Aðalráðstefna
Ósanngirni sem vekur reiði
Aðalráðstefna apríl 2021


Ósanngirni sem vekur reiði

Jesús Kristur bæði skilur ósanngirni og hefur mátt til lækningar.

Árið 1994 átti sér stað þjóðarmorð í Austur-Afríkuríkinu Rúanda, sem að hluta var vegna djúpstæðrar spennu milli ættbálka. Áætlað er að yfir hálf milljón manns hafi verið drepin.1 Það merkilega er að íbúar Rúanda hafa að miklu leyti sættst,2 en þessir atburðir bergmála áfram.

Fyrir áratug, er við heimsóttum Rúanda, áttum ég og eiginkonan mín samtal við annan farþega á flugvellinum í Kígalí. Hann harmaði ósanngirni þjóðarmorðsins og spurði hrópandi: „Ef Guð væri til, hefði hann þá ekki gert eitthvað í þessu?“ Fyrir þennan mann – og fyrir mörg okkar – geta þjáning og grimm ósanngirni virst ósamrýmanleg raunveruleika góðs, elskandi himnesks föður. Samt er hann raunverulegur, hann er góður og elskar hvert barn sitt fullkomlega. Þessi tvískinnungur er jafn gamall mannkyni og verður ekki útskýrður með stuttum ummælum eða á stuðaralímmiða.

Til að fá botn í það, skulum við kanna hina ýmsu ósanngirni. Lítum á fjölskyldu þar sem hvert barn fékk vikulegt vasapening fyrir almenn heimilisstörf. Einn sonurinn, John, keypti sælgæti; ein dóttirin, Anna, lagði fyrir. Anna keypti sér loks hjól. John fannst það afar ósanngjarnt að Anna fengi hjól en ekki hann. Þessi mismunun varð þó til vegna ákvörðunar Johns, ekki foreldranna. Ákvörðun Önnu um að neita sér um þá stundaránægju að borða sælgæti var ekki ósanngjörn gagnvart John, því hann hafði sama tækifæri og hún.

Ákvarðanir okkar geta á sama hátt falið í sér langtíma hagræði eða óhagræði. Drottinn opinberaði: „Og hljóti einhver, fyrir kostgæfni sína og hlýðni, meiri þekkingu og vitsmuni í þessu lífi en annar, mun hann standa sem því nemur betur að vígi í komandi heimi.“3 Þegar aðrir njóta farsældar af góðum ákvörðunum, getum við ekki ályktað að okkur hafi verið sýnd ósanngirni, þegar við höfum sama tækifæri.

Annað dæmi um ósanngirni á rætur í aðstæðum sem eiginkona mín, Rut, upplifði sem barn. Dag einn komst Ruth að því að móðir hennar væri að fara með yngri systur, Merlu, til að kaupa nýja skó. Ruth kvartaði: „Mamma, þetta er svo ósanngjarnt! Merla fékk nýja skó síðast.“

Móðir Ruth spurði: „Rut, passa skórnir þínir?“

Rut svaraði: „Já, reyndar.“

Móðir Ruth sagði þá: „Skór Merlu passa ekki lengur.“

Ruth samþykkti að hvert barn í fjölskyldunni ætti að eiga skó sem passa. Þótt Ruth hefði viljað nýja skó, tók hún að skilja að henni var ekki sýnd ósanngirni þegar hún sá aðstæðurnar með augum móður sinnar.

Stundum er ekki hægt að útskýra ósanngirni; óskýranleg ósanngirni vekur reiði. Ósanngjarnt er að dvelja í líkama sem er ófullkominn, skaddaður eða veikur. Jarðlífið er í eðli sínu ósanngjarnt. Sumt fólk fæðist í allsnægtum, annað ekki. Sumir eiga elskandi foreldra, aðrir ekki. Sumir lifa í mörg ár, aðrir fáein. Þannig má áfram telja. Sumir gera skaðleg mistök, jafnvel þegar þeir reyna að gera gott. Sumir kjósa að láta ekki af ósanngirni þegar þeir gætu gert það. Sorglegt er að sumir nota guðsgjöf sína, sjálfræðið, til að særa aðra þegar þeir ættu aldrei að gera það.

Allskyns ósanngirni getur hlaðist upp og skapað flóðbylgju yfirþyrmandi ósanngirni. Kóvíd-19 heimsfaraldurinn hefur t.d. óhófleg áhrif á þá sem þegar eiga undir högg að sækja vegna margþætts, undirliggjandi óhagræðis. Ég syrgi í hjarta yfir þeim sem standa frammi fyrir slíkri ósanngirni, en ég lýsi því yfir af allri sorg hjartans, að Jesús Kristur skilur bæði ósanngirni og hefur mátt til lækningar. Ekkert jafnast á við ósanngirnina sem hann þoldi. Það var engin sanngirni að hann upplifði allan sársauka og þjáningar mannkyns. Það var engin sanngirni að hann þjáðist fyrir syndir mínar og mistök og líka þínar. Hann kaus að gera það vegna elsku sinnar til okkar og himnesks föður. Hann skilur fullkomlega það sem við erum að upplifa.4

Ritningin segir frá því að Ísraelsmenn til forna hafi kvartað yfir að Guð væri þeim ósanngjarn. Jehóva svaraði með spurningu: „Hvort fær kona gleymt brjóstabarni sínu, svo að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?“ Eins ólíklegt og er að elskandi móðir gleymi ungabarni sínu, þá lýsti Jehóva yfir að hollusta hans væri enn staðfastari. Hann staðfesti: „Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.“5 Af því að Jesús Kristur þoldi hina altæku friðþægingarfórn, þá hefur hann fullkomna samúð með okkur.6 Hann veit alltaf af okkur og aðstæðum okkar.

Í jarðlífinu getum við komið „með djörfung“ til frelsarans og fengið samúð, lækningu og hjálp.7 Jafnvel er við þjáumst á óskýranlegan hátt, getur Guð blessað okkur á einfaldan, venjulegan og marktækan hátt. Þegar við lærum að þekkja þessar blessanir mun traust okkar á Guði vaxa. Í eilífðinni munu himneskur faðir og Jesús Kristur greiða úr allri ósanngirni. Skiljanlega viljum við vita hvernig og hvenær. Hvernig munu þeir gera það? Hvenær munu þeir gera það? Að mínu viti, hafa þeir ekki opinberað hvernig eða hvenær. 8 Ég veit þó að þeir munu gera það.

Í ósanngjörnum aðstæðum er eitt viðfangsefni okkar að treysta að „allt sem ósanngjarnt er í lífinu, verði leiðrétt með friðþægingu Jesú Krists.“9 Jesús Kristur sigraði heiminn og „tók á sig“ alla ósanngirni. Hans vegna getum við notið friðar og verið hughraust í þessum heimi.10 Ef við leyfum, þá mun Jesús Kristur helga ósangirnina okkur til farsældar.11 Hann mun ekki aðeins hugga okkur og endurreisa það sem glataðist;12 Hann mun nota ósanngirnina okkur til framdráttar. Þegar við skiljum hvernig og hvenær, þá þurfum við líka að skilja, eins og Alma, að það „skiptir ekki máli, því að Guð veit þetta allt, og það nægir mér að vita, að svo verður.“13

Við getum reynt að bíða með spurningar okkar um hvernig og hvenær og lagt áherslu á að þróa trú á Jesú Krist um að hann hafi bæði mátt og þrá til að færa allt til rétts vegar.14 Að við krefjumst þess að vita hvernig eða hvenær, er gagnslaust og jafnvel þröngsýni.15

Þegar við þróum trú á Jesú Krist, ættum við líka að reyna að líkjast honum. Við komum síðan fram við aðra af samúð og reynum að draga úr ósanngirni þar sem við sjáum hana;16 við reynum að laga það sem er innan okkar áhrifasviðs. Vissulega sagði frelsarinn að við ættum „að starfa af kappi fyrir góðan málstað og gjöra margt af frjálsum vilja [okkar] og koma miklu réttlæti til leiðar.“17

Einn sem hefur kappsamlega háð baráttu gegn ósanngirni er lögfræðingurinn Bryan Stevenson. Lögfræði hans í Bandaríkjunum helgast af því að verja þá sem ranglega eru sakfelldir, vinna gegn of harðri refsingu og vernda grundvallar mannréttindi. Fyrir nokkrum árum varði Stevenson mann sem var ranglega sakaður um morð og dæmdur til að deyja. Stevenson bað kristna kirkju mannsins á staðnum um stuðning, jafnvel þótt maðurinn væri ekki virkur í kirkju sinni og væri vanvirtur í samfélaginu vegna víðþekktrar sambúðar utan hjónabands.

Til að beina söfnuðinum að því sem raunverulega skipti máli, ræddi herra Stevenson um frásögn Biblíunnar af konunni sem sökuð var um hórdóm og færð var til Jesú. Ásakendur vildu grýta hana til dauða, en Jesús sagði: „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.“18 Ásakendur konunnar drógu sig í hlé. Jesús fordæmdi ekki konuna, en bauð henni að syndga ekki framar.19

Eftir að hafa sagt frá þessari frásögn, benti Stevenson á að sjálfsréttlæti, ótti og reiði hefði orðið til þess að jafnvel kristnir menn köstuðu steinum að fólki sem hrasaði. Hann sagði síðan: „Við getum ekki bara horft á það gerast.“ Hann hvatti safnaðarmeðlimi síðan til að verða „steinagrípara.“20 Bræður og systur, að kasta ekki steinum er fyrsta skrefið til að sýna öðrum samúð. Annað skrefið er að reyna að grípa steina sem kastað er að öðrum.

Hvernig við bregðumst við hagræði eða óhagræði er hluti af prófraun lífsins. Við verðum síður dæmd af því sem við segjum og meira af því hvernig við komum fram við berskjaldaða og varnarlausa.21 Við, sem Síðari daga heilagir, reynum að fylgja fordæmi frelsarans, að láta gott af okkur leiða.22 Við sýnum elsku til náungans með því að vinna að því að tryggja öllum börnum himnesks föður virðingu.

Ígrundun er holl, með eigið hagræði og óhagræði í huga. Það var upplýsandi fyrir John að skilja af hverju Anna fékk hjólið. Það var upplýsandi fyrir Ruth að skilja þarfir Merlu með augum móður sinnar. Að reyna að sjá hlutina út frá eilífu sjónarhorni, getur verið upplýsandi. Þegar við líkjumst meira frelsaranum, þróum við aukna samúð, skilning og kærleika.

Ég kem aftur að spurningunni sem samferðamaður okkar í Kígalí setti fram er hann harmaði ósanngirni þjóðarmorðsins í Rúanda og spurði: „Ef til væri Guð, hefði hann þá ekki gert eitthvað í þessu?“

Án þess að gera lítið úr þjáningunum af völdum þjóðarmorðsins og eftir að viðurkenna vangetu okkar til að skilja slíkar þjáningar, svöruðum við að Jesús Kristur hefði gert nokkuð varðandi hörmulega ósanngirni.23 Við útskýrðum margar reglur fagnaðarerindisins er tengjast Jesú Kristi og endurreisn kirkju hans.24

Síðan spurði kunningi okkar með tárin í augunum: „Ertu að meina að ég geti gert eitthvað fyrir látna foreldra mína og frænda?“

Við sögðum: „Ó, já!“ Við vitnuðum síðan um að allt ósanngjarnt við lífið væri hægt að leiðrétta með friðþægingu Jesú Krists og að með valdi hans geti fjölskyldur sameinast að eilífu.

Þegar við verðum fyrir ósanngirni, getum við hvort heldur fjarlægt okkur Guði eða komið til hans eftir hjálp og stuðningi. Langvarandi hernaður milli Nefíta og Lamaníta hafði til að mynda mismunandi áhrif á fólk. Hann sagði að „margir [voru] orðnir harðir“ og aðrir „höfðu mildast vegna þrenginga sinna, þannig að þeir auðmýktu sig fyrir Guði.“25

Látið ósanngirni ekki herða ykkur eða eyða trú ykkar á Guð. Biðjið þess í stað um hjálp Guðs. Aukið þakklæti ykkar fyrir frelsarann og traust ykkar á honum. Leyfið honum að hjálpa ykkur að verða betri, fremur en að verða bitur.26 Látið hann hjálpa ykkur að standast, að láta þjáningar ykkar „[hverfa] í fögnuði Krists.“27 Gangið til liðs við hann við að „[lækna sorgmædda],“28 reyna að draga úr ósanngirni og verða steinagríparar.29

Ég ber vitni um að frelsarinn lifir. Hann skilur ósanngirni. Örin í lófum hans minna hann stöðugt á ykkur og aðstæður ykkar. Hann þjónar ykkur í öllum þjáningum ykkar. Þeir sem koma til hans, munu hljóta höfuðdjásn í stað ösku sorgar, gleði í stað hryggðar, þakklæti og fögnuður í stað kjarkleysis og örvæntingar.30 Trú ykkar á himneskan föður og Jesú Krist mun umbunað meira en þið fáið ímyndað ykkur. Öll ósanngirni – einkum sú sem vekur reiði – mun helguð ykkur til farsældar. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá John Reader, Africa: A Biography of the Continent (1999), 635–36, 673–79.

  2. Sáttargjörð Rúanda er flókin en vongóð. Sumir efast um gildi og varanleika hennar. Sjá t.d. „The Great Rwanda Debate: Paragon or Prison?,“ Economist, 27, mars 2021, 41–43.

  3. Kenning og sáttmálar 130:19; skáletrað hér.

  4. Sjá Hebreabréfið 4:15.

  5. 1. Nefí 21:15–16.

  6. Sjá Alma 7:11–13.

  7. Sjá Hebreabréfið 4:16; sjá einnig Jesaja 41:10; 43:2; 46:4; 61:1–3.

  8. Viðvörunarorð: Við ættum að forðast að freistast til þess að búa til okkar eigin kenningar um hvernig og hvenær, hversu trúverðugar eða vel ígrundaðar sem þær eru. Við getum ekki fyllt í það gap sem Guð hefur enn ekki opinberað.

  9. Boða fagnaðarerindi mitt (2018), 52; sjá einnig Jesaja 61:2–3; Opinberunarbókin 21:4. „Allt sem er ósanngjarnt við lífið getur verið leiðrétt,“ felur líklega í sér að afleiðingar ósanngirni gagnvart okkur verði leystar, mildaðar eða afléttar. Í síðustu ráðstefnuræðu sinni, „Komi það sem koma skal og njóttu þess,“ sagði öldungur Joseph B. Wirthlin: „Hverju einasta tári sem [menn] fella í dag mun að lokum skilað hundraðfalt með tárum gleði og þakklætis. … Lögmál umbunar [er] ráðandi“ (aðalráðstefna, október 2008).

  10. Sjá Jóhannes 16:33.

  11. Sjá 2. Nefí 2:2.

  12. Sjá Jobsbók 42:10, 12–13; Jakob 3:1.

  13. Alma 40:5.

  14. Sjá Mósía 4:9.

  15. Sjá Russell M. Nelson, „Lát Guð ríkja,“ aðalráðstefna, október 2020. Myopic merkir nærsýni.

  16. Moróní höfðuðsmaður staðfesti t.d. að rangt sé að standa afsíðis og „[gera] ekki neitt“ þegar hægt er að liðsinna öðrum (sjá Alma 60:9–11; sjá einnig 2. Korintubréf 1:3–4).

  17. Kenning og sáttmálar 58:27; sjá einnig vers 26, 28–29.

  18. Jóhnnes 8:7.

  19. Sjá Jóhannes 8:10–11; þýðing Josephs Smith á versi 11 felur í sér: „Og konan vegsamaði Guð frá þeirri stundu og trúði á nafn hans,“ sem bendir til að vegna þess að frelsarinn fordæmdi ekki, en bauð að hún „syndgaði ekki framar,“ hafi það haft áhrif á konuna fyrir lífstíð.

  20. Bryan Stevenson, Just Mercy: A Story of Justice and Redemption (2015), 308–9.

  21. Sjá Matteus 25:31–46.

  22. Sjá Postulasagan 10:38; Sjá einnig Russell M. Nelson, „Annað æðsta boðorðið,“ aðalráðstefna, október 2019.

  23. Sjá Kenning og sáttmálar 1:17, 22–23.

  24. Þessar reglur eru skýrt settar fram í „Endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists: Tvö hundruð ára afmælisyfirlýsing til heimsins,“ KirkjaJesuKrists.is, Ritningar/Námshjálp/Grunngögn.

  25. Alma 62:41.

  26. Sjá Amos C. Brown, í Boyd Matheson, „,It Can Be Well with This Nation‘ If We Lock Arms as Children of God,“ Church News, 25. júlí 2019, thechurchnews.com.

  27. Alma 31:38.

  28. Sjá Lúkas 4:16–19. Að lækna hina sorgmæddu í hjarta, er að endurheimta hugsun, vilja, vitsmuni eða innra sjálf þeirra sem hafa verið þjakaðir eða brostnir (sjá James Strong, The New Strong’s Expanded Exhaustive Concordance of the Bible [2010], Hebrew dictionary section, 139 og 271).

  29. Sjá t.d. Russell M. Nelson, „Lát Guð ríkja,“ aðalráðstefna, október 2020; Dallin H. Oaks, „Elskið óvini ykkar,“ aðalráðstefna, október 2020. Nelson forseti hvatti: „Í dag býð ég meðlimum okkar hvarvetna að vera leiðandi í því að láta af fordómafullri afstöðu og athöfnum. Ég sárbið ykkur að stuðla að virðingu fyrir öllum börnum Guðs.“ Þetta er meira en að vera bara á móti viðhorfum og fordómum. Oaks forseti vitnaði í séra Theresu A. Dear: „Kynþáttafordómar þrífast á hatri, kúgun, óvirkni, afskiptaleysi og þögn.“ Hann sagði síðan: „Við, sem þegnar og meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, verðum að gera betur til að uppræta kynþáttafordóma.“

  30. Sjá Jesaja 61:3. Að hljóta höfuðdjásn, felur í sér að verða samarfi með Jesú Kristi í ríki Guðs. Sjá einnig Donald W. Parry, Jay A. Parry og Tina M. Peterson, Understanding Isaiah (1998), 541–43.