2010–2019
Iðka, iðka, iðka
Október 2018


Iðka, iðka, iðka

Frelsarinn er að rita nafn sitt á hjörtu ykkar. Þið finnið fyrir hinni hreinu ást Krists til annarra og ykkar sjálfra.

Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til að tala til ykkar. Þessi ráðstefna hefur verið mér upplyftandi og fræðandi. Söngurinn og hið talaða orð hafa fyllt okkur innblæstri heilags anda. Ég bið þess að orð mín megi berast ykkur af þeim sama anda.

Fyrir mörgum árum var ég fyrsti ráðgjafi umdæmisforseta í austurhluta Bandaríkjanna. Oftar en einu sinni, er við ókum til litlu greinanna okkar, sagði hann við mig: „Hal, komdu fram við alla sem þú hittir eins og þeir ættu í miklum erfiðleikum og þú munt í flestum tilvikum hafa rétt fyrir þér.“ Hann hafði ekki einungis rétt fyrir sér, heldur hefur mér lærst í áranna rás að hann vanmat fjöldann. Í dag vil ég hughreysta ykkur í þeim erfiðleikum sem þið glímið við.

Jarðlíf okkar er hannað af kærleiksríkum Guði, til að vera hverju okkar uppspretta prófraunar og vaxtar. Þið munið eftir orðum Guðs til barna sinna við sköpun heimsins: „Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim.“

Allt frá upphafi hafa prófraunirnar ekki reynst svo auðveldar. Við tökumst á við raunir sem tengjast því að hafa jarðneskan líkama. Við dveljum öll í heimi þar sem stríð Satans gegn sannleikanum og persónulegri hamingju okkar er orðið hatrammara. Heimurinn og líf ykkar getur virst í stöðugt auknu uppnámi.

Fullvissa mín er þessi: Hinn kærleiksríki Guð, sem leyfir þessar prófraunir í ykkar þágu, hefur líka séð okkur fyrir öruggri leið í gegnum þær. Himneskur faðir elskaði svo heiminn að hann sendi eingetinn son sinn okkur til hjálpar. Sonur hans, Jesús Kristur, gaf líf sitt í okkar þágu. Jesús Kristur bar alla syndabyrði okkar í Getsemane og á krossinum. Hann upplifði allar sorgir, allan sársauka og áhrif synda okkar, svo hann gæti huggað og styrkt okkur í gegnum allar prófraunir lífsins.

Þið munið eftir því að Drottinn sagði við þjóna sína:

„Faðirinn og ég erum eitt. Ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Og þar eð þér hafið tekið á móti mér, eruð þér í mér og ég í yður.

Ég er þess vegna mitt á meðal yðar, og ég er góði hirðirinn og klettur Ísraels. Sá, sem byggir á þessu bjargi, mun aldrei falla.“

Spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, hefur líka veitt þessa sömu fullvissu. Þar að auki hefur hann bent á hvernig við getum byggt á því bjargi og haft nafn Drottins í hjörtum okkar til að leiða okkur í gegnum raunir okkar.

Hann sagði: „Þið sem gætuð um stund verði kjarklaus, hafið í huga að lífinu var ekki ætlað að vera auðvelt. Raunir eru nauðsynlegar og sorgin er látin viðgangast á lífsins leið. Hafið í huga að ‚Guði er enginn hlutur um megn‘ (Lúk 1:37) og vitið að hann er faðir ykkar. Þið eruð synir eða dætur, sköpuð í hans mynd, og eigið rétt á opinberun, fyrir eigin verðugleika, ykkur til hjálpar við réttláta viðleitni. Ykkur er heimilt að taka á ykkur hið heilaga nafn Drottins. Þið getið verið hæf þess að mæla í hinu heilaga nafni Guðs (sjá K&S 1:20).”

Orð Nelsons forseta minna okkur á loforðið sem finna má í sakramentisbæninni, loforð sem himneskur faðir uppfyllir, þegar við gerum það sem við lofum að gera á móti.

Hlýðið á orðin: „Ó Guð, eilífi faðir. Í nafni sonar þíns, Jesú Krists, biðjum vér þig að blessa og helga þetta brauð fyrir sálir allra, er þess neyta; að þau neyti þess til minningar um líkama sonar þíns og vitni fyrir þér, ó Guð, eilífi faðir, að þau séu fús til að taka á sig nafn sonar þíns og hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, sem hann hefur gefið þeim, svo að andi hans sé ætíð með þeim. Amen.“

Í hvert sinn sem við segjum orðið amen þegar þessi bæn er flutt í okkar þágu, heitum við því, að með því að meðtaka brauðið, séum við fús til að taka á okkur hið heilaga nafn Jesú Krists, að hafa hann ávallt í huga og að halda boðorð hans. Á móti er okkur lofað að andi hans verði ætíð með okkur. Vegna þessara loforða, er frelsarinn bjargið sem við getum staðið örugg og óttalaus á í sérhverjum stormi sem á okkur blæs.

Þegar ég hef ígrundað þessi sáttmálsorð og loforðin þeim tengdum, hef ég velt fyrir mér merkingu þess að vera fús til að taka á sig nafn Jesú Krists.

Dallin H. Oaks forseti útskýrir: „Mikilvæg er að skilja að þegar við meðtökum sakramentið, erum við ekki að staðfesta að við tökum á okkur nafn Jesú Krists. Við staðfestum að við séum fús til að gera það. (Sjá K&S 20:77.) Sú staðreynd að við staðfestum einungis fúsleika okkar, gefur vísbendingu um að eitthvað annað þurfi að gerast áður en við tökum í raun á okkur hið heilaga nafn, í orðsins fyllstu merkingu.“

Sú yfirlýsing að vera „fús til að taka á sig“ nafn frelsarans, gefur í skyn að þegar við tókum nafn hans fyrst á okkur við skírn var því ekki lokið þá. Við verðum að vinna að því stöðugt alla ævi að taka á okkur nafn hans, einnig er við endurnýjum sáttmála okkar við sakramentisborðið og gerum sáttmála í hinu helga musteri Drottins.

Hvert okkar þarf því að spyrja sig tveggja mikilvægra spurninga: „Hvað þarf ég að gera til að taka á mig nafn hans?“ og „hvernig veit ég að ég tek framförum?“

Í yfirlýsingu Nelsons forseta er að finna gagnlegt svar. Hann sagði að við gætum tekið á okkur nafn frelsarans og að við gætum talað fyrir hans hönd. Þegar við tölum fyrir hans hönd, þjónum við honum. „Því að hvernig á maður að þekkja húsbónda, sem hann hefur ekki þjónað, sem er honum ókunnugur og hugsunum hans og hjartans ásetningi fjarlægur?“

Þetta krefst trúarbænar að tala fyrir hann. Það krefst heitrar bænar til himnesks föður, að komast að því hvaða orð við gætum mælt til að hjálpa frelsaranum við verk hans. Við verðum að samstilla okkur loforðinu: „Hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu.“

Meira þarf þó að koma til en að tala fyrir hans hönd við að taka á sig nafn hans. Við þurfum að hljóta ákveðnar hjartans tilfinningar til að verða hæfir þjónar hans.

Spámaðurinn Mormón lýsti þeim tilfinningum sem gera okkur hæf og kleift að taka á okkur nafn hans. Þessar tilfinningar eru meðal annars trú, von og kærleikur, sem er hina hreina ást Krists.

Mormón útskýrði:

„Því að ég vænti þess, að þér trúið á Krist vegna þess hve bljúgir þér eruð. Því að ef þér trúið ekki á hann, eruð þér ekki hæfir til að teljast meðal þeirra, sem í kirkju hans eru.

Og enn fremur, ástkæru bræður mínir, vil ég ræða við yður um von. Hvernig getið þér eignast trú án þess að eiga von?

Og í hverju skal von yðar fólgin? Sjá, ég segi yður, að þér skuluð eiga von fyrir friðþægingu Krists og kraft upprisu hans, að vera reistir til eilífs lífs, og það vegna trúar yðar á hann, í samræmi við fyrirheitið.

Eigi maðurinn því trú, hlýtur hann að eiga von, því að án trúar er enga von að hafa.

Og sjá, ég segi yður enn fremur, að hann getur ekki átt trú og von án þess að hann sé hógvær og af hjarta lítillátur.

Án þess er trú hans og von til einskis, því að enginn er Guði velþóknanlegur, nema hinn hógværi og af hjarta lítilláti. Og ef maðurinn er hógvær og af hjarta lítillátur og játar með krafti heilags anda, að Jesús sé Kristur, hlýtur hann að eiga kærleika. Því að skorti hann kærleika, er hann ekkert. Þess vegna verður hann að eiga kærleika.“

Eftir að hafa lýst kærleika, heldur Mormón áfram og segir:

„En kærleikurinn er hin hreina ást Krists og varir að eilífu. Og hverjum þeim, sem reynist eiga hann á efsta degi, honum mun vel farnast.

Biðjið þess vegna til föðurins, ástkæru bræður mínir, af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists; að þér megið verða synir Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er; að vér megum eiga þessa von; að vér megum verða hreinir eins og hann er hreinn. Amen.“

Ég ber því vitni að frelsarinn er að rita nafn sitt á hjörtu ykkar. Hvað mörg ykkar varðar, er trú ykkar á hann að styrkjast. Þið upplifið aukna von og bjartsýni. Þið finnið fyrir hinni hreinu ást Krists til annarra og ykkar sjálfra.

Ég sé þetta gerast hjá trúboðum sem þjóna víða um heim. Ég sé þetta gerast hjá meðlimum sem ræða við vini og fjölskyldu um Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Karlar, konur, ungt fólk og jafnvel börn þjóna af elsku til frelsara sína og náungans.

Um leið og tilkynnt er um hörmungar um heiminn, ráðgera meðlimir að koma til bjargar, stundum yfir sjó og haf, án þess að vera kvaddir til þess. Stundum reynist þeim erfitt að bíða uns hægt er að taka á móti þeim á hörmungarsvæðunum.

Mér er ljóst að sumum ykkar sem hlýðið á í dag gæti fundist að trú ykkar og von láti undan síga fyrir erfiðleikum ykkar. Þið þráið þá að finna elsku.

Bræður og systur, Drottinn hefur komið því svo fyrir að þið getið fundið og miðlað elsku hans í ykkar nánasta umhverfi. Þið getið beðið fyrir því af fullvissu að Drottinn leiði ykkur til einhvers í hans þágu. Hann svarar bænum bljúgra sjálfboðaliða eins og þið eruð. Þið munuð finna elsku Guðs til ykkar og þess sem þið þjónið í hans þágu. Þegar þið liðsinnið börnum Guð í vanda þeirra, virðist ykkar vandi minni. Trú ykkar og von munu eflast.

Ég er sjónarvottur að þeim sannleika. Á æviárum sínum hefur eiginkona mín talað við Drottin og þjónað fólki í hans þágu. Líkt og ég hef áður sagt, þá sagði einn biskup okkar eitt sinn við mig: „Ég er agndofa. Í hver sinn er ég frétti af einhverjum í deildinni sem á erfitt, bregst ég skjótt við. Þegar ég hins vegar kem á staðinn virðist eiginkona þín þegar hafa verið þar.“ Þannig hefur það verið á öllum þeim stöðum sem við höfum búið á í 56 ár.

Nú getur hún aðeins mælt nokkur orð á dag. Hún er heimsótt af fólki sem hún elskaði fyrir Drottin. Á hverju kvöldi og morgni syng ég sálm með henni og biðst fyrir. Ég verð sjálfur að flytja bænina og syngja sálminn. Stundum sé ég hana reyna að þylja upp orð sálmsins. Hún kýs fremur barnasöngva. Boðskapurinn sem snertir hana mest kemur fram í söngnum: „Mig langar að líkjast Jesú.“

Um daginn, eftir að hafa sungið viðlagsstefið: „Elskum hver annan sem elskaði hann. Iðkandi vinsemd við hvern og einn mann,“ sagði hún ljúft en skýrt: „Iðka, iðka, iðka.“ Ég held að hún muni finna, er hún sér frelsarann aftur, að hann hefur ritað nafn sitt á hjarta hennar og að hún er orðin lík honum. Hann ber hana í gegnum erfiðleika hennar, líkt og hann gerir við ykkur.

Ég ber ykkur vitni um að frelsarinn þekkir og elskar ykkur. Hann þekkir nafn ykkar, líkt og þið þekkið hans. Hann er kunnugur erfiðleikum ykkar. Hann hefur upplifað þá. Hann hefur sigrað heiminn með friðþægingu sinni. Með því að vera fús til að taka á ykkur nafn hans, munið þið létta byrðar ótal annarra. Að því mun koma að þið finnið að þið þekkið frelsarann betur og að þið elskið hann heitar. Nafn hans mun verða í hjarta ykkar og stöðugt í huga ykkar. Það er nafnið sem þið verðið kölluð með. Um það ber ég vitni af þakklæti fyrir gæsku hans til mín, ástvina minna og ykkar, í nafni Jesú Krists, amen.