2019
Tilgangurinn sem breyta mun þjónustu okkar
Janúar 2019


ministering

Reglur hirðisþjónustu, janúar 2019

Tilgangurinn sem breyta mun þjónustu okkar

Þótt tilgangur þjónustu sé margþættur, ætti viðleitni okkar til að þjóna öðrum að eiga rætur í þrá okkar til að hjálpa þeim að ná fram innilegri trúarumbreytingu og verða líkari frelsaranum.

Þegar við elskum aðra eins og frelsarinn gerir, munum við vilja hjálpa þeim eins og hann gerði. Hann, sem hinn góði hirðir, er æðsta fyrirmynd okkar um innihaldsríka þjónustu.

Þegar við lögum þjónustu okkar að hans, er mikilvægt að hafa í huga að viðleitni hans til að elska og blessa aðra og þjóna þeim, var bundin æðri tilgangi en að uppfylla aðkallandi þarfir þeirra. Vissulega var hann kunnur hinum daglegu þörfum fólksins og hafði samúð með því í þjáningum þess. Hann læknaði því, nærði, fyrirgaf og kenndi. Hann vildi þó gera meira en að slökkva þorsta síns tíma (sjá Jóh 4:13–14). Hann vildi að fólkið umhverfis fylgdi sér (sjá Lúk 18:22; Jóh 21:22), þekkti sig (sjá Jóh 10:14; Kenning og sáttmálar 132:22–24) og næði sínu guðlega vaxtartakmarki (sjá Matt 5:48). Það sama á við um í dag (sjá Kenning og sáttmálar 67:13).

Við getum hjálpað öðrum á ótal vegu, en þegar hinn endanlegi tilgangur þjónustu okkar er að hjálpa öðrum að koma til frelsarans og verða líkari honum, munum við erfiða til þess dags er við þurfum ekki lengur að kenna náunga okkar að þekkja Drottin, því við munum öll þekkja hann (sjá Jer 31:34).

Frelsarinn horfði lengra en á aðkallandi þarfir

  • Nokkrir menn lögðu mikið á sig við að koma vini sínum til Jesú, svo hann gæti læknað hann af lömunarveiki. Að endingu læknaði frelsarinn manninn, en áhugi hans beindist þó meira að því að veita honum fyrirgefningu synda hans (sjá Lúk 5:18–26).

  • Þegar menn færðu konu fyrir frelsarann sem hafði drýgt hór, varð það henni til stundlegs lífs að hann fordæmdi hana ekki. Hann vildi þó líka veita henni andlega lausn og sagði við hana: „Far þú. Syndga ekki framar“ (sjá Jóh 8:2–11).

  • Marta og María sendu eftir Jesú og báðu hann að koma til að lækna vin sinn, Lasarus. Jesús, sem hafði ótal sinnum læknað aðra, dró komu sína fram að andláti Lasarusar. Jesús vissi hvað fjölskyldan vildi, en með því að reisa Lasarus frá dauðum, styrkti hann vitnisburð þeirra um guðleika sinn (sjá Jóh 11:21–27).

Hvaða fleiri dæmum getið þið bætt hér við?

Hvað getum við gert?

Ef tilgangur okkar er að hjálpa öðrum að verða líkari frelsaranum, mun það breyta þjónustu okkar. Hér er nokkuð sem við getum gert til að láta þann tilgang helga þjónustu okkar.

Hugmynd 1: Tengja þjónustu okkar við frelsarann

Öll viðleitni okkar til að gera gott er ómaksins virði, en við getum reynt að bæta þjónustu okkar með því að tengja hana við frelsarann. Ef til dæmis fjölskylda sem þið þjónið stríðir við veikindi, væri máltíð gagnleg, en einföld kærleikstjáning gæti margfaldast af því að gefa vitnisburð sinn um elsku frelsarans til þeirra. Það gæti verið gagnlegt að hjálpa við garðvinnu, en hugsanlega væri enn betra að bjóða fram prestdæmisblessun.

Öldungur Neil L. Andersen, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Gæskurík manneskja gæti hjálpað einhverjum að skipta um dekk, farið með herbergisfélaga til læknis, borðað hádegisverð með einhverjum niðurdregnum eða heilsað brosandi til að lífga upp daginn.

Þeir sem lifa eftir æðsta boðorðinu munu þó ósjálfrátt auka við þá þjónustu.“1

Hugmynd 2: Einblína á sáttmálsveginn

Þegar Russell M. Nelson forseti talaði fyrst til meðlima sem forseti kirkjunnar, sagði hann: „Haldið ykkur á sáttmálsveginum.“ Að gera og halda sáttmála, „mun ljúka upp dyrum allra andlegra blessana og forréttinda sem okkur standa til boða.“2

Við, sem Síðari daga heilagir, erum skírð, staðfest og veitt gjöf heilags anda. Verðugir karlkynsmeðlimir hljóta prestdæmið. Við förum til musterisins til að taka á móti musterisgjöf okkar og innsiglast að eilífu sem fjölskyldur. Þessar endurleysandi helgiathafnir, og meðfylgjandi sáttmálar þeirra, eru nauðsynlegar til að við getum orðið líkari honum og dvalið í návist hans.

Við getum gegnt mikilvægu hlutverki í því að hjálpa öðrum á þeim vegi, er við hjálpum þeim að halda sáttmála sína og búa sig undir að gera fleiri sáttmála.3 Hvernig getið þið hjálpað einstaklingum eða fjölskyldum sem þið þjónið að taka á móti næstu helgiathöfn sem þau þurfa? Í því gæti falist að búa föður undir að skíra dóttur sína, útskýra blessanirnar sem bundnar eru næsta sáttmála sem gerður er eða segja frá hvernig bæta megi upplifun okkar við að endurnýja sáttmála okkar við meðtöku sakramentis.

Hugmynd 3: Bjóða og hvetja

Þegar viðeigandi er, eigið þá samráð við þá sem ykkur þykir annt um varðandi trúarumbreytingu þeirra og viðleitni til að verða kristilegri. Látið þau vita af þeim styrkleikum sem þið dáist að og sjáið í þeim. Finnið út hvernig þeim finnst þau geta bætt sig og ræðið hvernig þið getið hjálpað? (Ef þið viljið lesa meira um samráð við þá sem þið þjónið, sjá þá “Counsel about Their Needs,” Liahona, sept. 2018, 6–9.)

Óttist ekki að bjóða þeim að fylgja frelsaranum og gera honum kleift að hjálpa þeim að ná sínu guðlega vaxtartakmarki. Slíkt boð getur breytt lífi þeirra, ef það sýnir að þið hafið fulla trú á þeim og trúið á hann.

Sex leiðir sem við getum notað til að hjálpa öðrum að komast nær Kristi

Hér eru ábendingar um hvernig styðja má aðra til að bæta eigið líf og taka framförum á sáttmálsveginum. (Sjá Preach My Gospel, kafla 11, fyrir fleiri hugmyndir.)

  1. Miðla. Verið einlæg og áræðin er þið segið frá því hvernig frelsarinn hefur hjálpað ykkur, er þið hafið komist nær honum með því að lifa eftir reglum fagnaðarerindisins, þrátt fyrir bakslög.

  2. Lofa blessunum. Fólk þarf ástæðu til að breytast, sem vegur þyngra en ástæðurnar til að gera það ekki. Að útskýra blessanir sem bundnar eru ákveðinni breytni, getur verið áhrifarík hvatning (sjá Kenning og sáttmálar 130:20–21).

  3. Bjóða. Að lifa eftir reglu fagnaðarerindisins, veitir vitnisburð um sannleiksgildi þeirrar reglu (sjá Jóh 7:17) og leiðir til innilegri trúarumbreytingar.4 Nær öll samskipti geta falið í sér einfalt boð um að gera eitthvað sem hjálpar fólki að vaxa.

  4. Skipuleggja saman. Hvað þarf að eiga sér stað hjá fólki til að það haldi skuldbindingar sínar um að breytast? Hvernig getið þið hjálpað? Eru tímamörk sett?

  5. Styðja. Þegar gagnlegt er, komið þá upp hópi fólks sem getur hjálpað viðkomandi að halda sér við efnið og ná árangri. Við þurfum öll hvatningu.

  6. Fylgja eftir. Greinið reglulega frá framförum. Haldið ykkur við áætlunina, en lagið hana til, ef nauðsynlegt er. Verið þolinmóð, þolgóð og hvetjandi. Breytingar taka tíma.

Boð um að bregðast við

Hugleiðið hvernig þjónusta ykkar – bæði smá og stór – getur hjálpað öðrum að ná fram innilegri trúarumbreytingu og verða líkari frelsaranum.

Heimildir

  1. Neil L. Andersen, “A Holier Approach to Ministering” (trúarsamkoma í Brigham Young háskóla, 10. apríl 2018), 3, speeches.byu.edu.

  2. Russell M. Nelson, “As We Go Forward Together,” Liahona, apr. 2018, 7.

  3. Sjá Henry B. Eyring, “Daughters in the Covenant,” Liahona, maí 2014, 125–28.

  4. See David A. Bednar, “Converted unto the Lord,” Liahona, nóv. 2012, 106–109.