2023
Nokkur ráð til að horfast í augu við ógnvekjandi og óvissa framtíð
Mars 2023


Ungt fullorðið fólk

Nokkur ráð til að horfast í augu við ógnvekjandi og óvissa framtíð

Í einkalífi mínu og atvinnulífi, hef ég staðið frammi fyrir mikilli óvissu og lært hvernig himneskur faðir getur hjálpað okkur í gegnum hana.

boxhanskar

Þegar ég var ungur, flutti fjölskyldan mín frá Tonga til Bandaríkjanna. Faðir minn var í hnefaleikum þegar við bjuggum á Tonga og hann byrjaði að þjálfa mig í hnefaleikum eftir að við komum til Bandaríkjanna. Áætlun hans var að ég yrði einhvern tíma heimsmeistari í þungavigt. Hann kenndi mér að óttast ekki. Þú getur ekki verið hræddur í hnefaleikahringnum ef þú vilt ná árangri. Faðir minn var kannski ekki virkur í kirkjunni á þessum tíma, en hann kenndi mér svo margt um að takast á við erfiðleika og sýna hugrekki frammi fyrir ótta.

Að læra hnefaleika bjó mig einstaklega undir atvinnuna mína. Ég fór í Brigham Young háskóla með námsstyrk fyrir amerískan fótbolta. Ég gerði jafnvel það sem flestir líta líklegast á sem það mest ógnvekjandi sem hægt er að gera á ruðningsvelli – að grípa útspark – ég gerði það alltaf rólega. Ég var eiginlega aldrei hræddur. Reyndar elskaði ég áskorunina í amerískum fótbolta.

Faðir minn sá fram á að ég myndi eiga atvinnuferil í íþróttum – það reyndist vera í ruðningi, ekki hnefaleikum. Ég held þó að þjálfunin hafi hjálpað mér bæði að hafa trú og að horfa fram á við með trú og von í óvissu.

faðir Vai Sikahema fagnar snertimarki Vai á vellinum

Faðir Vai fagnar snertimarki sonar síns á vellinum.

Ljósmynd eftir Mark Philbrick / BYU © BYU Photo

Sem ungt fullorðið fólk, standið þið frammi fyrir mörgum erfiðum og ógnvekjandi hlutum – persónulegum vandamálum eins og ákvörðunum um menntun, starfsframa, hjónaband og fjölskyldu. Þið standið líka frammi fyrir víðtækari málum, eins og efnahagskreppum, félagslegum freistingum, pólitískum sviptingum og jafnvel stríði. Af eigin lífsreynslu veit ég þó að þegar við veljum að setja Drottin í fyrsta sæti í lífi okkar, þá er hann alltaf til staðar til að leiða okkur í gegnum þetta allt.

Áhrif góðra vina og góðs fólks

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga góða vini þegar ég kom heim úr trúboði mínu. Vinur sem ég hafði hitt í trúboðsskólanum kynnti mig fyrir konunni sem síðar átti eftir að verða eiginkona mín. Ég hef aldrei gert lítið úr þeirri staðreynd að vinir okkar ákvarða oft árangur okkar eða mistök í lífinu. Vinir okkar og leiðbeinendur geta hjálpað okkur að taka ákvarðanir sem leiða okkur annað hvort nær eða fjær Guði.

Þegar ég var í ruðningsdeildinni (NFL), leit ég upp til Gifford Nielsen, sem hafði einnig leikið fyrir BYU áður en hann fór í NFL, og varð að lokum íþróttafréttamaður og síðar aðalvaldhafi Sjötíu. Ég rakst á hann dag einn á golfvelli og hann gaf mér ráð sem breyttu gangi ferils míns sem atvinnumanns.

Við sátum í golfbíl, bara ég og hann, og eftir að ég sagði honum frá áætlun minni um að fara í sjónvarpið eins og hann hafði gert, eftir að ég lyki fótboltanum, ráðlagði hann mér að sækjast ekki eftir starfsframa sem krefðist þess að ég væri á leikjunum á sunnudögum. Þannig gæti ég alltaf haft köllun á sunnudögum og þjónað í kirkjunni.

Þetta var svo einfalt, en þetta var leiðsögn sem ég hafði ekki hugsað út í. Þetta breytti gangi lífs míns.

Standa fyrir það sem maður trúir

Stærstur hluti ferils míns í NFL var ógnvekjandi og óviss. Aðeins 2 prósent háskólafótboltamanna komast í NFL og jafnvel þótt ég kæmist í liðið gæti ég fallið úr því hvenær sem var. Það var mikil blessun að geta verið eins lengi við þetta og ég var, en að lifa án varaáætlunar var erfitt. Það þurfti mikla trú.

Í NFL fer maður frá liði til liðs, ár frá ári, á þvælingi um landið. Það virðist töfrandi, en flestir sjá ekki það sem er síður töfrandi. Það er erfitt að lifa þannig lífi. Það er líka erfitt fyrir hjón að lifa þannig; það er ein ástæðan fyrir hárri skilnaðartíðni meðal atvinnuíþróttamanna.

Það sem hjálpaði, var að ég vissi hvar ég stóð. Ég hafði traustan grunn í Kristi og ég gerði stöðugt allt það sem hélt mér í nálægð hans og himnesks föður.

Þið gætuð kannski ekki þurft að standa frammi fyrir starfsframa þar sem þrýstingur er mikill og freistingar umlykja, en í mínu tilviki stóð ég frammi fyrir allt öðrum lífsstíl sem atvinnuíþróttamaður en ég var vanur. Þegar við til að mynda komum til stórborga og vorum á ferðalögum í upphafi, vildu liðsfélagar mínir strax fara út og taka þátt í hinum ýmsu athöfnum sem samræmdust ekki stöðlum fagnaðarerindisins og mér varð ljóst einmitt þá að ég gæti ekki samræmt Síon og Babýlon. Ég gat ekki svarað „leyfið mér að hugsa málið,“ til að friða þá. Þess í stað varð ég að vera staðföstur í trú minni og útskýra hvers vegna ég gat ekki farið með þeim.

Sikahema-hjónin á brúðkaupsdegi þeirra

Vai með eiginkonu sinni, Keala, á brúðkaupsdegi þeirra

Fjölskyldumyndir birtar með leyfi höfundar

Ég var svo heppinn að ég gifti mig meðan ég var í háskóla. Þegar ég fór í NFL voru eiginkona mín og sex mánaða gamalt barn okkar með mér. Við giftum okkur í musterinu og ég vissi hvað sáttmálarnir þar þýddu fyrir mig og hvers þeir kröfðust af mér. Ég myndi því segja við liðsfélaga mína: „Nei, ég geri þetta ekki.“ Þegar þeir svo þrýstu á mig, segði ég: „Ég og eiginkona mín vorum gift í húsi Drottins, þar sem við gerðum helga sáttmála. Þessir sáttmálar eru mér mikilvægari en nokkuð annað.“

Það skrítna er að þegar þeir spurðu mig þessara spurninga og voru alveg vissir um hvers konar maður ég væri, þá fóru þessir sömu liðsfélagar að vernda mig og virða staðla mína og sáttmála. Það krefst hugrekkis að standa fyrir það sem maður trúir og er manni dýrmætt.

Að horfast í augu við svo miklar freistingar, var ógnvekjandi í upphafi, en að treysta á himneskan föður og muna eftir heilagleika og merkingu sáttmála minna þegar þrýst var á mig, hjálpaði mér að standa alltaf staðfastlega á sáttmálsveginum á ferlinum. Þið getið gert það sama í öllum þeim aðstæðum sem þið lendið í á ferðalagi ykkar.

Fylgið spámanninum

Ég veit að sem ungt fullorðið fólk í dag, standið þið frammi fyrir mikilli óvissu og ótta um framtíðina. Þið gætuð velt fyrir ykkur hvað gera skal og hvernig komast á í gegnum það. Auðvelda svarið er að fylgja leiðsögn spámannsins, Russell M. Nelson forseta. Þegar spámaður Guðs talar og segir ykkur eitthvað ákveðið, þá þarf einfaldlega að fylgja þeirri leiðsögn.

Ég hef tekið eftir að Nelson forseti hneigist til að leggja fram einfalda lista yfir það sem við getum gert til að standa staðföst í trú okkar. Undanfarin ár, hefur hann gefið meðlimum kirkjunnar fimm hluti til að auka trú sína, fimm leiðir til að auka andlegan skriðþunga, þrjú atriði sem við ættum að gera þegar við hefjum nýtt ár og fleira.

Hann leggur ekki fram lista með tugum hluta. Bara með einföldum hlutum. Ef þið gerið þessa einföldu hluti og eruð ákveðin í því, munu þessir einföldu hlutir breyta lífi ykkar. Trúargrundvöllur ykkar mun standa traustur, jafnvel þegar skelfilegar aðstæður eru í heiminum. Gerið þessa hluti og þið munuð verða í lagi. Þið verðið vernduð.

Þetta minnir mig á söguna í Gamla testamentinu um Naaman, herforingjann sem var holdsveikur. Hann fór til Elísa spámanns, sem sagði honum að fara og lauga sig sjö sinnum í ánni Jórdan. Herforingjanum fannst þetta heimskulegt, en fólkið umhverfis hvatti hann sem hershöfðingja til að fara og gera þetta. Hann hafði trú til að fara og gera þetta – nokkuð svo einfalt. Hann hreinsaðist. (Sjá 2. Konungabók 5:1–15.)

Sikahema-fjölskyldan

Fjölskylda öldungs Sikahema

Leggið framtíð ykkar í hendur himnesks föður

Ég varð kannski ekki atvinnumaður í hnefaleikum, en ég lærði ýmislegt um að horfast í augu við ótta. Með öllum þeim ákvörðunum og áskorunum sem þið standið frammi fyrir núna sem ungt fullorðið fólk, bið ég ykkur að gera allt sem þið getið til að sækjast eftir að viðhalda alltaf áhrifum andans. Það er lykilatriði. Nelson forseti kenndi nýlega: „Jákvæður andlegur skriðþungi mun viðhalda framrás okkar mitt í ótta og óvissu af völdum faraldra, flóðbylgja, eldgosa og hernaðarátaka. Andlegur skriðþungi getur hjálpað okkur að standast miskunnarlausar, viðurstyggilegar árásir andstæðingsins og komið í veg fyrir tilraunir hans til að grafa undan okkar persónulega, andlega grunni.“1

Þegar ég var yngri og stóð frammi fyrir þeim raunveruleika að flytja til nýs lands, gat ég ekki ímyndað mér að líf mitt yrði laust við óvissu. Þar sem ég hef haldið áfram að horfast í augu við óvissu í gegnum lífið og feril minn, hef ég lært að við getum, sem lærisveinar Krists, tekist á við hvers kyns ótta eða hindranir sem á vegi okkar verða.

Þegar þið umlykið ykkur með góðu fólki, standið föst á trú ykkar og fylgið spámanninum, mun framtíðin ekki virðast svo skelfileg. Þið getið þá haldið áfram í trú, þrátt fyrir ótta eða óvissu. Þið getið lagt framtíð ykkar í hendur okkar kærleiksríka himneska föður og treyst því að hann verði alltaf til staðar fyrir ykkur.