Unglingar
Útsýni af hærri jörð
Sem unglingur fékk ég mörg tækifæri til að láta skírast fyrir hina dánu í San Diego–musterinu í Kaliforníu. Þótt það hafi ætíð verið góð upplifun, þá er ein ferð sem sker sig úr í huga mér.
Ég var 16 ára og litla systir mín, sem var ný orðin 12 ára, var að fara sína fyrstu ferð í musterið til að láta skírast fyrir hina dánu. Þar sem þetta var hennar fyrsta ferð, ákváðum við að ganga um utan við musterið eftir að við vorum búnar.
Öðru megin á musterislóðinni eru nokkrir útsýnisstaðir svo við gengum þangað. Þar sem San Diego–musterið er staðsett við fjölfarna hraðbraut, horfir maður í raun niður á hraðbrautina frá útsýnisstaðnum.
Að standa á hærri jörð musterisins þennan dag veitti mér nýja sýn á lífið. Ég horfði niður á heiminn með sínum hraðskreiðu bílum, yfirfullum verslunarmiðstöðvum og vegaskiltum þöktum veggjakroti.
Það var þá sem þessi hugsun kom í huga minn: „Þig langar ekki að vera hluti af þessu, lífið snýst ekki um þetta.“ Mér hafði ætíð verið kennt að tilgangur lífsins væri að snúa að nýju til dvalar hjá himneskum föður og að líkjast honum. Ég vissi að ég hefði ekki þörf fyrir það sem heimsins er til að ná þeim tilgangi.
Ég snéri mér við og horfði á fallegt musterið, og ég var þakklát fyrir þekkinguna á fagnaðarerindinu og yfirsýnina sem það veitti mér. Ég vissi að mitt í hinum ótrausta heimi ringulreiðar hafði ég fundið hærri jörð til að standa á.
Ég lofaði himneskum föður mínum þennan dag við musterið, að ég myndi ætíð standa hans megin, en ekki þeim megin sem heimurinn er. Það skiptir engu hverju heimurinn hreytir í okkur, við getum yfirstigið það með því að halda sáttmálana sem við höfum gert og með því að standa á heilögum stöðum (sjá K&S 87:8).