2023
„Ég vildi, að þér hefðuð hugfast“
September 2023


„Ég vildi, að þér hefðuð hugfast,“ Líahóna, sept. 2023.

„Ég vildi, að þér hefðuð hugfast“

Mósía 5:12

Sérhverju okkar hefur verið gefin persónuleg áminning um Krist. Lítið til þeirra og minnist hans.

mynd af Jesú Kristi

Hluti af Kristur og ríki ungi höfðinginn, eftir Heinrich Hofmann

Sem þátt í jarðlífi okkar, erum við ekki einungis undir áhrifum gleymskuhulunnar en einnig í ástandi gleymsku. Gleymskuhulan veldur því að við gleymum atburðum og sannleika sem við þekktum í fortilveru okkar. Ástand gleymskunnar leiðir okkur til að gleyma og ráfa burt frá sannleika sem við höfum lært eða lært á ný í þessu lífi. Nema við sigrumst á föllnu ástandi gleymskunnar, munum við verða „[fljót] til misgjörða, en [sein] til að minnast Drottins, Guðs [okkar]“ (1. Nefí 17:45).

Áminningar um Krist

Með hverju boðorði sem hann gefur okkur, lofar Guða að „greiða [okkur] veg til að leysa af hendi það, sem hann hefur boðið [okkur]“ (1. Nefí 3:7). Til þess að við hlýðum boðorðum hans um að muna, hefur Drottinn undirbúið áminningar.

Sannarlega er allt skapað og gjört til að bera vitni um Krist (sjá HDP Móse 6:63; sjá einnig Alma 30:44). Til dæmis er til þess ætlast að við minnumst hans „er [horfum við] upp til himins mörgu stjarna, þá hvolfist fögur birta yfir [okkur].“1 Steinar geta jafnvel hrópað sem vitnisburður og áminning um Jesú (sjá Lúkas 19:40). Í raun ber öll jörðin, bæði hljóðrænt og sjónrænt, stórkostlegt vitni og býður upp á töfrandi áminningu um skapara sinn.

Þessar áminningar í sköpuninni, sem virðast vera af handahófi, eru styrktar af formlegri áminningu í heilögum helgiathöfnum. Abinadí kenndi að Ísrael til forna voru gefnar strangar helgiathafnir til áminningar, „til að minna þá á Guð og skyldur þeirra gagnvart honum“ (Mósía 13:30). Nútímaspámenn hafa kennt það sama. Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) sagði: „Ætli það færi nokkur í fráhvarf eða neinn glæpur framinn ef fólk hefði hugfast, virkilega hugfast, það sem það hefði lofað við vatnsbrúnina eða sakramentisborðið og í musterinu.“2

Friðþæging Krists er bæði altæk og einstaklingsbundin. Það eru áminningar hans líka. Þannig að til viðbótar við almennar helgiathafnir sem eru öllum boðnar, þá veitir hann okkur mismunandi og persónubundnar áminningar um hann. Til dæmis eru venjulegur leir eða leðja ekki líkleg til að vekja marga til umhugsunar um Jesú eða fylla þá af tilfinningum og þakklæti fyrir hann. Samt er mjög líklegt að maðurinn sem fékk sjón sína þegar Jesús smurði augu hans með leir, hafi minnst Jesú hlýlega í hvert sinn sem hann leit á leir – leðju! (sjá Jóhannes 9:6–7). Né er það líklegt að Naaman hafi nokkru sinni getað litið á fljót, sérstaklega Jórdan, án þess að hugsa til Drottins sem læknaði hann þar (sjá 2. Konungabók 5:1–15). Sérhverju okkar hafa verið gefnar ein eða fleiri persónulegar áminningar um Krist. Lítið til þeirra og minnist hans.

Berið vitni um Krist

Heimildir og frásagnir eru viðbótarhlutir sem Drottinn hefur séð til að væru útbúnir til að hjálpa okkur að hlýða boðorðum hans um að muna. Ritningarnar – heimildir um afskipti Guðs af börnum hans – ræða oft um að bera vitni, eða „vitna,“ um hann (sjá 2. Korintubréf 8:3; 1. Jóhannesarbréf 5:7; 1. Nefí 10:10; 12:7; Kenning og sáttmálar 109:31; 112:4).

Helgar heimildir, þar með taldar persónulegar dagbækur, hjálpa okkur að vitna. Djúpstæð augnablik með andanum eru gjafir sem við, á þeirri stundu, trúum að við munum aldrei gleyma. En það ástand gleymsku sem hrjáir okkur veldur því að jafnvel endurómun hinnar djúpstæðustu reynslu dofnar með tímanum. Dagbókarfærsla, ljósmynd eða heimildir geta hjálpað okkur að kalla ekki bara fram andríkar stundir, heldur líka þær tilfinningar og þann anda sem við upplifðum. Það er því ekki að undra að fyrsta boðorðið eftir að kirkjan var stofnuð í þessari ráðstöfun var: „Heimildaskrá skal haldin meðal yðar“ (Kenning og sáttmálar 21:1). Almennilegar heimildir útvíkka minni okkar og geta sannfært okkur um mistök okkar og fært okkur til Guðs (sjá Alma 37:8).

Að lokum getum við svo borið vitni um sannleikann vegna þess að við höfum hlotið vitni um sannleikann frá heilögum anda, sem er „vitni himins“ (HDP Móse 6:61). Í þessu hlutverki skráir heilagur andi sannleikann „á hjartaspjöld [okkar]“ (2. Korintubréf 3:3). Hann hjálpar okkur að minnast Krists og alls sem hann hefur kennt okkur (sjá Jóhannes 14:26).

Tengingin milli Jesú, heimilda, heilags anda og þess að muna er til sýnis í Moróní 10:3–5. Þar er okkur lofað að ef við lesum Mormónsbók, heilaga heimild, í anda þess að hafa hugfast og spyrjum Guð í nafni Krists af hjartans einlægni með einbeittum huga og trú á Krist, muni heilagur andi opinbera fyrir okkur sannleiksgildi heimildarinnar. Ef sú ákveðna heimild er sönn, þá er Jesús Kristur.

Alma og synir Mósía fá heimsókn frá engli

Alma rís upp, eftir Walter Rane

Hafið í huga til að endurleysast

Að hafa Jesú í huga leiðir til endurlausnar og sáluhjálpar. Hafið hlutverk þess að muna í huga er þið hugsið um endurlausn Alma. Þegar engill birtist Alma, flutti hann honum skipunina: „Reyndu ekki framar að tortíma kirkjunni.“ Jafnvel áður en hann kom þeirri tilskipun á framfæri, sagði engillinn; „Minnist ánauðar feðra yðar … og minnist þess hve mikið [Kristur] hefur fyrir þá gjört, því að þeir voru ánauðugir og hann leysti þá“ (Mósía 27:16; leturbreyting hér).

Skipun engilsins um að muna var ekki bara viturleg leiðsögn með víðum notkunarmöguleikum. Það var ákveðin ábending til Alma, ástrík vísbending um það hve lengi hann gæti lifað af þá lífshættulegu reynslu sem hann átti eftir að reyna.

Um tuttugu árum seinna miðlaði Alma syni sínum Helaman, í tilþrifamiklum smáatriðum, því sem hann upplifði er hann lá lamaður og orðlaus í þrjá daga í „iðrun, sem hafði nær dregið [hann] til dauða“ (Mósía 27:28). Eftir að engillinn fór í burtu, mundi Alma þetta sannarlega; en það eina sem hann mundi eftir voru syndir hans.

„Ég leið eilífa kvöl“ minntist Alma. „… Já, ég minntist allra synda minna og misgjörða og var þeirra vegna altekinn kvölum vítis“ (Alma 36:14–15). Tilhugsunin um að standa frammi fyrir Guði fyllti Alma slíkri „ólýsanlegri skelfingu“ að hann hugsaði um að flýja, ekki bara með því að deyja, heldur að verða „að engu gjörður, bæði á líkama og sál“ (Alma 36:14–15).

Hér ættum við að stoppa við og skilja: Alma var ekki bara að borga einhverja þriggja daga refsingu sem hafði fyrir fram verið ákveðin að væri viðeigandi afleiðing fyrir syndir hans. Nei, hann var við upphafið – fyrstu þrjá dagana – „fastur í beiskjugalli og reyrður ævarandi hlekkjum dauðans“ (Alma 36:18; leturbreyting hér).

Hann hefði sannarlega verið áfram í þessu hræðilega ástandi lengur en þrjá daga – ótímabundið – hefði það ekki verið fyrir staðreyndina að hann mundi, blessunarlega, einhvern veginn eftir því að faðir hans hafði spáð „að Jesús nokkur Kristur, sonur Guðs, mundi koma og friðþægja fyrir syndir heimsins.“ Hann sagði síðan:

„Þegar hugur minn náði nú tökum á þessari hugsun, hrópaði ég í hjarta mínu: Ó Jesús, þú sonur Guðs, vertu mér miskunnsamur, sem fastur er í beiskjugalli og reyrður ævarandi hlekkjum dauðans.

Og sjá. Þegar ég hugleiddi þetta, gleymdi ég kvölum mínum. Já, minningin um syndir mínar hrjáði mig ekki lengur“ (Alma 36:17–19).

Alma hafði fylgt boði engilsins um að muna. Hann minntist Jesú. Á sama hátt og Jesús hafði bjargað feðrum Alma úr ánauð þeirra, frelsaði hann Alma úr sinni.

Þvílík miskunnsemi og máttug frelsun! Þvílík ótrúleg sinnaskipti í hjarta og huga! Alma, sem hafði augnabliki áður hugsað um að flýja návist Guðs með því að verða að engu gjörður, sá nú fyrir sér Guð og heilaga engla hans og „þráði að vera þar“ (Alma 36:22).

Þessi undraverða umbreyting var virkjuð á einfaldan hátt með því að muna. Reynsla Alma setur bókstaflega merkingu í lokaorð ræðu Benjamíns konungs: „Ó, þú maður, haf það hugfast, og þú munt eigi farast“ (Mósía 4:30).

Hann minnist okkar

Á sama tíma og við leggjum okkur fram við að minnast Jesú, er mikilvægt að hafa í huga að hann minnist okkar ávallt. Hann hefur rist okkur á lófa sína (sjá Jesaja 49:16). Hugleiðið þetta – hinn kærleiksríki Jesús mun ekki og getur ekki gleymt okkur, samt gleymir hann syndum okkar auðveldlega og fúslega, þeim sem særðu hann svo.

Það er þess virði að muna það.

Heimildir

  1. Þú mikill ert,“ Sálmar, nr. 22.

  2. The Teachings of Spencer W. Kimball, útg. Edward L. Kimball (1982), 112.