2010–2019
Tónlist fagnaðarerindisins
Apríl 2015


Tónlist fagnaðarerindisins

Tónlist fagnaðarerindisins er gleðileg, andleg tilfinning sem kemur frá heilögum anda. Hún veldur umbreytingu hjartans.

Fyrir mörgum árum var ég að hlusta á útvarpsviðtal við ungan lækni sem starfaði á spítala hjá Navajo þjóðinni í Arisóna. Hann sagði frá reynslu sem hann hafði orðið fyrir kvöld eitt er gamall frumbyggi Ameríku, með langa fléttu í hárinu, kom inn á bráðavaktina. Ungi læknirinn tók upplýsingaspjaldið hans, nálgaðist manninn og sagði: „Hvað get ég gert fyrir þig?“ Gamli maðurinn horfði beint áfram en sagði ekkert. Læknirinn var aðeins óþolinmóður og reyndi aftur. „Ég get ekki hjálpað þér ef þú talar ekki við mig,“ sagði hann. „Segðu mér af hverju þú hefur komið hingað á spítalann.“

Gamli maðurinn leit þá á hann og sagði:„Dansarðu?“ Á meðan ungi læknirinn hugleiddi þessa einkennilegu spurningu þá hvarflaði það að honum að kannski væri þessi sjúklingur töfralæknir ættbálksins síns, sem leitaðist við að lækna hina sjúku í gegnum söng og dans, eftir siðum ættbálsksins, frekar en að ávísa lyfjum.

„Nei,“ sagði læknirinn,„ég dansa ekki. Dansar þú?“ Gamli maðurinn kinkaði kolli yfir því. Þá spurði læknirinn hann, „Gætirðu kennt mér að dansa?“

Ég hef velt vöngum yfir svari gamla mannsins í mörg ár. „Ég get kennt þér að dansa,“ sagði hann, „en þú verður að heyra tónlistina.“

Stundum beinum við athygli okkar að því að kenna danssporin vandlega á heimilum okkar en erum ekki eins farsæl í að hjálpa fjölskyldu okkar að heyra tónlistina. Eins og gamli töfralæknirinn vissi vel, þá er erfitt að dansa án tónlistar. Að dansa án tónlistar er klaufalegt og ófullnægjandi, jafnvel vandræðalegt. Hafið þið prófað það?

Í 8. kafla í Kenningu og sáttmálum kenndi Drottinn Joseph Smith og Oliver Cowdry: „Ég mun segja þér í huga þínum og hjarta, með heilögum anda, sem koma mun yfir þig og dvelja í hjarta þínu“ (vers 2). Við lærum danssporin með huga okkar, en við heyrum tónlistina með hjarta okkar. Dansspor fagnaðarerindisins er það sem við framkvæmum; tónlist fagnaðarerindisins er hin gleðilega andlega tilfinning sem kemur frá heilögum anda. Hún veldur breytingu hjartans og er uppspretta allrar réttlátrar löngunar. Danssporin krefjast aga, en gleði dansins getur aðeins orðið að veruleika þegar við náum að heyra tónlistina.

Það eru þeir sem gera gys að kirkjuþegnum fyrir það sem við gerum. Það er skiljanlegt. Þeir sem dansa oft virðast þeim, sem heyra ekki tónlistina, einkennilegir eða klaufalegir, eða „einstakt“ (1 Pét 2:9) fólk, svo notað sé ritningarmál. Hefurðu einhverntíma stoppað bílinn á rauðu ljósi við hliðina á bíl þar sem bílstjórinn er að dansa og syngja á fullu – en þú heyrðir ekki hljóðið, því rúðan var lokuð? Var sá ekki svolítið sérstakur? Ef börn okkar læra danssporin án þess að heyra og skynja hina fögru tónlist fagnaðarerindisins þá munu þau smátt og smátt finnast dansinn óþægilegur og annað hvort hætta að dansa, eða það sem er nærri því jafn slæmt, halda áfram að dansa einungis vegna þrýstings frá öðrum sem dansa í kringum þá.

Áskorun okkar allra sem reynum að kenna fagnaðarerindið, er að víkka námsefnið út yfir danssporin. Hamingja barna okkar byggir á hæfileika þeirra að heyra og elska hina fögru tónlist fagnaðarerindisins. Hvernig gerum við það?

Í fyrsta lagi verðum við að halda lífi okkar innstilltu á rétta andlega bylgjulengd. Í gamla daga, fyrir stafrænan tíma, fundum við uppáhalds útvarpsstöðina okkar með því að snúa takkanum þar til hann var rétt stilltur á bylgjulengd einhverrar útvarpsstöðvar. Þegar við nálguðumst töluna þá heyrðum við aðeins suð. Hins vegar, þegar við náðum nákvæmlega réttri stillingu þá heyrðist uppáhalds tónlist okkar greinilega. Í lífi okkar verðum við að stilla okkur á rétta bylgjulengd til að heyra tónlist andans.

Þegar við meðtökum gjöf heilags anda eftir skírn þá erum við fyllt himneskri tónlist sem fylgir trúarumbreytingu. Hjörtu okkar eru breytt og við „hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka“ (Mósía 5:2). Andinn mun samt ekki þola óvild, stolt eða öfund. Ef við missum þessi viðkvæmu áhrif í lífi okkar þá getur hinn ríkulegi samhljómur fagnaðarerindisins orðið mishljóma og endanlega verið þaggað niður í honum. Alma lagð fram hina áríðandi spurningu: „Hafi yður langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, þá spyr ég: Finnið þér slíkt nú?“ (Alma 5:26).

Foreldrar, ef líf okkar eru vanstillt við tónlist fagnaðarerindisins þá þurfum við að stilla hana. Eins og Thomas S. Monson kenndi síðasliðinn Október að við þurfum að kunna fótum okkar forráð (sjá „Ponder the Path of Thy Feet,“ Ensign eða Liahona, nóv. 2014, 86–88). Við vitum hvernig við eigum að gera það. Við verðum að ganga sömu leið og við gengum þegar við heyrðum hina himnesku tóna fagnaðarerindisins í fyrsta sinn. Við iðkum trú á Krist, iðrumst og meðtökum sakramentið, við finnum áhrif heilags anda sterkar og tónlist fagnaðarerindisins byrjar aftur að spila í lífi okkar.

Í öðru lagi, þegar við getum heyrt tónlistina sjálf þá verðum við að gera okkar besta að flytja hana á heimilum okkar. Það er ekki eitthvað sem er hægt að þvinga eða neyða fram. „Engu valdi eða áhrifum er hægt eða ætti að beita af hendi prestdæmisins“ – eða bara af því að maður er pabbinn, mamman eða sá stærsti eða hávaðasamasti – „heldur með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð (K&S 121:41–42).

Hvers vegna ættu þessir eiginleikar að leiða til aukins valds og áhrifa á heimilinu? Vegna þess að þetta eru eiginleikar sem bjóða heilögum anda heim. Þetta eru eiginleikar sem stilla hjörtu okkar inn á tónlist fagnaðarerindisins. Þegar þeir eru til staðar, þá verða danssporin flutt eðlilegar og af meiri gleði af öllum dönsurum fjölskyldunnar, án þess að þörf sé fyrir hótanir, ógnun eða þvingun.

Þegar börnin okkar eru lítil getum við sungið vögguvísur fyrir þau um fölskvalausa ást og þegar þau eru þrjósk og neita að fara að sofa á kvöldin þá gætum við þurft að syngja vögguvísu um umburðarlyndi. Þegar þau eru táningar þá getum við útilokað hljómhörku rifrilda og hótana og í staðinn flutt fagra tónlist sannfæringar - og kannski sungið annað versið af vögguvísunni um umburðarlyndi. Foreldrar geta flutt eiginleika ljúfmennsku og auðmýktar sameiginlega í fullkomnum samhljómi. Við getum boðið börnum okkar að syngja með okkur í einingu er við sýnum góðmennsku gagnvart nágranna sem er í þörf.

Þetta gerist ekki allt í einu. Eins og hver fær tónlistarmaður veit þá tekur það mikla æfingu að flytja fallega tónlist. Ef fyrstu tilraunir til að flytja tónlist hljóma falskt og mishljóma, munið þá að ekki er hægt að leiðrétta falskan tón með gagnrýni. Mishljómur á heimili er eins og myrkur í herbergi. Það gerir lítið að skamma myrkrið. Við þurfum að  fjarlægt myrkrið með því að innleiða ljósið.

Svo ef að bassarnir í fjölskyldukórnum ykkar eru of háværir og dramblátir, eða ef strengjasveitin er of skerandi í fjölskylduhljómsveitinni eða aðeins of hvell, eða ef þessar hvatvísu pikkolóflautur eru falskar eða stjórnlausar, verið þá þolinmóð. Ef þið heyrið ekki tónlist fagnaðarerindisins á heimili ykkar þá munið þessi fjögur orð: Haldið áfram að æfa. Með aðstoð Guðs þá mun sá dagur koma að tónlist fagnaðarerindisins mun fylla heimili ykkar með ómældri gleði.

Jafnvel þegar tónlistin er flutt vel þá mun tónlistin ekki leysa öll vandamál ykkar. Það munu samt koma hækkanir og lækkanir í líf ykkar, stuttaralegar og langdregnar stundir. Þannig er eðli lífsins á jarðarplánetunni.

Þegar við bætum hins vegar tónlist við danssporin þá munu hinir stundum flóknu taktar hjónabandsins og fjölskyldulífsins hreyfast saman í átt að jafnvægi samhljóms. Jafnvel okkar mestu áskoranir okkar munu þá bæta okkur sterkum, angurværum tónum og áhrifaríkum stefum. Kenningar prestdæmisins munu falla á sál ykkar sem dögg af himni. Heilagur andi verður okkur stöðugur förunautur og veldisproti okkar - skýr tilvitnun í kraft og áhrif - óbreytanlegur veldisproti réttlætis og sannleika. Og yfirráð okkar skulu verða ævarandi yfirráð og streyma til okkar án þvingana alltaf og að eilífu (K&S 121:45–46).

Megi það verða svo í lífi okkar allra og á heimilum okkar allra er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen