Líahóna
Hvernig get ég styrkt vitnisburð minn um spámanninn?
September 2024


„Hvernig get ég styrkt vitnisburð minn um spámanninn?“ Líahóna, sept. 2024.

Kom, fylg mér

Helaman 7–16

Hvernig get ég styrkt vitnisburð minn um spámanninn?

Aðalráðstefna getur hjálpað okkur að styrkja vitnisburð okkar um lifandi spámenn.

Russell M. Nelson forseti talar í ræðustól

Í bók Helamans ber spámaðurinn Samúel Lamaníti vitni um Jesú Krist og aðvarar Nefítana og veitir þeim boð (sjá Helaman 13–14). Á okkar tíma gefst okkur líka kostur á að hlusta á tímanlegar aðvaranir spámanns okkar og annarra kirkjuleiðtoga. Það hjálpar okkur að fylgja sáttmálsveginum ef við hlítum boðum þeirra.

Aðalráðstefna er fullkomið tækifæri til að hlýða á nýjustu orð innblásinna leiðtoga okkar og komast nær Jesú Kristi. Hér eru nokkrar leiðir sem þið gætuð hugleitt að nota aðalráðstefnu til að styrkja vitnisburð ykkar um lifandi spámenn:

  1. Ígrundið af kostgæfni fyrir aðalráðstefnu hvers vegna það er mikilvægt fyrir ykkur að hafa spámann. Íhugið að biðja til að hljóta staðfestingu frá andanum um að núverandi forseti kirkjunnar sé spámaður, sjáandi og opinberari Guðs á jörðu á okkar tíma. „Að vita með opinberun að lifandi spámaður sé á jörðu, breytir öllu.“

  2. Kannið hvað í því felst að samþykkja og styðja spámanninn og aðalvaldhafa. Takið þátt í að styðja þá í köllunum þeirra á samkomunni laugardagssíðdegið.

    maður í ráðstefnuhöll réttir upp hægri hönd til stuðnings
  3. „Fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta“(Moróní 10:5). Þegar þið hlustið á boðskap kirkjuleiðtoga, gætið þá að því er andinn ber vitni um að orð þeirra séu sönn.

  4. Eitt helsta hlutverk spámannsins er að vitna um Jesú Krist og kenna okkur að „líta til Guðssonarins í trú“ (sjá Helaman 8:13–16). Þið gætuð viljað taka eftir því hvað spámaðurinn og aðrir ræðumenn kenna um frelsarann.

  5. „Með [Russell M. Nelson forseta] höfum við hlotið óteljandi boð og okkur lofað dásamlegum blessunum, ef við myndum gera frelsara okkar, Jesú Krist, að þungamiðju lífs okkar.“ Íhugið að búa til lista yfir boð spámannsins og annarra ræðumanna á aðalráðstefnu. Vísið aftur í þann lista til að hjálpa ykkur að vinna að því að verða líkari Kristi.

  6. Munið boð Nelsons forseta: „Ég hvet ykkur til að ígrunda oft boðskap þessarar ráðstefnu – jafnvel mjög oft – á næstu sex mánuðum.“ Þegar þið hlustið á eða lesið boðskapinn aftur merkið þá við það sem vekur áhuga ykkar.

  7. Nelson forseti býður okkur að „leita og vænta kraftaverka.“ Þegar þið fylgið leiðsögn spámannsins og gerið breytingar á lífi ykkar, gætið þá að þeim blessunum sem þið hljótið og þeim kraftaverkum sem þið sjáið (sjá Helaman 16:4–5).

Þegar þið fylgið þessum skrefum til að þróa vitnisburð ykkar um spámann, sjáanda og opinberara, einblínið þá á trú ykkar á Jesú Krist og kærleiksríkan himneskan föður. Guð hefur af kærleika séð okkur fyrir spámönnum til að leiða okkur aftur til sín – spámönnum sem eru talsmenn hans við að opinbera heiminum vilja hans. (Sjá Kenning og sáttmálar 1:38; 21:5–6.) Ef við veljum að fylgja leiðsögn þjóna hans, veljum við að fylgja honum.