Máttur Mormónsbókar
Ég brýni fyrir hverju okkar að læra og ígrunda Mormónsbók daglega í bænaranda.
Kæru bræður og systur, ég býð ykkur öll innilega velkomin er við hittumst enn á ný á fjölmennri aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Áður en ég byrja á mínum formlega boðskap, þá ætla ég að tilkynna um fimm ný musteri sem verða byggð á eftirtöldum svæðum: Brasília, Brasilíu; stór-Manilasvæðinu, Filippseyjum; Nairobi, Kenýu; Pocatello, Idaho, Bandsríkjunum; og Saratoga Springs, Utah, Bandaríkjunum.
Í dag ætla ég að ræða um mátt Mormónsbókar og hve mikilvægt það er að við sem meðlimir þessarar kirkju lærum og ígrundum hana og lifum eftir kenningum hennar. Aldrei verður of oft lögð áhersla á mikilvægi þess að eiga staðfastan og öruggan vitnisburð um Mormónsbók.
Við lifum á tíma mikils ófriðar og ranglætis. Hvað verndar okkur gegn synd og illsku, sem svo útbreidd eru í okkar heimi? Ég vil meina að sterkur vitnisburður um frelsara okkar, Jesú Krist, og fagnaðarerindi hans muni veita okkur vernd og öryggi. Ef þið lesið ekki Mormónsbók á degi hverjum, gerið það þá. Ef þið lesið hana í anda bænar og af einlægri þrá eftir að þekkja sannleikann, mun heilagur andi staðfesta hann fyrir ykkur. Ef bókin er sönn ‒ sem ég ber staðfastlega vitni um að hún sé ‒ þá var Joseph Smith spámaður, sem sá Guð föðurinn og son hans Jesú Krist.
Þar sem Mormónsbók er sönn, þá er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, kirkja Drottins á jörðu og þá hefur hið heilaga prestdæmi Guðs verið endurreist til blessunar og farsældar barna hans.
Ef þið eigið ekki staðfastan vitnisburð um þetta, gerið þá allt sem þarf til að hljóta hann. Ykkur er nauðsynlegt að eiga eigin vitnisburð á þessum erfiðu tímum, því að vitnisburður annarra mun aðeins hjálpa ykkur takmarkað. Þegar þið hafið svo loks hlotið vitnisburð, þarf að halda honum við með hlýðni við boðorð Guðs og með reglubundinni bænargjörð og ritninganámi.
Kæru samferðamenn í verki Drottins, ég brýni fyrir hverju okkar að læra og ígrunda Mormónsbók daglega í bænaranda. Ef þið gerið það, getið þið heyrt rödd andans, staðist freistingar, sigrast á ótta og efa og hlotið himneska hjálp í lífi ykkar. Um það ber ég vitni af öllu hjarta, í nafni Jesú Krists, amen.