Hlýð þú á hann
Faðir okkar veit, að þegar við erum umlukinn óvissu og ótta, er okkur fyrir bestu að hlýða á son hans.
Kæru bræður og systur, hve þakklátur ég er að við getum notað tæknina til að koma saman til tilbeiðslu á þessum sunnudagsmorgni. Hve blessuð við erum að vita að fagnaðarerindi Jesú Krists hafi verið endurreist á jörðu!
Á undanförnum vikum, hefur líf okkar flestra farið úr skorðum. Jarðskjálftar, eldsvoðar, flóð, plágur og afleiðingar þessa, hafa truflað dagleg líf, valdið skorti á matvælum, nauðsynjum og minnkað sparifé.
Við hrósum og þökkum ykkur fyrir að hlýða á orð Drottins, mitt í þessu öllu, og á þessum óróatíma, með því að taka þátt í aðalráðstefnu með okkur. Hið aukna myrkur, sem fylgir þrengingum, gerir ljósi Jesú Krists kleift að skína sífellt bjartar. Hugsið ykkur allt hið góða sem hvert okkar getur gert á þessum tíma heimslægra sviptinga. Elska ykkar til frelsarans og trú ykkar á hann, gæti vel hvatt einhvern til að kynna sér endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists.
Á tveimur síðustu árum hef ég og systir Nelson hitt þúsundir ykkar víða um heim. Við höfum komið saman með ykkur á opnum leikvöllum og í hótelsölum. Á hverjum stað fannst mér ég hafa verið í návist hinna kjörnu Drottins og að samansöfnun Ísraels ætti sér stað fyrir augum mínum.
Við lifum á þeim tíma „sem forfeður okkar hafa með mikilli eftirvæntingu beðið eftir.“1 Við sitjum á fremsta bekk og erum sjónarvottar að því sem spámaðurinn Nefí sá, en þó einungis í sýn, að máttur Guðslambsins myndi falla yfir „sáttmálsþjóð Drottins, sem dreifð var um allt yfirborð jarðar. Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.“2
Þið, kæru bræður og systur, eruð meðal þeirra karla og kvenna og barna sem Nefí sá. Hugsið ykkur það!
Hvar sem þið búið eða hverjar sem aðstæður ykkar eru, þá er Drottinn Jesús Kristur frelsari ykkar og Joseph Smith, spámaður Guðs, er ykkar spámaður. Hann var vígður áður en grundvöllur jarðar var lagður, til að verða spámaður þessarar síðustu ráðstöfunar, „þegar engu verður haldið til baka“3 frá hinum heilögu. Opinberanir streyma áfram frá Drottni í þessu viðvarandi ferli endurreisnar.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að fagnaðarerindi Jesú Krists hefur verið endurreist á jörðu?
Það hefur þá þýðingu að þið og fjölskylda ykkur getið verið ævarandi innsigluð? Það hefur þá þýðingu að þið fáið notið stöðugs samfélags heilags anda, af því að þið hafið verið skírð af þeim sem hefur vald til þess frá Jesú Kristi og staðfest sem meðlimir kirkju hans. Hann mun leiða ykkur og vernda. Það hefur þá þýðingu að þið verðið aldrei án huggunar eða máttar Guðs ykkur til liðsinnis. Að þið getið verið blessuð af krafti prestdæmisins, ef þið takið á móti nauðsynlegum helgiathöfnum og gerið og haldið sáttmála við Guð. Hvílíkt akkeri sem þessi sannleikur er sál okkar, einkum á tímum mikilla storma.
Mormónsbók segir frá hinu endurtekna ferli farsældar og falls tveggja mikilla siðmenninga. Saga þeirra sýnir hversu auðvelt það er fyrir meirihluta þjóðar að gleyma Guði, hafna aðvörunum spámanna Drottins og sækjast eftir valdi, vinsældum og vellíðan holdsins.4 Spámenn fyrri tíðar hafa ítrekað tilgreint „mikla og undursamlega hluti, sem fólkið trúði ekki, vegna þess að það sá þá ekki.“5
Þetta er ekkert öðruvísi á okkar tíma. Í áranna rás hafa miklir og undursamlegir hlutir verið kunngjörðir frá helgum ræðustólum víða um heim. Samt taka flestir ekki á móti þeim sannleika – annaðhvort vegna þess að fólk veit ekki hvar hans skal leita6 eða það ljáir þeim eyra sem ekki hafa allan sannleikann eða það hefur hafnað sannleikanum fyrir veraldleg viðfangsefni.
Óvinurinn er klókur. Í árþúsundir hefur hann látið gott sýnast illt og illt sýnast gott.7 Það sem frá honum kemur er hávært, hvatvíst og sjálfhælið.
Boðskapur föður okkar á himnum er hins vegar áberandi ólíkur. Það sem frá honum kemur er einfalt, kyrrlát og svo grípandi og hreinskilið að við fáum ekki misskilið.8
Til að mynda, í hvert sinn sem hann hefur kynnt jarðarbúum sinn eingetna son, hefur hann gert það með merkilega fáum orðu. Á fjalli ummyndunar sagði Guð við Pétur, Jakob og Jóhannes: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“9 Orð hans til Nefítanna við hinn forna Gnægtarbrunn, voru: „Sjá minn elskaða son, sem ég hef velþóknun á. Í honum hef ég gjört nafn mitt dýrðlegt ‒ hlýðið á hann.“10 Við Joseph Smith, í hinni mikilvægu yfirlýsingu, sem hóf þessa ráðstöfun, sagði Guð einfaldlega: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“11
Kæru bræður og systur, ígrundið þá staðreynd að rétt áður en faðirinn kynnti soninn, í þessum þremur áður nefndu tilvikum, voru þeir sem komu að málum slegnir ótta og, að vissu marki, á barmi örvæntingar.
Postularnir urðu óttaslegnir þegar þeir sáu Jesú Krist umlukinn skýi á fjalli ummyndunar.
Nefítarnir urðu óttaslegnir því þeir höfðu upplifað tortímingu og myrkur í nokkra daga.
Joseph Smith var í greipum myrkraafla, rétt áður en himnarnir lukust upp.
Faðir okkar veit, að þegar við erum umlukinn óvissu og ótta, er okkur fyrir bestu að hlýða á son hans.
Vegna þess að þegar við reynum að hlýða á – sannlega hlýða á – son hans, munum við leidd til að vita hvað gera skal í hverjum aðstæðum.
Allra fyrstu orðin í Kenningu og sáttmálum er hlýðið á.12 Það merkir „að hlusta með ásetningi um að hlýða.13 Að hlýða á merkir að „hlýða á hann“ – að hlusta á það sem frelsarinn segir og síðan að hlíta leiðsögn hans. Með þessum þremur orðum – „hlýðið á hann“ – gefur Guð okkur forskrift að farsæld, hamingju og gleði í þessu lífi. Okkur ber að hlýða á orð Drottins, hyggja að þeim og hlíta því sem hann segir!
Við þurfum að hlýða á hann af enn ríkari ásetningi, í þeirri viðleitni okkar að vera lærisveinar Jesú Krists. Það þarf meðvitaða og stöðuga einbeitni til að fylla líf okkar orðum hans, kenningum og sannleika.
Við getum ekki bara reitt okkur á tilfallandi upplýsingar á samfélagsmiðlum. Með milljarða orða á netinu og í markaðsmettuðum heimi, fylltum stöðugum hávaða, óheiðarlegri viðleitni andstæðingsins, hvert getum við þá farið til að hlýða á hann?
Við getum snúið okkur að ritningunum? Þær kenna okkur um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, mikilvægi friðþægingar hans og hina miklu áætlun föður okkar um hamingju og endurlausn. Dagleg ígrundun orðs Guðs, er nauðsynleg til andlegrar afkomu, einkum á þessum tíma aukins umróts. Þegar við nærumst daglega á orðum Krists, munu þau segja okkur hvernig bregðast skuli við óvæntum og ófyrirséðum erfiðleikum.
Við getum líka hlýtt á hann í musterinu. Hús Drottins er hús lærdóms. Þar kennir Drottinn að sínum hætti. Þar kennir hver helgiathöfn um frelsarann. Þar lærum við hvernig svipta skal hulunni frá og eiga skýrari samskipti við himininn. Þar lærum við að hasta á andstæðinginn og nota prestdæmiskraft Drottins, okkur og ástvinum okkar til styrktar. Hve óðfúslega við ættum að leita skjóls þar.
Þegar þessum tímabundnu COVID-19 höftum verður aflétt, einsetjið ykkur þá að tilbiðja og þjóna reglubundið í musterinu. Sérhver stund þess tíma mun blessa ykkur og fjölskyldu ykkar meira en nokkuð annað. Gefið ykkur tíma til að ígrunda það sem þið heyrið og finnið á þeim stað. Biðjið Drottin að kenna ykkur hvernig ljúka á himnunum upp, til að blessa ykkur og þá sem þið elskið og þjónið.
Þótt ekki sé hægt að tilbiðja í musterinu um stund, þá býð ég ykkur að gefa ykkur meira að ættarsögu, þar með talið rannsóknum og skráningu. Ég lofa að ef þið verjið meiri tíma í musterinu og við ættarsögu, mun hæfni ykkar aukast til að hlýða á hann.
Við getum líka hlýtt á hann betur, þegar við þróum hæfni okkar til að heyra hljóðláta rödd heilags anda. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú að vita hvernig andinn talar til ykkar. Í Guðdómnum er heilagur andi erindreki. Hann vekur hugsanir hjá ykkur, sem faðirinn og sonurinn vilja að þið veitið viðtöku. Hann er huggarinn. Hann vekur friðartilfinningu í hjarta ykkar. Hann ber vitni um sannleikann og staðfestir það sem rétt er þegar þið hlýðið á og lesið orð Drottins.
Ég ítreka ákall mitt til ykkar um að gera allt sem þið getið til að efla andlega hæfni ykkar til að meðtaka persónulega opinberun.
Það hjálpar ykkur að vita hvernig sækja á fram í lífi ykkar, hvað gera skal á örðugum tíðum og hvernig greina skal og forðast freistingar og blekkingar andstæðingsins.
Loks hlýðum við á hann með því að hlíta orðum spámanna, sjáenda og opinberara. Vígðir postular Jesú Krists vitna alltaf um hann. Þeir vísa leið á ferð okkar um hið sorgum hlaðna völundarhús okkar jarðnesku tilveru.
Hvað mun gerast, ef þið hlýðið á og hlítið því af meiri kostgæfni sem frelsarinn hefur sagt og er að segja fyrir milligöngu spámanna sinna? Ég lofa að þið munið blessuð með meiri getu til að takast á við freistingar, erfiðleika og veikleika. Ég lofa kraftaverki í hjónabandi ykkar, fjölskyldusamböndum og daglegu lífi. Ég lofa að geta ykkar til að finna gleði mun aukast, jafnvel þótt umrótið verði meira í lífi ykkar.
Þessi aðalráðatefna apríl 2020 er okkar tími til að minnast atburðar sem breytti heiminum. Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin veltu fyrir sér í aðdraganda þessa 200 ára afmælishátiðar Fyrstu sýnar Josephs Smith, hvað við gætum gert til að minnast almennilega þessa einstæða atburðar.
Þessi guðlegi atburður hóf endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists og innleiddi ráðstöfun fyllingar tímanna.
Við íhugðum hvort reisa ætti minnismerki. Þegar við hins vegar íhuguðum hina eintöku sögulegu og alþjóðlegu áhrif þessarar Fyrstu sýnar, fannst okkur við knúnir til að búa til minnismerki, en þó ekki úr granít eða steini, heldur úr orðum – orðum hátíðlegrar og helgrar boðunar – ekki rista á „steintöflur,“ heldur fremur ritaða á „hjartaspjöld okkar úr holdi.“14
Frá því að kirkjan var stofnuð, hafa einungis fimm yfirlýsingar verið gefnar út og sú síðasta var Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ sem Gordon B. Hinckley forseti kynnti árið 1995.
Þegar við nú íhugum þennan mikilvæga tíma í sögu heimsins og boð Drottins um að safna saman hinum dreifða Ísrael, til undirbúnings síðari komu Jesú Krists, þá gefum við, Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin, út eftirfarandi yfirlýsingu. Hún ber yfirskriftina „Endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists: Tveggja alda yfirlýsing til heimsins.“ Höfundar hennar eru Æðsta forsætisráð og Tólfpostulasveit Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hún er dagsett í apríl 2020. Ég bjó mig undir þennan dag með því að skrá þessa yfirlýsingu áður í Lundinum helga, þar sem Joseph Smith sá fyrst föðurinn og soninn.
„Við lýsum hátíðlega yfir að Guð elskar börn sín meðal allra þjóða heimsins. Guð faðirinn hefur gefið okkur guðlega fæðingu, óviðjafnanlegt líf og altæka friðþægingarfórn síns elskaða sonar, Jesú Krists. Fyrir mátt föðurins, reis Jesús upp aftur og sigraði dauðann. Hann er frelsari okkar, fyrirmynd okkar og lausnari okkar.
Fyrir tvö hundruð árum, á fallegum vormorgni, árið 1820, hélt hinn ungi Joseph Smith út í skóg til bænar, nærri heimili sínu í uppsveitum New York, Bandaríkjunum, til að vita í hvaða kirkju hann ætti að ganga. Hann hafði spurningar varðandi eigin sáluhjálp og treysti því að Guð hjálpaði sér.
Af auðmýkt lýsum við yfir, að sem svar við bæn Josephs Smith, birtust Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, honum og innleiddu ,endurreisn allra hluta‘ (sjá Postulasagan 3:21), eins og sagt er fyrir um í Biblíunni. Í þessari sýn komst hann að því að kirkja Krists í Nýja testamentinu hefði glatast á jörðu, eftir dauða hinna upprunalegu postula. Joseph átti ríkan þátt í endurreisn hennar.
Við staðfestum að himneskir sendiboðar komu, undir leiðsögn föðurins og sonarins, til að leiðbeina Joseph og endurreisa kirkju Jesú Krists. Hinn upprisni Jóhannes skírari endurreisti valdið til að skíra með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda. Þrír hinna upprunalegu tólf postula – Pétur, Jakob og Jóhannes – endurreistu postuladóminn og lykla prestdæmisvalds. Aðrir komu líka, þar á meðal Elía, sem endurreisti valdið til ævarandi sameiningar fjölskyldna í eilíf sambönd handan dauðans.
Við vitnum ennfremur að Joseph Smith fékk gjöf og kraft Guðs til að þýða forna heimild – Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist. Í þessu helga riti eru síður sem segja frá persónulegri þjónustu Jesú Krists meðal fólks á vesturhveli jarðar, fljótlega eftir upprisu hans. Bókin kennir um tilgang lífsins og útskýrir kenningu Krists, sem er kjarni þess tilgangs. Sem ritningarfélagi Biblíunnar, vitnar Mormónsbók að allar manneskjur séu synir og dætur kærleiksríks föður á himnum, að hann hafi guðlega áætlun fyrir líf okkar og að sonur hans, Jesús Kristur, talar á okkar tíma, sem til forna.
Við lýsum yfir að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, stofnuð 6. apríl 1830, er hin endurreista kirkja Krists í Nýja testamentinu. Kirkja þessi er grundvölluð á hinu fullkomna lífi aðalhyrningasteins hennar, Jesú Krists, og altækri friðþægingu hans og bókstaflegri upprisu. Jesús Kristur hefur enn að nýju kallað postula og veitt þeim prestdæmisvald. Hann býður okkur öllum að koma til sín og kirkju sinnar, að taka á móti heilögum anda, helgiathöfnum sáluhjálpar og hljóta varanlega gleði.
Tvö hundruð ár eru nú liðin frá því að endurreisn þessi var innleidd af Guði föðurnum og ástkærum syni hans, Jesú Kristi. Milljónir um heim allan hafa hlotið þekkingu á þessum forspáðu atburðum.
Við lýsum fagnandi yfir að hinni fyrirheitnu endurreisn miðar áfram með viðvarandi opinberun. Jörðin verður aldrei aftur söm, því Guð mun ,safna öllu undir eitt höfuð í Kristi‘ (sjá Efesusbréfið 1:10).
Með lotningu og þakklæti bjóðum við, sem postular hans, öllum að vita – eins og við vitum – að himnarnir eru opnir. Við staðfestum að Guð kunngjörir sínum ástkæru sonum og dætrum vilja sinn. Við vitnum að „þeir sem af kostgæfni ígrunda boðskap endurreisnarinnar og bregðast við í trú, munu blessaðir til að hljóta eigin vitnisburð um guðleika hennar og tilgang hennar til að búa heiminn undir síðari komu Drottins okkar, Jesú Krists.“15
Ástkæru bræður og systur, þetta er tveggja alda yfirlýsing okkar til heimsins, varðandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists í fyllingu sinni. Hún hefur verið þýdd yfir á 12 tungumál. Önnur tungumál munu fylgja í kjölfarið. Hún verður strax fáanleg á vefsíðu kirkjunnar, þar sem þið getið fengið eintak af henni. Lærið hana einslega og með fjölskyldu ykkar og vinum. Ígrundið sannleikann og hugsið um áhrifin sem þessi sannindi munu hafa á líf ykkar, ef þið hlýðið á þau og hlítið þeim og haldið boðorðin og sáttmálana sem þeim fylgja.
Ég veit að Joseph Smith er sá forvígði spámaður, sem Drottinn valdi til að hefja þessa síðustu ráðstöfun. Kirkja Drottins var endurreist á jörðu fyrir milligöngu hans. Joseph innsiglaði vitnisburð sinn með blóði sínu. Hve ég elska og heiðra hann!
Guð lifir! Jesús er Kristur! Kirkjan hans hefur verið endurreist! Hann og faðir hans, faðir okkar á himnum, vaka yfir okkur. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.