Hvers konar menn?
Hvaða breytingar þurfum við að gera til að verða þeir menn sem okkur ber að vera?
Þegar við sjáum fyrir okkur þessa heimsráðstefnu, verður okkur ljóst að hún á engan sinn líka - hvergi nokkurs staðar. Tilgangur þessa prestdæmisfundar aðalráðstefnu, er að kenna prestdæmishöfum hvernig menn þeim beri að vera (sjá 3 Ne 27:27) og að innblása okkur til að standa undir því.
Á mínum Aronsprestdæmisárum á Havaí, fyrir hálfri öld, og sem trúboði í Englandi, komum við saman í samkomuhúsum (með mikilli fyrirhöfn) og hlustuðum á prestdæmisfundi með því að nota símsamband. Á seinni árum gerðu gervihnettir útsendingar mögulegar til útvaldra svæða kirkjunnar, með hinum afar stóru móttökudiskum, svo við fengjum bæði heyrt og séð það sem fram fór á ráðstefnu. Við vorum agndofa yfir þeirri tækni! Fáir gátu ímyndað sér heiminn nú, þar sem allir sem hafa aðgang að netsambandi með snjallsímum, spjaldtölvum eða almennum tölvum geta horft á þennan fund.
Þessi gríðarlega aukni aðgangur að röddum þjóna Drottins, sem er sama og að hlusta á rödd Drottins sjálfs (sjá K&S 1:38), hefur lítið gildi nema við séum fúsir til að taka á móti orðinu (sjá K&S 11:21) og breyta samkvæmt því. Einfaldlega orðað, þá mun tilgangur aðalráðstefnu og þessa prestdæmisfundar aðeins uppfyllast, ef við erum fúsir til framkvæmda - ef við erum fúsir til að bæta okkur.
Fyrir nokkrum áratugum þjónaði ég sem biskup. Yfir langt tímabil átti ég viðtöl við mann í deild okkar sem var talsvert eldri en ég.. Þessi bróðir átti í erfiðu sambandi við eiginkonu sína og var aðskilinn frá börnum þeirra. Honum hélst illa á vinnu, hann átti enga nána vini og honum fannst svo erfitt að eiga samskipti við deildarmeðlimi að hann varð loks ófús til að þjóna í kirkjunni. Í einu krefjandi viðtali um áskoranir lífs hans, hallaði hann sér að mér - eins og háttur hans var í okkar mörgu viðtölum - og sagði: „Biskup, ég er skapbráður og þannig er ég bara!“
Þessi staðhæfing hans gerði mig agndofa þarna um kvöldið og hefur sótt á mig alla tíð síðan. Þegar þessi maður hafði ákveðið - þegar einhver okkar hefur ákveðið - og sagt: „Þannig er ég bara,“ gefum við upp á bátinn möguleikana til að bæta okkur. Við gætum þá rétt eins veifað hvítu flaggi, lagt niður vopnin, hætt baráttunni og hreinlega gefist upp - allar horfur um sigur væru þá fyrir bí. Þótt sumum gæti fundist þetta ekki lýsandi fyrir okkur, þá gæti það vel verið svo að sérhver okkar hafi einn slæman ávana eða tvo, sem við höldum í og segjum: „Þannig er ég bara.“
Hvað sem öllu líður, þá komum við saman á þessum prestdæmisfundi til að bæta okkur og verða þeir menn sem við getum orðið. Við komum saman hér í kvöld í nafni Jesú Krists. Við komum saman í þeirri trú að friðþæging hans veiti sérhverjum okkar styrk til að bæta okkur sama hverjir sem veikleikar okkar eru, misbrestir eða ánetjun . Við komum í þeirri von að framtíð okkar geti orðið betri, hver sem fortíð okkar hefur verið.
Þegar við tökum þátt í þessum fundi „af hjartans einlægni“ með vilja til að breytast (sjá Moró 10:4), á andinn greiðan aðgang að hjarta og huga okkar. Líkt og Drottinn opinberaði spámanninum Joseph Smith: „Og svo ber við, að sem þeir … iðka trú á mig,“ - og hafið í huga að trú er kraftur og framtakssemi - „svo mun ég úthella anda mínum yfir þá þann dag, sem þeir koma saman“ (K&S 44:2). Það er nú í kvöld!
Finnist ykkur áskoranir ykkar óyfirstíganlegar, leyfið mér þá að segja ykkur frá manni nokkrum sem við hittum í litlu þorpi rétt hjá Hyderabad, Indlandi, árið 2006. Þessi maður er fordæmi um að vera fús til að bæta sig. Appa Rao Nulu fæddist í sveitum Indlands. Þegar hann var þriggja ára gamall fékk hann lömunarveiki sem gerði hann líkamlega fatlaðan. Af samfélaginu var honum sagt að möguleikar hans væru afskaplega takmarkaðir. Hann kynntist síðan trúboðum okkar sem ungur maður. Þeir fræddu hann um æðri möguleika, bæði í þessu lífi og í komandi eilífð. Hann var skírður og staðfestur meðlimur kirkjunnar. Með verulega betri lífssýn, einsetti hann sér að hljóta Melkísedeksprestdæmið og þjóna í trúboði. Árið 1986 var hann vígður sem öldungur og kallaður til þjónustu á Indlandi. Að ganga var ekki auðvelt - hann gerði sitt besta með því að hafa göngustafi í báðum höndum, hann féll oft - en uppgjöf kom aldrei til greina. Hann einsetti sér sér að þjóna í trúboði af ráðvendni og hollustu og það gerði hann.
Þegar við hittum bróður Nulu, um 20 árum eftir trúboðið hans, heilsaði hann okkur fagnandi þar sem vegurinn endaði og leiddi okkur niður eftir ójöfnum og moldugum slóða til tveggja herbergja heimilis sem hann bjó í, ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. Það var á afar óþægilega heitum degi. Hann átti enn erfitt um gang, en aumkaði ekki sjálfan sig. Af eigin kostgæfni hafði hann orðið kennari og séð til þess að börnin í þorpinu hlytu menntun. Þegar við komum í híbýli hans, tók hann mig þegar afsíðis og dró fram ílát sem hafði að geyma hans mikilvægustu eigur. Hann vildi sýna mér blaðsnepil. Á hann var ritað: „Til öldungs Nulu, kjarkmikils og glaðlynds trúboða, með góðum óskum og blessunum; [dagsett] 25. júní, 1987; [undirritað] Boyd K. Packer.“ Við þetta tækifæri, þegar öldungur Packer, sem hann var þá, heimsótti Indland og talaði til hóps trúboða, staðfesti hann fyrir öldungi Nulu möguleika hans. Það sem bróðir Nulu var í raun að segja mér dag þennan árið 2006, var að fagnaðarerindið hafði breytt honum - varanlega!
Trúboðsforsetinn var í för með okkur í þessari heimsókn til heimilis Nulus. Hann var þar til að eiga viðtal við bróður Nulu, eiginkonu hans og börn - til að foreldrarnir hlytu musterisgjafir sínar og yrðu innsigluð og börnin innsigluð þeim. Við sögðum fjölskyldunni líka að ráðstafanir hefðu verið gerðar til að þau gætu farið til Hong Kong musterisins í Kína fyrir þessar helgiathafnir. Þau tárfelldu af gleði, er langþráður draumur gat nú ræst.
Hvers er vænst af prestdæmishafa Guðs? Hvaða breytingar þurfum við að gera til að verða þeir menn sem okkur ber að vera? Ég legg fram þrjár tillögur:
-
Við þurfum að vera menn prestdæmisins! Hvort sem við erum ungir menn með Aronsprestdæmið eða eldri með Melkísedeksprestdæmið, þá þurfum við að vera menn prestdæmisins, sýna andlegan þroska, því við höfum gert sáttmála. Líkt og Páll sagði: „Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn“ (1 Kor 13:11). Við eigum að skara fram úr, því við höfum prestdæmið - ekki vera hrokafullir, drambsamir eða borubrattir, heldur auðmjúkir, námfúsir og ljúfir. Það ætti að hafa þýðingu fyrir okkur að hljóta prestdæmið og hin ýmsu embætti þess. Það ætti ekki að vera „helgisiður“ til málamynda, sem sjálfkrafa er tekið á móti á ákveðnum aldri, heldur vel ígrunduð heilög athöfn sáttmálsgjörðar. Við ættum að skilja forréttindi okkar og sýna slíkt þakklæti að það sjáist á allri okkar framkomu. Ef við leiðum hugann sjaldan að prestdæminu, þurfum við að bæta okkur.
-
Við þurfum að þjóna! Kjarni þess að hafa prestdæmið er að efla köllun okkar (sjá K&S 84:33) með því að þjóna öðrum. Að forðast okkar mikilvægustu skyldu að þjóna eiginkonu okkar og börnum, að vera aðgerðarlaus í köllunum í kirkjunni eða að annast ekki aðra nema af hentisemi, er ekki það sem við eigum að gera. Frelsarinn sagði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum“ (Matt 22:37) og síðar sagði hann líka: „Ef þér elskið mig, skuluð þér þjóna mér“ (K&S 42:29). Eigingirni og prestdæmisskyldur fara ekki saman og ef hún er ríkjandi þáttur í persónugerð okkar, þurfum við að bæta okkur.
-
Við þurfum að vera verðugir! Ég fæ kannski ekki gert eins og öldungur Jeffrey R. Holland gerði, þegar hann talaði á prestdæmisfundi fyrir nokkrum árum, „komið aðeins við kaunin á ykkur og hrist aðeins upp í ykkur“ („We Are All Enlisted,“ Ensign eða Líahóna, nóv. 2011, 45); en kæru vinir, við þurfum að vakna upp og skilja hvernig hin almennt viðurkennda breytni í heiminum grefur undan krafti okkar í prestdæminu. Ef við teljum að við getum á einhvern hátt fitlað við klámefni eða brotið skírlífislögmálið eða verið óheiðarlegir, án þess að það hafi neikvæð áhrif á okkur og fjölskyldu okkar, þá erum við að blekkja sjálfa okkur. Moróní sagði: „Gjörið allt [verðugir]“ (Morm 9:29). Drottinn leiðbeindi kröftuglega: „Og nú gef ég yður boð um að gæta yðar og af kostgæfni gefa gaum að orðum eilífs lífs“ (K&S 84:43). Ef einhverjar óútkljáðar syndir koma í veg fyrir verðugleika okkar, þurfum við að bæta okkur.
Eina afgerandi svarið við þessari spurningu Jesú Krists: „Hvers konar menn ættuð þér því að vera?“ er hið kjarnyrta og djúpa svar hans sjálfs: „Aveg eins og ég er“ (3 Ne 27:27). Boðið um að „[koma] til Krists, [og fullkomnast] í honum“ (Moró 10:32), gerir kröfu um og kallar á breytingar. Sem betur fer hefur hann ekki skilið okkur eina eftir. „Og komi menn til mín, mun ég sýna þeim veikleika sinn. … Þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra“ (Eter 12:27). Við getum breyst, ef við reiðum okkur á friðþægingu frelsarans. Um þetta er ég fullviss. Í nafni Jesú Krists, amen.