Kristur er risinn; trú á hann mun færa fjöll úr stað
Trú á Jesú Krist er mesti mátturinn sem okkur stendur til boða í þessu lífi. Allt er þeim mögulegt sem trúa.
Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir þau forréttindi að tala til ykkar á þessum páskasunnudegi.1 Friðþæging og upprisa frelsarans breytti varanlega lífi okkar allra. Við elskum hann og tilbiðjum hann og himneskan föður okkar af þakklæti.
Á síðustu sex mánuðum höfum við áfram tekist á við heimsfaraldur. Ég dáist að þrautseigju ykkar og andlegum styrk mitt í sjúkdómi, missi og einangrun. Í þessu öllu bið ég án afláts um að þið munið finna óbrigðula elsku hans til ykkar. Ef þið hafið brugðist við erfiðleikum ykkar sem trúfastari lærisveinar, hefur liðið ár ekki verið til einskis.
Í morgun höfum við hlýtt á kirkjuleiðtoga frá öllum byggðum meginlöndum jarðar. Blessanir fagnaðarerindisins eru sannlega fyrir alla kynþætti, tungur og lýði. Kirkja Jesú Krists er heimskirkja. Jesús Kristur er leiðtogi okkar.
Þakksamlega, þá hefur jafnvel faraldur ekki hægt á útbreiðslu sannleika hans. Fagnaðaerindi Jesú Krists er nákvæmlega það sem þörf er á í þessum lúna heimi átaka og erja.
Sérhvert barn Guðs verðskuldar tækifæri til að hlýða á og meðtaka græðandi, endurleysandi boðskap Jesú Krists. Enginn annar boðskapur er nauðsynlegri hamingju okkar – nú og alltaf.2 Enginn annar boðskapur er ríkari að von. Enginn annar boðskapur getur eytt erjum í samfélagi okkar.
Trú á Jesú Krists er undirstaða allrar trúar og lykill að guðlegum krafti. Páll postuli sagði: „Án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði], því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“3
Allt gott í lífinu – sérhver möguleg blessun að eilífu mikilvægi – hefst með trú. Að láta Guð ríkja í lífi okkar, hefst með trú á að hann sér fús til að leiða okkur. Sönn iðrun hefst með trú á að Jesús Kristur hafi mátt til að hreinsa, lækna og styrkja okkur.4
Spámaðurinn Moróní hvatti okkur til að „afneita ekki krafti Guðs, því að máttarverk hans eru í samræmi við trú mannanna barna.“5 Það er trú okkar sem virkjar mátt Guðs í lífi okkar.
Samt getur trúariðkun virst yfirþyrmandi. Stundum gætum við velt fyrir okkur hvort við getum mögulega tileinkað okkur næga trú til að hljóta þær blessanir sem við þráum svo innilega. Drottinn setur það óttaefni þó út af borðinu með orðum Alma, spámanns Mormónsbókar.
Alma biður okkur einfaldlega að gera tilraun með orðið og „sýna örlitla trú, jafnvel þótt ekki sé nema löngun til að trúa.“6 Orðtakið „örlitla trú,“ minnir mig á fyrirheit Drottins í Biblíunni, um að ef við „[höfum] trú eins og mustarðskorn,“ getum við „sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað og það mun flytja sig. Ekkert verður ykkur um megn.”7
Drottinn skilur okkar jarðnesku veikleika. Okkur verður öllum einhvern tíma á. Hann þekkir þó líka hina miklu möguleika okkar. Í upphafi er mustarðskornið lítið, en vex síðan og verður að tré, svo stóru að fuglar gera sér hreiður í greinum þess. Mustarðskornið táknar litla en vaxandi trú.8
Drottinn krefst ekki fullkominnar trúar til þess að við fáum aðgang að hans fullkomna mætti. Hann gerir þó kröfu um að við trúum.
Kæru bræður og systur, boð mitt til ykkar á þessum páskadagsmorgni er að þið byrjið í dag að auka við trú ykkar. Með trú ykkar, mun Jesús Kristur auka getu ykkar til að færa fjöll úr stað í lífi ykkar,9 jafnvel þótt persónulegar áskoranir ykkar gætu verið á við stærð fjallsins Mount Everest.
Fjallið ykkar gæti verið einmanaleiki, efi, sjúkdómur eða önnur persónuleg vandamál. Fjöll ykkar eru misjöfn, en samt er svarið við öllum áskorunum ykkar að auka ykkur trú. Það krefst verka. Latir nemendur og slakir lærisveinar munu alltaf eiga erfitt með að tileinka sér jafnvel örlitla trú.
Að gera eitthvað vel, krefst erfiðis. Að verða sannur lærisveinn Jesú Krists, er engin undantekning. Að auka trú og traust á hann, krefst erfiðis. Ég ætla að setja fram fimm ábendingar til að hjálpa ykkur að þróa slíka trú og traust.
Í fyrsta lagi, lærið. Verið kostgæfnir lærisveinar. Sökkvið ykkur ofan í ritningarnar, til að skilja betur hlutverk og þjónustu Krists. Þekkið kenningu Krists, svo að þið skiljið mátt hennar fyrir ykkur. Tileinkið ykkur þann sannleika að friðþæging Jesú Krists á við um ykkur. Hann tók á sig ykkar vesæld, ykkar mistök, ykkar veikleika og ykkar syndir. Hann galt hið nauðsynlega gjald og sá ykkur fyrir þeim mætti að geta fært öll fjöll úr stað sem þið munið einhvern tíma standa frammi fyrir. Þann mátt hljótið þið með trú, trausti og fúsleika til að fylgja honum.
Að færa fjöllin ykkar, gæti krafist kraftaverks. Lærið um kraftaverk. Kraftaverk gerast í samræmi við trú ykkar á Drottin. Lykilatriði þeirrar trúar er að reiða sig á vilja hans og tímasetningu – hvernig og hvenær hann mun blessa og liðsinna ykkur með þráðu kraftverki. Aðeins vantrú ykkar mun koma í veg fyrir að Guð blessi ykkur með kraftaverki til að færa fjöll úr stað í lífi ykkar.10
Því meira sem þið lærið um frelsarann, því auðveldar reynist ykkur að treysta á miskunn hans, óendanlega elsku og eflandi, græðandi og endurleysandi mátt hans. Frelsarinn er aldrei nær ykkur en þegar þið standið frammi fyrir fjalli eða klífið fjall með trú.
Í öðru lagi, veljið að trúa á Jesú Krist. Ef þið efist um Guð og hans elskaða son eða gildi endurreisnarinnar eða guðlegrar köllunar Josephs Smith sem spámanns, veljið þá að trúa11 og verið trúföst. Leggið spurningar ykkar fyrir Drottin og aðra trúfasta aðila. Lærið í þeirri þrá að trúa, fremur en í von um að finna bresti í lífi spámanns eða ósamræmi í ritningunum. Hættið að styrkja efasemdir ykkar með því að næra þær með öðru efasemdarfólki. Leyfið Drottni að leiða ykkur á ferð andlegrar uppgötvunar.
Í þriðja lagi, starfið í trú. Hvað mynduð þið gera, ef þið hefðuð meiri trú? Hugsið um það. Skrifið um það. Aukið síðan við trú ykkar með því að gera eitthvað sem krefst meiri trúar.
Í fjórða lagi, takið á móti helgiathöfnum verðuglega. Helgiathafnir virkja mátt Guðs í lífi ykkar.12
Í fimmta lagi, biðjið himneskan föður ykkar, í nafni Jesú Krists, um liðsinni.
Trú krefst verka. Að hljóta opinberun, krefst verka. „Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.“13 Guð veit hvað eykur trúarvöxt ykkar. Biðjið og biðjið síðan aftur.
Hinn trúlausi gæti sagt trú vera fyrir hina veiklunduðu. Þessi fullyrðing tekur ekki með í reikninginn mátt trúar. Hefðu postular frelsarans haldið áfram að kenna kenningu hans eftir dauða hans með líf sitt að veði, ef þeir hefðu efast um hann?14 Hefðu Joseph og Hyrum Smith liðið píslarvættisdauða við að verja endurreisn kirkju Drottins, ef þeir hefðu ekki átt öruggan vitnisburð um að hún væri sönn? Hefðu næstum 2.000 heilagir látið lífið á slóð brautryðjendanna,15 ef þeir hefðu ekki trúað að fagnaðarerindi Jesú Krists hefði verið endurreist? Sannlega er trú sá máttur sem gerir mögulegt að hið ólíklega verði að veruleika.
Gerið ekki of lítið úr þeirri trú sem þið þegar hafið. Það þarf trú til að ganga í kirkjuna og vera trúfastur. Það þarf trú til að fylgja spámönnum, fremur en spekingum og vinsælum skoðunum. Það þarf trú til að þjóna í trúboði í miðjum faraldri. Það þarf trú til að vera skírlífur í heimi sem hrópar að skírlífislögmál Guðs sé nú úrelt. Það þarf trú til að kenna börnum fagnaðarerindið í veraldlegum heimi. Það þarf trú til að biðja þess að lífi ástvinar verði þyrmt og meiri trú til að sætta sig við svar sem veldur vonbrigðum.
Fyrir tveimur árum heimsóttum ég og systir Nelson Samóa, Tonga, Fidji og Thaití. Úrhellisrigning hafði dögum saman verið á öllum þessum eyjum. Meðlimir höfðu fastað og beðist fyrir um að regninu yrði haldið frá samkomum þeirra utandyra.
Á Samóa, Fidji og Tahítí hætti að rigna um leið og samkomurnar hófust. Í Tonga hætti þó ekki að rigna. Samt komu 13.000 trúfastir heilagir klukkustundum of snemma til að fá sæti, biðu þolinmóðir í úrhellisrigningu og sátu síðan í mjög blautri tveggja klukkustunda samkomu.
Við sáum þarna lifandi trú í verki hjá þessum eyjaskeggjum – trú sem var nægileg til að rigningunni linnti og trú til að þrauka þegar rigningunni linnti ekki.
Fjöllin í lífi okkar færast ekki alltaf úr stað þegar og á þann hátt sem við viljum. Trú okkar mun þó alltaf knýja okkur áfram. Trú eykur alltaf aðgang okkar að guðlegum mætti.
Vitið þetta: Þótt allt og allir bregðist í þessum heimi sem þið treystið á, mun Jesús Kristur og kirkja hans aldrei bregðast ykkur. Drottinn blundar aldrei eða sefur.16 Hann „er hinn sami í gær, í dag og [á morgun].“17 Hann mun ekki raska sáttmálum sínum,18 loforðum sínum eða elsku sinni til fólks síns. Hann gerir kraftaverk í dag og mun gera kraftaverk á morgun.19
Trú á Jesú Krist er mesti mátturinn sem okkur stendur til boða í þessu lífi. Allt er þeim mögulegt sem trúa.20
Vaxandi trú ykkar á hann, mun færa fjöll úr stað – ekki steinfjöll sem prýða jörðu, heldur fjöll vesældar í lífi ykkar. Vaxandi trú ykkar, mun gera ykkur mögulegt að snúa áskorunum í óviðjafnanlegan vöxt og tækifæri.
Af mikilli elsku og þakklæti á þessum páskasunnudegi, lýsi ég yfir vitni mínu um að Kristur er vissulega upp risinn. Hann er risinn til að leiða kirkju sína. Hann er risinn til að blessa líf allra barna Guðs, hvarvetna. Með trú á hann, getum við fært fjöll úr stað í lífi okkar. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.