„Hvernig það hjálpaði mér að endurbyggja undirstöður trúar minnar að vera niðurbrotin,“ Líahóna, sept. 2024.
Ungt fullorðið fólk
Hvernig það hjálpaði mér að endurbyggja undirstöður trúar minnar að vera niðurbrotin
Eftir nokkrar alvarlegar tilfinningalegar, líkamlegar og andlegar áskoranir, uppgötvaði ég hvað það merkir að finna lækningu fyrir milligöngu frelsara okkar, Jesú Krists.
Ég þjónaði sem trúboði í Frakklandi þegar heimurinn hrundi og Kóvid-19 kastaði landinu í algjört útgöngubann. Ég hef barist við þunglyndi allt mitt líf, svo ég hafði áhyggjur af því að einangrandi aðstæður myndu valda því að ég félli í þunglyndistímabil. Fyrsta vikan í sóttkví – vikan fyrir hina sögulegu aðalráðstefnu í apríl 2020 – var hins vegar ein andlegasta vika lífs míns.
Þegar ég lít til baka, þá finnst mér að það sem ég upplifði þessa viku hafa verið Drottinn að byggja mig upp fyrir óveður.
Öldungur Gary E. Stevenson í Tólfpostulasveitinni flutti ræðu á þessari ráðstefnu um þær viðgerðir sem gera ætti á undirstöðum Salt Lake musterisins. Hann líkti breytingunum við okkar eigið líf og bað okkur að íhuga þessa spurningu:
„Hverjir eru undirstöðuþættir míns andlega og tilfinningalega persónuleika, sem gera mér og fjölskyldu minni kleift að vera staðföst og óhagganleg, jafnvel til að standast jarðskjálfta og róstusama atburði, sem örugglega munu eiga sér stað í lífi okkar?“
Þegar ég hlustaði á ræðu hans, sendi andinn mér þau skilaboð að ég, líkt og musterið, yrði brotin niður á vissan hátt á þessu næsta tímabili lífs míns. Mér fannst hins vegar líka, að ef ég sneri mér til Drottins í þessum erfiðleikum, myndi hann hjálpa mér að styrkja trúargrundvöll minn.
Að vera niðurbrotinn
Eins og við var að búast varð ég fljótlega þunglynd og það leið ekki á löngu þar til mér fannst ég föst í endalausri hringrás sjálfsvígshugsana. Mér fannst ég niðurbrotin andlega, tilfinningalega og andlega.
Eftir tveggja mánaða sóttkví skánaði ástandið aðeins. Þökk sé breytingum á aðstæðum mínum, eins og þunglyndislyfjum og endalokum útgöngubanns, þá fór mér að líða betur andlega. Stuttu seinna fór mér að líða illa líkamlega og tók eftir þremur stórum hnúðum neðst í hálsinum.
Í fyrstu hunsaði ég hnúðana, en þegar einkennin versnuðu varð mér ljóst að ég gæti ekki lengur verið á trúboðsakrinum. Ég sneri aftur heim, þar sem ég var strax greind með krabbamein í blóði – Hodgkins eitlaæxli.
Vegna þess að þunglyndislyfin höfðu tilfinningalega deyfandi áhrif, fann ég fyrir sinnuleysi þegar ég byrjaði í sex mánaða lyfjameðferð.
Þrátt fyrir það fór ég að brotna niður líkamlega.
Enduruppbygging andlegrar undirstöðu minnar
Ári eftir að lyfjameðferðinni lauk var mér farið að líða betur líkamlega. Ég var komin aftur í háskólann og farin að gera áætlanir. Hinn brennandi andlegi sársauki og doði sem ég hafði upplifað í trúboði mínu og meðan á lyfjameðferðinni stóð, hafði nú breyst í almennt sinnuleysi um himneskan föður og Jesú Krist.
Ég tókst á við tilfinningar mínar varðandi það sem ég hafði gengið í gegnum og mér fannst þeir hafa yfirgefið mig þegar mér leið sem verst.
Himneskur faðir vissi þó hvaða leið ég þurfti að fara svo ég gæti læknast.
Mér fannst ég vera að kljást við rústir og leifar áður sterkrar trúar minnar og líflegs persónuleika sem áður var. Mér fannst ég svo fjarlæg sjálfri mér. Hjarta mitt mildaðist yfir tilraunum Drottins til að ná til mín, en andlega fann ég til sektar, kvíða og óverðugleika vegna áhugaleysis míns um fagnaðarerindið.
Eftir að hafa hugleitt andlega heilsu mína í nokkra mánuði, hlaut ég innblástur um að gera smávægilegar andlegar breytingar á lífi mínu. Ég hafði hunsað sársaukann um tíma, en vildi takast á við sárindin sem ég fann fyrir í sál minni vegna þeirra áskorana sem ég hafði upplifað.
Fljótlega gat ég séð hönd himnesks föður í lífi mínu. Án þess að vita hversu andlega dofin ég var, fóru vinir mínir og ástvinir að tala um lækningu. Einn þeirra deildi meira að segja trúarræðu Elaine S. Marshall.
Hikandi las ég hana.
Sem hjúkrunarfræðingur, dró Elaine hliðstæður milli líkamlegrar lækningar og andlegrar lækningar og sagði: „Lækning er ekki bati. Lækning er hrein, fljótleg og endanleg - oft undir svæfingu. … Bati… er oft ævilangt ferli og vöxtur, þrátt fyrir og kannski sökum, viðvarandi líkamlegra, tilfinningalegra eða andlegra áfalla. Hann krefst tíma.“
Ég held að það hafi ekki verið nein tilviljun að krabbameinsmeðferðin krafðist sex mánaða lyfjameðferðar. Áhrif lyfjameðferðar eru róttæk, átakamikil og krefjandi. Eitt sem var athyglisvert við það að leyfa líkama mínum að gróa líkamlega, er að mér lærðist lykilregla andlegrar lækningar – hvernig nota á náð Jesú Krists og gefa sjálfri mér tíma og rými til að lækna samband mitt við hann og himneskan föður.
Meðtaka náð frelsarans
Náð er guðleg hjálp, virkjandi og styrkjandi kraftur og andleg lækning. Hún er gjöf frá himneskum föður okkar, „framseld okkur fyrir friðþægingu Drottins Jesú Krists.“
Alma yngri er eftirlætis dæmi mitt um einhvern sem tengist læknandi krafti Jesú Krists fyrir tilstilli friðþægingar hans. Þar sem hann lá í dái í þrjá daga í „kvölum dæmdrar sálar,“ minntist hann kennslu föður síns um Jesú Krist (sjá Alma 36:16–17). Fyrst þráði hann hjálp en snéri sér síðan til Krists, sem breytti braut hans og gerði honum kleift að læknast andlega (sjá Alma 36:18–22).
Fyrsta skrefið í átt að andlegum bata var að finna þrá til að tengjast Guði. Alma kenndi mér hvernig hefjast á handa þegar hann sagði: „Ef þið viljið vakna og vekja hæfileika ykkar til lífs með því að gjöra tilraun með orð mín og sýna örlitla trú, jafnvel þótt ekki sé nema löngun til að trúa, látið þá undan þessari löngun, þar til þið trúið nægilega til að gefa hluta orða minna rúm“ (Alma 32:27).
Af persónulegri reynslu ber ég vitni um að þetta er sannleikur.
Við getum ræktað með okkur þrá, gróðursett sáðkorn (orð Guðs) og nært það sáðkorn, þar til það verður að einhverju raunverulegu og áþreifanlegu. Að endingu munu ávextir trúar okkar á Jesú Krist koma í ljós þegar við sjáum breytingu á gjörðum okkar, skoðunum, trú, hjörtum okkar, huga og loks sál. Við munum byggja undirstöðu okkar á honum (sjá Helaman 5:12).
Líkt og með Alma, þá olli þrá mín til að finna andann og gleði fagnaðarerindisins á ný, mikilli stefnubreytingu sem leiddi mig í gegnum bataferlið. Síðan þá hefur frelsarinn hjálpað mér að samræma mínar fyrri tilfinningar, er ég hef lært að láta af gremju minni gagnvart Guði, honum og eigin veikleikum.
Vegna hans, hafa hlutar af sjálfri mér, sem ég taldi mig hafa glatað í þoku rauna minna – svo sem persónuleiki minn, þrár og kærleikur minn til fagnaðarerindisins – komið til mín aftur og gert mig heila, endurnýjaða og endurreista.
Sterkari undirstaða
Sársauki og áskoranir breyttu mér, en þegar ég fann lækningu fyrir tilstilli Jesú Krists, endurreisti ég sannlega undirstöðu trúar minnar á honum. Eftir því sem tíminn líður og mér batnar, sé ég að sökum Jesú Krists, get ég lært að njóta gleði þrátt fyrir erfiðleika mína. Ég skil nú að mikilvægasti hluti þess að takast á við raunir er ekki það sem brýtur okkur niður eða sársaukinn sem við upplifum – það er það sem fylgir í kjölfarið er við upplifum bata og uppbyggingu fyrir náð frelsarans.
Öldungur Patrick Kearon í Tólfpostulasveitinni kenndi: „Kæru vinir, þið sem … [hafið] borið óréttlæti lífsins – þið getið fengið nýtt upphaf og ferska byrjun. Í Getsemane og á Golgata tók Jesús ‚á sig … alla þá angist og þjáningu sem þú og ég höfum nokkru sinni upplifað‘ [Patrick Kearon, „Hann er upprisinn og vængir hans færa lækningu,“ aðalráðstefna, október 2018], og hann hefur sigrast á öllu!“
Ég bið ykkur sem eruð niðurbrotin um að vera hugrökk, að gefast ekki upp og treysta á Drottin og lækningamátt hans. Með tíma, þolinmæði og jafnvel smæstu þrá, megnar náð hans að umbreyta ykkur, endurbyggja undirstöðu ykkar og hjálpa ykkur að finnast þið vera heil á ný.
Það er sú gjöf sem hann býður sérhverju okkar.
Höfundurinn býr í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.