Líahóna
Russell M. Nelson: Spámaður fyrir okkar tíma
September 2024


„Russell M. Nelson: Spámaður fyrir okkar tíma,“ Líahóna, sept. 2024.

Russell M. Nelson: Spámaður fyrir okkar tíma

Með spámann okkur til leiðsagnar á þessum síðari dögum, erum við sannlega blessað fólk.

Nelson forseti heilsar fólki

Russell M. Nelson forseti heilsar fólki eftir trúarsamkomu í Singapúr 20. nóvember 2019.

Þegar viðmælandi gagnrýndi Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem „kirkju rekna af öldruðum mönnum,“ svaraði Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008): „Er ekki dásamlegt að hafa þroskaðan mann við stjórnvölinn; mann dómgreindar sem ekki lætur hrekjast af hverjum kenningarvindi?“

Russell M. Nelson forseti, elsti lifandi spámaðurinn sem þjónað hefur á þessari ráðstöfun, er slíkur maður. Hann fullnar sitt eitt hundraðasta ár 9. september 2024. Hann er einstaklega samúðarfullur leiðtogi, meðvitaður, framsýnn, fullur lífsþróttar, hlýju og visku.

Ég ann Nelson forseta. Við höfum verið vinir í 60 ár og postular saman í 40 ár. Frá janúar 2018 hef ég notið þeirrar blessunar að þjóna undir leiðsögn hans í Æðsta forsætisráði kirkjunnar.

Nelson forseti sem kallaður er til að leiða hina endurreistu kirkju Jesú Krists og vera leiðandi kennari hennar þekkir frelsarann, hvers spámaður hann er. Hann hefur lifað og lært í heila öld og skarað fram úr og verið leiðandi bæði í faglegri og herþjónustu. Í stórri fjölskyldu sinni hefur hann verið ástríkur og áhrifamikill fjölskylduleiðtogi. Í kirkjuköllunum sínum, þar með talið síðustu sex árin sem spámaður Drottins, hefur hann verið fyrirmyndarleiðtogi í hinni endurreistu kirkju Drottins.

Russell M. Nelson forseti

Í heila öld hefur Nelson forseti lært og iðkað lyklana að hamingju í þessu lífi og í því næsta – það sem hann hefur sagt vera „mikilvægustu lexíur lífsins.“

Hann hefur kennt okkur að „byrja með endinn í huga.“

Hann ann húsi Drottins. Á þeim árum sem hann hefur verið forseti kirkjunnar hefur hann tilkynnt um byggingu 153 nýrra mustera – um helming hinna 335 mustera kirkjunnar sem hafa verið byggð, eru í byggingu eða hafa verið tilkynnt á þessari ráðstöfun.

Hann hefur kennt að bygging allra þessara mustera sé að færa musterið og blessanir musterissáttmála nær fleiri börnum Guðs. Það er áætlun Guðs.

Nelson forseti hefur kennd: „Ég hef lært að áætlun himnesks föður fyrir okkur er dásamleg, að það sem við gerum í lífinu skiptir raunverulega máli og að friðþæging frelsarans er það sem gerir áætlun föðurins mögulega. Hann sagði að skilningur á þeirri áætlun, „afhjúpar leyndardóma lífsins og eyðir óvissunni um framtíð okkar. Hún gerir hverju okkar kleift að velja hvernig við viljum lifa hér á jörðu og hvar við munum lifa til eilífðarnóns.“

Sem Síðari daga heilagir erum við sannlega blessað fólk sem leitt er af auðmjúkum þjóni Drottins, Nelson forseta, sem hefur einsett sér að búa heiminn undir síðari komu frelsara okkar og lausnara, Jesú Krists. Megum við öll halda áfram að biðja fyrir, vitna um, styðja og þakka Guði fyrir spámann okkar – Russell Marion Nelson forseta.