Reglur hirðisþjónustu, ágúst 2018
Þróa einlægt samband
Við getum betur annast aðra, ef samband okkar við þá er einlægt.
Boðið um að þjóna fólki er tækifæri til að þróa umhyggjusamt samband við það – samband sem gerir því eðlilegt að biðja um eða þiggja hjálp okkar. Þegar við höfum lagt á okkur að þróa slíkt samband, megnar Guð að umbreyta lífi beggja aðila slíks sambands.
„Ég trúi sannlega að engin mikilvæg umbreyting eigi sér staði án þýðingarmikils sambands,“ sagði Sharon Eubank, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins. Hún sagði jafnframt, að til þess að þjónusta okkar leiði til umbreytingar í lífi fólks, þyrftum við að búa yfir „einlægri þrá til að græða, hlusta, virða og vera samstarfsfús.“1
Einlægt samband er ekki kænskuaðferð. Við þróum það með samúð, einlægri viðleitni og „fölskvalausri ást“ (K&S 121:41).2
Leiðir til að þróa og efla samband
„Við þróum [samband] við eina manneskju í einu,“ sagði öldungur Dieter F. Uchtdorf, í Tólfpostulasveitinni.3 Þegar við keppum að því að þróa einlægt samband við þá sem við þjónum, getur heilagur andi liðsinnt okkur. Eftirfarandi ábendingar eru byggðar á þeirri fyrirmynd sem öldungur Uchtdorf setti fram.4
-
Þekkið þau.
Ezra Taft Benson forseti (1899–1994) kenndi: „Þið getið ekki þjónað þeim vel, sem þið þekkið ekki vel.“ Hann lagði til að við kynntum okkur nöfn hvers og eins í fjölskyldunni og værum meðvituð um mikilvæga viðburði, svo sem afmælisdaga, blessanir, skírnir og hjónabönd. Þannig getið þið skrifað þeim eða hringt í þau, til að óska einhverjum í fjölskyldunni til hamingju með sérstakan áfanga eða afrek.5
-
Verjið tíma saman.
Það tekur tíma að þróa samband. Verið vakandi fyrir tækifærum til að viðhalda sambandinu. Kannanir sýna að umhyggjutjáning er nauðsynleg í heilbrigðu sambandi.6 Heimsækið oft þá sem þið eruð kölluð til að þjóna. Ræðið við þau í kirkju. Notið hvaðeina annað viðeigandi sem stendur til boða – svo sem tölvupóst, Facebook, Instagram, Twitter, Skype, síma eða sendið kort. Öldungur Richard G. Scott (1928–2015), í Tólfpostulasveitinni, ræddi um áhrifamátt eðlilegrar og skapandi kærleikstjáningar og stuðnings: „Oft lauk ég upp ritningunum, … og fann ástúðleg skilaboð sem [eiginkona mín], Jeanene, hafði sett á milli blaðanna. … Þessi dýrmætu skilaboð … eru mér enn dýrmætur fjársjóður huggunar og innblásturs.“7
Gætið líka að því að tvo þarf til að mynda samband. Þið getið sýnt kærleika og vináttuþel, en sambandið mun ekki þróast nema við því sé tekið og það endurgoldið. Ef hinn aðilinn virðist ómóttækilegur, þvingið þá ekki fram samband. Gefið honum eða henni svigrúm til að sjá einlæga viðleitni ykkar og, ef nauðsynlegt er, ráðgist þá við leiðtoga ykkar um hvort enn sé mögulegt að koma á sambandi.
-
Sýnið umhyggju í samskiptum.
Að þróa einlægt samband, krefst þess að við séum ekki yfirborðsleg. Yfirborðsleg samskipti einskorðast af samræðum um dagskrá, veðrið og oft minniháttar atriði, en fela ekki í sér tilfinningaleg samskipti,trú, markmið og áhyggjur, sem eru nauðsynleg til að þróa einlægara samband. Himneskur faðir hefur sett fram fyrirmynd að slíkum einlægari samskiptum er hann miðlar syni sínum tilfinningum sínum og áætlunum (sjá Jóh 5:20) og okkur með spámönnum sínum (sjá Amos 3:7). Ef við deilum daglegum viðburðum okkar og áskorunum með hvert öðru, eins og andinn leiðbeinir, förum við að meta hvert annað, er við finnum sameiginleg áhugamál og upplifanir.
Að hlusta, er mikilvægt til að geta tjáð umhyggju.8 Þegar þið leggið vandlega við hlustir, eykst skilningur ykkar á þörfum þeirra og þau upplifa elsku, skilning og öryggi og líklegar verður að þið getið hjálpað þeim að koma til Krists.
-
Metið til jafns það sem skilur að og sameinar.
Sumir … trúa að kirkjan vilji steypa alla í sama mót – að allir eigi að vera eins í útliti og hugsun og hegðun,“ sagði öldungur Uchtdorf. „Það væri andstætt vilja Guðs, sem skapaði hvern mann ólíkan bróður sínum. …
Kirkjan dafnar þegar við hagnýtum okkur þessa fjölbreytni og hvetjum hvert annað til að þroska og nota hæfileika okkar til að blessa og styrkja samlærisveina okkar.“9
Við þurfum að reyna að sjá aðra eins og Guð sér þá, til að elska þá eins og Guð elskar þá. Thomas S. Monson forseti (1927–2018) kenndi: „Við verðum að þroska hæfileika okkar til að sjá [aðra], ekki eins og þeir eru þá stundina, heldur eins og þeir geta orðið.“10 Við getum beðið um hjálp til að sjá aðra eins og Guð sér þá. Ef við breytum við aðra í samræmi við mögulegan vöxt þeirra, er líklegra að þeir rísi undir þeim vexti.11
-
Þjónið þeim.
Verið næm gagnvart þörfum þeirra sem þið þjónið og verið fús til að gefa af tíma ykkar og hæfileikum, ekki aðeins á tíma neyðar, heldur líka af umhyggjusemi. Þið getið verið til staðar til að hugga, styðja og hjálpa þegar neyð kemur upp, sjúkdómur eða brýn þörf. Í samböndum okkar bregðumst við of oft við eftir á. Guð gaf okkur sjálfræði svo við getum valdið áhrifum í stað þess að verða fyrir áhrifum (sjá 2 Ne 2:14). Líkt og Jóhannes postuli kenndi þá elskum við Guð því hann elskaði okkur að fyrra bragði (sjá 1 Jóh 4:19), þegar aðrir finna einlæga elsku í gegnum þjónustu okkar, gæti það mildað hjörtu þeirra og aukið elsku og traust.12 Þetta stuðlar að stigmögnun góðverka sem getur þróað einlægt samband.
Þjóna að hætti frelsarans
Jesús Kristur þróaði einlægt samband við lærisveina sína (sjá Jóh 11:5). Hann þekkti þá (sjá Jóh 1:47–48). Hann varði tíma með þeim (sjá Lúk 24:13–31). Samskipti hans voru ekki yfirborðskennd (sjá Jóh 15:15). Hann kunni að meta ólíkan persónuleika þeirra (sjá Matt 9:10) og kom auga á möguleika þeirra (sjá Jóh 17:23). Hann þjónaði öllum, þótt hann væri Drottinn allra og sagðist ekki vera kominn til að láta þjóna sér, heldur til að þjóna (sjá Mark 10:42–45).
Hvað hyggist þið gera til að stuðla að öflugra sambandi við þá sem þið eruð kölluð til að þjóna?
© 2018 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/17. Þýðing samþykkt: 6/17. Þýðing á Ministering Principles, August 2018. Icelandic. 15051 190