Spámaður Guðs
Spámaður stendur ekki á milli ykkar og frelsarans. Hann stendur fremur við hlið ykkar og vísar veginn til frelsarans.
Ég býð líka öldung Gerrit Gong og öldung Ulisses Soares velkomna í hið einstæða bræðralag Tólfpostulasveitarinnar.
Þegar við studdum Russell M. Nelson forseta sem spámann Drottins og sem forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, tókum við þátt í guðlega tilskipuðum hátíðarfundi – hátíðarfundi sökum þess að viðburðir síðustu klukkustundar hafa verið fyrirséðir á himnum frá upphaf heimsins. Drottinn Jesús Kristur, sem er í forsvari verks síns á jörðu, hefur í dag, með Eyring forseta, kynnt fyrir okkur, sáttmálsfólki sínu, spámann sinn, sinn smurða leiðtoga, sem gerir okkur mögulegt að sýna fúsleika okkar til að styðja hann og fylgja leiðsögn hans.
Ég vil að þeir milljónir meðlima, sem ekki eru hér í Ráðstefnuhöllinni, viti að andi Drottins í þessari byggingu, meðan á stuðningi Nelsons forseta stóð, var nákvæmlega sá sem þið hefðuð vænst – fylltur andlegum krafti. Þessi hátíðarfundur, undir handleiðslu himins, er ekki einungis hér í Ráðstefnuhöllinni, heldur víða um heim; í kapellum í Asíu, Afríku, Norður-Ameríku; á heimilum í Mið- og Suður-Ameríku og Evrópu; á þéttsetnum veröndum á Kyrrahafseyjum og eyjum sjávar. Þessi hátíðarfundur er hvarvetna í heimi þar sem þið eruð stödd, jafnvel þótt einungis sé um að ræða hljóðtengingu í snjallsíma ykkar. Handauppréttingar okkar voru ekki taldar af biskupum okkar, heldur var vissulega eftir þeim tekið á himnum, líkt og sáttmálsgjörð okkar við Guð og breytni okkar er skráð í bók lífsins.
Drottinn velur spámann sinn
Drottinn velur sjálfur spámann sinn. Engin atkvæðaöflun á sér stað, engar kappræður, engin keppni um stöður, enginn ágreiningur, vantraust, glundroði eða uppnám. Ég staðfesti líka að kraftur himins var með okkur í efri sal musterisins, er við komum bænheitir umhverfis Nelson forseta og fundum óneitanlega velþóknun Drottins yfir honum.
Tilnefning Nelsons forseta sem spámanns Guðs átti sér stað fyrir löngu síðan. Orð Drottins til Jeremía eiga líka við um Nelson forseta: „Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig. Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna!“ Fyrir einungis þremur árum, þegar öldungur Nelson var níræður, hafði hann fjórða lengsta starfsaldurinn og tveir af þremur postulum sem höfðu lengri starfsaldur, voru yngri en hann var þá. Drottinn, sem stjórnar lífi og dauða, velur spámann sinn. Nelson forseti, sem nú er 93 ára, er við hestaheilsu. Við vonum að hann verði meðal okkar einn áratug eða tvo í viðbót, en sem stendur erum við að reyna að sannfæra hann um að halda sig frá skíðabrekkunum.
Þótt við heiðrum spámanninn sem hinn smurða Drottins, skal það verða ljóst að við tilbiðjum einungis Guð, okkar himneska föður og hans guðlega son. Það er fyrir verðleika, miskunn og náð frelsara okkar, Jesú Krists, að við getum einhvern daginn gengið inn til návistar þeirra.
Ástæða þessa að við fylgjum spámanninum
Jesús kenndi þó mikilvægan sannleika um þá þjóna sem hann sendir okkur. Hann sagði: „Sá sem tekur við yður, tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig.“
Mikilvægasta hlutverk spámanns Drottins, er að kenna og vitna um frelsarann og leiða okkur til hans.
Það eru margar rökrænar ástæður fyrir því að fylgja Russell M. Nelson forseta. Þeir sem ekki eru okkar trúar, myndu jafnvel segja hann afburðasnjallan. Hann varð læknir 22 ára, virtur hjartaskurðlæknir og frægur frumkvöðull í þróun opinna hjartaskurðaðgerða.
Margir myndu játa visku hans og dómgreind: Hann hefur að baki níu áratuga lærdóm um lífið og dauðann, hann hefur sýnt óeigingirni í lífi sínu og elskað og kennt börnum Guðs hvarvetna um heim og býr yfir þeirri miklu reynslu að eiga 10 börn, 57 barnabörn og 118 barnabarnabörn (þessar tölur breytast oft og reglubundið; barnabarnabarn, drengur, fæddist síðastliðinn miðvikudag).
Þeir sem þekkja hann vel gætu sagt frá því að Nelson forseti hafi upplifað erfiðleika lífsins og verið trúr og hugdjarfur. Þegar krabbamein varð 37 ára gamalli dóttur hans, Emily, að aldurtila og hún skildi eftir sig ástkæran eiginmann og fimm ung börn, heyrði ég hann segja: „Ég var faðir hennar, læknir og postuli Drottins Jesú Krists, en ég varð að beygja höfuð mitt … og viðurkenna: ,Verði þinn en ekki minn vilji.‘“
Varðmaður í turni
Af hverju styðjum við Nelson forseta, burt séð frá hans góðu eiginleikum? Af hverju fylgjum við spámanninum? Vegna þess að Drottinn Jesús Kristur hefur kallað hann og tilnefnt sem varðmann sinn í turni.
Carcassonne er merkileg víggirt miðaldarborg í Frakklandi. Háir turnar standa upp úr varnarmúrnum, ætlaðir varðmönnum daga og nætur, til að skima eftir óvinum í fjarlægð. Þegar varðmaður sá óvini nálgast, hrópaði hann og varaði íbúa Carcassonne við aðsteðjandi hættu, sem þeim var ómögulegt að sjá sjálfir.
Spámaður er varðmaður í turni, sem varar við andlegum hættum sem gætu verið utan sjónsviðs okkar.
Drottinn sagði við Esekíel: „[Þig] hefi ég skipað varðmann fyrir Ísraels hús, til þess að þú varir þá við fyrir mína hönd, er þú heyrir orð af munni mínum.“
Oft tölum við um nauðsyn þess fyrir okkur að fylgja spámanninum, en íhugið þá þungu byrði sem Drottinn hefur sett á spámann sinn: „[Ef] þú segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við breytni hans, [og hinn óguðlegi deyr] fyrir misgjörð sína, [mun] blóðs hans [krafist] af þinni hendi.“
Aukinn persónulegur vitnisburður
Við meðtökum Nelson forseta eins og við hefðum meðtekið Pétur eða Móse, ef við hefðum verið uppi á þeirra tíma. Guð sagði við Móse: „Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla.“ Við hlýðum í trú á orð spámanns Drottins, „sem kæmi það af [Drottins] eigin munni.“
Er þetta blind trú? Nei, hún er það ekki. Sérhvert okkar hefur hlotið andlegt vitni um sannleiksgildi endurreisnar fagnaðarerindis Jesú Krists. Að eigin vilja og vali, réttum við upp hönd nú í morgun, og lýstum yfir þeirri þrá að styðja spámann Drottins með „trausti [okkar], trú og bænum“ og að hlíta leiðsögn hans. Við njótum þeirra forréttinda, sem Síðari daga heilagir, að hljóta sjálf staðfestingu um að köllun Nelsons forseta sé frá Guði. Þótt eiginkona mín, Kathy, hafi þekkt Nelson forseta persónulega í nær þrjá áratugi og sé í engum vafa um guðlega köllun hans, um embættisvígslu hans, tók hún samt að lesa allar ræður hans, 34 ár aftur í tímann, biðjandi um enn frekari fullvissu um spámannlegt hlutverk hans. Ég heiti ykkur því að þetta æðra vitni mun gefast ykkur, ef þið keppið að því af auðmýkt og verðugleika.
Af hverju erum við svo fús að hlíta orðum spámanns okkar? Orð spámannsins sér þeim sem leita eilífs lífs af kostgæfni, fyrir andlegu öryggi á afar ótryggum tímum.
Við búum í heimi ótal háværra radda. Alnetið, snjallsímar og hverskyns skemmtimiðlar, allt þetta kallar á athygli okkar og þröngvar áhrifum sínum upp á okkur, í von um að við kaupum vörur og tileinkum okkur staðla.
Allar þessar óendanlegu upplýsingar og skoðanir kalla fram í hugann hina ritningarlegu viðvörun um að láta ,hrekjast og berast fram og aftur,“ „[hrakin] fyrir vindi,“ undirokuð af „vélabrögðum villunnar“ og „tæld af slægum mönnum.“
Að rótfesta sál okkar við Drottin Jesú Krist, krefst þess að við hlustum á þá sem hann sendir. Að fylgja spámanninum í ólgandi heimi, er líkt og að vera umvafinn mjúkri og hlýrri ábreiðu á ísköldum degi.
Við búum í heimi ályktana, kappræðna, deilna, röksemda og útskýringa. Að efast og spyrja „af hverju“ er jákvætt á svo mörgum sviðum lífsins, þar sem vitsmunir okkar fá að njóta sín meðal ótal valkosta og ákvarðana sem við stöndum dag hvern frammi fyrir.
Orð Drottins berst þó oft án útskýringa. Löngu áður en fræðimenn tóku að kynna sér áhrif ótryggðar á traust maka og barna, hafði Drottinn lýst yfir: „Þú skalt ekki drýgja hór.“ Við virðum gjöf heilags anda meira, en að treysta einungis á eigin dómgreind.
Látið ykkur ekki bregða
Orð spámannsins, sem oft eru sett fram ljúflega, munu oft vera rödd sem hvetur okkur til breytinga, til iðrunar og að snúa aftur til Drottins. Þegar þörf er á lagfæringu, ættum við ekki að slá henni á frest. Látið ykkur heldur ekki bregða þó aðvörunarorð spámannsins séu andstæð vinsælum skoðunum okkar tíma. Háðungarlogum reiðra vantrúaðra er ávallt fleygt fram um leið og spámaðurinn lýkur upp munni sínum. Ef þið fylgið auðmjúk leiðsögn spámanns Drottins, heiti ég ykkur auknum blessunum öryggis og friðar.
Látið það ekki setja ykkur út af laginu þótt einhverjar skoðanir ykkar kunni í upphafi að stangast á við kennslu spámanns Drottins. Þetta eru tímar lærdóms og auðmýktar, er við krjúpum í bæn eftir svörum. Við sækjum fram í trú, treystum Guði, í þeirri vissu að við munum í rás tímans fá aukinn andlegan skilning frá föður okkar á himnum. Einn spámaður lýsti hinni óviðjafnanlegu gjöf frelsarans svo: „Vilji sonarins innbyrðist í vilja föðurins.“ Að beygja sig undir vilja Guðs, er í raun alls engin uppgjöf, heldur upphafið að dýrðlegum sigri.
Sumir munu leggja of mikið á sig við að reyna að greina hvaða orð spámannsins séu hans spámannlegu orð og hver hans eigin.
Árið 1982, tveimur árum áður en hann var kallaður sem aðalvaldhafi, sagði bróðir Russell M. Nelson: „Ég spyr aldrei sjálfan mig: ,Hvenær mælir spámaður sem spámaður og hvenær ekki?‘ Áhugasvið mitt hefur verið: ,Hvernig get ég orðið líkari honum?‘“ Hann bætti við: „Ég hef [einsett mér að] setja ekki spurningarmerki aftan við yfirlýsingar hans, heldur fremur upphrópunarmerki.“ Á þennan hátt ákveður auðmjúkur og andlegur maður að haga lífi sínu. Nú, 36 árum síðar, er hann spámaður Drottins.
Auka trú ykkar á frelsarann
Í mínu eigin lífi hef ég uppgötvað að þegar ég ígrunda orð spámanns Guðs vandlega og af kostgæfni og reyni skref fyrir skref að laga vilja minn að hans innblásnu kenningum, mun trú mín á Drottin Jesú Krist ætíð styrkjast. Ef við leiðum hjá okkur leiðsögn hans og teljum okkur vita betur, mun trú okkar veikjast og draga mun úr eilífri yfirsýn okkar. Ég lofa ykkur, að ef þið einsetjið ykkur stöðugt að fylgja spámanninum, mun trú ykkar á frelsarann styrkjast.
Frelsarinn sagði: „Allir spámennirnir … hafa vitnað um mig.“
Spámaður stendur ekki á milli ykkar og frelsarans. Hann stendur öllu heldur við hlið ykkar og vísar veginn til frelsarans. Æðsta ábyrgð og dýrmætasta gjöf spámanns til okkar er hans örugga vitni, hans örugga þekking, um að Jesús er Kristur. Líkt og Pétur til forna, þá lýsir spámaður okkar yfir: „[Hann er] Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“
Dag einn, er við horfum til baka yfir jarðlíf okkar, munum við gleðjast yfir því að hafa gengið á jörðu á tíma lifandi spámanns. Á þeim degi bið ég þess að við getum sagt:
Við hlýddum á hann.
Við trúðum honum.
Við ígrunduðum orð hans af þolinmæði og trú.
Við báðum fyrir honum.
Við studdum hann.
Við vorum nægilega auðmjúk til að fylgja honum.
Við elskuðum hann.
Ég ber hátíðlega vitni um að Jesús er Kristur, frelsari okkar og lausnari og að Russell M. Nelson forseti er hinn smurði spámaður hans á jörðu. Í nafni Jesú Krists, amen.