2010–2019
„Minn frið gef ég yður“
Apríl 2017


„Minn frið gef ég yður“

Drottinn lofaði að veita lærisveinum sínum frið í þann mund sem hann yfirgaf þá. Hann hefur gefið okkur þetta sama loforð.

Kæru systur mínar, við höfum verið blessuð með anda Guðs í kvöld. Hinn innblásni boðskapur frá hinum öflugu systraleiðtogum hefur styrkt trú okkar og aukið þrá okkar til að halda þá helgu sáttmála sem við höfum gert við okkar ástkæra himneska föður. Við höfum fundið aukna elsku til Drottins Jesú Krists og þakklæti fyrir hina dásamlegu gjöf friðþægingar hans.

Boðskapur minn í kvöld er einfaldur. Við höfum öll fundið frið í kvöld. Öll viljum við oft finna slíkan innri frið, í sjálfum okkur, fjölskyldu okkar og samferðafólki. Drottinn lofaði að veita lærisveinum sínum frið í þann mund sem hann yfirgaf þá. Hann hefur gefið okkur þetta sama loforð. Hann sagði þó að hann mundi gefa okkur frið á sinn hátt, ekki að hætti heimsins. Hann tilgreindi hvernig hann veitir frið:

„En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóh 14:26‒27).

Synir Mósía þörfnuðust þessarar gjafar er þeir héldu í trúboð til Lamanítanna. Þegar þeir áttuðu sig á hinu erfiða verkefni sínu urðu þeir meira en lítið áhyggjufullir og leituðu sér huggunar í bæn. Og „Drottinn vitjaði þeirra með anda sínum og sagði við þá: Látið huggast! Og þeir létu huggast“ (Alma 17:10; sjá einnig Alma 26:27).

Stundum gætuð þið þráð frið, er óöryggi steðjar að og það sem ykkur finnst vera yfirvofandi áskoranir. Synir Mósía lærðu sömu lexíu og Drottinn kenndi Moróní. Hún er leiðarvísir fyrir okkur öll. „Og komi menn til mín, mun ég sýna þeim veikleika sinn. Ég gef mönnum veikleika, svo að þeir geti orðið auðmjúkir. Og náð mín nægir öllum mönnum, sem auðmýkja sig fyrir mér. Því að ef þeir auðmýkja sig fyrir mér og eiga trú á mig, þá mun ég láta hið veika verða styrk þeirra“ (Eter 12:27).

Moróní sagði að þegar hann „hafði heyrt þessi orð,“ þá lét hann „hughreystast“ (Eter 12:29). Þau geta verið okkur öllum hughreysting. Þeir sem ekki sjá eigin veikleika, munu ekki taka framförum. Að vera meðvitaður um eigin veikleika er blessun, því það gerir okkur auðmjúk og laðar okkur að frelsaranum. Andinn huggar ykkur ekki aðeins, heldur er hann sá sem breytir ykkar innsta eðli fyrir tilverknað friðþægingarinnar. Þá verða veikleikar ykkar að styrk ykkar.

Satan mun alltaf láta reyna á trú ykkar; það verður upplifun allra lærisveina Jesú Krists. Vörn ykkar gegn slíkum árásum er að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut. Andinn veitir okkur sálarfrið. Hann hvetur ykkur til að sækja fram í trú. Hann mun auk þess vekja upp minningu um þær stundir er þið funduð ljós og elsku Jesú Krists.

Minningar geta verið ein dýrmætasta gjöf andans til ykkar. Heilagur andi mun „minna yður á allt það, sem [Drottinn hefur] sagt yður“ (Jóh 14:26). Minningin kann að vera um bænheyrslu, fengna helgiathöfn prestdæmisins, staðfestingu vitnisburðar eða handleiðslu Guðs í lífi ykkar. Þegar þið hugsanlega þurfið á styrk að halda í framtíð, þá gæti andinn vakið upp minningu um tilfinningar sem þið upplifið á þessari samkomu. Ég bið þess að svo megi verða.

Ein minning sem andinn vekur oft í huga minn, er um sakramentissamkomu að kvöldi, sem haldin var í járnkofa í Austurríki fyrir mörgum árum. Kofinn var undir járnbrautarspori. Þar voru aðeins fáeinir saman komnir og setið var á tréstólum. Flestir voru konur, sumar yngri og aðrar eldri. Ég sá glitta í tár þakklætis við útdeilingu sakramentis til þessa fámenna safnaðar. Ég fann elsku frelsarans til þessara heilagra, og það gerðu þau líka. Það kraftaverk sem er mér svo minnisstætt, var ljósið sem virtist fylla járnkofann og friðurinn sem því fylgdi. Það var kvöld og kofinn var gluggalaus, en samt ljómaði rýmið eins og hábjartur dagur væri.

Ljós heilags anda var bjart og skært þetta kvöld. Gluggarnir sem ljósið skein inn um voru auðmjúk hjörtu þessara heilagra, sem komið höfðu fram fyrir Drottin til að leita fyrirgefningar synda sinna og einsetja sér að hafa hann ávallt í huga. Það var ekki erfitt að hafa hann í huga þessa stund og minningin um þessa helgu upplifun auðveldaði mér að hafa hann og friðþægingu hans í huga þau ár sem á eftir fylgdu. Loforð sakramentisbænanna um að andinn verði ætíð með okkur uppfylltist þennan dag og fyllti okkur ljósi og friði.

Líkt og þið, þá hef ég verið þakklátur fyrir hinar mörgu mismunandi vitjanir Drottins með huggaranum, þegar ég hef þarfnast friðar. Föður okkar á himnum er þó ekki bara annt um að hugga okkur, heldur jafnvel meira um að þroska okkur. „Huggari“ er aðeins eitt af hlutverkum heilags anda sem greint er frá í ritningunum. Hér er annað hlutverk: „Og sannlega, sannlega segi ég þér nú, set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka“ (K&S 11:12). Oft leiðir hann ykkur til góðra verka með því að leiða ykkur til að hjálpa öðrum að upplifa huggun Guðs.

Drottinn hefur af visku sinni séð til þess að þið séuð í aðildarfélögum og námsbekkjum í þessari kirkju. Það hefur hann gert til að auka getu ykkar til að gera gott. Í þessum félögum hafið þið ákveðna ábyrgð til að þjóna öðrum fyrir hann. Ef þið eruð til að mynda stúlkur, gæti biskup ykkar eða leiðtogi Stúlknafélagsins hafa beðið ykkur að liðsinna Lárviðarmeyju sem orðin er það sem stundum er kallað „lítt virk.“ Þið gætuð verið kunnugri henni en biskupinn eða leiðtogi Stúlknafélagsins. Þið gætuð vitað að hún ætti erfitt heima fyrir eða í skóla eða kannski hvort tveggja. Leiðtogar ykkar vita kannski ekki ástæðu þess að þeir voru knúnir til að biðja ykkur um að liðsinna henni, en Drottinn veit ástæðuna og leiðir verk sitt fyrir innblástur anda síns.

Það mun þurfa undursamlega umbreytingu hjartans til að viðleitni ykkar beri árangur, bæði hjá ykkur og stúlkunni sem ykkur var ætlað að hjálpa – og til þess þarf samfélag heilags anda. Andinn getur leyft ykkur að sjá hina lítt virku Lárviðarmeyju með augum Drottins. Drottinn þekkir hjarta hennar og ykkar og hvort umbreyting hjartans sé möguleg. Hann getur vitjað ykkar beggja með anda sínum til að innblása auðmýkt, fyrirgefningu og kærleika.

Andinn getur innblásið það orð og verk og þá nauðsynlegu þolinmæði sem þörf er til að bjóða lambi að koma aftur í hjörðina. Hann getur líka snert hjörtu hjarðarinnar í Lárviðarbekknum til að elska og taka hinum týnda sauði opnum örmum, svo að hún finni sig aftur heimkomna.

Geta ykkar til að láta gott af ykkur leiða sem hópur dætra Guðs, er að miklu leyti háð þeirri einingu og elsku sem ríkir meðal ykkar. Það er önnur gjöf sem hlýst með heilögum anda.

Alma hafði skilning á henni. Af þeirri ástæðu bauð hann fólki sínu „að engar deilur skyldu vera þeirra á milli, heldur skyldu þeir horfa fram á við einhuga, í einni trú, í einni skírn, og hjörtu þeirra skyldu tengd böndum einingar og elsku hver til annars“ (Mósía 18:21).

Eining er nauðsynleg til að andinn verði með okkur í námsbekkjum okkar og fjölskyldum. Þið vitið þó af eigin reynslu, líkt og ég, að erfitt getur reynst að viðhalda slíkri kærleiksríkri einingu. Til þess þarf samfélag heilags anda, að hann mildi hjörtu okkar og opni augu okkar.

Ég man eftir því þegar einn sonur okkar var sjö eða átta ára gamall, að hann hoppaði svo harkalega í rúminu sínu að ég hélt að það mundi brotna. Ég fann fyrir augnabliks ergelsi og í fljótfærni hugðist ég koma reglu á hús mitt. Ég þreif í axlir sonar míns og lyfti honum upp í augnhæð mína.

Andinn talaði þá í huga minn. Það virtist kyrrlát rödd sem þó nísti hjartað. „Þú heldur á merkri manneskju.“ Ég setti hann varlega niður á rúmið og bað hann afsökunar.

Nú er hann orðinn að þeim mikla manni sem heilagur andi sýndi mér fyrir 40 árum. Ég er eilíflega þakklátur fyrir að Drottinn bjargaði mér frá óvinsamlegum tilfinningum, með því að senda heilagan anda til að ég sæi barn Guðs eins og hann sér það.

Sú eining sem við sækjumst eftir í fjölskyldum okkar og í kirkjunni verður að veruleika þegar við leyfum heilögum anda að ljúka upp augum okkar þegar við horfum á og jafnvel hugsum um hvert annað. Andinn sér með hinni hreinu ást Krists. Hlýðið á orð Mormóns um kærleikann. Hugsið um þau skipti er þið funduð fyrir honum.

„Kærleikurinn er langlyndur og góðviljaður, og öfundar ekki. Hann hreykir sér ekki upp, leitar ekki síns eigin, reiðist ekki auðveldlega, hugsar ekkert illt, fagnar ekki yfir misgjörðum, heldur fagnar í sannleikanum, þolir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Skorti yður þess vegna kærleika, ástkæru bræður mínir [og ég bæti við systur mínar], eruð þér ekki neitt, því að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Haldið þess vegna fast við kærleikann, sem er öllu æðri, því að allt annað hlýtur að falla úr gildi–

En kærleikurinn er hin hreina ást Krists og varir að eilífu. Og hverjum þeim, sem reynist eiga hann á efsta degi, honum mun vel farnast.

Biðjið þess vegna til föðurins, [ástkæru systur mínar], af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists; að þér megið verða [dætur] Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er; að vér megum eiga þessa von; að vér megum verða hreinir eins og hann er hreinn“ (Moró 7:45–48).

Þetta er markmiðið sem himneskur faðir ætlar ykkur, hans dýrmætu dætrum. Ykkur kann að virðast þetta fjarlægt markmið, en frá hans sjónarhorni eruð þið ekki svo fjarri því. Hann vitjar ykkar því með anda sínum til að hugga, hvetja og innblása ykkur til að sækja fram.

Ég gef ykkur minn örugga vitnisburð um að faðirinn þekkir ykkur –þekkir nafn ykkar og þarfir – og elskar ykkur og heyrir bænir ykkar. Hans ástkæri sonur býður ykkur að koma til sín. Þeir senda ykkur heilagan anda í viðleitni ykkar til að þjóna öðrum fyrir þá.

Stöðugt samfélag heilags anda mun hafa hreinsandi áhrif á anda ykkar, vegna friðþægingar Jesú Krists. Þið munið þá finna þann frið frelsarans sem hann lofaði að veita lærisveinum sínum. Þeim friði mun fylgja björt von og ljós og elska frá föðurnum og hans ástkæra syni, sem leiðir ríki sitt á jörðu með opinberun til síns lifandi spámanns. Um það vitna ég í nafni Drottins Jesú Krists, amen.