Máttur prestdæmisins
Að efla hið heilaga prestdæmi, sem þið hafið, er nauðsynlegt fyrir verk Drottins í fjölskyldu ykkar og kirkjuköllunum.
Kæru bræður, við höfum hlýtt á opinberun frá Russell M. Nelson forseta í formi tilkynningar. Við höfum hlýtt á mikilvægar ábendingar frá öldungi Christofferson, öldungi Rasband og Eyring forseta. Það sem eftir á að koma fram, þar með talið frá Nelson forseta, mun útlista nánar hvað þið, leiðtogar og prestdæmishafar Drottins, munuð gera í ábyrgð ykkar. Ég ætla að fara yfir nokkrar grundvallarreglur sem stjórna prestdæminu sem hið hafið ykkur til hjálpar.
I. Prestdæmið
Melkísedeksprestdæmið er hið guðlega vald sem Guð hefur falið mönnum til að vinna það verk sitt „að gjöra … eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39). Árið 1829 var það veitt Joseph Smith og Oliver Cowdery af hendi postula frelsarans, Pétri, Jakob og Jóhannesi (sjá K&S 27:12). Það er heilagt og máttugra en við megnum að tjá okkur um.
Lyklar prestdæmisins eru rétturinn til að stjórna notkun prestdæmisvalds. Þegar postularnir því veittu Joseph og Oliver Melkísedeksprestdæmið, fólu þeir þeim líka lyklana að því að stjórna notkun þess (sjá K&S 27:12–13). Allir lyklar prestdæmisins voru ekki veittir á þessari stundu. Allir lyklarnir og öll þekking nauðsynleg fyrir innleiðingu þessara „ráðstafana í fyllingu tímanna“ (K&S 128:18) voru gefin „setning á setning ofan“ (vers 21). Fleiri lyklar voru veittir í Kirtland musterinu, sjö árum síðar (sjá K&S 110:11–16). Þessir lyklar voru veittir til að nota prestdæmisvaldið í þeim viðbótarverkefnum sem voru úthlutuð á þeirri stundu, svo sem skírnum fyrir hina dánu.
Melkísedeksprestdæmið er ekki stöðu- eða metorðatákn. Það er guðlegur kraftur sem okkur er treyst fyrir til framdráttar verki Guðs í þágu barna sinna. Við ættum alltaf að hafa í huga að þeir menn sem hafa prestdæmið eru ekki “prestdæmið.“ Það er ekki viðeigandi að segja „prestdæmið og konurnar.“ Við ættum að segja handhafar prestdæmisins og konurnar.“
II. Þjónusta
Við skulum nú hugleiða hvers Drottinn Jesú Kristur væntir af þeim sem hafa prestdæmi hans – hvernig við eigum að leiða sálir til hans.
Joseph F. Smith forseti kenndi: „Sagt hefur verið með sanni að skipulag kirkjunnar sé fullkomið Vandinn er þó sá að stofnanir hennar eru ekki fyllilega vakandi yfir þeim skyldum sem á þeim hvíla. Þegar þær verða fyllilega vakandi yfir þeirri ábyrgð sem á þær eru lagðar, munu þær uppfylla skylduverk sín af aukinni trúmennsku og verk Drottins verður þess öflugra og áhrifaríkara í heiminum.“
Smith forseti aðvaraði líka:
„Hina guðlegu gefnu heiðurstitla … sem tengjast nokkrum embættum í reglu hins heilaga prestdæmis, ætti ekki að nota eða fara með sem ættu þeir uppruna hjá mönnum; þeir eru ekki ætlaðir til skrauts eða til að tjá yfirstjórn, heldur fremur til að inna af hendi auðmjúka þjónustu í verki þess eina meistara sem við lýsum yfir að við þjónum. …
… Við erfiðum við hjálpræði sálna og okkur ætti að finnast það vera okkar æðsta skylda. Við ættum því, ef þörf er á því, að vera fúsir til að fórna hverju sem er, af kærleika til Guðs, til sáluhjálpar mönnum og sigurs Guðs ríkis á jörðu.“
III. Embætti prestdæmisins
Embætti Melkísedeksprestdæmisins í kirkju Drottins hafa mismunandi skyldur. Kenning og sáttmálar segir að háprestar séu „fastaforsetar eða þjónar hinna ýmsu stika, sem dreifðar eru“ (K&S 124:134). Hún segir öldunga vígða til að vera „fastaþjónar kirkju [Drottins]“ (K&S 124:137). Hér eru fleiri kenningar um þessa mismunandi virkni.
Háprestur starfar og þjónar að andlegum málum (sjá K&S 107:10, 12). Einnig, líkt og Joseph F. Smith kenndi, „þá ætti [honum] að finnast hann skuldbundinn, þar sem hann hefur verið vígður háprestur, … að sýna bæði öldnum og ungum verðugt fordæmi og vera kennari réttlætis, ekki aðeins í orði, heldur fremur í verki – sem gefur hinum yngri kost á að læra af hinum eldri og reyndari og verða þannig sjálfir máttugir í eigin samfélagi.“
Öldungur Bruce R. McConkie, í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Öldungur er þjónn Drottins Jesú Krists. … Honum er boðið að vera fulltrúi meistara síns … með því að þjóna samferðafólki sínu. Hann er erindreki Drottins.“
Öldungur McConkie mælti gegn því að menn segðu sig vera „aðeins öldung.“ „Sérhver öldungur í kirkjunni hefur prestdæmi að jöfnu við forseta kirkjunnar … ,“ sagði hann. „Hvað er öldungur? Hann er hirðir, hirðir sem þjónar meðal hjarðar hins góða hirðis.“
Í því mikilvæga hlutverki að þjóna meðal hjarðar hins góða hirðis, er enginn greinarmunur gerður á embættum háprests og öldungs í Melkísedeksprestdæminu. Í hinum merkilega kafla 107 í Kenningu og sáttmálum, segir Drottinn: „Háprestar, eftir reglu Melkísedeksprestdæmis, hafa rétt til að starfa í stöðu sinni undir stjórn forsætisráðsins við framkvæmd andlegra mála, og einnig í embætti öldungs [eða hverju embætti Aronsprestdæmisins]“ (K&S 107:10; sjá einnig vers 12).
Mikilvægasta reglan fyrir alla prestdæmishafa er kennd af spámanninum Jakob í Mormónsbók. Eftir að hann og bróðir hans, Jósef, höfðu verið vígðir prestar og kennarar fólksins, sagði hann: „Við efldum embætti okkar fyrir Drottin, bárum á því ábyrgð og svöruðum sjálfir til saka fyrir syndir þjóðarinnar, ef við kenndum henni ekki orð Guðs af fullri kostgæfni.“ (Jakob 1:19).
Bræður, ábyrgð okkar sem prestdæmishafar er alvarlegs eðlis. Aðrar stofnanir geta látið sér nægja veraldlega árangursstaðla við að flytja mál sitt og framkvæma aðra starfsþætti. Við sem höfum prestdæmi Guðs búum hins vegar yfir þeim guðlega mætti að fara jafnvel með stjórn að inngangi hins himneska ríkis Guðs. Við höfum þann tilgang og ábyrgð sem Drottinn skilgreinir í hinum opinberaða formála Kenningar og sáttmála. Við eigum að kunngjöra heiminum:
„Megi hver maður mæla í nafni Guðs Drottins, já, frelsara heimsins–
Að trú megi einnig eflast á jörðu–
Að ævarandi sáttmála mínum verði á komið–
„Að hinir veiku og einföldu fái boðað fyllingu fagnaðarerindisins til endimarka heims.“(K&S 1:20–23).
Við verðum að vera trúfastir í því að „efla“ prestdæmiskallanir okkar og ábyrgð, til að geta uppfyllt þetta guðlega boð (sjá K&S 84:33). Öldungur Harold B. Lee útskýrði merkingu þess að efla prestdæmið: „Þegar menn verða handhafar prestdæmisins, verða þeir fulltrúar Drottins. Þeir ættu að líta á köllun sína sem þeir væru í erindagjörðum Drottins. Það er merking þess að efla prestdæmið.“
Bræður, ef því Drottinn sjálfur bæði ykkur að liðsinna einum sona sinna eða dóttur – sem hann gerir fyrir tilverknað þjóna sinna – mynduð þið þá gera það? Ef þið gerðuð það, mynduð þið þá breyta sem fulltrúar hans, „í erindagjörðum Drottins,“ og reiða ykkur á hans fyrirheitnu hjálp?
Öldungur Lee setti fram aðra kenningu um að efla prestdæmið: „Þegar þið skoðið eitthvað með stækkunargleri, sjáið þið það stærra en þið hefðuð séð það berum augum; þannig virkar stækkunargler. Ef … hins vegar einhver stækkar prestdæmið – gerir það öflugra en honum fannst það vera í upphafi, og það sem mikilvægara er, öflugra en öðrum fannst það vera – þá er það þannig sem þið eflið prestdæmið ykkar.“
Hér er dæmi um prestdæmishafa sem eflir prestdæmisábyrgð sína. Ég heyrði þetta frá öldungi Jeffrey D. Erekson, félaga mínum á stikuráðstefnu í Idaho. Þegar Jeffrey var ungur giftur öldungur, sárfátækur og fannst hann ófær um að ljúka sínu síðasta ári í framhaldsskóla, ákvað hann að hætta námi og taka eftirsóttu atvinnutilboði. Nokkrum dögum síðar vitjaði öldungasveitarforsetinn heimilis hans. „Skilurðu mikilvægi prestdæmislyklanna sem ég hef?“ spurði öldungasveitarforsetinn. Þegar Jefferey sagðist gera það, sagði forsetinn honum að allt frá því að hann frétti af því að hann ætlaði að hætta námi, hefði Drottinn sótt að sér á svefnlausum nóttum um að færa Jeffrey þessi skilaboð: „Sem öldungasveitarforseti, ráðlegg ég þér að halda áfram námi. Þetta eru skilaboð frá Drottni til þín.“ Jeffrey hélt námi sínu áfram. Mörgum árum síðar hitti ég hann sem árangursríkan kaupsýslumann og heyrði hann segja við hóp prestdæmishafa: „Þessi [leiðsögn] gerði gæfumuninn í lífi mínu.“
Prestdæmishafi efldi prestdæmið og köllun sína og það gerði „allan gæfumuninn“ í lífi eins barna Guðs.
IV. Prestdæmið í fjölskyldunni
Fram að þessu hef ég rætt um starfsemi prestdæmisins í kirkjunni. Ég ætla nú að ræða um prestdæmið í fjölskyldunni. Ég byrja á lyklum. Sú regla að einungis er hægt að nota prestdæmisvaldið undir leiðsögn þess sem hefur lykla að því valdssviði er undirstöðuatriði í kirkjunni, en á þó ekki við um notkun prestdæmisvalds í fjölskyldunni. Faðir sem hefur prestdæmið er í forsæti fjölskyldu sinnar með því prestdæmisumboði sem hann hefur. Engin þörf er á því að hann hljóti leiðsögn eða samþykki þeirra sem hafa prestdæmislykla við að leiða fjölskyldu sína, hafa fjölskyldufundi, veita eiginkonu sinni og börnum prestdæmisblessanir eða veita fjölskyldumeðlimum eða öðrum lækningablessanir.
Ef feður efldu prestdæmið í eigin fjölskyldu, myndi það flýta ætlunarverki kirkjunnar meira en nokkuð annað sem þeir gerðu. Feður sem hafa Melkísedeksprestdæmið ættu að halda boðorðin, svo þeir hafi mátt prestdæmisins til að veita fjölskyldu sinni blessanir. Feður ættu alltaf að stuðla að kærleiksríku fjölskyldusambandi, svo að börnin vilji biðja föður sinn um blessanir. Auk þess ættu foreldrar að hvetja til fleiri prestdæmisblessana í fjölskyldu sinni.
Faðir er „jafningi“ eiginkonu sinnar, líkt og kennt er í yfirlýsingunni um fjölskylduna. Feður, þegar þið njótið þeirra forréttinda að iðka kraft og áhrif prestdæmisvalds ykkar, gerið það þá „með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást“ (K&S 121:41). Þessi hái staðall til iðkunar prestdæmisvaldsins er mikilvægastur í fjölskyldunni. Harold B. Lee forseti gaf þetta loforð stuttu eftir að hann varð forseti kirkjunnar: „Aldrei er kraftur prestdæmisins, sem þið búið yfir, jafn dásamlegur og þegar áfall hefur orðið á heimilinu, alvarlegur sjúkdómur eða taka þarf mikilvæga ákvörðun. … Valdsréttur prestdæmisins, sem er vald almáttugs Guðs, er valdið til að framkvæma kraftaverk, ef vilji Drottins stendur til þess, en til þess að við getum notað prestdæmið, verðum við að vera verðugir þess. Skilningsbrestur á þessari reglu kemur í veg fyrir að blessanir þess að hafa hið undursamlega prestdæmi veitist okkur.“
Kæru bræður, að efla hið heilaga prestdæmi, sem þið hafið, er nauðsynlegt fyrir verk Drottins í fjölskyldu ykkar og kirkjuköllunum.
Ég ber vitni um hann, hvers prestdæmi þetta er. Sökum þjáninga hans, friðþægingarfórnar og upprisu, geta allir karlar og konur verið fullviss um ódauðleika og tækifæri til eilífs lífs. Sérhver okkar ætti að sýna trúfesti og kostgæfni við okkar hlut þessa mikla verks Guðs, okkar eilífa föður, í nafni Jesú Krists, amen.