2010–2019
Trúboðsstarf: Gefa af hjartans list
Apríl 2019


Trúboðsstarf: Gefa af hjartans list

Tækifærin eru ótal mörg, hvar sem þið búið á jörðunni, til að miðla gleðitíðindum fagnaðarerindis Jesú Krists.

Í síðasta mánuði var hinum Tólf boðið af okkar ástkæra spámanni, Russell M. Nelson forseta, að vera honum samferða til vígslu Rómarmusterisins í Ítalíu. Á ferðalaginu varð mér hugsað um Pál postula og ferðir hans. Á hans tíma hefði tekið 40 daga að ferðast frá Jerúsalem til Rómar. Á okkar tíma tekur það tæplega 3 klukkustundir með einni minni eftirlætis flugvél.

Biblíufræðingar telja Páll hafa verið í Róm er hann ritaði suma pistla sinna, sem gegndu lykilhlutverki í því að styrkja meðlimi kirkjunnar á þeim tíma, sem og á okkar tíma.

Páll og aðrir meðlimir kirkjunnar á fyrri tímum, hinir fyrri daga heilögu, voru vel kunnir fórnum. Margir voru grimmilega ofsóttir, jafnvel til dauða.

Á síðustu 200 árum hafa meðlimir hinnar endurreistu kirkju Jesú Krists, hinir Síðari daga heilögu, einnig þurft að þola hvers kyns ofsóknir. Þrátt fyrir ofsóknirnar (eða kannski vegna þeirra), hefur Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu haldið áfram að vaxa og er nú víða um heim.

Margt er ógert

Áður en við bökum köku, skeytum hana og óskum okkur til hamingju með þennan merka árangur, væri hins vegar gott að setja þennan vöxt í rétt samhengi.

Á jörðunni búa um sex og hálfur milljarður manna, en meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru einungis 16 milljónir – vissulega afar lítil hjörð í samanburði.

Samtímis fer fjöldi kristinna manna fækkandi á vissum stöðum í heiminum.

Jafnvel í hinni endurreistu kirkju Drottins eru margir sem ekki gera tilkall til blessana með reglulegri kirkjuþátttöku – þótt meðlimum fari í heild fjölgandi.

Með öðrum orðum, þá eru tækifærin ótal mörg, hvar sem þið búið á jörðunni, til að miðla gleðitíðindum fagnaðarerindis Jesú Krists meðal fólks sem þið hittið, lærið með, búið með, starfið með og blandið geði við.

Á síðasta ári veittist mér spennandi tækifæri til að taka virkan þátt í hinu heimslæga trúboðsstarfi kirkjunnar. Ég hef oft íhugað og beðist fyrir varðandi hið mikla boð frelsarans til lærisveina sinna – okkar, barna hans: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.“

Ég glímdi við spurninguna: „Hvernig geta meðlimirnir og lærisveinar Krists framfylgt betur þessu mikla boði í daglegu lífi?“

Í dag býð ég ykkur að íhuga þessa sömu spurningu í hjarta og huga.

Gjöf til trúboðsstarfs

Um áratugaskeið hafa kirkjuleiðtogar lagt áherslu á básúnukallið: „Sérhver meðlimur trúboði!“

Meðlimir kirkju Jesú Krists – bæði í fortíð og nútíð – hafa af áhuga og gleði deilt fagnaðarerindinu með vinum og kunningjum. Hjörtu þeirra brenna í vitnisburðinum um Jesú Krist og þeir vilja einlæglega að aðrir upplifi sömu gleði og þeir hafa fundið í fagnaðarerindi frelsarans.

Sumir meðlimir kirkjunnar virðast hafa þetta að gjöf. Þeir hafa dálæti á að vera erindrekar fagnaðarerindisins. Þeir þjóna af ákafa og gleði og eru leiðandi í verkinu sem meðlimatrúboðar.

Aðrir halda meira að sér höndum. Þegar rætt er um trúboðsstarf á kirkjusamkomum, síga höfuðin hægt að baki sætisbekkjanna, augun skima niður í ritningarnar eða eru lokuð í djúpri hugleiðslu, til að forðast augnsamband við aðra meðlimi.

Hvers vegna er það svo? Ef til vill finnum við til sektar yfir því að gera ekki meira til að deila fagnaðarerindinu. Ef til vill erum við ekki viss um hvernig á að bera sig að. Við gætum líka bara verið of huglítil til að fara út fyrir þægindaramma okkar.

Ég skil þetta.

Munið samt að Drottinn hefur aldrei gert kröfu um snjallt, gallalaust trúboðsstarf. En „Drottinn krefst hjartans og viljugs huga.“

Ef þið takið þegar þátt í trúboðsstarfi af gleði, haldið því þá áfram og sýnið öðrum fordæmi. Drottinn mun blessa ykkur.

Finnist ykkur hins vegar að þið dragið lappirnar við að miðla fagnaðarerindinu, þá ætla ég að gefa ykkur fimm sektarlaus ráð sem allir geta tileinkað sér til að taka þátt í hinu mikla boði frelsarans um að safna saman Ísrael?

Fimm einföld ráð

Í fyrsta lagi, að nálgast Guð. Hið fyrsta mikla boðorð er að elska Guð. Það er megin ástæða þess að við erum á jörðunni. Spyrjið ykkur sjálf: „Trúi ég raunverulega á himneskan föður?“

„Elska ég hann og treysti honum?“

Því nær sem þið komist himneskum föður, því bjartari verður ljósið og gleðin hið innra. Aðrir taka eftir einhverju sérstöku í fari ykkar. Þeir munu spyrja um það.

Í öðru lagi, fyllið hjartað af kærleika til annarra. Þetta er næstæðsta boðorðið. Reynið í raun að sjá alla umhverfis eins og barn Guðs. Þjónið þeim – hvort heldur nöfn þessara bræðra og systra eru á þjónustulista ykkar eða ekki.

Hlægið með þeim. Fagnið með þeim. Grátið með þeim. Virðið þau. Læknið, uppörvið og styrkið þau.

Leggið kapp á að tileinka ykkur ást Krists og hafið samúð með öðrum, jafnvel með þeim sem eru óvingjarnlegir, sem hæða ykkur og vilja ykkur illt. Elskið þá og umgangist þá eins og önnur börn himnesks föður.

Í þriðja lagi, kappkostið að ganga veg lærisveinsins. Ef elska ykkar til Guðs og barna hans eykst, eykst einnig skuldbinding ykkar um að fylgja Jesú Kristi.

Þið lærið að þekkja hátt hans með því að endurnærast af orði hans og tileinka ykkur kenningar nútíma spámanna og postula. Þið eflist að trausti og kjarki við að fylgja veg hans, þegar þið eigið samskipti við himneskan föður af námfúsu og auðmjúku hjarta.

Það krefst þjálfunar að ganga leið lærisveinsins –, lítið eitt alla daga, „náð á náð ofan,“ „ýmist hitt, ýmist þetta.“ Stundum tvö skref áfram og eitt afturábak.

Mikilvægt er að gefast ekki upp; haldið áfram þar til árangri er náð. Þið verðið að lokum færari, hamingjusamari og áreiðanlegri. Það verður eðlilegt og einleikið að tala við aðra um trú ykkar. Reyndar verður fagnaðarerindið slíkur ómissandi og dýrmætur hluti lífs ykkar, að það verður óeðlilegt að tala ekki við einhvern um það. Þetta gerist kannski ekki samstundis – þetta er ævilangt erfiði. Það mun hins vegar gerast.

Í fjórða lagi, deila því sem í hjarta ykkar er. Ég er ekki að bjóða ykkur að standa á gatnamótum með gjallarhorn og hrópa upp vers úr Mormónsbók. Það sem ég er að bjóða er að þið leitið tækifæris til að ræða trú ykkar í venjulegum og eðlilegum samskiptum við fólk – bæði í eigin persónu og á netinu. Ég er að biðja ykkur að „standa sem vitni“ öllum stundum, um kraft fagnaðarerindisins – og þegar nauðsyn krefur, að nota orð.

Sökum þess að „fagnaðarerindið … er kraftur Guðs til hjálpræðis,“ getið þið verið örugg, djörf og auðmjúk er þið deilið því. Öryggi, dirfska og auðmýkt gætu sýnst vera andstæðir eiginleikar, en þeir eru það ekki. Þeir endurspegla boð frelsarans um að setja ekki gildi og reglur fagnaðarerindisins undir mæliker, heldur að láta ljós ykkar skína, svo að góð verk ykkar vegsami föður ykkar á himni.

Þetta er hægt að gera eðlilega á ótal vegu, til dæmis með daglegum góðverkum, með persónulegum vitnisburði á YouTube, Facebook, Instagram eða Twitter og í einföldum samtölum við fólk sem þið mætið. Á þessu ári lærum við Nýja Testamentið á heimilum okkar og í sunnudagsskólanum. Hvílíkt dásamlegt tækifæri að bjóða vinum og nágrönnum í kirkju og á heimili ykkar til að læra með ykkur um frelsarann. Miðlið þeim Gospel Library appinu, þar sem finna má námsefnið Kom, fylg mér. Ef þið þekkið ungt fólk og fjölskyldur þess, gefið þeim þá ritið Til styrktar æskunni og bjóðið þeim að koma og sjá æskufólkið okkar reyna að lifa eftir þessum reglum.

Ef einhver spyr um helgina, hikið þá ekki við að tala um upplifun ykkar í kirkjunni. Segið frá litlu börnunum sem af ákafa sungu frammi fyrir söfnuðinum um hvernig þau reyna að líkjast Jesú. Segið frá unglingunum sem gáfu sér tíma til að liðsinna eldri borgurum á dvalarheimilum við söfnun frásagna eigin lífs. Segið frá hinum nýlegu breytingum á samkomudagskrá sunnudaga og hvernig þær hafa orðið fjölskyldu ykkar til blessunar. Útskýrið afhverju við leggjum svo ríka áherslu á að þetta er kirkja Jesú Krists og að við erum Síðari daga heilög, á sama hátt og meðlimir kirkjunnar til forna voru kallaðir heilagir.

Segið frá því hvers vegna Jesús Kristur og kirkja hans eru ykkur mikilvæg, á allan þann hátt sem ykkur er eðlilegt og einleikið. Bjóðið þeim að „kom[a] og sjá.“ Bjóðið þeim að koma og hjálpa. Ótal tækifæri gefast fólki til að hjálpa í kirkju.

Biðjið ekki einungis þess að trúboðarnir finni hina kjörnu. Biðjið daglega af öllu hjarta um að finna þá sem vilja koma og sjá, koma og hjálpa, og koma og dvelja áfram. Hafið fastatrúboðana með í ráðum. Þeir eru eins og englar, alltaf reiðubúnir til aðstoðar!

Þegar þið deilið gleðitíðindunum, fagnaðarerindi Jesú Krists, gerið það þá af kærleika og þolinmæði. Ef samskiptin við fólk snúast eingöngu um að koma því í hvítan samfesting á sem skemmstum tíma, svo það biðji um leiðbeiningar að næsta skírnarfonti, þá stöndum við ekki rétt að málum.

Sumir sem koma og sjá, munu ef til vill aldrei ganga í kirkjuna; sumir gera það um síðir. Þeirra er valið. Það breytir ekki elsku okkar til þeirra. Það breytir heldur ekki áhuga okkar á því að halda því verki áfram að bjóða fólki og fjölskyldum að koma og sjá, koma og hjálpa og koma og dvelja áfram.

Í fimmta lagi, treystið á að Drottin geri kraftaverk. Skiljið að það er ekki ykkar verk að snúa fólki. Það er hlutverk heilags anda. Ykkar hlutverk er að gefa af hjartans list og lifa samkvæmt trú ykkar.

Verið því ekki dauf í dálkinn þótt einhver taki ekki samstundis við boðskap fagnaðarerindisins. Þið hafið ekki brugðist.

Það er mál viðkomandi einstaklings og himnesks föður.

Ykkar er að elska Guð og elska náunga ykkar, börn hans.

Trúa, elska, gera

Fylgið þessari leið og Guð mun gera kraftaverk fyrir milligöngu ykkar, sínum dýrmætu börnum til blessunar.

Þessi fimm ráð munu hjálpa ykkur að gera það sem lærisveinar Jesú Krists hafa gert frá fornum tíma. Fagnaðarerindi hans og kirkja eru mikilvægir þættir í lífi ykkar, sem og hver þið eruð og hvað þið gerið. Bjóðið því öðrum að koma og sjá og koma og hjálpa og Guð mun framkvæma sitt frelsunarverk og fólkið mun koma og dvelja áfram.

Hvað ef þetta er erfitt?

Þið gætuð spurt: „Hvað ef ég geri allt þetta og fólkið bregst ekki vel við? Hvað ef það fer að gagnrýna kirkjuna? Hvað ef það er óvingjarnlegt við mig?“

Já, það gæti gerst. Allt frá fornum tímum hafa lærisveinar Jesú Krists oft verið ofsóttir. Pétur postuli sagði: „Gleðjist … er þér takið þátt í píslum Krists.“ Hinir fyrri heilögu glöddust yfir því að „þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.“

Munið að Drottinn starfar á leyndardómsfullan hátt. Svo gæti verið að kristileg viðbrögð ykkar við höfnun næðu að snerta við hörðu hjarta.

Sem postuli Jesú Krists, blessa ég ykkur með því sjálfsöryggi að vera lifandi vitnisburður um gildi fagnaðarerindisins, gædd þeirri dirfsku að auðkenna ykkur ætíð sem meðlim Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, og auðmýkt til aðstoðar við verk hans, sem kærleikstjáningu til himnesks föður og barna hans.

Kæru vinir mínir, þið munið fagna yfir því að vita að þið eruð mikilvægur hlekkur í löngu forspáðri samansöfnun Ísraels, til undirbúnings komu Krists í „veldi og mikilli dýrð, ásamt öllum hinum heilögu englum.“

Himneskur faðir þekkir ykkur. Drottinn elskar ykkur. Guð mun blessa ykkur. Þetta verk er vígt af Guði. Þið getið gert þetta Við getum öll gert þetta saman.

Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Hinn mikli spámaður Nefí sá í sýn að þótt kirkja Guðslambsins væri dreifð „um allt yfirborð jarðar,“ væru „ítök hennar á jörðunni lítil“ vegna ranglætis á jörðunni (1 Ne 14:12; sjá einnig Lúk 12:32).

  2. Nýleg könnun Pew Research Center sýndi t.d. að í Bandaríkjunum hafi „hlutfall fullorðinna (18 ára og eldri) sem telja sig vera kristna, minnkað um nær átta prósentustig á sjö árum, úr 78,4% árið … 2007 niður í 70,6% árið 2014. Á sama tímabili hefur hlutfall Bandaríkjamanna án trúfélaga – sem lýsa sig trúleysingja, efasemdarmenn eða ‚ekkert sérstakt‘ – hækkað um rúmlega sex prósentustig, úr 16,1% í 22,8%“ (“America’s Changing Religious Landscape,” Pew Research Center, 12. maí, 2015, pewforum.org).

  3. Orðið fagnaðarerindi merkir „góð tíðindi.“ Góðu tíðindin eru að Jesús Kristur hefur framkvæmt algjöra friðþægingu sem endurleysir allt mannkynið frá gröfinni og umbunar sérhverjum samkvæmt eigin verkum. Þessi friðþæging hófst er hann var tilnefndur í fortilverunni, hélt áfram í jarðneskri tilvist hans og náði hámarki með dýrðlegri upprisu hans. Frásögn Biblíunnar af dauðlegu lífi hans, þjónustu og fórn kallast guðspjöll Mattheusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar.

  4. Matt 28:19.

  5. „Og sannlega segi ég yður enn, vinir mínir, ég læt yður þessi orð eftir til að íhuga í hjörtum yðar“ (Kenning og sáttmálar 88:62).

    „En sjá, ég segi þér, að þú verður að kanna það vel í huga þínum, síðan að spyrja mig hvort það sé rétt, og sé það rétt, mun ég láta brjóst þitt brenna hið innra með þér. Þú munt þess vegna finna að það er rétt (Kenning og sáttmálar 9:8).

  6. „Sérhver meðlimur trúboði,“ var hvatning Davids O. McKay forseta er hann var í forsæti yfir Evróputrúboðinu 1922 til 1924 og hann miðlaði kirkjunni þessum sama boðskap á aðalráðstefnum allt frá 1952 (sjá “‘Every Member a Missionary‘ Motto Stands Firm Today,“ Church News, 20. feb. 2015, news.ChurchofJesusChrist.org).

  7. Kenning og sáttmálar 64:34.

  8. Sjá Matt 22:37-38.

  9. Sjá Matt 22:39.

  10. Kenning og sáttmálar 93:12.

  11. Jes 28:10.

  12. Mósía 18:9

  13. Hugmynd þessi er oft eignuð heilögum Frans frá Assisi; sjá einnig Jóh 10:36–38.

  14. Róm 1:16.

  15. Sjá Matt 5:15-16.

  16. Jóh 1:46; skáletrað hér.

  17. Sjá Jóh 15:18.

  18. 1 Pét 4:13, English Standard Version; sjá einnig vers 1-19 til frekari upplýsinga um hvernig fylgjendur Krists ættu að líta á þjáningar sökum fagnaðarerindisins.

  19. Post 5:41.

  20. Kenning og sáttmálar 45:44.