2018
Leiðir að sannri hamingju
April 2018


Leiðir að sannri hamingju

Úr inngangsræðu sem heitir „Paths for Happiness,“ sem flutt var í Brigham Young háskóla á Havaí, þann 8. júní 2017.

Megi hvert okkar velja að elska Drottin og fylgja hamingjuleið hans.

couple standing outside the Oakland California Temple

Himneskur faðir þráir mest af öllu að við hljótum sanna og varanlega hamingju.

„Tilgangur allra blessananna sem hann hefur gefið okkur er að gera okkur hamingjusöm – trúarkennslu, boðorða, helgiathafna prestdæmisins, fjölskyldutengsla, spámanna, mustera, fegurðar sköpunarverksins og jafnvel þess möguleika að geta upplifað andstreymi. … Hann sendi sinn ástkæra son til að gera friðþæginguna að veruleika, svo við gætum notið hamingju í þessu lífi og fyllingu gleði í eilífðunum.“1

Hvarvetna er fólk að leita einhvers. Á sinn hátt leitar það í raun að hamingju. Því er haldið frá hamingju, eins og með sjálfan sannleikann, „vegna þess að þeir vita ekki hvar hann er að finna“ (K&S 123:12).

Þar sem það veit ekki hvar sanna og varanlega hamingju er að finna, þá leitar það hennar í því sem í raun veitir aðeins stundlega ánægju – að kaupa hluti, sækjast eftir hrósi og lofi heimsins með óviðeigandi breytni eða með því að einblína á líkamlega fegurð og kynþokka.

Oft er ánægja tekin í misgripum fyrir hamingju. Raunin virðist vera sú að því meira sem fólk sækist eftir því sem veitir stundlega ánægju, því minni hamingju finnur það. Slík ánægja varir yfirleitt bara í stuttan tíma.

Líkt og David O. McKay forseti (1873–1970) sagði: „Þið getið jú hlotið þessa skammvinnu ánægju, en þið munið ekki finna gleði, þið munið ekki finna hamingju. Hamingju finnum við aðeins á hinum vel troðna vegi, svo krappur og þröngur sem hann nú er, sem liggur til eilífs lífs.“2

Til allrar ólukku, þá er hamingjan torskilin. Vísindamönnum er ljóst að „hamingjan er meira en aðeins gott skap, heldur að hún sé velsældarástand sem umlykur gott líferni – sem er innihaldsríkt og veitir djúpa gleði.“3

Rannsóknir sýna að hamingja hlýst ekki af því að sækjast sífellt eftir nýrri upplifun. Þess í stað höndla menn hamingju með því að keppa stöðugt að því sem er mikilvægara í lífinu. Hamingjan ákvarðast af venjum, breytni og hugsunum sem við getum rekið til fyrirfram ákveðins atferlis. Stór hluti hamingju okkar er í raun „háð eigin sjálfræði.“4

Við skulum íhuga mikilvægi sumra hamingjuleiðanna sem finna má í ritningunum og kenndar eru af nútíma spámönnum og postulum. Við getum notið hamingju í ferðinni framundan, ef við setjum fætur okkar tryggilega og ákveðið á veg þeirra leiða.

Dyggð

Fyrsta hamingjuleiðin er dyggð, sem er hugsanaferli sem byggist á háum stöðlum. Hún felur í sér skírlífi og siðferðislegan hreinleika, sem gerir ykkur hæf til að fara í hið heilaga musteri Drottins. Dyggðugir einstaklingar búa yfir kyrrlátri reisn og innri styrk. Þeir búa yfir sjálfsöryggi, því þeir eru verðugir þess að taka á móti og hljóta leiðsögn heilags anda. Dyggðin á upptök sín í huga og hjarta og grundvallast á ótal smáum daglegum ákvörðunum og verkum.

„Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust, og þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs og kenning prestdæmisins falla á sál þína sem dögg af himni.

Heilagur andi verður þér stöðugur förunautur, og veldissproti þinn óbreytanlegur veldissproti réttlætis og sannleika. Og yfirráð þín skulu verða ævarandi yfirráð og streyma til þín án þvingana alltaf og að eilífu“ (K&S 121:45–46).

Thomas S. Monson (1927–2018) forseti kenndi: „Ekkert samfélag hefur meira gildi en ykkar hreina samviska, ykkar eigin siðferðislegi hreinleiki – og hve dásamlegt það er að vita að við stöndum á okkar útnefnda stað, hrein og fullviss um að við séum verðug þess að gera það.“5

Heiðarleiki

Önnur hamingjuleiðin er heiðarleiki. Öldungur Richard G. Scott (1928–2015), í Tólfpostulasveitinni, kenndi:

„Áttið ykkur á að varanleg hamingja byggist á því hver þið eruð, en ekki hvað þið eigið.

Raunveruleg gleði verður til af réttlátum persónuleika og byggist á fyrirmynd réttlátra ákvarðana. … Réttlátar ákvarðanir ykkar ákvarða hver þið eruð og hvað ykkur er mikilvægt. Þær auðvelda okkur rétta breytni. Hlýðið Drottni staðfastlega, til að hljóta hamingju nú og alla ævi.“6

Þegar við lærum ritningarnar, þá komumst við að því að loforðin sem Drottinn gefur okkur hvetja til réttláts lífernis. Þessi loforð næra sálina, vekja okkur von með því að hvetja okkur til að gefast ekki upp, jafnvel mitt í daglegum áskorunum lífsins, í heimi hnignandi siðferðis og siðgæðisgilda. Við þurfum því að tryggja að hugsanir okkar, orð og verk séu að leiða okkur áfram veginn í átt til okkar himneska föður.

Trúfesti

Þriðja hamingjuleiðin er trúfesti. Grundvallaratriði er að vita að Guð blessar okkur samkvæmt trú okkar, sem er uppspretta þess að lifa með guðlegum tilgangi og eilífri yfirsýn. Trú er hagnýt regla sem innblæs kostgæfni. Hún sýnir sig í þrá, jákvæðu viðhorfi og fúsleika til að gera allt sem Guð og Jesús Kristur bjóða okkur. Hún knýr okkur til að krjúpa og biðja Drottin um handleiðslu og rísa upp og bregðast við í trausti þess að við hljótum það sem samræmist vilja hans.

Þegar þið haldið ferð ykkar áfram, þá verðið þið reynd, til að sjá hvort þið gerið allt það sem Drottin Guð ykkar býður ykkur (sjá Abraham 3:25). Það er hluti af jarðneskri reynslu okkar. Hún krefst þess að við sækjum fram í staðfastri trú á Krist, leidd af andanum, í trausti þess að Guð muni sjá fyrir þörfum okkar.

Hafið í huga að þið megið ekki falla frá trú ykkar – jafnvel ekki á miklum erfiðleikatímum. Ef þið eruð staðföst, þá mun Drottinn auka getu ykkar til að rísa ofar áskorunum lífsins. Okkur verður gert kleift að sigrast á neikvæðri fljótfærni og þróa hæfni til að sigrast á því sem jafnvel kann að sýnast óyfirstíganlegt.

Heilagleiki

young adults walking toward the Provo City Center Temple

Heilagleiki er önnur hamingjuleið og tengist andlegri og siðferðislegri fullkomnun. Heilagleiki er hreint hjarta og einlægur ásetningur. Hvernig getum við unnið dag hvern að því að næra okkur andlega, svo við fáum þróað slíkan guðlegan persónuleika?

Harold B. Lee forseti (1899–1973) svaraði því: „Við þróum okkar andlega sjálf með ástundun. … Við verðum að iðka anda okkar daglega með bæn, góðum verkum og þjónustu við aðra. Við verðum að næra anda okkar daglega með ritninganámi, [fjölskyldukvöldum], samkomusókn og viðtöku sakramentis. …

Hinn réttláti maður keppir að því að bæta sjálfan sig og er meðvitaður um að hann þarf að iðrast daglega.“7

Annar mikilvægur þáttur heilagleika tengist því að gera og halda sáttmála musterisins. Ef við erum trúföst, þá geta þessir sáttmálar hafið okkur upp fyrir eigin mátt og yfirsýn. Allar lofaðar blessanir fagnaðarerindis Jesú Krists geta orðið okkar fyrir trúfesti okkar við helgiathafnirnar og sáttmálana sem við gerum í musterinu frammi fyrir himneskum föður og Jesú Kristi. Hluti af þeirri fyrirmynd að lifa „eftir leiðum hamingjunnar“ felur í sér byggingu mustera þar sem við tilbiðjum og gerum sáttmála við Drottin (sjá 2 Ne 5:16, 27).

Lykilatriði þessarar leiðar er að þróa andríki og vera siðferðilega hreinn.

Hlýðni

Enn önnur hamingjuleið er að halda öll boðorð Guðs. Eftir að Nefítar höfðu aðskilið sig Lamanítum, varð mikil velmegun á meðal þeirra, því þeir héldu ákvæði, reglur og boðorð „Drottins í einu og öllu samkvæmt lögmáli Móse“ (2 Ne 5:10). Þessi fyrirmynd er annar mikilvægur þáttur í því að lifa „eftir leiðum hamingjunnar.“

Monson forseti kenndi: „Þegar við höldum boðorðin, verður líf okkar hamingjuríkara, fyllra og einfaldara. Okkur mun reynast auðveldara að takast á við erfiðleika okkar og áskoranir og við munum hljóta fyrirheitnar blessanir [Guðs].“8 Hann sagði líka: „Þekkingin sem við leitum að, svörin sem við þráum og styrkurinn sem við sækjumst eftir, til að takast á við áskoranir hins flókna og síbreytilega heims, geta orðið okkar, ef við lifum fúslega eftir boðorðum Drottins.“9

Frelsarinn sárbiður okkur:

„Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. …

Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig“ (Jóh 14:15, 21).

Elska og óeigingirni

Hin gullna hamingjuleið byggist á elsku og óeigingirni – elsku sem grundvallast á umhyggju fyrir, áhuga á og að einhverju marki kærleika til sérhverrar lifandi sálu. Elska er hin beina hamingjuleið sem mun auðga og blessa eigið líf og annarra. Í henni felst, líkt og frelsarinn sagði, að við sýnum jafnvel óvinum okkar elsku (sjá Matt 5:44).

Með því að gera það, eruð þið að uppfylla æðsta bororðið um að elska Guð. Þið munið svífa yfir illa storma og vinda – yfir sora, sjálfsniðurrif og biturð. Sönn og varanleg hamingja hlýst aðeins með því að velja að „elska … Drottin, Guð sinn, af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum huga sínum“ (Matt 22:37; sjá einnig 5 Mós 6:5; Mark 12:30; Lúk 10:27).

Megi hvert okkar velja að elska Drottin og fylgja hamingjuleiðum hans, sem er tilgangur og viðfangsefni tilveru okkar.“10

Heimildir

  1. „Happiness,“ Gospel Topics, topics.lds.org.

  2. David O. McKay, í Conference Report, okt. 1919, 180.

  3. „Happiness,“ Psychology Today, psychologytoday.com/basics/happiness.

  4. „Happiness,“ Psychology Today.

  5. Thomas S. Monson, „Examples of Righteousness,“ Liahona, maí 2008, 65.

  6. Richard G. Scott, „Making the Right Decisions,“ Ensign, maí 1991, 34.

  7. Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee (2000), 176, 178.

  8. Thomas S. Monson, „Keep the Commandments,“ Liahona, nóv. 2015, 83.

  9. Thomas S. Monson, „Obedience Brings Blessings,“ Liahona, maí 2013, 92.

  10. Joseph Smith, í History of the Church, 5:134.