Koma örugg að hásæti Guðs
Þið getið aukið andlegt sjálfstraust ykkar nú með því að hagnýta ykkur friðþægingu Jesú Krists, ef þið eruð fús til að hlusta og framkvæma.
Hversu hátt mynduð þið meta ykkar andlegu tiltrú frammi fyrir Guði á mælikvarðanum 1 til 10? Eigið þið persónulegan vitnisburð um að það sem þið leggið nú af mörkum sem Síðari daga heilög nægi til þess að þið fáið erft eilíft líf? Getið þið sagt við sjálf ykkur að himneskur faðir sé ánægður með ykkur? Hverjar væru hugsanir ykkar, ef til stæði að þið ættuð einkaviðtal við frelsara ykkar nú innan einnar mínútu? Væri sjálfsmynd ykkar lituð af syndum, eftirsjá og ófullkomleika eða yrðuð þið einfaldlega full tilhlökkunar? Mynduð þið hörfa undan augnaráði hans? Mynduð þið doka við dyrnar eða ganga örugg fram fyrir hann?
Alltaf þegar óvinurinn fær ekki sannfært ófullkomna en þó kappsama heilaga um að láta af trú sinni, til að mynda á persónulegan og kærleiksríkan Guð, reynir hann allt hvað hann getur að draga ykkur eins langt frá Guði og mögulegt er. Óvinurinn veit að trú á Krist – trú sem vekur stöðugt flæði ljúfrar miskunnar og jafnvel máttugra kraftaverka – fer samhliða persónulegri fullvissu um að þið séuð að velja hið rétta. Hann mun þess vegna reyna að ná að hjarta ykkar til að telja ykkur trú um það sem ósatt er – að himneskur faðir sé vonsvikinn með ykkur, að friðþægingin nái ekki til ykkar, að hún sé ekki áreynslunnar virði, að aðrir standi ykkur framar, að þið séuð óverðug og ótal annað af sama meiði illskunnar.
Ef þið leyfið slíkum röddum að taka frá ykkur sálarfrið, fáið þið ekki komist að hásæti Guð fyllt sjálfstrausti. Sjálfsefinn mun þá alltaf veikja trú ykkar, í öllum ykkar verkum, bænarefnum og vonum um kraftaverk – ekki aðeins trú ykkar á Guð, heldur líka sjálfstraust ykkar. Að lifa þannig eftir fagnaðarerindinu, er hvorki gleðilegt, né mjög heilnæmt. Umfram allt er það þó algjörlega ónauðsynlegt! Sú ákvörðun að breytast er ykkar – einungis ykkar.
Ég legg til sex góðar ábendingar til að leiða hjá ykkur slíkar illar raddir og endurvekja ykkur þá andlegu friðsæld og fullvissu sem þið getið hlotið, ef þið aðeins viljið og farið eftir þeim. Hver sem einkunnin hefur verið sem þið gáfuð ykkur á mælikvarðanum 1 til 10, þá getið þið aukið andlegt sjálfstraust ykkar nú með því að hagnýta ykkur friðþægingu Jesú Krists, ef þið eruð fús til að hlusta og framkvæma. Ég mæli umbúðalaust og vona að þið uppfræðist, fremur en að móðgast.
1. Takið ábyrgð á eigin andlegri velferð. Hættið að áfellast aðra eða skella skuldinni á aðstæður ykkar, hættið að réttlæta ykkur eða afsaka það að þið séuð ekki að reyna að gera ykkar besta til að vera hlýðin. Meðtakið að þið séuð „frjáls í holdinu“ og að ykkur sé „frjálst að velja frelsi og eilíft líf“ (2 Ne 2:27). Drottinn þekkir aðstæður ykkar fullkomlega, en honum er líka fullkomlega ljóst hvers vegna þið kjósið að lifa ekki fyllilega eftir fagnaðarerindinu. Sé raunin sú, verið þá nægilega heiðarleg til að játa að svo sé, og reynið að vera eins góð og þið mögulega getið í eigin aðstæðum. Andlegt sjálfstraust eykst þegar við tökum ábyrgð á eigin andlegri velferð, með því að hagnýta okkar friðþægingu Jesú Krists daglega.
2. Takið ábyrgð á eigin líkamlegri velferð. Sálin er samsett af bæði líkama og anda (sjá K&S 88:15). Sé andinn endurnærður og líkaminn vanræktur, sem er musterið, leiðir það yfirleitt til andlegs ósamræmis og minnkandi sjálfsvirðingar. Ef þið eruð í lélegu ástandi, ef ykkur líður ekki vel í eigin líkama og getið breytt því, þá ættuð þið að gera það! Öldungur Russell M. Nelson kenndi að okkur bæri „að líta á líkama okkar sem eigið musteri“ og að við ættum að „hafa stjórn á mataræði okkar og stunda líkamsrækt“ („We Are Children of God,“Ensign, nóv. 1998, 87;Líahóna, jan. 1999, 103).
Boyd K. Packer forseti kenndi að „andinn og líkaminn væru þannig samtengdir að líkaminn væri verkfæri hugans og leggði grunn að persónuleika okkar“ („The Instrument of Your Mind and the Foundation of Your Character,“ [Fræðsludeild kirkjunnar, kvöldvaka, 2. feb. 2003], 2; speeches.byu.edu). Gætið þess vegna vandlega að því hvað og einkum hversu mikið þið borðið og sjáið til þess að líkaminn fái þá reglubundnu hreyfingu sem hann þarf og verðskuldar. Ef þið búið yfir líkamlegu atgervi til þess, ákveðið þá nú að hafa stjórn á eigin musteri og hefja varanlega líkamsrækt, sem samræmist getu ykkar, og bætið mataræðið. Andlegt sjálfstraust ykkar eykst þegar andi ykkar hefur, með hjálp frelsarans, raunverulega stjórn á ykkar náttúrlega manni.
3. Verið fús, til að hlýða, af heilum hug, og temjið ykkar það í lífinu. Viðurkennið að þið getið ekki elskað Guð án þess að elska borðorð hans. Boð frelsarans er skýrt og greinilegt: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“ (Jóh 14:15). Valkvæð hlýðni færir valkvæðarblessanir og að velja eitthvað slæmt í stað þess sem er verra, er líka röng breytni. Þið getið ekki horft á slæma kvikmynd og vænst þess að upplifa góðar tilfinningar, aðeins af því að þið horfðuð ekki á einhverja sem var enn verri. Að hlíta sumum boðorðum, réttlætir ekki að önnur boðorð séu vanrækt. Abraham Lincoln sagði réttilega: „Þegar ég geri gott, þá líður mér vel, en þegar ég geri illt líður mér illa“ (í William H. Herndon og Jesse William Weik, Herndon’s Lincoln: The True Story of a Great Life, 3. bindi [1889], 3:439).
Breytið líka rétt af réttum ástæðum. Drottinn, sem „krefst hjartans og viljugs huga“ (K&S 64:34) og „greinir hugsanir og áform hjartans“ (K&S 33:1), veit hvers vegna þið farið í kirkju – hvort þið séuð aðeins viðstödd líkamlega eða af sönnum tilbeiðsluanda. Á sunnudögum getið þið sungið: „Úr syndanna og lastanna og sorganna stað“ og síðan leitað syndina uppi andartaki síðar („Þér öldungar fólksins,“ Sálmar, nr. 119). Hafið í huga að hamingjan felst ekki í því að fara léttúðlega með hið andlega. Gerið kirkjuna og hið endurreista fagnaðarerindi að miðpunkti lífs ykkar, takið ekki aðeins þátt í félagsstarfinu. Að kjósa hverjum við viljum þjóna í dag, verður aðeins orðin tóm – þar til við tökum að lifa samkvæmt því (sjá Jósúa 24:15). Andlegt sjálfstraust eykst þegar við erfiðum af einlægni, af réttum ástæðum, að lifa helguðu lífi, þrátt fyrir eigin ófullkomleika!
4. Verðið afar, afar góð í því að iðrast strax og algjörlega. Þar sem friðþæging Jesú Krists er afar hagnýt, ættuð þið að tileinka ykkur hana vandlega allan sólarhringinn, því henni linnir aldrei. Hagnýtið ykkur friðþægingu Jesú Krists og iðrunina, líkt og eitthvað sem er kærkomið, og gerið það daglega, að boði hins mikla læknis. Tileinkið ykkur viðvarandi og gleðiríka iðrun, með því að gera hana að völdum lífshætti. Gætið ykkar á þeirri freistingu að fresta henni, í þessari viðleitni, og búist ekki við að heimurinn hvetji ykkur áfram. Einblínið á frelsarann, hugið meira að því sem honum finnst um ykkur og látið það koma sem koma skal. Andlegt sjálfstraust eykst þegar þið iðrist synda ykkar fúslega og glaðlega, bæði smárra og stórra, á líðandi stundu, með því að hagnýta ykkur friðþægingu Jesú Krists.
5. Verðið afar, afar góð í því að fyrirgefa. „Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum“ (K&S 64:10). Fyrirgefið öllum, allt og alltaf eða reynið það allavega, og stuðlið þannig að því að þið hljótið sjálf fyrirgefningu. Verið ekki langrækin, móðgunargjörn, fyrirgefið og gleymið fljótt og teljið ykkur aldrei trú um að þið séuð undanskilin þessu boðorði. Andlegt sjálfstraust eykst þegar þið vitið að Drottinn veit að þið berið engar slæmar tilfinningar til einhvers annars.
6. Sættið ykkur við raunir, áföll og „hið óvænta,“ sem hluta af ykkar jarðnesku reynslu. Minnist þess að þið eruð hér til að verða prófuð og reynd, til að „sjá hvort [þið gjörið] allt, sem Drottinn Guð býður [ykkur]“ (Abraham 3:25) – og ég bæti við: „Í öllum aðstæðum.“ Milljónir bræðra okkar og systra eru reynd þannig og því ættuð þið að vera undanskilin? Sumir erfiðleikar verða vegna eigin óhlýðni eða vanrækslu. Aðrir erfiðleikar verða vegna vanrækslu annarra eða einfaldlega vegna þess að heimurinn er í föllnu ástandi. Þegar slíkir erfiðleikar steðja að, tekur handbendi óvinarins að útvarpa því að við höfum gert eitthvað rangt, að hér sé um refsingu að ræða, tákn um að himneskur faðir elski okkur ekki. Leiðið það hjá ykkur! Reynið þess í stað að brosa, horfa til himins og segja: „Ég skil, Drottinn. Ég veit hvað hér er á ferðinni. Stund prófraunar, ekki satt?“ Gangist síðan honum á hönd og standist vel allt til enda. Andlegt sjálfstraust eykst þegar þið sættið ykkur við að „erfiðleikar og raunir verði oft á leið ykkar, vegna þess að þið eruð að gera margt rétt“ (Glenn L. Pace, „Crying with the Saints“ [trúarsamkoma í Brigham Young háskóla, 3. des. 1987], 2; speeches.byu.edu).
Þegar ég var í forsæti Kyiv-trúboðsins í Úkraínu, spurði ég eitt sinn eina af mínum trúföstustu systrum hvers vegna hún væri alltaf svo óvægin við sjálfa sig, hvers vegna hún væri alltaf að áfellast sig fyrir smæstu yfirsjónir. Svar hennar var dæmigert fyrir þann sem hlustar á ranga rödd: „Svo enginn áfellist mig að fyrra bragði.“
Bræður og systur, orð mín til þessarar trúboðssystur, eru líka til ykkar: Viðurkennið og sættið ykkur við veikleika ykkar, en látið þá ekki draga úr ykkur kjarkinn, því sumir þeirra verða ykkar förunautar þar til þessu lífi lýkur. Um leið og þið fúslega kjósið heiðarlega og glaðlega iðrun daglega, hverjar sem aðstæður ykkar eru nú, einfaldlega með því að leggja ykkur fram og gera ykkar besta, mun friðþæging frelsarans, umlykja og fylgja ykkur hvar sem þið eruð. Ef þið lifið þannig, munuð þið vissulega „ætíð njóta fyrirgefningar syndanna“ (Mósía 4:12), allar stundir dagsins, frá einu andartaki til þess næsta, og verða þannig algjörlega hrein og þóknanleg frammi fyrir Guði allar tíðir.
Þau forréttindin eru ykkar, ef þið viljið njóta þeirra, að geta sjálf komist að því, nú í dag eða fljótlega, að þið séuð Guði þóknanleg, þrátt fyrir annmarka ykkar. Ég ber vitni um kærleiksríkan frelsara, sem væntir þess að við lifum eftir boðorðunum. Ég ber vitni um kærleiksríkan frelsara, sem þráir innilega að veita af náð sinni og miskunn. Ég ber vitni um kærleiksríkan frelsara, sem gleðst þegar við hagnýtum okkur friðþægingu hans daglega og búum yfir glaðlegri fullvissu um að við séum á réttri leið. Ég ber vitni um kærleiksríkan frelsara, sem þráir innilega að við látum „traust [okkar] vaxa og styrkist í návist Guðs (sjá K&S 121:45). Í nafni Jesú Krists, amen.