Hvað er sannleikur?
Hann er uppspretta alls sannleika. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu umfaðmar allan sannleika sem Guð flytur börnum sínum.
Ástkæru bræður og systur, takk fyrir þennan hvetjandi ráðstefnuhluta! Frá því á síðustu ráðstefnu okkar í apríl höfum við orðið vitni að mörgum heimsviðburðum, allt frá hinu nöturlega til hins dásamlega.
Við erum himinlifandi yfir greinargerðum frá stórum ungmennaráðstefnum, sem haldnar voru víða um heim.1 Á þessum ráðstefnum eru okkar göfugu ungmenni að læra að hvað sem gerist í lífi þeirra, þá kemur mesti styrkur þeirra frá Drottni.2
Við fögnum því að verið er að byggja fleiri musteri um allan heim. Með vígslu hvers nýs musteris, eykst guðlegur kraftur í heiminum til að styrkja okkur og vegur upp á móti hinum síauknu árásum andstæðingsins.
Ofbeldi telst til áhrifa andstæðingsins. Það er alvarleg synd.3 Sem forseti kirkjunnar, staðfesti ég kenningar Drottins Jesú Krists varðandi þetta mál. Leyfið mér að vera alveg skýr: Hvers kyns ofbeldi gagnvart konum, börnum eða nokkrum öðrum er Drottni viðurstyggð. Hann harmar og ég harma hvenær sem einhver verður fyrir skaða. Hann syrgir og við syrgjum öll hvern þann sem er fórnarlamb einhvers konar ofbeldis. Þeir sem eru gerendur þessara andstyggilegu verka eru ekki einungis ábyrgir fyrir lögum manna, heldur verða þeir einnig að standa frammi fyrir reiði almáttugs Guðs.
Í áratugi hefur kirkjan gert umfangsmiklar ráðstafanir til að vernda – þá sérstaklega – börn gegn ofbeldi. Það eru mörg hjálparúrræði á vefsíðu kirkjunnar. Ég býð ykkur að kynna ykkur þau.4 Þessar leiðbeiningar eru til staðar til að vernda hina saklausu. Ég hvet hvert og eitt okkar til að vera vakandi fyrir hverjum þeim sem gæti verið í hættu sem fórnarlamb ofbeldis og bregðast skjótt við, þeim til verndar. Frelsarinn umber ekki ofbeldi og sem lærisveinar hans, getum við það ekki heldur.
Andstæðingurinn hefur aðrar óhugnanlegar aðferðir. Meðal þeirra eru tilraunir hans til að óskýra línuna á milli þess sem er sannleikur og þess sem er það ekki. Kaldhæðnin er sú að það upplýsingaflóð sem er innan seilingar, gerir sífellt erfiðara að ákvarða hvað er sannleikur.
Þessi áskorun minnir mig á nokkuð sem ég og systir Nelson upplifðum þegar við heimsóttum fyrirmann í landi einu, þar sem frekar fáir höfðu heyrt um Jesú Krist. Þessi kæri aldni vinur, hafði nýlega verið nokkuð veikur. Hann sagði okkur að meðan á rúmlegu hans stóð, hefði hann horft upp í loftið og spurt: „Hvað er sannleikur?“
Mörgum „er haldið frá sannleikanum vegna þess að þeir vita ekki hvar hann er að finna.“5 Sumir vilja að við trúum því að sannleikurinn sé afstæður – að hver manneskja ætti að ákvarða fyrir sig sjálfa hvað sé sannleikur. Slík trú er aðeins óskhyggja þeirra sem halda ranglega að þeir verði ekki gjörðir ábyrgir frammi fyrir Guði.
Kæru bræður og systur, Guð er uppspretta alls sannleika. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu umfaðmar allan sannleika sem Guð veitir börnum sínum, hvort sem hann sé lærður á rannsóknarstofu eða meðtekinn beint frá honum með opinberun.
Þið munið halda áfram að heyra sannleika frá þessum ræðustól hér í dag og á morgun. Skrifið hjá ykkur hugsanir sem vekja athygli ykkar eða koma í huga ykkar og dvelja í hjarta ykkar. Biðjið Drottin að staðfesta að það sem þið hafið heyrt sé sannleikur.
Ég elska ykkur, kæru bræður og systur. Ég bið þess að þessi ráðstefna megi veita ykkur þá andlegu endurnæringu sem þið leitið. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.