Erum vér ekki öll beiningamenn?
Hvort heldur við erum rík eða fátæk, þá ber okkur að „gera allt í okkar valdi“ þegar aðrir búa við neyð.
Hve dásamlegur nýr þáttur sem kynntur hefur verið í framsetningu aðalráðstefna. Bien hecho, Eduardo.
Sú stund, sem hlýtur að hafa verið ein sú óvæntasta í upphafi þjónustutíðar Jesú, var þegar hann stóð upp í heimasöfnuði sínum í Nasaret og las þessi spádómsorð Jesaja, sem líka eru skráð í Lúkasarguðspjalli: „Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, … [og] láta þjáða lausa.“1
Þannig gerði frelsarinn almenningi fyrst kunnugt um þjónustu sína sem Messías. Þetta vers sýnir líka glögglega að fyrsta Messíasar skylda hans, fram að hans mestu gjöf, friðþægingarfórninni og upprisunni, yrði að blessa fátæka, og fátæka í anda.
Frá upphafi þjónustutíðar sinnar, sýndi Jesús að hann bar sérstaka umhyggju fyrir snauðum og vanhöldnum. Hann fæddist á heimili tveggja slíkra og ólst upp meðal margra slíkra. Við þekkjum ekki nákvæmlega stundlegt líf hans, en eitt sinn sagði hann: „Refar eiga greni og fuglar … hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“2 Skapari himins og jarðar „og [alls], sem í þeim er,“3 var augljóslega heimilislaus, allavega á fullorðinsárum sínum.
Í aldanna rás hefur örbirgð verið talin eitt mesta og útbreiddasta vandamálið. Greinilegustu afleiðingar hennar eru yfirleitt líkamlegs eðlis, en sá andlegi og tilfinningalegi skaði sem hún getur valdið, er jafnvel enn voðalegri. Hvað sem öllu líður, þá hefur hinn mikli frelsari ekkert boð gefið jafn þrálátlega og það, að við hjálpuðum honum að létta þeirri þungu byrði af fólki. Hann sagði, sem Jehóva, að hann hugðist óvægið dæma hús Ísraels, því „rændir fjármunir fátæklinganna [væru] í húsum [þeirra].“
„Hvernig getið þér fengið af yður,“ sagði hann, „að fótum troða lýð minn og merja sundur andlit hinna snauðu?“4
Höfundur Orðskviðanna talaði skýrt og skorinort um málið: „Sá sem kúgar snauðan mann, óvirðir þann er skóp hann,“ og „Sá sem byrgir eyrun fyrir kveini hins fátæka, … mun sjálfur kalla og eigi fá bænheyrslu.“5
Á okkar tíma hafði hin endurreista kirkja Jesú Krists ekki náð fyrsta aldursári, þegar Drottinn bauð að meðlimir hennar „[skyldu] líta til hinna fátæku og þurfandi og veita þeim líkn, svo að þeir líði ekki.“6 Gætið að hinni mikilvægu sögn í þessari setningu – „svo að þeir líði ekki.“ Slík orð notar Guð þegar hann vill að við bregðumst við.
Hvað geta karlar og konur gert við þeirri miklu áskorun að draga úr ranglæti í heiminum? Meistarinn sjálfur setti fram svarið: Þegar María smurði höfuð Jesú með dýru líksmyrsli, áður en hann var svikinn og krossfestur, andmælti Júdas Ískaríot þessum munaði og „gramdist þetta.“7
Jesús sagði:
„Jesús sagði: „Hvað eruð þér að angra hana? Gott verk gjörði hún mér. …
Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð.“8
„Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð“! Hve gagnorð forskrift! Fréttamaður nokkur efaði árangur móður Teresu frá Kalkútta, við hið vonlitla verk hennar að koma hinum snauðu til bjargar í þeirri borg. Hann sagði að tölfræðilega væri árangur hennar enginn. Þessi undraverða smávaxna kona svaraði að bragði, að verk hennar snérist um kærleika, en ekki tölfræði. Þrátt fyrir ískyggilegar tölurnar að handan hennar seilingar, sagðist hún geta haldið boðorðið um að elska Guðs og náungann, með því að þjóna þeim sem hún náði til, af þeirri getu sem hún réði yfir. „Það sem við gerum er aðeins dropi í hafið,“ sagði hún líka af öðru tilefni. En ef við gerðum það ekki, væri einum dropa minna í hafinu [en nú er].“9 Fréttamaðurinn benti svo réttilega á að kristni væri auðvitað ekki tölfræðiverk. Hann dró síðan þá ályktun, að fyrst meiri gleði yrði á himnum yfir einni sál sem iðrast, heldur en yfir níutíu og níu sem ekki þörfnuðust iðrunar, þá væri Guð greinilega ekki of niðursokkinn í tölfræði.10
Hvernig getum við þá „gert það sem í okkar valdi stendur“?
Við getum til að mynda gert það sem Benjamín konungur kenndi, að hætta að halda að okkur höndum, vegna þess að við teljum hina fátæku hafa sjálfa kallað yfir sig ógæfu sína. Líklega hafa sumir skapað eigin erfiðleika, en gerum við hin það ekki einmitt líka? Er það ekki þess vegna sem þessi samúðarfulli konungur spurði: „Erum vér ekki öll beiningamenn?“11 Biðjum við ekki öll um hjálp, vonarljós og bænheyrslu? Biðjum við ekki öll um fyrirgefningu fyrir yfirsjónir okkar og þann vanda sem við höfum valdið? Biðjum við þess ekki öll sárlega að náðin nægi til að bæta fyrir annmarka okkar, að miskunnsemin fái sigrað réttvísina, að minnsta kosti hvað okkur sjálf varðar? Er nokkur furða að Benjamín konungur hafi sagt að við munum hljóta fyrirgefningu synda okkar með því að ákalla Guð, sem mun bregðast við af miskunnsemi, en við munum varðveita fyrirgefningu synda okkar með því að bregðast við ákalli hinna fátæku af miskunnsemi.12
Auk þess að bregðast við bón þeirra af miskunnsemi, ættum við líka að biðja fyrir hinum nauðstöddu. Margir Sóramítar voru álitnir „óhreinir“ og litið var á þá sem „úrhrak“ – sem er orð í ritningunni – og þeim var vísað út úr samkunduhúsum sínum, „vegna þess hve klæði þeirra voru gróf.“ Mormón sagði: „Þeir voru fátækir að þessa heims gæðum, og … einnig fátækir í hjarta“13 – tvíþætt ástand sem næstum alltaf helst í hendur. Trúboðsfélagarnir, Alma og Amúlek stóðu gegn þeirri ámælisverðu gjörð að hinum grófklæddu væri vísað í burtu, með því að fullvissa þá um að þeir gætu ætíð beðist fyrir, sama hvaða forréttindi aðrir neituðu þeim um – á ökrum sínum og í híbýlum sínum, með fjölskyldum sínum og í hjarta sínu.14
Við þessa Sóramíta, sem hafði verið vísað í burtu, sagði Amúlek: „Ef þið, eftir að hafa [beðist fyrir] …, snúið hinum þurfandi frá eða hinum klæðlausu og vitjið ekki hinna sjúku og aðþrengdu, og gefið ekki af því, sem þið eigið,[ef þið eigið][það], til þeirra, sem þurfandi eru – ég segi ykkur, … þá er bæn ykkar til einskis og gjörir ykkur ekkert gagn, og þið eruð sem hræsnarar, er afneita trúnni.“15 Hve undursamleg áminning um að hvort heldur við erum rík eða fátæk, þá ber okkur að „gera allt í okkar valdi“ þegar aðrir búa við neyð.
Svo ég verði nú ekki álitinn vilhallur fjárfrekum og óhagkvæmum félagslegum úrræðum eða betli á götum úti sem verðugri atvinnu, þá fullvissa ég ykkur um að virðing mín fyrir vinnusemi, sparsemi, sjálfsbjörg og metnaði, er ekki síðri en gengur og gerist meðal karla og kvenna sem nú lifa. Þess er ætíð vænst að við hjálpum okkur sjálfum, áður en við leitum hjálpar frá öðrum. Ég veit þó ekki hvernig hvert okkar getur uppfyllt skyldu okkar gagnvart þeim sem ekki hjálpa sér sjálfir eða geta ekki alltaf gert það. Ég veit þó að Guð veit það, og hann mun leiða ykkur í miskunnarverki lærisveinsins, ef það er stöðug þrá ykkar og bæn og viðleitni að halda það boðorð sem hann hefur gefið svo oft.
Þið áttið ykkur á að ég er hér að tala um erfiða samfélagslega neyð, sem ekki aðeins einskorðast við kirkjuna. Til allrar hamingju, þá léttir aðferð Drottins okkur að hjálpa okkar eigin fólki, því öllum sem hafa heilsu til ber að hlíta föstulögmálinu. Jesaja ritaði:
„Sú fasta, sem mér líkar, er að …
þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann. … og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð. [að þú megir] gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok. … “16
Ég ber vitni um þau kraftaverk, bæði hin andlegu og stundlegu, sem þeir upplifa sem lifa eftir föstulögmálinu. Ég ber vitni um þau kraftaverk sem ég hef upplifað. Vissulega hef ég, líkt og Jesaja ritaði, sárbeðið í föstu og heyrt Guð segja: „Hér er ég!“17 Nýtið ykkur þessi helgu forréttindi mánaðarlega, hið minnsta,, og verið eins rausnarleg í föstufórnum og aðstæður leyfa, svo og í framlögum ykkar í mannúðarsjóð, menntunarsjóð og trúboðssjóð. Ég heiti því að Guð verður ykkur örlátur og þeir sem finna líkn fyrir ykkar tilverknað, munu blessa nafn ykkar að eilífu. Á síðasta ári nutu yfir 750 þúsund meðlimir kirkjunnar aðstoðar fyrir tilverknað föstufórna, sem stjórnað var af trúföstum biskupum og Líknarfélagsforsetum. Það er fjölmennur hópur þakklátra Síðari daga heilagra.
Bræður og systur, þessi prédikun knýr mig til að færa þakkir fyrir mínar ómaklegu og óverðskulduðu, endalausu blessanir, bæði stundlegar og andlegar. Ég hef, líkt og þið, stundum þurft að hafa áhyggjur af fjárhagnum, en ég hef aldrei verið fátækur og ég veit heldur ekki hvernig hinum fátæku líður. Ég veit ennfremur ekki hvers vegna við fæðumst við svo ólíkar aðstæður hér í jarðlífinu og búum við svo mismunandi heilsufar, möguleika til menntunar og betri efnahags, en þegar ég sé neyð hinna mörgu, þá veit ég að „fyrir náð Guðs ber mér að hjálpa.“18 Ég veit líka að þótt ekki sé víst að ég sé gæslumaður bróður míns, þá er ég er bróðir hans og þar sem ég hef hlotið gnægð „þá gef ég .. allt sem bætir bróður hag.“19
Í þessu samhengi ber ég lof á Thomas S. Monson forseta. Ég hef verið svo blessaður að hafa átt samskipti við hann í 47 ár og allt til dauða mun ég varðveita þá mynd af honum fljúgandi heim frá efnahagsrústum Austur-Þýskalands á inniskónum, því hann hafði ekki aðeins gefið auka jakkafötin sín, heldur líka skóna af fótum sér. Hversu yndislegir eru á fjöllunum [og í flugstöðvunum] fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur!”20 Monson forseti hefur, betur en nokkur annar sem ég þekki, “gert það sem í hans valdi stendur” fyrir ekkjur og munaðarlausa.
Í opinberun sem gefin var spámanninum Joseph Smith árið 1831, sagði Drottinn að hinir fátæku mundu dag einn sjá ríki Guðs koma „í veldi og mikilli dýrð“ til að endurleysa þá.21 Ég bið þess að við leggjum okkar af mörkum við að uppfylla þann spádóm, með því að koma í veldi og dýrð aðildar okkar að hinni sönnu kirkju Jesú Krists, til að bjarga öllum sem við getum úr þjakandi fátækt og skorti, sem rænir þá draumum þeirra, í hinu miskunnsama nafni Jesú Krists, amen.