrá ykkar, að læra og breytast, á rætur í þeirri guðlegu tilhneigingu, að keppa að eilífri framþróun.2 Hver dagur veitir tækifæri til ákvarðana fyrir eilífðina.
Við erum eilífar verur ‒ andabörn himneskra foreldra. Í Biblíunni er skráð: „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, ... hann skapaði þau karl og konu.“3 Nýverið hlustaði ég á barnakór syngja hinn kæra söng „Guðs barnið eitt ég er.“4 Ég velti því fyrir mér, af hverju ég hefði ekki heyrt hann sunginn oftar af trúföstum mæðrum eða feðrum?“ Erum við ekki öll börn Guðs? Ekkert okkar getur í raun hætt að vera barn Guðs!
Við, sem börn Guðs, ættum að elska hann af öllu hjarta og allri sálu, jafnvel meira en við elskum jarðaneska foreldra okkar.5 Við ættum að elska náunga okkar sem bræður og systur. Engin önnur boðorð eru æðri þessum.6 Við ættum ætíð að virða mannslífið, á öllum hinum mörgu sviðum þess.
Ritningarvers segir að líkami og andi mannsins séu sál hans.7 Sem tvíþættar verur, getum við öll þakkað Guði fyrir hinar ómetanlegu gjafir líkama okkar og anda.
Mannslíkaminn
Á starfsárum mínum sem læknir lærðist mér að bera mikla virðingu fyrir mannslíkamanum. Hann er skapaður af Guði og er hreint undursamleg gjöf fyrir okkur! Hugsið um augun sem sjá, eyrun sem heyra og fingurna, sem skynja alla hina dásamlegu hluti umhverfis ykkur. Heilinn gerir ykkur kleift að læra, hugsa og álykta. Hjartað slær viðstöðulaust, daga og nætur, næstum án meðvitundar okkar.8
Líkaminn ver sjálfan sig. Sársauki er viðvörun um að eitthvað sé að og þarfnast athugunar. Smitsjúkdómar herja endrum og eins á okkur og þá eru mótefni mynduð sem auka varnir gegn álíka sjúkdómum.
Líkaminn græðir sjálfan sig. Skurðir og skeinur eru grædd. Brotin bein gróa saman og verða aftur heil. Ég hef aðeins tilgreint örfá atriði af hinum mörgu undursamlegu guðlegu eiginleikum líkama okkar.
En þrátt fyrir það virðist í öllum fjölskyldum, ef ekki í öllum einstaklingum, vera líkamlegir annmarkar sem huga þarf að.9 Drottinn hefur sýnt hvernig bregðast skuli við slíkum vanda. Hann sagði: „Ég gef mönnum veikleika, svo að þeir geti orðið auðmjúkir ... því að ef þeir auðmýkja sig ... og eiga trú á mig, þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra.“10
Úrvals andar búa oft í ófullkomnum líkömum.11 Gjöf slíks líkama getur í raun styrkt fjölskylduna, er foreldrar og systkini verða fús til að laga líf sitt að því barni sem fæðist með sérþarfir.
Öldrunarferlið er líka gjöf frá Guði, sem og dauðinn. Að jarðneskur líkami okkar þurfi að lokum að deyja, er nauðsynlegur þáttur í hinni miklu sæluáætlun Guðs.12 Hvers vegna? Vegna þess að dauðinn gerir anda okkar kleift að snúa aftur heim til hans.13 Frá eilífu sjónarhorni er dauðinn aðeins ótímabær fyrir þá sem ekki hafa búið sig undir að mæta Guði.
Þar sem líkami okkar er svo mikilvægur í eilífri áætlun Guðs, er engin furða að Páll postuli hafi sagt hann vera „musteri Guðs.“14 Í hvert sinn sem þið horfið í spegil, lítið þá á líkama ykkar sem musteri. Sá sannleikur ‒ sem við þakklát erum minnt á dag hvern ‒ getur á jákvæðan hátt haft áhrif á ákvarðanir ykkar um hvernig þið hyggist annast og nota líkama ykkar. Þær ákvarðanir munu ákvarða örlög ykkar. Hvernig getur það átt sér stað? Vegna þess að líkaminn er musteri anda ykkar. Hvernig þið notið svo líkamann, hefur áhrif á anda ykkar. Sumar þær ákvarðanir sem munu ákvarða eilíf örlög ykkar eru:
-
Hvernig veljið þið að annast og nota líkama ykkar?
-
Hvaða andlega eiginleika veljið þið að leggja rækt við?
Mannsandinn
Andi ykkar er eilíf eining. Drottinn sagði við spámanninn Abraham: „Þú varst útvalinn áður en þú fæddist.“15 Drottinn sagði eitthvað álíka þessu um Jeremía16 og marga aðra.17 Hann sagði það jafnvel um ykkur.18
Himneskur faðir hefur þekkt ykkur um afar langan tíma. Þið, sem synir hans og dætur, voruð útvalin af honum til að koma til jarðarinnar á þessum sérstaka tíma, til að vera leiðtogar í hinu mikla verki hans á jörðu.19 Þið voruð ekki útvalin vegna líkamlegra eiginleika ykkar, heldur vegna andlegra eiginleika ykkar, svo sem hugprýði, hugrekki, ráðvendni hjartans, þrá ykkar eftir sannleika og visku og þrá ykkar til að þjóna öðrum.
Þið þróuðuð suma þessara eiginleika í fortilverunni. Aðra getið þið þróað hér á jörðu,20 ef þið keppið stöðugt að þeim.21
Sjálfsögun er mikilvægur andlegur eiginleiki ‒ sá styrkur að setja skynsemi ofar ástríðum. Sjálfsögun stuðlar að sterkri samvisku. Samviska ykkar ákvarðar svo siðferðisstyrk ykkar við erfiðar, freistandi og krefjandi aðstæður. Fastan gerir anda ykkar kleift að þróa styrk og hafa stjórn á líkamlegum ástríðum. Fastan eykur líka aðgang ykkar að hjálp himins, því hún styrkir bænir ykkar. Hvers vegna er þörf á sjálfsögun? Guð gæddi okkur sterkum ástríðum til næringar og ástar, sem nauðsynlegar eru til varðveislu og viðhalds fjölskyldunnar.22 Þegar við höfum stjórn á ástríðum okkar, innan lögmálsmarka Guðs, njótum við lengra lífs, dýpri elsku og fyllri gleði.23
Það sætir því ekki furðu, að flestar freistingarnar til að hverfa frá sæluáætlun Guðs, tengjast misnotkun þessara nauðsynlegu guðlega gefnu ástríðna. Ekki er ætíð auðvelt að hafa stjórn á ástríðum sínum. Engu okkar tekst það fullkomlega.24 Mistök eiga sér stað. Yfirsjónir verða. Syndir eru drýgðar. Hvað getum við þá gert? Við getum lært af því. Við getum iðrast af einlægni.25
Við getum breytt hegðun okkar. Þrár okkar geta breyst. Hvernig? Aðeins ein leið er til þess. Raunveruleg breyting ‒ varanleg breyting ‒ getur aðeins orðið með græðandi, hreinsandi og virkjandi krafti friðþægingar Jesú Krists.26 Hann elskar ykkur ‒ sérhvert ykkar!27 Hann leyfir að þið tengist krafti sínum, er þið haldið boðorð hans, nákvæmlega, af einlægni og sterkri þrá. Svo einfalt er það og öruggt. Fagnaðarerindi Jesú Krists er fagnaðarerindi breytinga!28
Sterkur mannsandi, sem hefur stjórn á ástríðum holdsins, drottnar yfir tilfinningum og ástríðum, en er ekki þræll þeirra. Slíkt frelsi er jafn nauðsynlegt andanum og súrefnið er líkamanum! Frelsi frá sjálfsþrælkun er raunveruleg lausn!29
Okkur er „frjálst að velja frelsi og eilíft líf ... eða velja helsi, [eymd] og dauða.“30 Þegar við veljum hinn háleita veg til lausnar og eilífs lífs, felur sá vegur í sér hjónaband.31 Síðari daga heilagir lýsa yfir að „hjónaband milli karls og konu er vígt af Guði og að fjölskyldan er kjarninn í áætlun skaparans um eilíf örlög barna hans.“ Okkur er líka ljóst, að „kynferði er nauðsynlegur eiginleiki einstaklingsins, sem einkennir hann og samræmist tilgangi hans í fortilveru, jarðneskri tilveru og um eilífð.“32
Hjónaband milli karls og konu er grundvallaratriði í kenningu Drottins og skiptir sköpum í eilífri áætlun Guðs. Hjónaband milli karls og konu er fyrirmynd Guðs að lífsfyllingu á jörðu og á himni. Hjónabandsfyrirmynd Guðs má ekki afskræma, misskilja eða rangtúlka.33 Ekki ef við óskum okkur sannrar gleði. Hjónabandsfyrirmynd Guðs verndar hinn helga sköpunarkraft og gleði sannrar náinna hjónabandstengsla.34 Við vitum að Adam og Eva voru gefin saman af Guði, áður en þau upplifðu gleðina af sameiningu eiginmanns og eiginkonu.35
Á okkar tíma hafa stjórnvöld sérstakan áhuga á vernd hjónabandsins, því sterkar fjölskyldur eru besta leiðin til að sjá upprennandi kynslóð fyrir heilsugæslu, menntun, velferð og hagsæld.36 En stjórnvöld verða fyrir miklum áhrifum af samfélagsþrýstingi og veraldlegum hugmyndafræðingum, sem skrifa, endurskrifa og knýja fram lagasetningar. Hvaða stjórnlög sem kunna að verða sett, þá er ekki hægt að breyta kenningu Drottins um hjónaband og siðferði.37 Hafið í huga: Synd verður áfram synd í augum Guðs, þótt hún verði lögheimiluð af mönnum!
Þótt okkur sé ætlað að líkja eftir gæsku og samúð frelsarans, og virða réttindi og tilfinningar allra barna Guðs, getum við ekki breytt kenningu hans. Það er ekki okkar að breyta henni. Okkar er að læra kenningu hans, skilja hana og verja.
Lífsvegur frelsarans er góður. Hann felur í sér skírlífi fyrir hjónaband og algjöra tryggð í hjónabandi.38 Vegur Drottins er eina leiðin fyrir okkur til upplifa varanlega hamingju. Vegur hans færir sálum okkar varanlega hughreystingu og heimilum okkar stöðugan frið. Og best af öllu er, að vegur hans leiðir okkur heim til hans og okkar himneska föður, til eilífs lífs og upphafningar.39 Það er kjarninn í verki og dýrð Guðs.40
Kæru bræður mínir og systur, hver dagur er dagur ákvarðana og ákvarðanir okkar ákvarða örlög okkar. Dag einn mun sérhvert okkar standa frammi fyrir Drottni til dóms.41 Við munum öll eiga persónulegt viðtal við Jesú Krist.42 Við munum gera grein fyrir ákvörðunum sem við tókum varðandi líkama okkar, andlega eiginleika okkar og hvernig við virtum fyrirmynd Guðs að hjónabandi og fjölskyldu. Einlæg bæn mín er sú að við megum gæta vandlega að ákvörðunum okkar fyrir eilífðina, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.