Líahóna
Öflugt samband
Ágúst 2024


Mánaðarlegur boðskapur Til styrktar ungmennum, ágúst 2024

Öflugt samband

Sáttmáli er meira en samningur; hann er samband.

grænir stólar

Ég á enn mynd af grænu stólunum sem öldungur Pistone og öldungur Morasco sátu í þegar þeir kenndu fjölskyldu minni heima í Argentínu. Þeir kenndu af svo miklum andlegum krafti að ég (9 ára) og 10 ára systir mín hlupum til að snerta stólana eftir að þeir fóru í þeirri von að krafturinn myndi smitast yfir í okkur.

Ég komst fljótlega að því að krafturinn kom ekki frá stólunum, heldur frá því að eiga sáttmálssamband við Guð og Jesú Krist.

Skírnarupplifunin mín

Ég gerði minn fyrsta sáttmála 13. nóvember 1977. Ég man ekki mikið eftir skírninni minni, en ég man eftir því þegar öldungur Pistone hjálpaði mér ofan í vatnið og öldungur Morasco staðfesti mig meðan hárið á mér var enn blautt. Ég man líka eftir gleðinni sem ég upplifði þegar nýir deildarvinir föðmuðust og kysstust að hætti Argentínumanna og hversu sterkt ég þráði að verða trúföst dóttir himnesks föður.

fjölskylda við skírn

Ung systir Spannaus (fyrir miðju) með foreldrum sínum (til vinstri), systur sinni Silvinu (lengst til hægri) og öldungi Morasco.

Síðar áttaði ég mig á að gleðin sem ég fann ætti rætur í gjöf heilags anda. Ég lærði að þegar ég hélt sáttmála mína við Guð trúfastlega, yrði andinn með mér. Heilagur andi er einungis ein þeirra máttugu blessana sem hljótast af sáttmálssambandi við Guð og Jesú Krist.

Þótt tilgangur minn, hugsanir og gjörðir bregðist, þá hef ég samt von um að halda áfram að reyna. Af hverju? Vegna þess að viðtaka sakramentisins gerir mér kleift að endurnýja sáttmála mína og gera nýja sáttmála í hverri viku. Ég er svo þakklát fyrir þá blessun.

Ljúft sáttmálssamband

Við heyrum oft að sáttmálar séu tvíhliða loforð á milli okkar og Guðs. Þó að það sé rétt, þá er þetta ekki allt sem þeir eru. Í raun er „sáttmálsgjörðin ekki kaldur viðskiptasamningur, heldur ljúft samband.“

Hvernig skapar maður sáttmálssamband við himneskan föður og frelsarann? Þeir elska ykkur nú þegar fullkomlega og vilja blessa ykkur (sjá 3. Nefí 14:11). En öll tvíhliða sambönd taka tíma og elsku beggja aðila.

Viljið þið verja meiri tíma með þeim? Þegar þið gerið það sem þeir myndu gera, þá gangið þið með þeim! Það gæti verið eins einfalt og að hlusta á vin á erfiðleikatímum, gefa sér tíma til að leika við systkini eða hafa einhvern með sem finnst hann vera útundan. Nýlega varði ég tíma á göngu með Guði við að taka upp hljóðskilaboð og senda textaskilaboð til vinar míns í Argentínu sem var einmana. Ég hef líka ákveðið að hafa musterismeðmælin ætíð gild, svo ég geti varið tíma með Drottni í hans heilaga húsi. Þið getið beðist fyrir um hugmyndir sem hjálpa ykkur að verja tíma með himneskum föður og frelsara ykkar.

Viljið þið sýna þeim umhyggju ykkar? Lítið á boðorðin, sem þið hafið gert sáttmála um að halda, sem kærleikstjáningu ykkar, en ekki lista af reglum. Ég lærði til dæmis að matreiða hollar máltíðir með því að lifa eftir Vísdómsorðinu. Nú kenni ég dætrum mínum að gera slíkt hið sama. Þegar þið haldið fúslega boðorð Guðs, mun elska ykkar til hans og frelsarans aukast.

Sáttmálssamband okkar við himneskan föður og Jesú Krist mun hjálpa okkur að þekkja þá betur og hafa aukinn aðgang að krafti þeirra í lífi okkar – óendanlega meiri en nokkuð annað sem grænir stólar hafa upp á að bjóða. Sá kraftur breytir okkur að eilífu!

Heimildir

  1. Ann M. Madsen, í Truman G. Madsen, The Temple: Where Heaven Meets Earth (2008), 69.