Aðalráðstefna
Það sem við lærum og munum aldrei gleyma
Aðalráðstefna apríl 2021


Það sem við lærum og munum aldrei gleyma

Ef þið lítið á líf ykkar í bænarhug, munið þið sjá á margan hátt hvernig Drottinn hefur leitt ykkur í gegnum þessa erfiðleikatíma.

Kæru bræður, ég hef hlakkað til þessa rafræns fundar við ykkur. Síðasti prestdæmisfundur aðalráðstefnu var í apríl 2019. Margt hefur atvikast á þessum tveimur árum! Einhverjir ykkar hafa misst ástvini. Aðrir hafa misst atvinnu, lífsviðurværi eða heilsu. Enn aðrir hafa tapað tilfinningu friðar og vonar fyrir framtíðinni. Ég hef djúpa samúð með hverjum þeim sem hefur orðið fyrir þess konar eða annars konar missi. Ég bið stöðugt að Drottinn muni hughreysta ykkur. Þegar þið haldið áfram að láta Guð ríkja í lífi ykkar, veit ég að hann er jafn bjartsýnn varðandi framtíð ykkar og hann hefur nokkru sinni verið.

Þótt við höfum upplifað missi, þá er líka ýmislegt sem við höfum fundið. Sumir hafa fundið dýpri trú á himneskan föður og son hans, Jesú Krist. Margir hafa öðlast nýja sýn á lífið – jafnvel eilífa sýn. Þið gætuð hafa þróað sterkari sambönd við ástvini ykkar og við Drottin. Ég vona að þið hafið fundið aukna getu til að hlýða á hann og meðtaka persónulega opinberun. Erfiðar raunir veita oft tækifæri til vaxtar, sem ekki væri mögulegur á neinn annan hátt.

Hugsið um þessi síðustu tvö ár. Hvernig hafið þið vaxið? Hvað hafið þið lært? Í fyrstu mynduð þið kannski vilja ferðast til ársins 2019 og dvelja þar! Ef þið lítið á líf ykkar í bænarhug, held ég að þið munið sjá á margan hátt hvernig Drottinn hefur leitt ykkur í gegnum þessa erfiðleikatíma, hjálpað ykkur að verða trúfastari og enn frekar umbreyttir í trúnni – sannlega menn Guðs.

Ég veit að Drottinn hefur miklar og undursamlegar áætlanir fyrir okkur – hvern fyrir sig og sameiginlega. Með samúð og þolinmæði segir hann:

„Þér eruð lítil börn, og þér hafið enn ekki skilið hversu miklar þær blessanir eru, sem faðirinn hefur … fyrirbúið yður.

Og þér fáið ei borið alla hluti nú, en verið samt vonglaðir, því að ég mun leiða yður.“1

Kæru bræður, ég ber vitni um að hann hefur leitt okkur áfram og gerir það vissulega, er við leitumst við að hlýða á hann. Hann vill að við vöxum og lærum, jafnvel – og kannski sérstaklega – á tímum andstreymis.

Andstreymi kennir okkur mikið. Hvað hafið þið lært á síðastliðnum tveimur árum, sem þið viljið alltaf hafa hugfast? Svör ykkar verða einstaklingsbundin, en ég vil leggja til fjórar lexíur sem ég vona að allir hafi lært og muni aldrei gleyma.

Lexía 1: Heimilið er þungamiðja trúar og tilbeiðslu

Þegar Drottinn varar okkur við háska síðustu daga, leiðbeinir hann okkur: „Standið … á heilögum stöðum og haggist ekki.“2 Þessir „heilögu staðir“ ná vissulega til mustera og samkomuhúsa Drottins. Þar sem okkur hefur verið meinað á ýmsan hátt að koma saman á þessum stöðum, hefur okkur lærst að heimilið er einn helgasti staður jarðar – já, heimili ykkar sjálfra.

Bræður, þið hafið prestdæmi Guðs. „Réttur prestdæmisins er óaðskiljanlega tengdur krafti himins.“3 Þið og fjölskylda ykkar hafa tekið á móti helgiathöfnum prestdæmisins. Það er „í helgiathöfnum [prestdæmisins sem] kraftur guðleikans [opinberast].“4 Sá kraftur stendur ykkur og fjölskyldu ykkar til boða á heimili ykkar, þegar þið haldið þá sáttmála sem þið hafið gert.5

Fyrir 185 dögum, upp á dag, þann 3. apríl 1836, endurreisti Elía þá lykla prestdæmisins sem gerir fjölskyldum okkar kleift að innsiglast að eilífu. Þess vegna er tilfinningin svo góð, þegar þið þjónustið sakramentið á heimili ykkar. Hvernig haldið þið að það hafi haft áhrif á fjölskyldumeðlimi að sjá ykkur – föður, afa, eiginmann, son eða bróður – þjónusta þessa helgu athöfn? Hvað munuð þið gera til að halda í þessa helgu tilfinningu í fjölskyldu ykkar?

Ykkur gæti fundist þið þurfa að gera enn meira til að gera heimili ykkar að sönnum griðarstað trúar. Ef svo er, gerið það þá! Ef þið eruð kvæntir, ráðgist þá við eiginkonur ykkar sem jafningja í þessu áríðandi verki. Fá viðfangsefni eru mikilvægari þessu. Frá þessum tíma, til þess tíma er Drottinn snýr aftur, þurfa heimili okkar að vera friðsæl og örugg.6

Viðhorf og verk sem bjóða andann velkominn, munu auka heilagleika heimilis ykkar. Jafn víst er að heilagleikinn mun hverfa, ef eitthvað í atferli ykkar eða umhverfi misbýður heilögum anda, því „þá draga himnarnir sig í hlé.“7

Hafið þið einhvern tíma spurt ykkur hvers vegna Drottinn vill að við gerum heimili okkar að miðstöð trúarfræðslu og trúarlífs? Það er ekki aðeins til að búa okkur undir og hjálpa okkur í gegnum faraldur. Núverandi samkomutakmarkanir munu að endingu falla úr gildi. Hvað sem því líður, þá ætti skuldbinding ykkar um að gera heimili ykkar að mikilvægasta griðarstað trúar aldrei að falla úr gildi. Eftir því sem trú og heilagleiki dvína í þessum fallna heimi, mun þörf ykkar fyrir heilaga staði aukast. Ég hvet ykkur til að halda áfram að gera heimili ykkar að heilögum stað „og haggist ekki8 frá þessu nauðsynlega takmarki.

Lexía 2: Við þörfnumst hvers annars

Guð vill að við vinnum saman og hjálpum hvert öðru. Þess vegna sendir hann okkur til jarðar sem fjölskyldur og skipuleggur deildir og stikur fyrir okkur. Þess vegna býður hann okkur að þjóna og liðsinna hvert öðru. Þess vegna býður hann okkur að lifa í heiminum en vera ekki af heiminum.9 Við fáum afrekað svo miklu meiru í sameiningu en einsömul.10 Sæluáætlun Guðs yrði stefnt í voða, ef börn hans yrðu einangruð hvert frá öðru.

Þessi nýi heimsfaraldur hefur verið einstæður að því leyti að hann hefur í raun haft áhrif á fólk um allan heim samtímis. Þótt sumir hafi þjáðst meira en aðrir, höfum við öll á einhvern hátt orðið fyrir erfiðleikum. Þess vegna hefur sameiginleg prófraun okkar möguleika til að sameina börn Guðs, sem aldrei fyrr. Ég spyr því hvort þessi sameiginlega prófraun hafi fært ykkur nær samferðafólki ykkar – bræðrum ykkar og systrum í sama hverfi og út um allan heim?

Í þessu geta tvö æðstu boðorðin verið okkur til leiðsagnar: fyrsta, að elska Guð og annað, að elska náungann.11 Við sýnum elsku okkar með þjónustu.

Ef þið vitið um einhverja sem eiga enga að, liðsinnið þeim þá – jafnvel þótt ykkur finnist að þið séuð líka ein! Þið þurfið enga ástæðu, boðskap eða erindi til að inna það af hendi. Heilsið þeim bara og sýnið elsku. Tæknin getur komið að notum. Faraldur eður ei, þá þarf hvert dýrmætt barn Guðs að vita að hann eða hún eigi einhvern að!

Lexía 3: Prestdæmissveitin ykkar hefur meiri tilgang en kennslufundi

Meðan á faraldrinum stóð var kennslufundum sveita aflýst um tíma. Nú geta sumar sveitir hist rafrænt. Hvað sem því líður, þá var því verki sem Drottinn fól prestdæmissveitum aldrei ætlað að einskorðast við kennslufundi. Kennslufundir eru aðeins lítill hluti af því sem hverri sveit er ætlað að gera og hvað hún getur gert.

Bræður mínir í Aronsprestdæmissveitum og öldungasveitum, aukið ykkur skilning á ástæðu þess að við höfum sveitir. Á hvaða hátt myndi Drottinn vilja að þið notuðuð sveit ykkar til að vinna verk hans – núna? Leitið opinberunar frá Drottni. Auðmýkið ykkur! Spyrjið! Hlustið! Ef þið hafið verið kallaðir sem leiðtogar, eigið þá samráð sem forsætisráð og við meðlimi sveitarinnar. Látið Guð ríkja í skuldbindingu ykkar við sveit og þjónustu ykkar, hvert sem prestdæmisembætti eða köllun ykkar er. Upplifið réttlætið sem þið komið til leiðar með gleði, er þið „[starfið] af kappi fyrir góðan málstað.“12 Sveitir eru í einstakri stöðu til að hraða samansöfnun Ísraels beggja vegna hulunnar.

Lexía 4: Við hlýðum betur á Jesú Krist þegar við erum hljóðlátir og sýnum stillingu

Við lifum á þeim löngu fyrirspáða tíma, þegar „allt verður í uppnámi. Og hjörtu mannanna munu vissulega bregðast þeim, því að allir verða slegnir ótta.“13 Það var raunveruleiki fyrir faraldurinn og verður raunveruleiki að honum loknum. Heimsins ólga mun áfram ágerast. Aftur á móti er rödd Drottins ekki „þrumuraust … heldur [er hún] hljóðlát rödd, full af mildi, sem væri hún hvísl. Og hún [smýgur] inn í sjálfa sálina.“14 Til að heyra þessa hljóðlátu rödd, verðið þið líka að vera hljóðlátir og sýna stillingu!15

Um tíma hefur faraldurinn valdið aflýsingu viðburða sem myndu venjulega fylla líf okkar. Brátt stendur okkur aftur til boða að fylla þann tíma með hávaða og ólgu heimsins. Við getum líka þess í stað nýtt tíma okkar til að hlýða á hljóðláta rödd Drottins um handleiðslu, huggun og frið. Hljóðlátur tími er helgur tími – tími sem býður upp á persónulega opinberun og veitir frið.

Temjið ykkur að taka frá tíma fyrir ykkur sjálfa og með ástvinum ykkar. Ljúkið upp hjarta ykkar fyrir Guði í bæn. Verjið tíma til að sökkva ykkur niður í ritningarnar og tilbiðja í musterinu.

Kæru bræður, Drottinn vill að við lærum margt af upplifun okkar á þessum farsóttartíma. Ég hef aðeins nefnt fjögur atriði. Ég býð ykkur að búa til eigin atriðaskrá, íhuga hana vandlega og miðla henni ástvinum ykkar.

Framtíðin er þeim björt sem halda sáttmála sína við Guð.16 Drottinn mun í auknum mæli kalla á þjóna sína sem hafa prestdæmið, til að blessa, hugga og styrkja mannkyn og hjálpa við að búa heiminn og íbúa hans undir síðari komu hans. Það leggur á okkur þá skyldu að lifa samkvæmt þeim helgu athöfnum sem við höfum tekið á móti. Við getum þetta! Ég ber þessu vitni, með kærleikskveðju til ykkar allra, minna ástkæru bræðra, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.