Lát Guð ríkja
Ert þú fús til að láta Guð ríkja í lífi þínu? Ert þú fús til að láta Guð vera áhrifaríkastan alls í lífi þínu?
Kæru bræður og systur, hve þakklátur ég er fyrir dásamlegan boðskap þessarar ráðstefnu og þau forréttindi að fá að tala til ykkar.
Í þau rúm 36 ár sem ég hef verið postuli, hef ég orðið hugfanginn af kenningunni um samansöfnun Ísraels.1 Allt henni viðkomandi hefur vakið áhuga minn, þar með talið þjónusta 2 Abrahams, Ísaks og Jakobs og nöfn þeirra; líf þeirra og eiginkvenna þeirra; sáttmálinn sem Guð gerði við þá og viðhélt með niðjum þeirra;3 tvístrun ættkvíslanna tólf; og hinir ótal spádómar um samansöfnunina á okkar tíma.
Ég hef ígrundað samansöfnunina, beðist fyrir vegna hennar, endurnærst á hverju efnistengdu ritningarversi og beðið Drottinn um að auka skilning minn.
Ímyndið ykkur þá hrifningu mína þegar ég nýlega hlaut dýpri skilning á þessu. Með liðsinni tveggja hebreskra fræðimanna, komst ég að því að ein merking hebreska hugtaksins Ísrael er „lát Guð ríkja.”4 Nafnið Ísrael á þar af leiðandi einmitt við um þann einstakling sem er fús til að láta Guð ríkja í eigin lífi. Þessi skilgreining hrífur sál mína!
Orðið fús er brýnt í þessum skilningi á Ísrael.5 Við höfum öll sjálfræði. Við getum valið að verða Ísrael eða ekki. Við getum valið að láta Guð ríkja í lífi okkar eða ekki. Við getum valið að Guð verði áhrifaríkastur alls í lífi okkar eða ekki.
Við skulum aðeins rifja upp mikilvægan viðsnúning í lífi Jakobs, barnabarns Abrahams. Á þeim stað sem Jakob gaf nafnið Peníel (sem merkir „ásjóna Guðs“),6 glímdi hann við mikilvæga áskorun. Reynt var á sjálfræði hans. Með því að glíma við þessa áskorun, sannreyndi Jakob hvað honum var mikilvægast. Hann sýndi að hann var fús til að láta Guð ríkja í lífi sínu. Guð endurgalt það með því að breyta nafni Jakobs í Ísrael,7 sem merkir „lát Guð ríkja“” Guð lofaði Ísrael síðan að allar þær blessanir sem hann hafði kallað yfir Abraham yrðu líka hans.8
Því miður þá brutu niðjar Ísraels sáttmála sína við Guð. Þeir grýttu spámennina og voru ekki fúsir til að láta Guð ríkja í lífi sínu. Þar af leiðandi tvístraði Guð þeim til hinna fjögurra heimshluta.9 Sem betur fer þá lofaði hann síðar að safna þeim saman, eins og Jesaja greindi frá: „Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.“10
Með hina hebresku skilgreiningu á Ísrael í huga, þá fær samansöfnun Ísraels aukna merkingu. Drottinn er að safna þeim saman sem eru fúsir til að láta Guð ríkja í lífi sínu. Drottinn er að safna þeim saman sem munu velja að láta Guð vera áhrifaríkastan alls í eigin lífi.
Í aldanna rás hafa spámenn sagt fyrir um þessa samansöfnun11 og hún á sér stað einmitt núna! Hún er nauðsynlegur undanfari síðari komu Drottins og mikilvægasta verkið hér í heimi!
Þessi samansöfnun fyrir þúsund ára ríkið er einstök framvinda um að efla trú og andlegt atgervi milljóna manna. Okkur, sem meðlimum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eða „síðari daga sáttmáls Ísrael,“12 hefur verið boðið að aðstoða Drottin við þetta mikilvæga verk.13
Þegar við tölum um samansöfnun Ísraels beggja vegna hulunnar, erum við auðvitað að vísa til trúboðs-, musteris- og ættarsögustarfs. Við vísum líka til þess að efla trú og vitnisburð í hjörtum þeirra sem við lifum, störfum og þjónum meðal. Alltaf þegar við gerum eitthvað öðrum til hjálpar – hvoru megin hulunnar sem er – til að gera og halda sáttmála við Guð, leggjum við samansöfnun Ísraels lið.
Fyrir ekki all löngu átti eiginkona eins barnabarns okkar í andlegri baráttu. Ég kalla hana „Jill.“ Þrátt fyrir föstu og bæn og prestdæmisblessanir, þá var faðir Jill að deyja. Hún fylltist ótta um að hún myndi missa bæði föður sinn og eigin vitnisburð.
Seint á kvöldi nokkru, greindi eiginkona mín, systir Wendy Nelson, mér frá ástandi Jill. Morgunin eftir fann Wendy sig knúna til að segja Jill frá því að svar mitt við andlegri baráttu hennar væri eitt orð! Orðið var nærsýni.
Jill viðurkenndi síðar fyrir Wendy að í fyrstu hafi hún verið eyðilögð yfir svari mínu. Hún sagði: „Ég vonaði að afi myndi lofa mér kraftaverki fyrir föður minn. Ég velti fyrir mér afhverju nærsýni væri eina orðið sem hann hefði fundið sig knúinn til að segja.“
Eftir að andlát föður Jill, var orðið nærsýni stöðugt að koma upp í hug hennar. Hún lauk upp hjarta sínu og tók að skilja að orðið nærsýni merkti „skammsýni.“ Hún tók að sjá þetta í öðru ljósi. Jill sagði síðan: „Orðið nærsýni fékk mig til að staldra við, íhuga og láta huggast. Ég fyllist nú friði yfir orðinu. Það minnir mig á að útvíkka sýn mína og leita hins eilífa. Það minnir mig á hina guðlegu áætlun og að faðir minn lifir enn og elskar og vakir yfir mér. Nærsýni hefur leitt mig til Guðs.“
Ég er afar stoltur af mínu dýrmæta tengda-barnabarni. Á þessum sorgartíma í lífi elsku Jill, reynir hún að lúta vilja Guðs varðandi föður sinn, með eilífri yfirsýn eigin lífs. Með því að velja að láta Guð ríkja, finnur hún frið.
Ef við leyfum, þá getur þessi hebreska skilgreining orðsins Ísrael orðið okkur gagnleg. Ímyndið ykkur hvernig bænir okkar fyrir trúboðum okkar – og eigin viðleitni til að safna saman Ísrael – gætu breyst með þessa skilgreiningu í huga. Oft biðjum við þess að við og trúboðarnir verðum leidd til þeirra sem eru fúsir til að taka á móti sannleika hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Ég velti fyrir mér til hverra við verðum leidd þegar við biðjum þess að finna þá sem eru fúsir til að láta Guð ríkja í eigin lífi?
Við gætum verið leidd til einhverra sem aldrei hafa trúað á Guð eða Jesú Krist, en þrá nú að læra um þá og hamingjuáætlun þeirra. Aðrir gætu hafa „fæðst inn í sáttmálann,“14 en síðan villst út af sáttmálsveginum. Þau eru ef til vill tilbúin núna til að iðrast, koma aftur og láta Guð ríkja. Við getum liðsinnt með því að bjóða þau velkomin með opnum örmum og fúsu hjarta. Öðrum sem við erum leidd til gæti fundist sem eitthvað hefði alltaf vantað í lífi þeirra. Þau þrá líka fyllinguna og gleðina sem þeir finna sem eru fúsir til að láta Guð ríkja í lífi sínu.
Hið trúarlega net til að safna saman Ísrael er gríðarlega stórt. Þar er rúm fyrir alla þá sem vilja taka fyllilega á móti fagnaðarerindi Jesú Krists. Hver trúskiptingur verður eitt af sáttmálsbörnum Guðs,15 hvort heldur með fæðingu eða ættleiðingu. Hver þeirra mun erfa að fullu allt það sem Guð hefur lofað hinum trúföstu börnum Ísraels!16
Hvert okkar hefur guðlega möguleika, því hvert okkar er barn Guðs. Í hans augum eru allir jafnir. Það sem felst í þessum sannleika er afar mikilvægt. Bræður og systur, hlustið vandlega á það sem ég ætla nú að segja. Guð elskar ekki einn kynþátt meira öðrum. Kenning hans er skýr hvað þetta varðar. Hann neitar engum að koma til sín, hvorki „svörtum né hvítum, ánauðugum né frjálsum, karli né konu.“17
Ég fullvissa ykkur um að staða ykkar frammi fyrir Guði ákvarðast ekki af hörundslit ykkar. Velþóknun eða vanþóknun Guðs er háð hollustu ykkar við Guð og boðorð hans en ekki hörundslit ykkar.
Ég harma að þeldökkir bræður okkar og systur hvarvetna um heim þoli sársauka kynþáttafordóma og hleypidóma. Í dag býð ég meðlimum okkar hvarvetna að vera leiðandi í því að láta af fordómafullri afstöðu og athöfnum. Ég sárbið ykkur að stuðla að virðingu fyrir öllum börnum Guðs.
Spurningin fyrir hvert okkar, burt séð frá kynþætti, er sú sama. Ert þú fús til að láta Guð ríkja í lífi þínu? Ert þú fús til að láta Guð vera áhrifaríkastan alls í lífi þínu? Vilt þú leyfa að orð hans, boðorð hans og sáttmálar hans, ráði þínum daglegu gjörðum? Vilt þú leyfa að rödd hans sé í fyrirrúmi allra annarra? Ert þú fús til að láta hvaðeina sem hann vill að þú gerir vera í forgangi alls annars metnaðar? Ert þú fús til að gefa eftir vilja þinn og láta innbyrðast í vilja hans?18
Íhugið hvernig slík auðsveipni gæti blessað ykkur. Ef þið eruð ógift í leit að eilífum lífsförunaut, mun sú þrá ykkar að vera „Ísrael“ hjálpa ykkur að ákveða hverjum skal kynnast og hvernig.
Ef þið eruð gift lífsförunaut sem hefur brotið sáttmála sína, mun auðsveipni ykkar til að láta Guð ríkja í lífi ykkar leyfa að sáttmálar ykkar við Guð verði áfram óskertir. Frelsarinn mun græða brostið hjarta ykkar. Himnarnir munu ljúkast upp er þið leitist við að vita hvernig sækja skal fram. Þið þurfið ekki að villast eða velkjast í vafa.
Ef þið hafið einlægar spurningar um fagnaðarerindið eða kirkjuna, er þið veljið að láta Guð ríkja, munið þið leidd til að finna og skilja hinn altæka, eilífa sannleika sem mun vísa ykkur veg og gera ykkur kleift að vera staðföst á sáttmálsveginum.
Þegar þið standið frammi fyrir freistingu – jafnvel þótt það gerist þegar þið eruð úrvinda eða einmana eða misskilin – hugsið ykkur þá hugrekkið sem þið getið sýnt með því að velja að láta Guð ríkja í lífi ykkar, er þið biðjið hann jafnframt að styrkja ykkur.
Þegar sterkasta þrá okkar verður að láta Guð ríkja, að verða hluti af Ísrael, munu svo margar ákvarðanir verða einfaldari. Svo mörg vandamál leysast! Þið vitið hvernig best er að huga að útliti ykkar sjálfra. Þið vitið hvað má horfa á og lesa, hvar má verja tíma sínum og hverja má umgangast. Þið vitið hverju þið viljið fá áorkað. Þið vitið hvers konar manneskja þið viljið verða.
Kæru bræður og systur, það þarf bæði trú og hugrekki til að láta Guð ríkja. Það þarf strangt og stöðugt andlegt erfiði til að iðrast og segja skilið við hinn náttúrlega mann fyrir atbeina friðþægingar Jesú Krists.19 Það þarf stöðugt daglegt erfiði til að koma á persónulegum venjum til að læra fagnaðarerindið, til að læra meira um himneskan föður og Jesú Krist og sækjast eftir og bregðast við persónulegri opinberun.
Á þessum örðugu tíðum, sem Páll postuli sagði fyrir um,20 reynir Satan jafnvel ekki lengur að halda árás sinni á áætlun Guðs leyndri. Stigmagnandi illska er ríkjandi Eina leiðin til að komast af andlega er með því að láta Guð ríkja í lífi okkar, að læra að þekkja rödd hans og nýta krafta okkar til að taka þátt í samansöfnun Ísraels.
Hvað finnst Drottni um þá sem vilja láta Guð ríkja í lífi sínu? Nefí orðaði það vel: „[Drottinn] elskar þá, sem vilja hafa hann að Guði sínum. Sjá. Hann elskaði feður okkar og gjörði við þá sáttmála, já, við Abraham, Ísak og Jakob. Og hann [man] sáttmálana, sem hann [hefur] gjört.“21
Hvað er Drottinn þá fús til að gera fyrir Ísrael? Drottinn hefur heitið því að „heyja orrustu [okkar] og orrustu barna [okkar] og barnabarna, … í þriðja og fjórða lið“!22
Þegar þið lærið ritningarnar yfir sex næstu mánuði, þá hvet ég ykkur til að taka saman allt það sem Drottinn hefur lofað að gera fyrir Ísrael. Ég held að þið verið dolfallin! Ígrundið þessi loforð. Ræðið um þau við fjölskyldu og vini. Lifið síðan eftir þessum loforðum og fylgist með þeim uppfyllast í lífi ykkar.
Kæru bræður og systur, ef þið veljið að láta Guð ríkja í lífi ykkar, munuð þið upplifa af eigin raun að Guð er „Guð kraftaverka.“23 Við, sem fólk, erum sáttmálsbörn hans og við munum kölluð með hans nafni. Um þetta ber ég vitni í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.