Hjörtu tengd böndum réttlætis og einingar
Á þessum tímamótum í 200 ára sögu kirkju okkar skulum við skuldbinda okkur til að lifa í réttlæti og vera sameinaðri en nokkru sinni áður.
Réttlæti og eining eru afar þýðingarmikil.1 Þegar fólk elskar Guð af öllu hjarta sínu og gerir allt sem það getur á réttlátan hátt til að verða eins og hann, þá er minna um erjur og deilur í samfélaginu. Þá er meiri eining. Ég ann sannri frásögn sem gefur dæmi um þetta.
Sem ungur maður, sem ekki var okkar trúar, hjálpaði Thomas L. Kane hershöfðingi hinum heilögu og varði þá þegar þeir þurftu að flýja Nauvoo. Hann var málsvari kirkjunnar í mörg ár.2
Árið 1872 ferðuðust Kane hershöfðingi, hæfileikarík eiginkona hans, Elizabeth Wood Kane, og synir þeirra tveir frá heimili þeirra í Pennsylvaníu til Salt Lake City. Þau fylgdu Brigham Young og samstarfsmönnum hans í leiðangur suður til St. George, Utah. Elizabeth hafði efasamdir um konurnar í Utah, þegar hún fór þangað í fyrsta skipti. Hún varð hissa á nokkru sem hún lærði. Sem dæmi, komst hún að því að hvers konar starfsferill sem bauð konum að hafa lífsafkomu stóð þeim til boða í Utah.3 Hún komst líka að því að meðlimir kirkjunnar voru góðviljaðir og sýndu frumbyggjum Ameríku virðingu.4
Á ferð þeirra dvöldu þau á heimili Thomas R. og Matildu Robison King í Fillmore.5
Elizabeth ritaði að þegar Matilda var að elda máltíð fyrir Young forseta og föruneyti hans, þá hafi fimm amerískir indíánar komið inn í herbergið. Þótt að þeir hafi komið óboðnir, var það ljóst að þeir bjuggust við því að slást í hópinn. Systir King talaði við þá „á þeirra mállýsku.“ Þeir settust með ábreiður sínar með ánægjusvip á andlitinu. Elizabeth spurði eitt af börnum King fjölskyldunnar: „Hvað sagði móðir þín við þessa menn?“
Svar sonar Matildu var: „Hún sagði: ‚Þessir aðkomumenn komu á undan og ég hef aðeins eldað nóg fyrir þá, en máltíð ykkar sýður á eldinum núna og ég kalla í ykkur um leið og hún er tilbúin.‘“
Elizabeth spurði: „Mun hún gera þetta í raun og veru eða gefa þeim matarleifar í eldhúsgættinni?“6
Sonur Matildu svaraði: „Móðir mín mun þjóna þeim alveg eins og hún þjónar þér og gefur þeim sæti við borðið.“
Og það gerði hún og „þeir átu fullkomlega siðsamlega.“ Elizabeth sagði að gestgjafinn hafi risið um 100 prósent í áliti hjá henni.7 Eining eykst þegar komið er fram við fólk af sæmd og virðingu, jafnvel þótt það líti öðruvísi út á yfirborðinu.
Við, sem leiðtogar, erum ekki haldnir þeirri ranghygmynd að öll sambönd hafi verið fullkomin eða að hegðun allra hafi verið kristileg eða allar ákvarðanir sanngjarnar. Trú okkar kennir þó að við erum öll börn himnesks föður og við tilbiðjum hann og son hans, Jesú Krist, sem er frelsari okkar. Við þráum að tengjast böndum réttlætis og einingar í huga og hjarta og að við verðum eitt með þeim.8
Réttlæti er yfirgripsmikið hugtak, en í því felst vissulega að lifa boðorð Guðs.9 Það gerir okkur hæf fyrir helgiathafnirnar sem mynda sáttmálsveginn og blessar okkur með leiðsögn andans í lífi okkar.10
Að lifa í réttlæti er ekki háð því að hvert og eitt okkar hafi allar blessanir í lífi okkar á þessum tímapunkti. Mögulega erum við ekki gift eða blessuð með börnum eða þráum aðrar blessanir. Drottinn hefur lofað að hinir réttlátu sem trúir eru „[fái] dvalið með Guði í óendanlegri sælu.“11
Eining er líka yfirgripsmikið hugtak, en í því felst vissulega æðsta og næstæðsta boðorðið, að elska Guð og samferðarfólk okkar.12 Hún gefur til kynna að hjarta og hugur fólks Síonar hafi tengst böndum einingar.13
Boðskapur minn byggist á andstæðum og lexíum úr heilagri ritningu.
Það eru liðin 200 ár síðan faðirinn og sonur hans birtust fyrst og hófu endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists árið 1820. Í frásögninni í 4. Nefí í Mormónsbók er svipað 200 ára tímabil eftir að frelsarinn birtist og stofnaði kirkju sína í Ameríku til forna.
Sögulega heimildin sem við lesum í 4. Nefí lýsir þjóð án öfundar, erja, hórdóms, lyga, morða eða nokkurs lauslætis. Vegna þessa réttlætis sem heimildin skýrir frá, „gat [vissulega] ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað.“14
Í 4. Nefí stendur þetta viðvíkjandi einingu: „Engar deilur voru í landinu vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.“15
Því miður lýsir 4. Nefí þessu næst átakanlegri breytingu sem hófst á „tvö hundraðasta og fyrsta ári,“16 þegar ranglæti og sundrung gerðu réttlætið og eininguna að engu. Dýpt siðspillingarinnar sem síðan átti sér stað var slík að undir lokin harmaði spámaðurinn Mormón það mjög og skrifaði syni sínum, Moróní:
„En ó, sonur minn. Hvernig getur fólk eins og þetta, sem finnur gleði í slíkri viðurstyggð–
Hvernig getum við búist við, að Guð haldi refsihendi sinni frá okkur?“17
Á þessum ráðstöfunartíma, þótt við lifum á sérstökum tíma, hefur heimurinn ekki verið blessaður með réttlætinu og einingunni sem lýst er í 4. Nefí. Við lifum raunar á tímum sérlega mikillar sundrungar. Samt sem áður hafa þær milljónir sem tekið hafa á móti fagnaðarerindi Jesú Krists skuldbundið sig til að vinna bæði að réttlæti og einingu. Okkur er öllum kunnugt um að við getum gert betur, það er áskorun okkar á þessum tíma. Við getum verið áhrifamáttur sem bætir og blessar samfélagið í heild. Á þessum tímamótum í 200 ára sögu kirkju okkar skulum við skuldbinda okkur, sem meðlimir kirkju Drottins, til að lifa í réttlæti og vera sameinaðri en nokkru sinni áður. Russell M. Nelson forseti hefur beðið okkur um að „sýna meiri kurteisi, kynþáttasamlyndi og gagnkvæma virðingu.“18 Þetta þýðir að elska hvert annað og Guð og samþykkja alla sem bræður og systur og vera sannlega fólk Síonar.
Með kenningu okkar sem gildir fyrir alla, getum við verið athvarf einingar og fagnað fjölbreytileika. Eining og fjölbreytileiki eru ekki andstæður. Við getum unnið að meiri einingu með því að mynda andrúmsloft sem býður alla velkomna og með virðingu fyrir fjölbreytileika. Á þeim tíma sem ég þjónaði í stikuforsætisráði í San Francisco, Kaliforníu, voru söfnuðir þar sem töluðu spænsku, tonga-mál, samóa-mál, tagalog og mandarín. Enskumælandi deildir okkar voru samansettar af fólki af mörgum kynþáttum og menningarlegum bakgrunni. Þar ríkti elska, réttlæti og eining.
Deildir og greinar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru ákvarðaðar eftir landafræði eða tungumáli,19 ekki kynþætti eða menningu. Kynþáttur er ekki auðkenndur í meðlimaskýrslum.
Snemma í Mormónsbók, um það bil 550 árum fyrir fæðingu Krists, er okkur kennt grunnboðorðið varðandi sambandið milli barna himnesks föður. Allir skulu halda boðorð Drottins og öllum er boðið að meðtaka gæsku Drottins: „Hann neitar engum að koma til sín, hvorki svörtum né hvítum, ánauðugum né frjálsum, karli né konu. Og hann minnist heiðingjanna, og allir eru jafnir fyrir Guði, jafnt Gyðingar og Þjóðirnar.“20
Þjónusta og boðskapur frelsarans hefur stöðugt lýst því yfir að allir kynþættir og litarhættir séu börn Guðs. Við erum öll bræður og systur. Samkvæmt kenningu okkar, trúum við að í upphafslandi endurreisnarinnar, Bandaríkjunum, hafi stjórnarskrá Bandaríkjanna,21 og gögn henni tengdri,22 verið skrifuð af ófullkomnum mönnum en verið innblásin af Guði til blessunar öllum mönnum. Í Kenningu og sáttmálum lesum við að þessi gögn hafi verið „[gerð], og tryggja [skuli] rétt og vernd alls holds, samkvæmt réttum og helgum reglum.“23 Tvær þessara grunnreglna eru sjálfræði og ábyrgð fyrir eigin syndum. Drottinn kunngerði:
„Þess vegna er ekki rétt að einhver maður sé í annars ánauð.
Og í þeim tilgangi hef ég sett stjórnarskrá þessa lands með vitrum mönnum, sem ég vakti einmitt í þeim tilgangi, og endurheimt landið með úthellingu blóðs.“24
Þessi opinberun barst árið 1833, þegar hinir heilögu í Missouri liðu miklar ofsóknir. Hluti fyrirsagnar að kafla 101 í Kenningu og sáttmálum hljóðar svo: „Múgur manns hafði hrakið þá frá heimilum þeirra í Jacksonsýslu. … Mörgum meðlimum kirkjunnar var hótað dauða.“25
Þetta var tími ósættis, á marga vegu. Margir íbúar Missouri töldu frumbyggja Ameríku vera miskunnarlausa fjandmenn og vildu fjarlægja þá af landinu. Því til viðbótar áttu margir landnema Missouri þræla og fannst sér ógnað af þeim sem stóðu gegn þrælahaldi.
Aftur á móti þá virti kenning okkar frumbyggjana og þrá okkar var að kenna þeim fagnaðarerindi Jesú Krists. Varðandi þrælahald, þá hafa ritningar okkar gert það ljóst að enginn skuli vera ánauðugur öðrum.26
Að lokum voru hinir heilögu reknir fólskulega burtu frá Missouri27 og síðan þvingaðir til að flytja sig vestur.28 Hinum heilögu vegnaði vel og þeir fundu friðinn sem fylgir réttlæti, einingu og því að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.
Ég gleðst yfir fyrirbæn frelsarans sem skráð er í Jóhannesarguðspjalli. Frelsarinn staðfesti að faðirinn hafði sent sig og að hann, frelsarinn, hefði fullkomnað það verk sem honum var fengið að vinna. Hann bað fyrir lærisveinum sínum og þeim sem trúa myndu á Krist: „Að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur.“29 Eining er það sem Kristur bað fyrir, áður en hann var svikinn og krossfestur.
Á fyrsta ári eftir endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists, talar Drottinn um stríð og ranglæti í 38. kafla Kenningar og sáttmála og lýsir þessu yfir: „Ég segi yður: Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“30
Trúarmenning okkar á rætur í fagnaðarerindi Jesú Krists. Bréf Páls postula til Rómverja er víðfeðmt.31 Á sínum fyrstu árum var kirkjan í Róm samansett af gyðingum og þeim sem áður voru heiðingjar. Þessir gyðingar fyrri tíma áttu sér gyðinglega menningu og höfðu „hlotið frelsun úr ánauð og var byrjað að fjölga og vegna vel.“32
Heiðingjarnir í Róm áttu sér menningu með miklum grískum áhrifum, sem postulinn Páll skildi vel vegna upplifana hans í Aþenu og Korintu.
Páll kunngerði fagnaðarerindi Jesú Krists á ítarlegan hátt. Hann skrásetti viðeigandi atriði í menningu gyðinga og heiðingja33 sem stönguðust á við hið sanna fagnaðarerindi Jesú Krists. Hann biður báða aðila í meginatriðum um að láta af menningarlegum hindrunum úr átrúnaði þeirra eða menningu, sem ekki samræmast fagnaðarerindi Jesú Krists. Páll minnir gyðingana og heiðingjana á að halda boðorðin og elska hver aðra og staðfestir að réttlæti leiði til sáluhjálpar.34
Menning fagnaðarerindis Jesú Krists er hvorki menning heiðingja eða gyðinga. Hún er ekki ákvörðuð af húðlit eða hvar maður býr. Þótt að við gleðjumst yfir okkar sérstöku menningu, þá ættum við að láta af þeim atriðum menningar okkar sem stangast á við fagnaðarerindi Jesú Krists. Meðlimir okkar og þeir sem snúist hafa til trúar, koma oft úr fjölbreytilegum bakgrunni kynþáttar og menningar. Ef við ætlum að fylgja áminningu Nelsons forseta um að safna hinu tvístraða Ísrael saman, munum við komast að því að við erum eins ólík og gyðingarnir og heiðingjar á tímum Páls. Þrátt fyrir það getum við sameinast í elsku og trú á Jesú Krist. Rómverjabréf Páls kemur á fót þeirri reglu að fylgja menningarháttum og kenningu fagnaðarerindis Jesú Krists. Þetta er forskriftin fyrir okkur, jafnvel á okkar tíma.35 Helgiathafnir musterisins sameina okkur á sérstakan hátt og gera okkur kleift að vera eitt á eilífan hátt.
Við heiðrum þá meðlimi sem ruddu brautina um allan heim, ekki vegna þess að þeir voru fullkomnir, heldur vegna þess að þeir sigruðust á erfiðleikum, færðu fórnir, leituðust eftir því að vera Kristi lík og kappkostuðu að efla trú sína og vera eitt með frelsaranum. Eining þeirra við frelsarann sameinaði þau hvert öðru. Þessi regla er sönn fyrir þig og mig á okkar tíma.
Ákallið til meðlima Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er það að kappkosta að vera fólk Síonar, sem er eitt í hjarta og í huga og lifir í réttlæti.36
Það er bæn mín að við séum réttlát og sameinuð og einblínum algjörlega á að þjóna og tilbiðja frelsara okkar, Jesú Krist, sem ég vitna um. Í nafni Jesú Krists, amen.