2010–2019
Fullkomin elska rekur út óttann
Apríl 2017


Fullkomin elska rekur út óttann

Leggjum ótta okkar til hliðar og lifum frekar í gleði, auðmýkt, von og djörfu öryggi þess að Drottinn er með okkur.

Ástkæru bræður og systur, kæru vinir, þvílík forréttindi og gleði það er að hittast sem heimskirkja, sameinuð í trú okkar og elsku til Guðs og barna hans.

Ég er sérstaklega þakklátur fyrir nærveru hjartfólgins spámanns okkar, Thomas S. Monson. Forseti, við munum ávallt taka mark á orðum þínum um leiðsögn, ráðgjöf og visku. Við elskum þig, Monson forseti, og styðjum og biðjum ávallt fyrir þér.

Fyrir mörgum árum síðan, þegar ég þjónaði sem stikuforseti í Frankfurt í Þýskalandi, þá kom kær en óhamingjusöm systir til mín í lok eins af stikufundum okkar.

Er það ekki hræðilegt? Sagði hún. „Það hljóta að hafa verið um fjórir eða fimm einstaklingar sofandi á meðan á ræðu þinni stóð!“

Ég hugsaði eitt augnablik og svaraði: „Ég er nokkuð viss um að kirkjusvefn er með heilbrigðasta svefninum sem til er.“

Harriet, kona mín, heyrði þetta spjall og minntist á það seinna að þetta hefði verið eitt fallegasta svar sem ég hefði nokkru sinni gefið.

Vakningin mikla

Fyrir nokkur hundruð árum síðan þá dreifðist hreifing um sveitir Norður Ameríku sem kallaðist „Vakningin mikla.“ Eitt af aðal markmiðum hennar var að vekja fólkið sem virtist vera sofandi yfir andlegum málefnum.

Joseph Smith varð fyrir áhrifum af því sem hann heyrði frá prédikurunum sem voru hluti af þessari andlegu vakningu. Það er ein af ástæðunum fyrir því að hann ákvað að leita einlæglega eftir vilja Drottins í bæn.

Þessir prédikarar höfðu dramatískan, tilfinningaþrunginn ræðustíl, með ræður sem voru þekktar fyrir þunga áherslu á skelfilega loga vítis sem bíða syndara. Ræður þeirra svæfðu fólk ekki – en gætu þó hafa valdið nokkrum martröðum. Tilgangur þeirra og mynstur virtist vera að hræða fólk til kirkjusóknar.

Ótti sem stjórnun.

Sögufræðilega þá hefur ótti oft verið notaður sem verkfæri til að koma fólki til að grípa til aðgerða. Foreldrar hafa notað hann á börn sín, atvinnurekendur á starfsmenn sína og stjórnmálamenn á kjósendur.

Sérfræðingar í markaðsfræði skilja áhrif óttans og nýta hann oft. Þetta er ástæðan fyrir því að sumar auglýsingar virðast flytja þau ákveðnu skilaboð að ef að við kaupum ekki þeirra tegund af morgunkorni eða missum af nýjasta tölvuleiknum eða farsímanum, þá eigum við það á hættu að lifa ömurlegu lífi og deyja ein og óhamingjusöm .

Við brosum að þessu og hugsum að aldrei myndum við falla fyrir slíkri stjórnun en við gerum það nú samt. Það sem verra er, þá notum við svipaðar aðferðir á aðra til að fá það sem við viljum.

Skilaboð mín eru tvíþætt í dag: Í fyrsta lagi vil ég hvetja okkur til að hugleiða og íhuga hvað mikið við notum óttann til að hvetja aðra – þar á meðal okkur sjálf. Í öðru lagi langar mig að leggja til betri leið.

Vandamálið við óttann

Til að byrja með langar mig að skoða hvað vandamálið sé með ótta. Hver okkar hefur ekki verið knúin af ótta til að borða betur, nota bílbelti, hreyfa okkur meira, leggja fyrir eða jafnvel að iðrast vegna syndar?

Það er satt að ótti getur haft sterk áhrif á gerðir okkar og hegðun. Þau áhrif eiga samt til að vera tímabundin og grunnhyggin. Óttinn hefur sjaldast þau áhrif að breyta hjörtum okkar og hann mun aldrei breyta okkur í einstaklinga sem elska það sem rétt er og sem hlýða himneskum föður.

Fólk sem er óttaslegið gæti sagt og gert það sem rétt er, en það skynjar ekki hið rétta. Þeim finnst þau oft hjálparvana og gröm, jafnvel reið. Með tímanum leiða þessar tilfinningar til vantrausts, óhlýðni og jafnvel uppreisnar.

Því miður þá er þessi misheppnaða nálgun á lífinu og leiðtogastarfinu ekki takmarkað við hinn veraldlega heim. Það syrgir mig að heyra af kirkjuþegnum sem beita óréttlátum yfirráðum – hvort heldur á heimilum þeirra, í kirkjuköllunum, í vinnu eða í daglegum samskiptum við aðra.

Oft gagnrýnir fólk kannski kúgun hjá öðrum en sjá það ekki hjá sjálfum sér. Það krefst hlýðni við handahófskenndar reglur þeirra en þegar aðrir hlýða ekki þessum tilviljanakenndu reglum þá beitir það munnlegum, tilfinningalegum og stundum jafnvel líkamlegum aga.

Drottinn hefur sagt að „þegar við … [beitum] stjórn eða yfirráðum eða þvingun við sálir mannanna barna, hversu lítið sem óréttlætið er, … þá draga himnarnir sig í hlé [og] andi Drottins tregar.“

Það eru kannski stundir þar sem við freistumst til að réttlæta gjörðir okkar með því að trúa því að tilgangurinn helgi meðalið. Við höldum kannski jafnvel að með því að ráðskast, vera stjórnsöm og hörð að það sé öðrum til góðs. Ekki svo, því að Drottinn hefur sett það skýrt fram: „En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.“

Betri leið

Því betur sem ég kynnist himneskum föður mínum, því betur sé ég hvernig hann innblæs og leiðir börn sín. Hann er ekki reiður eða hefnigjarn. Tilgangur hans – verk hans og dýrð – er að kenna okkur, upphefja okkur og leiða til fyllingar sinnar.

Guð lýsti sjálfum sér fyrir Móse og sagðist vera „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur“

Kærleikur himnesks föður gagnvart okkur, börnum hans, gnæfir yfir alla getu okkar til að skilja.

Þýðir það að Guð láti hegðun, sem fer á móti boðorðum hans, óátalda eða horfir framhjá þeim? Nei, alls ekki!

Hann vill hins vegar breyta meiru en bara hegðun okkar. Hann vill breyta eiginlegu eðli okkar. Hann vill breyta hjörtum okkar.

Hann vill að við teygjum okkur fram og tökum ákveðið í járnstöngina, horfumst í augu við ótta okkar og stígum hugrökk fram og upp á við, eftir hinum beina og þrönga vegi. Hann vill þetta fyrir okkur því hann elskar okkur og vegna þess að þetta er leiðin til hamingju.

Hvernig hvetur Guð þá börn sín til að fylgja honum á okkar tímum?

Hann sendi son sinn!

Hann sendi eingetinn son sin, Jesús Krist til að vísa okkur rétta leið.

Guð hvetur okkur í gegnum fortölur, langlundargeð, ljúfmennsku, auðmýkt og einlægan kærleika. Hann er á okkar bandi. Hann elskar okkur og þegar við hrösum þá vill hann að við reisum okkur á ný, reynum aftur og verðum sterkari.

Hann er kennari okkar.

Hann er mesta og dýrmætasta von okkar.

Hann þráir að örva okkur með trú.

Hann treystir okkur til að læra af mistökum okkar og taka réttar ákvarðanir.

Þetta er betri leiðin!

Hvað með illsku heimsins?

Ein af þeim aðferðum sem Satan vill að við stjórnum öðrum með, er með því að dvelja á, og jafnvel ýkja, vonsku heimsins.

Heimur okkar hefur sannarlega alltaf verið, og mun alltaf verða, ófullkominn. Of margir sakleysingjar þjást vegna náttúrulegra aðstæðna og einnig af hrottaskap mannsins. Spillingin og vonska okkar tíma er einstök og skelfileg.

Þrátt fyrir þetta allt þá myndi ég ekki vilja skipta á því að lifa á þessum tímum við nokkurn annan tíma í sögu heimsins. Við erum ákaflega blessuð að lifa á tímum fordæmislausrar velgengi, upplýsinga og forskots. Fyrst of fremst þá erum við blessuð með fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists, sem gefur okkur einstakt sjónarhorn á hættur heimsins og sýnir okkar hvernig á annað hvort að forðast þær eða takast á við þær.

Þegar ég hugsa um þessar blessanir þá langar mig að falla á kné og dásama og þakka himneskum föður fyrir óendanlegan kærleika sinn gagnvart öllum börnum hans.

Ég trúi því ekki að Guð vilji að börn hans séu óttaslegin eða dvelji við illsku heimsins. „Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“

Hann hefur gefið okkur fjölmargar ástæður til að fagna. Við þurfum bara að finna og þekkja þær. Drottinn minnir okkur oft á að „óttast eigi“ og „vera [hughraust],“ að „[vera] ekki hrædd, litla hjörð“

Drottinn mun berjast í orrustum okkar

Bræður og systur, við erum „litla hjörð“ Drottins. Við erum hinir heilögu á síðari dögum. Innifalið í nafni okkar er skuldbindingin að horfa til endurkomu frelsarans og að undirbúa okkur sjálf og heiminn fyrir að komu hans. Við skulum því þjóna Guði og elska samferðafólk okkar. Við skulum gera það af eðlilegu sjálfsöryggi, af auðmýkt, og aldrei líta niður á önnur trúarbrögð eða hóp fólks. Bræður og systur, okkur er gefið það verkefni að læra orð Guðs og að hlýða rödd andans svo að við getum „[þekkt] tímanna tákn og táknin um komu mannsonarins.“

Við erum þar af leiðandi ekki ómeðvituð um áskoranir heimsins, né erum við óafvitandi um erfiðleika okkar tíma. Þetta þýðir samt ekki að við ættum að íþyngja okkur, né öðrum, með stanslausum ótta. Frekar en að dvelja við óendanleika áskorana okkar, væri þá ekki betra að einblína á eilífan mikilleika, góðmennsku, almætti Guðs okkar, treysta honum og undirbúa endurkomu Jesú Krist í hjartans gleði?

Sem sáttmálslýður hans þá þurfum við ekki að vera lömuð eða óttaslegin vegna þess að slæmir hlutir gætu gerst. Í stað þess getum við haldið áfram í trú, hugrekki, ákveðni og trausti á Guði, er við tökumst á við áskoranirnar og tækifærin sem framundan eru.

Við göngum ekki veg lærisveinsins einsömul. „Drottinn Guð þinn fer … með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“

„Drottinn mun berjast fyrir yður, en þér skuluð vera kyrrir.“

Er við stöndum frammi fyrir ótta, finnum þá hugrekki okkar, herðum um hugann í trú og treystum því loforði að „engin vopn, sem smíðuð verða móti [okkur], skulu verða sigurvænleg.“

Lifum við á umbrota- og hættutímatíma? Að sjálfsögðu.

Guð hefur sjálfur sagt: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“

Getum við iðkað trúnna til að trúa og hegðað okkur í samræmi við það? Getum við lifað eftir loforðum okkar og helgum sáttmálum? Getum við haldið boðorð Guðs, jafnvel á erfiðum tímum? Að sjálfsögðu!

Því Guð hefur lofað að „allt mun vinna saman að velfarnaði yðar, ef þér gangið grandvarir.“ Leggjum ótta okkar til hliðar og lifum frekar í gleði, auðmýkt, von og djörfu öryggis þess að Drottinn er með okkur.

Fullkomin elska rekur út óttann

Ástkæru vinir minir, kæru bræður og systur í Kristi, ef við finnum að við erum að lifa í ótta eða kvíða, eða finnum að orð okkar, viðhorf eða gjörðir eru að valda öðrum ótta, þá bið ég þess af öllum styrk sálar minnar að við frelsumst frá þessum ótta með hinu guðdómlega andsvari: Hinni hreinu ást Krists, því að„fullkomin elska rekur út óttann.“

Hin fullkomna elska Krists sigrast á freistingunni til að særa, hræða, kúga, eða undiroka.

Hin fullkomna elska Krists leyfir okkur að ganga í auðmýkt, sæmd og í djörfu öryggi sem fylgismenn ástkærs frelsarans. Hin fullkomna elska Krists veitir okkur sjálfstraust til að knýja áfram í gegnum ótta okkar og setja algert traust á kraft og gæsku himnesks föður okkar og sonar hans, Jesú Krists.

Skiptum ótta út fyrir hina fullkomnu elsku, ástkærs Krists á heimilum okkar, á starfsvettvangi, í kirkjuköllunum og í öllum samskiptum okkar við náungann og í hjörtum okkar. Kærleikur Krists mun skipta ótta út fyrir trú!

Kærleikur hans mun gera okkur kleift til að þekkja, treysta og hafa trú á góðvild himnesks föður, eilífri áætlun hans, fagnaðarerindi hans og boðorðum. Það að elska Guð og náunga okkar mun snúa hlýðni okkar við boðorð Guðs í blessun, frekar en byrði. Kærleikur Krists mun hjálpa okkur að verða aðeins góðviljaðir, meira fyrirgefandi, umhyggjusamari og trúari verki hans.

Er við fyllum hjörtu okkar með kærleika Krists munum við vakna með endurnýjuðum andlegum ferskleika og ganga glaðlega, í öryggi, vakandi og lifandi í ljósinu og í dýrð ástkærs frelsara okkar, Jesú Krists.

Ég ber vitni, ásamt Jóhannesi postula: „Ótti er ekki í [elsku Krists]“ Bræður og systur, kæru vinir, Guð þekkir ykkur fullkomlega. Hann elskar ykkur fullkomlega. Hann veit hvað framtíð ykkar ber í skauti sér. Hann vill að þið „[óttist ekki, heldur trúið aðeins]“ og „[séuð stöðug í fulkominni elsku hans].“ Þetta er bæn mín og blessun í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. George Whitehead og Jonathan Edwards eru tvö þekkt dæmi um slíka prédikara.

  2. Kenning og sáttálar 121:37.

  3. Gal 5:22–23.

  4. Eitt sinn langaði frelsarann að fara inn í þorp Samverja en fólkið afneitaði Jesú og vildi ekki taka á móti honum í þorpinu þeirra. Tveim lærisveinum hans, var mjög misboðið og spurðu: „Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim? Jesús svaraði þeim og ávítaði þá: „Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa“ (sjá Lúk 9:51–56, New King James Version [1982]).

  5. Sjá HDP Móse 1:39; sjá einnig Efe 3:19.

  6. 2 Mós 34:6.

  7. Sjá Efe 3:19.

  8. Sjá Kenning og sáttmálar 121:41. Ef að Guð ætlaðist til þess að við, jarðnesk börn hans, hegðuðum okkur svona gagnvart hvert öðru, þá myndi hann sannarlega vera fyrirmynd slíkrar hegðunar, þar sem hann er fullkomin vera sem er gæddur öllum dyggðum.

  9. Ráðið á himnum, í fortilverunni, er frábært dæmi sem synir eiginleika Guðs. Þar lagði himneskur faðir okkar áætlun sína um eilífa framþróun okkar, fyrir okkur. Lykilatrið í þessari áætlun hafa að gera með valfrelsi, hlýðni og sáluhjálp í gegnum friðþægingu Krists. Hinsvegar lagði Lúsifer fram aðra nálgun. Hann tryggði það að allir myndu hlýða, enginn myndi glatast. Eina leiðin til að ná þessu var í gegnum harðstjórn og vald. Himneskur faðir vildi ekki leyfa slíka áætlun. Hann mat valfrelsi barna sinna. Hann vissi að við yrðum að gera mistök á leiðinni ef við ættum sannarlega að læra. Þess vegna sá hann okkur fyrir frelsara, sem myndi hreinsa okkur af synd í gegnum eilífa fórn sína og sjá til þess að við gætum komist aftur inn í ríki Guðs.

    Þegar faðir okkar á himnum sá að mörg ástkærra barna hans væru tæld af Lúsifer, neyddi hann þau þá til að fylgja áætlun sinni? Kúgaði hann þau eða hótaði þeim sem voru að taka svona hræðilega ákvörðun. Nei. Almáttugur Guð okkar hefði sannarlega getað stoppað þessa uppreisn. Hann hefði getað neytt vilja sinn upp á uppreisnarmennina og látið þá hlýða. Í staðinn leyfði hann börnum sínum að velja fyrir sig sjálf.

  10. 2 Tím 1:7.

  11. Sjá t.d. Jósúa 1:9; Jes 41:13; Lúk 12:32; Jóh 16:33; 1 Pét 3:14; Kenning og sáttmálar 6:36; 50:41; 61:36; 78:18.

  12. Lúk 12:32.

  13. Kenning og sáttmálar 68:11.

  14. Ráð Móses til fólksins á hans tímum á vel við: „Óttist ekki. … Sjá hjálpræði Drottins, er hann í dag mun láta fram við yður koma“ (2 Mós 14:13, New King James Version).

  15. 5 Mós 31:6.

  16. 2 Mós 14:14, New King James Version.

  17. Jes 54:17.

  18. Jóh 16:33.

  19. Kenning og sáttmálar 90:24; sjá einnig 2 Kor 2:14; Kenning og sáttmálar 105:14.

  20. 1 Jóh 4:18.

  21. Guð sendi ekki soninn „í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann“ (Jóh 3:17). „Hann gjörir aðeins það, sem heiminum er til góðs, því að svo elskar hann heiminn, að hann gefur sitt eigið líf til að draga alla menn til sín“ (2 Ne 26:24).

  22. 1 Jóh 4:18; sjá einnig 1 Jóh 4:16.

  23. Mark 5:36.

  24. Jóh 15:10.