2010
Blessanir musterisins
ágúst 2010


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, ágúst 2010

Blessanir musterisins

Ég man ennþá þegar foreldrar mínir fóru með fjölskylduna okkar til musterisins í Sviss, sem var nýbúið að byggja og það fyrsta í Evrópu, til að verða eilíf fjölskylda. Þá var ég 16 ára gamall og yngstur fjögurra systkina. Við krupum saman við altarið svo við mættum innsiglast á jörðu með krafti prestdæmisins, með því dásamlega loforði að við gætum innsiglast um eilífð. Ég mun aldrei gleyma þessari stórfenglegu stund.

Sem dreng þótti mér mikið til koma að við skyldum hafa ferðast yfir landamæri til að verða innsigluð sem fjölskylda. Fyrir mig var þetta táknrænt um virkni starfsins í musterum, sem er yfir veraldleg landamæri hafið, við að færa öllum íbúum jarðar eilífar blessanir. Musteri Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru sannlega byggð öllu mannkyni til góða, burt séð frá þjóðerni, menningu og stjórnmálaskoðunum.

Musteri eru staðföst vitni þess að góðsemin muni sigra. George Q. Cannon forseti (1827–1901), fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði eitt sinn: „Hver hornsteinn sem lagður er að musteri og hvert fullunnið musteri … dregur úr krafti Satans á jörðu og eykur kraft Guðs og guðleikans.“1

Þótt áhrif réttlætis aukist á jörðu með hverju musteri, fá þeir að sjálfsögðu mestu blessanirnar sem sækja það heim. Þar hljótum við frekara ljós og þekkingu og gerum helga sáttmála, sem hjálpa okkur að ganga veg lærisveinsins, sé þeim fylgt. Í stuttu máli, þá kennir musterið okkur um helgan tilgang lífsins og hjálpar okkur að ná réttum líkamlegum og andlegum áttum.

Hins vegar förum við ekki eingöngu í musterið fyrir okkur sjálf. Í hvert sinn sem við komum inn í þessar helgu byggingar tökum við þátt í heilögu og endurleysandi starfi sáluhjálpar, sem er öllum börnum Guðs aðgengilegt fyrir friðþægingu hins eingetna sonar föðurins. Þessi óeigingjarna og heilaga þjónusta veitir okkur, sem dauðlegum verum, tækifæri til að taka þátt í hinu dýrðlega verki að verða frelsarar á Síonarfjalli.

Ég hvet alla þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki sótt musterið heim að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að öðlast gild musterismeðmæli. Musterismeðmælin eru táknræn fyrir hollustu okkar og staðfestu í þjónustu Drottns. Þau eru táknræn um elsku okkar til Drottins, því eins og Jesús kenndi: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig“ (Jóh 14:21).

Bæn mín er sú, er þessar heilögu byggingar helgaðar Drottni fegra stöðugt umhverfi jarðar, að við munum gera okkar við að færa himinn nær jörðu, með því að vera verðug þess að hafa musterismeðmæli og nota þau. Réttlætið mun vissulega aukast er við gerum það, ekki eingöngu í lífi okkar og á heimilum heldur einnig í samfélögum okkar og um allan heim.

Heimildir

  1. George Q. Cannon, in “The Logan Temple,” Millennial Star, 12. nóv., 1877, 743.

Hvernig kenna á boðskapinn

Flestir læra betur og muna lengur þegar framsetning ykkar inniheldur nýsigögn í stað þess að einungis sé kennt með orðum (sjá Teaching, No Greater Call [1999], 182). Íhugið að sýna mynd af musteri meðan á lexíunni stendur. Ræðið hvers vegna musteri eru Uchtdorf forseta mikilvæg, eftir að hafa lesið boðskapinn. Bjóðið ungum börnum í fjölskyldunni að teikna mynd af fjölskyldu sinni við musterið.

Í Teaching, No Greater Call segir: „Hvetjið þá sem þið kennið til að setja sér eitt eða fleiri markmið sem geta hjálpað þeim að lifa eftir reglunni sem þið hafið kennt“ (159). Íhugið að lesa boðskap Uchtdorfs forseta með fjölskyldunni og bjóða meðlimum fjölskyldunnar að skrifa á blað persónlegt markmið sem mun hjálpa þeim að vera verðug þess að hafa og nota musterismeðmæli.