2010–2019
Lát heilagan anda leiða
Apríl 2017


Lát heilagan anda leiða

Hið guðlega hlutverk heilags anda er að innblása, vitna, kenna og minna okkur á að vera í ljósi Drottins.

Bræður og systur, mér, líkt og ykkur, er ljóst að af boðskap Thomas S. Monson forseta nú í morgun má ráða að Drottinn sé að hraða verki sínu. Monson forseti, við elskum og styðjum þig og biðjum ávallt fyrir þér, „okkar kæri spámaður.“

Við höfum upplifað úthellingu andans þessa helgi. Hvort heldur sem þið eruð í þessari miklu ráðstefnuhöll eða fylgist með á heimilum ykkar eða eruð í samkomuhúsum í fjarlægum heimshlutum, þá getið þið fundið anda Drottins. Sá andi staðfestir í huga ykkar og hjarta þann sannleika sem kenndur er á þessari ráðstefnu.

Ígrundið orð þessa kunnuglega sálms:

Lát heilagan anda leiða,

og kenna allt hið rétta.

Hann mun vitna um Krist,

og lýsa huga himins sýn.

Af síðari daga opinberun, þá vitum við að Guðdómurinn saman stendur af þremur aðskildum og aðgreindum verum: Föður okkar á himnum; hans eingetna syni, Jesú Kristi; og heilögum anda. Við vitum að „faðirinn hefur líkama af holdi og beinum, jafn áþreifanlegan og mannslíkaminn er, sonurinn einnig, en heilagur andi hefur ekki líkama af holdi og beinum, heldur er hann andavera. Væri ekki svo, gæti heilagur andi ekki dvalið í okkur.“

Boðskapur minn í dag fjallar um mikilvægi heilags anda í lífi okkar. Himneskur faðir vissi að í jarðlífinu biðu okkar áskoranir og þrautir og þjáningar. Hann vissi að við myndum takast á við efasemdir, vonbrigði, freistingar og veikleika. Hann sá okkur fyrir heilögum anda, til að styrkja okkur og veita okkur guðlega handleiðslu.

Heilagur anda tengir okkur við Drottin. Hið guðlega hlutverk heilags anda er að innblása, vitna, kenna og minna okkur á að vera í ljósi Drottins. Við höfum þá helgu ábyrgð að læra að hlusta á áhrif hans og breyta samkvæmt því.

Minnist þessa loforðs Drottins: „Ég mun veita þér af anda mínum, sem mun upplýsa huga þinn, sem mun fylla sál þína gleði.“ Ég ann þessari hughreystingu. Gleði sem fyllir sál okkar, veitir eilífa yfirsýn sem mótvægi við daglegt líf. Þessi gleði veitir frið í þjáningum og þrautum. Hún veitir huggun og hugrekki, afhjúpar sannleika fagnaðarerindisins og eykur elsku okkar til Drottins og allra barna Guðs. Þótt þörfin sé brýn fyrir slíkar blessanir, þá hefur heimurinn á margan hátt gleymt og afneitað þeim.

Í hverri viku, er við meðtökum hið helga sakramenti, gerum við sáttmála um að „hafa hann ávallt í huga,“ Drottin Jesú Krist, og friðþægingu hans. Ef við höldum þann helga sáttmála, höfum við loforð um að „andi hans [verði] ætíð með [okkur].“

Hvernig er það hægt?

Í fyrsta lagi, þá reynum við að lifa verðug andans.

Heilagur andi á samfélag við þá sem „gæta þess stranglega að minnast Drottins Guðs síns dag frá degi.“ Líkt og Drottinn bauð, þá verðum við að „leggja til hliðar það, sem þessa heims er, og leita þess, sem betra er,“ því að „andi Drottins dvelur ekki í vanhelgum musterum.“ Við verðum ætíð að reyna að hlýða lögmáli Guðs, læra ritningarnar, biðja, fara í musterið og lifa af einlægni eftir þrettánda trúaratriðinu, sem er „að vera heiðvirð, sönn, skírlíf, góðgjörn, dyggðug og gjöra öllum mönnum gott.“

Í öðru lagi, þá verðum við að vera fús til að taka á móti andanum.

Drottinn sagði: „Ég mun segja þér í huga þínum og hjarta, með heilögum anda, sem koma mun yfir þig og dvelja í hjarta þínu.“ Ég tók að skilja þetta er ég var ungur trúboði í Scotch Plains, New York. Á einum heitum júlímorgni fannst mér og félaga mínum að við ættum að láta reyna á tilvísun frá Musteristorginu. Við knúðum dyra á húsi Elwoods Schaffer. Frú Schaffer vísaði okkur kurteislega í burtu.

Þegar hún var við það að loka dyrunum, fann ég mig knúinn til að gera nokkuð sem ég hafði aldrei áður gert og hef ekki gert síðan! Ég setti fótinn í dyrastafinn og spurði: „Er nokkur annar á heimilinu sem gæti haft áhuga á boðskap okkar?“ Hin 16 ára gamla dóttir hennar, Marti, hafði áhuga, en hún hafði beðist heitt fyrir um handleiðslu, deginum áður. Marti hlustaði á okkur og það kom að því að móðir hennar tók líka þátt í kennslunni. Þær gengu báðar í kirkjuna.

Öldungur Rasband sem trúboði

Af skírn Marti leiddu 136 skírnir, og margir fjölskyldumeðlimir hennar skírðust og gerðu sáttmála fagnaðarerindisins. Hver þakklátur ég er fyrir að hafa hlustað á andann þennan heita júlídag og sett fótinn í dyrastafinn. Marti og margir í hennar kæru fjölskyldu eru hér í dag.

Í þriðja lagi, þá verðum við að bera kennsl á andann þegar hann vitjar okkar.

Reynsla mín er sú að andinn talar oft í gegnum tilfinningar. Þið skynjið hann sem kunnugleg orð, sem eru auðskiljanleg, sem innblása ykkur. Ígrundið hvernig Nefítarnir brugðust við, er þeir hlustuðu á Drottin biðja fyrir þeim: „Og mannfjöldinn heyrði og bar vitni. Og hjörtu fólksins voru opin, og það skildi í hjörtum sínum orðin, sem hann bað.“ Það skynjaði í hjörtum sínum orð bænar hans. Rödd heilags anda er lágvær og hljóðlát.

Í Gamla testamentinu tókst Elía á við presta Baals. Prestarnir væntu þess að „rödd“ Baals bærist niður sem þruma og að eldur félli niður á fórn þeirra. Það barst þó engin rödd og enginn eldur féll.

Af öðru tilefni bað Elía: „Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum. Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum.

Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla.“

Þekkið þið þessa rödd?

Monson forseti hefur kennt: „Á okkar lífsins ferðalagi ættum við að læra tungumál andans.“ Andinn mælir orð sem við skynjum. Slíkar tilfinningar eru ljúfar, knýja okkur til að bregðast við, gera eitthvað eða segja eitthvað. Ef við erum andvaralaus eða skeytingalaus í tilbeiðslu okkar, altekin af því sem heimsins er, mun draga úr getu okkar til að skynja slíkar tilfinningar. Nefí sagði við Laman og Lemúel: „ þið hafið heyrt rödd hans öðru hverju. Og hann hefur talað til ykkar lágri, hljóðlátri röddu, en þið voruð orðnir svo tilfinningalausir, að þið gátuð ekki skynjað orð hans.“

Í júní síðastliðnum var mér falið að fara til Suður-Ameríku. Dagskrá okkar var þéttriðin tíu daga heimsókn til Kolombíu, Perú og Ekvador. Hundruð höfðu látist í miklum jarðskjálfta, þúsundir skaðast og hús og hverfi eyðilögðust í borgunum Portoviejo og Manta í Ecuadorian. Ég fann mig knúinn til að bæta við dagskrána heimsóknum til meðlima sem bjuggu í þessum borgum. Við vorum ekki viss um að komast þangað vegna vegaskemmda. Í raun hafði okkur verið sagt að við kæmust ekki þangað, en hugboðið var stöðugt með mér. Við vorum því blessuð og gátum vitjað borganna tveggja.

Fyrirvarinn var svo skammur að ég vænti þess að einungis fáeinir prestdæmisleiðtogar kæmu á hinar áformuðu samkomur. Þegar við hins vegar komum í hverja stikumiðstöð voru allar kapellur fylltar og hvert sæti skipað. Sumir þar voru stólpar síns heimasvæðis, frumkvöðlar sem verið höfðu staðfastir í kirkjunni og fengið aðra til að tilbiðja með sér og njóta andans í lífi sínu. Í fremstu sætum voru meðlimir sem höfðu misst ástvini og nágranna í jarðskjálftanum. Ég fann mig knúinn til að veita öllum sem þar voru postulega blessun, sem var ein sú fyrsta sem ég gaf. Þótt ég stæði frammi fyrir söfnuðinum, var sem ég legði hendur á höfuð sérhvers þar og ég fann orð Drottins streyma fram.

Öldungur og systir Rasband í Suður-Ameríku

Ég lét ekki staðar numið hér. Ég fann mig knúinn til að tala til fólksins eins og Jesús Kristur gerði þegar hann vitjaði fólksins í Ameríku. „Hann tók litlu börnin þeirra, … blessaði þau og bað til föðurins fyrir þeim.“ Við vorum í Ekvador, í erindagjörðum föður okkar og þetta voru börnin hans.

Í fjórða lagi, þá verðum við að bregðast við fyrsta hugboði.

Minnist orða Nefís: „Andinn leiddi mig, og ég vissi ekki fyrirfram, hvað gjöra skyldi. Engu að síður,“ sagði hann, „ hélt ég áfram.“

Það verðum við líka að gera. Við verðum að vera sjálfsörugg við fyrsta hugboð. Stundum efumst við og veltum fyrir okkur hvort um sé að ræða andlegt hugboð eða eigin hugsanir. Þegar við hikum einu sinni og jafnvel tvisvar og slíkar tilfinningar – og það gerum við öll – þá vísum við andanum frá og véfengjum guðlega handleiðslu. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi, að ef við bregðumst við fyrsta hugboði, þá verður það rétt í níu af tíu skiptum.

Ég minni þó á: ekki búast við skrauteldum af því að þið brugðust við heilögum anda. Minnist þess að þið eruð að vinna verk lágværrar og hljóðlátrar raddar.

Eitt sinn, er ég þjónaði sem trúboðsforseti í New York borg, var ég með trúboðunum okkar á veitingastað í Bronx. Ung fjölskylda kom inn og settist við hlið okkar. Þau virtust tilvalin fyrir fagnaðarerindið. Ég fylgdist með trúboðunum meðan við sátum við borðið og tók síðan eftir að fjölskyldan fór út svo lítið bæri á eftir máltíðina. Ég sagði þá: „Öldungar, við getum lært nokkuð í dag. Þið sáuð fallega fjölskyldu koma inn á veitingastaðinn. Hvað hefðu við átt að gera?

Einn öldungurinn svaraði um hæl: „Ég hugsaði um það hvort ég ætti að standa upp og tala við þau. Ég fann hvatninguna, en brást ekki við.“

„Öldungar,“ sagði ég, „við verðum ávallt að bregðast við fyrsta hugboði. Hvatningin sem þú fannst var heilagur andi!“

Fyrsta hugboðið er sannur innblástur frá himni. Þegar slík staðfesting eða vitni berst okkur, þurfum við að átta okkur á raunveruleika þess og aldrei leiða það hjá okkur. Oft er það andinn sem er að innblása okkur að liðsinna einhverjum í neyð, einkum fjölskyldu og vinum. „Já, … hin lága, hljóðláta rödd, sem hvíslar og smýgur í gegnum allt,“ bendir okkur á tækifæri til að kenna fagnaðarerindið, gefa vitnisburð um endurreisnina og Jesú Krist, sýna stuðning og samúð og koma einu dýrmætu barni Guðs til hjálpar.

Líkið þessu við þá sem veita fyrstu hjálp. Í flestum samfélögum eru einhverjir sem bregðast fyrst við í hörmungum eða hamförum, svo sem slökkviliðsmenn, lögregla, bráðaliðar. Þeir koma aðvífandi með blikkandi ljós og leyfið mér að bæta því við að við erum þeim afar þakklát. Háttur Drottins er ekki jafn áberandi, en krefst þó jafn skjótra viðbragða. Drottinn þekkir þarfir allra sinna barna – og líka hver er reiðubúinn til að liðsinna. Ef við látum Drottin vita af því í morgunbænum okkar að við séum reiðubúin, þá mun hann láta reyna á viðbrögð okkar. Ef við bregðumst við, þá munum við oft sjálf finna að við erum að gera það sem Monson forseti kallar „að vera í erindagjörðum Drottins.“ Við verðum þá þau sem veitum fyrstu hálp af himnum.

Ef við bregðumst við þeim hugboðum sem berast okkur, munum við vaxa í anda opinberunar og hljóta stöðugt aukna andlega handleiðslu og leiðsögn. Drottinn sagði: „Set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka.“

Megum við taka alvarlega boð Drottins um að „[vera vonglöð, því að [hann] mun leiða [okkur].“ Hann leiðir okkur með heilögum anda. Megum við lifa í nálægð andans og bregðast skjótt við fyrsta hugboði, fullviss um að það sé frá Guði. Ég ber vitni um kraft heilags anda til að leiða og vernda okkur og vera stöðugt með okkur, í nafni Jesú Krists, amen.