Reglur hirðisþjónustu, september 2019
Hvernig andinn getur (og mun) hjálpað í hirðisþjónustu ykkar
Prestdæmisverkefnið hirðisþjónusta veitir bæði körlum og konum rétt til að hljóta opinberun.
Sú köllun að þjóna og jafnvel að elska, líkt og frelsarinn gerði, getur stundum virst krefjandi – einkum þegar við þurfum að liðsinna fólki. Þar sem hægt er að liðsinna þeim sem okkur er falið að annast á ótal vegu, þá veltum við fyrir okkur hvernig best sé að gera það.
Við þurfum þó ekki að velkjast lengi í vafa um það, því við getum notið leiðsagnar heilags anda í einlægum ásetningi okkar.
„Helg þjónustuverk ykkar veita ykkur guðlegan rétt á innblæstri,“ sagði systir Bonnie H. Cordon, aðalforseti Stúlknafélagsins. „Þið getið leitað þess innblásturs af öryggi.“1
Þegar við leitumst við að þjóna eins og frelsarinn gerði, getum við verið leidd af sama anda og leiddi hann. Það á einkum við þegar við þjónum í verkefnum líkt og hirðisþjónustu, sem eru leidd með valdsumboði prestdæmislykla biskups. Hér eru sex ábendingar um að þjóna með andanum.
Hvernig get ég haft andann með mér í hirðisþjónustu?
-
Biðjið um leiðsögn. Himneskur faðir vill að við eigum samskipti við hann í gegnum bæn. Bænin gerir okkur ekki aðeins kleift að finna nálægð hans, heldur tryggir hún okkur líka „blessanir sem Guð er þegar fús að veita, en við verðum að biðja um ef okkur á að hlotnast.“2 „Er við biðjum og leitumst við að skilja hvað er i hjörtum þeirra,“ sagði systir Cordon, „þá ber ég vitni um að himneskur faðir mun leiða okkur og andi hans mun vera með okkur.“3
-
Bíðið ekki eftir hugboðum. Takið frumkvæðið. „[Starfið] af kappi“ (Kenning og sáttmálar 58:27) og þið munið uppgötva að þið hljótið styrk og handleiðslu í verki ykkar. „Að halda áfram með þjónustu okkar og verk, er mikilvægur þáttur í því að hljóta opinberun,“ sagði Dallin H. Oaks forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu. Í ritningarnámi mínu hef ég veitt athygli að flestar opinberanir barna Guðs hljótast þegar þau eru á ferðinni, ekki þegar þau sitja aðgerðarlaus í híbýlum sínum og bíða þess að Drottinn segi þeim hvaða skref beri að taka fyrst.“4
Hvernig ber ég kennsl á hugboð til að þjóna?
-
Farið að ráðum Mormóns. Við þurfum ekki að velkjast í vafa um hvort hugsun hafi verið hugboð eða ekki. Ekki ef við höfum hinn einfalda lykil Mormóns að þeirri vitneskju: „Ef hugsun vaknar sem knýr til góðra verka og trúar eða til að hjálpa öðrum til trúar á Krist, vitið þá að hún er frá Guði“ (sjá Moróní 7:16).
-
Hafið ekki áhyggur af því. „Stökkvið bara ofan í laugina og takið sundtökin.“ sagði öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni. „ Haldið í átt að hinum þurfandi. Standið ekki sem lömuð og verið tvístíga yfir hvort synda skuli baksund eða hundasund. Ef við fylgjum þeim grundvallarreglum sem við höfum lært, erum í samræmi við prestdæmislykla og leitum leiðsagnar heilags anda, getur okkur ekki mistekist.“5
Hvernig er best að bregðast við hugboðum?
-
Þegar í stað. Systir Susan Bednar (eiginkona öldungs Davids A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni) er gott dæmi um að fylgja hugboðum. Eftir að hafa beðið þess „að sjá hina þurfandi með andlegu auga,“ horfir hún yfir söfnuðinn og hlýtur oft andleg hugboð um að heimsækja eða hringja í einhvern einstakling,“ sagði öldungur Bednar. „Þegar systir Bednar hlýtur slík hugboð, þá bregst hún þegar í stað við og hlýðir. Oft er það svo að hún ræðir við ungling eða faðmar að sér systur um leið og ,amen‘ hefur verið sagt eftir lokabænina eða hún tekur þegar í stað upp símann þegar við komum heim til að hringja.“6
-
Af hugdirfsku. Ótti við höfnun og feimni og vanmáttarkennd eða að verða til óþæginda, getur komið í veg fyrir að við bregðumst við innblæstri til þjónustu. „Á ýmsum tímum og á ýmsan hátt, munum við finna okkur ófullnægjandi, óörugg, jafnvel óverðug,“ sagði öldungur Gerrit W. Gong, í Tólfpostulasveitinni. „Í okkar trúföstu viðleitni til að elska Guð og þjóna náunga okkar, getum við þó fundið elsku Guðs og mikilvægan innblástur fyrir líf þeirra og okkar, á nýjan og helgari hátt.“7
Bróðir nokkur sagði frá því hvernig hann hafi hikað við að liðsinna eiginmanni konu einnar sem hafði reynt sjálfsvíg. Að lokum bauð hann eiginmanninum til hádegisverðar. Þegar ég sagði: ,Kona þín reyndi að fremja sjálfsmorð. Það hlýtur að vera yfirþyrmandi fyrir þig. Viltu tala um það?‘ Þá grét hann opinskátt,“ greindi hann frá. „Við áttum innilegt og einlægt samtal og náðum að tengjast mjög náið og treysta böndin á innan við nokkrum mínútum.“8
© 2019 Intellectual Reserve, Inc. All rights reserved. Printed in USA. Samþykkt á ensku: 6/18. Þýðing samþykkt: 6/18. Þýðing á Ministering Principles, September 2019. Icelandic. 15770 190