„Spámaðurinn leiðir okkur til Jesú Krists,“ Líahóna, sept. 2024.
Spámaðurinn leiðir okkur til Jesú Krists
Spámaðurinn þekkir leiðina því hann þekkir Jesú Krists, sem er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóhannes 14:6).
Dag einn var ég að snæða hádegisverð í mötuneyti höfuðstöðva kirkjunnar, ásamt þremur samstarfsmönnum mínum af hinum Sjötíu. Á meðan við snæddum, kom Russell M. Nelson forseti að borðinu með súpuskálina sína og sagði: „Má ég setjast hjá ykkur?“
„Að sjálfsögðu, forseti!“ sögðum við allir. Hver myndi ekki vilja borða hádegisverð með spámanninum?
Á meðan við snæddum, miðlaði Nelson forseti nokkrum reynslusögum sem hann hefur upplifað í þeim fjölmörgu löndum sem hann hefur heimsótt og talaði um fólk sem hefur innblásið hann. Hann var svo elskulegur, vitur og örlátur.
Þegar við höfðum lokið hádegisverðinum, snéri ég mér að Nelson forseta og sagði: „Forseti, ég veit ekki hvort ég mun sitja við sama borð með þér á næstunni. Í kvöld ætla ég þó að hitta eiginkonu mína og börn og segja þeim að ég hafi snætt hádegisverð með spámanninum. Ég veit að þau munu spyrja mig: ‚Hvað sagði hann þér að segja okkur?‘ Forseti, hverju viltu að ég miðli eiginkonu minni og börnum?“
Nelson forseti horfði á mig eitt andartak. Mér var mikið í mun að heyra hvað hann hefði að segja! „Ég hef einungis þrjú orð fyrir þig,“ sagði hann. „Segðu fjölskyldu þinni að ég hafi sagt: ‚Haldið boðorðin.‘“
Við höfum öll heyrt þessa leiðsögn frá Nelson forseta áður, en á þeirri stundu fann ég persónulegan, sterkan vitnisburð um að Nelson forseti er sannlega spámaður. Ég þakkaði honum fyrir og síðar sama dag sagði ég fjölskyldu minni frá því sem gerst hafði. Börnin okkar bjuggu síðar til límmiða með áletruninni „Haldið boðorðin“ og settu þá á ísskápinn og speglana, til að minna okkur á það sem Nelson forseti hafði sagt.
Síðan þá hef ég hugleitt leiðsögn Nelsons forseta. Þegar við höldum boðorðin, sýnum við himneskum föður og frelsaranum elsku okkar. Við komumst nær þeim og erum stöðug í kærleika þeirra. (Sjá Jóhannes 14:21; 15:10.)
Þessi reynsla með spámanninum hefur staðfest fyrir mér djúpan og andlega mikilvægan sannleika. Í Barnafélaginu syngjum við: „Spámanni fylgið, hann ratar rétt.“ Hann ratar vissulega rétt! Spámaðurinn þekkir leiðina því hann þekkir frelsarann, sem er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóhannes 14:6). Þegar við fylgjum spámanninum, er verið að leiða okkur til Jesú Krists.
Hið heilaga hlutverk spámanna
Drottinn hefur gefið spámönnum þýðingarmikið og heilagt hlutverk, bæði til forna og á okkar tíma. Í ritningunum lesum við að „Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína“ (Þýðing Josephs Smith, Amos 3:7 [í Amos 3:7, neðanmálstilvísun a]).
Í Esekíelsbók lærum við meira um hvers krafist er af spámönnum. Drottinn sagði við spámanninn Esekíel: „þig … hef ég gert að verði fyrir Ísraelsmenn. Þegar þú heyrir orð úr munni mínum átt þú að vara þá [fyrir mig]“ (Esekíel 33:7).
Spámönnum, líkt og varðmönnum í turni, er gefið sérstakt umboð til að vera talsmenn Drottins og boða það sem hann hefur opinberað þeim. Drottinn krefst þess að spámenn hans séu trúaðir menn, ráðvandir og óttalausir.
Lamanítinn Samúel sýndi til að mynda algjöra skuldbindingu sína við Jesú Krist þegar hann stóð uppi á múrvegg og sagði Nefítunum frá því sem Drottinn hafði blásið honum í brjóst (sjá Helaman 13:4).
„Og sjá. Engill Drottins hefur boðað mér þetta,“ sagði Samúel „og hann færði sálu minni gleðitíðindi. Ég var sendur til yðar til að boða yður það einnig, svo að þér heyrðuð gleðitíðindin. En sjá. Þér vilduð ekki taka við mér“ (Helaman 13:7).
Mér finnst undravert að Samúel hafi borið djarflega vitni um sannleikann – jafnvel þegar Nefítarnir „köstuðu steinum að honum … og … [skutu] örvum að honum, þar sem hann stóð á múrnum“ (Helaman 16:2). Við sjáum þessa djörfung hjá spámönnum, sjáendum og opinberurum á okkar tíma.
Gera heiminn að betri stað
Ekki alls fyrir löngu hitti ég hjón á stikuráðstefnu í Nashville, Tennessee, Bandaríkjunum. Eiginkonan hafði verið meðlimur kirkjunnar allt sitt líf. Eiginmaðurinn var ekki meðlimur.
Þau komu til mín og eiginmaðurinn sagði: „Ég er reiðubúinn að láta skírast.“
Það gladdi mig að heyra það! Ég spurði hann: „Hvað hefur breyst?“
Hann sagði mér: „Þegar ég heyrði boðskap Nelsons forseta á aðalráðstefnu, snerti hann mig djúpt. Ég vissi að hann var spámaður. Ég öðlaðist vitnisburð og nú er ég reiðubúinn að láta skírast.“
Ég þekki líka konu í Cape Coast, Gana, sem á einhvern hátt stillti inn á aðalráðstefnu. Hún hafði aldrei heyrt um Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu getið, en varð sem límd við það sem hún sá og heyrði frá spámönnum, sjáendum og opinberurum. Seinna leitaði hún að kirkjunni. Hún fann samkomuhús og hitti trúboðana. Það kom að því að hún skírðist. Nýlega sendi hún mér myndir af sér við musterið þar sem hún tók á móti musterisgjöf sinni.
Þessi tvö dæmi sýna hversu áhrifaríkur boðskapur spámannsins er fyrir heiminn! Ef allir myndu hlýta boðskap hans yrði heimurinn svo friðsæll. Við myndum öll leggja áherslu á það sem mestu skiptir, þar á meðal að þróa samband við himneskan föður og son hans Jesú Krist og byggja upp sterkar, eilífar fjölskyldur. Við myndum líka vera besta útgáfan af okkur sjálfum því við héldum tvö æðstu boðorðin: að elska Guð og elska náunga okkar (sjá Matteus 22:37–39). Við myndum leiða fram Síon, samfélag þar sem elska, réttlæti og eining ríkir og endurspeglar anda lærisveinsins (sjá Kenning og sáttmálar 82:14).
Þegar við fylgjum spámanninum getum við verið viss um að við séum að gera það sem Guð vill að við gerum, vegna þess að spámaðurinn fylgir Jesú Kristi – og hjálpar okkur að fylgja honum. Vegna Jesú Krists verður allt í lífinu innihaldsríkt. „Við getum fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar.“ Með því að fylgja spámanninum, getum við sannarlega gert heiminn að betri stað.
Leita lofaðra blessana
Þegar hinir heilögu voru hraktir frá Kirtland, Ohio, fól Æðsta forsætisráðið Oliver Granger að selja eignir hinna heilögu og gera upp skuldir kirkjunnar. Oliver, var venjulegur maður sem var að mestu blindur vegna vosbúðar, tók við þessu vandasama verkefni vegna þess að spámaðurinn Joseph Smith og aðrir leiðtogar höfðu beðið hann um það. Oliver þraukaði í gegnum mikla erfiðleika og Drottinn mat fórnir hans og erfiði mikils.
„Ég er minnugur þjóns míns Olivers Grangers,“ sagði Drottinn. „Sjá, sannlega segi ég honum, að nafn hans skal í helgum minnum haft kynslóð fram af kynslóð, alltaf og að eilífu …
og þegar hann fellur skal hann rísa aftur, því að fórn hans verður mér helgari en arður hans“ (Kenning og sáttmálar 117:12–13).
Oliver og eiginkona hans, Lydia, studdu spámanninn og Drottinn viðurkenndi að Oliver hafði gert sitt besta, jafnvel þótt hann hafi ekki alltaf verið farsæll. Drottinn lagði áherslu á gildi framlags hans fram yfir afrek hans.
Ég minnist þess ekki að hafa heyrt mikið um Oliver Granger, sem trúboða eða jafnvel núna, en nafn hans er nefnt í ritningunum, því hann hlýddi leiðsögn spámannsins og hlaut þær blessanir sem lofað var – nafn hans er heiðrað í helgri minningu. Við lærum af Oliver Granger að jafnvel þótt leiðsögn komi frá guðlegri uppsprettu (með spámönnum), þá tryggir hún ekki að vegurinn sé án hindrana en loforðin eru örugg (sjá Alma 37:17).
Hvernig væri líf okkar án spámanna? Hinn lifandi spámaður og forseti kirkjunnar sér fólki Guðs fyrir beinni samskiptaleið til hans og er eini maðurinn á jörðu sem hlýtur opinberun til að leiða alla kirkjuna. Hann sér okkur líka fyrir áframhaldandi opinberunum frá Guði sem hjálpa okkur að takast á við áskoranir okkar tíma. Við getum fundið frið, gleði og leiðsögn í lífinu með því að hlíta leiðsögn spámannsins er við reynum að líkjast Jesú Kristi meira. (Sjá Kenning og sáttmálar 21:4–6.)
Við skulum tileinka okkur kenningar og fordæmi nútíma spámanna, vitandi að þeir eru verkfæri í höndum Guðs og leiða okkur í átt að eilífum blessunum. Ég ann þeim og bið fyrir þeim. Ég er þakklátur fyrir að vita að þeir eru innblásnir og hjálpa við að leiða okkur og fjölskyldur okkar til frelsara okkar, Jesú Krists.