„Öldungur Ezra Taft Benson heimsækir heilaga í Póllandi,“ Líahóna, sept. 2022.
Frásagnir úr ritinu Saints [Heilagir], 3. bindi
Öldungur Ezra Taft Benson heimsækir heilaga í Póllandi
Á svölu sunnudagskvöldi, sumarið 1946 óku Ezra Taft Benson og tveir ferðafélagar hans eftir afar rólegum götum Zełwągi í Póllandi. Grófir vegir og mikil rigning höfðu hvekkt ferðalangana allan daginn, en slæmt veðrið hafði loks skánað þegar mennirnir nálguðust ákvörðunarstaðinn.
Zełwągi hafði eitt sinn verið hluti af Þýskalandi og verið þekkt sem Selbongen. Landamærin höfðu hins vegar færst til eftir stríðið og stór hluti Mið- og Austur-Evrópu hafði fallið undir áhrifasvæði Sovétríkjanna. Árið 1929 hafði hin blómlega Selbongen-grein byggt fyrsta Síðari daga heilagra samkomuhúsið í Þýskalandi. Eftir sex ára stríð komust hinir heilögu í þorpinu þó varla af.1
Sú staðreynd að öldungur Benson var í Póllandi var eins og kraftaverk. Engar símalínur voru virkar í Póllandi og höfðu hann og félagar hans átt erfitt með að hafa samband við embættismenn sem gætu hjálpað þeim með rétta pappírsvinnu til að komast inn í landið. Aðeins eftir miklar bænir og endurtekið samband við pólsk yfirvöld, tókst postulanum að verða sér úti um nauðsynlegar vegabréfsáritanir.2
Þegar jeppinn nálgaðist gamla samkomuhúsið í Zełwągi, dreifðu flestir sér á götunum og fóru í felur. Öldungur Benson og félagar hans stöðvuðu farartækið fyrir framan bygginguna og fóru út. Þeir kynntu sig fyrir konu í nágrenninu og spurðu hvort þeir hefðu fundið kapellu Síðari daga heilagra. Augu konunnar fylltust tárum af létti. „Bræðurnir eru hér!“ hrópaði hún á þýsku.
Um leið kom fólk út að baki luktum dyrum, grátandi og hlæjandi af gleði. Hinir heilögu í Zełwągi höfðu ekki verið í sambandi við almenna kirkjuleiðtoga í þrjú ár og þennan morgun höfðu margir þeirra verið að fasta og biðjast fyrir um heimsókn frá trúboða eða kirkjuleiðtoga. Innan nokkurra klukkustunda komu um hundrað heilagir saman til að hlýða á postulann tala.
Þegar öldungur Benson talaði til hinna heilögu, gengu tveir vopnaðir pólskir hermenn inn í kapelluna. Söfnuðurinn stirðnaði af hræðslu, en postulinn benti hermönnunum á að fá sér sæti framarlega í herberginu. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á mikilvægi frelsis. Hermennirnir hlustuðu af athygli, sátu áfram í sætum sínum við lokasönginn og fóru án vandkvæða. Öldungur Benson átti síðan fund með greinarforsetanum og skildi eftir mat og peninga fyrir hina heilögu og fullvissaði þá um að meiri aðstoð væri á leiðinni.3
Nokkru síðar skrifaði öldungur Benson Æðsta forsætisráðinu. Hann lét hvetjast af þvísjá hjálpargögn kirkjunnar komast til hinna heilögu í Evrópu, en hafði áhyggjur af þeim erfiðleikum sem þeir heilögu stóðu enn frammi fyrir.
„Ef til vill mun það aldrei verða kunnugt hversu mikinn hag þessir og aðrir heilagir um Evrópu höfðu af hinni miklu velferðaráætlun kirkjunnar,“ skrifaði hann, „en mörgum mannslífum hefur án efa verið bjargað og trú og hugrekki margra trúrækinna meðlima okkar styrkst til muna.“4