„3. kafli: Lexía 2 – Sáluhjálparáætlun himnesks föður,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)
„3. kafli: Lexía 2,“ Boða fagnaðarerindi mitt
3. kafli: Lexía 2
Sáluhjálparáætlun himnesks föður
Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists hjálpar okkur að svara mikilvægum spurningum sálarinnar. Fyrir tilstilli fagnaðarerindisins lærum við um guðlega sjálfsmynd okkar og eilífa möguleika okkar sem börn Guðs. Fagnaðarerindið gefur okkur von og hjálpar okkur að finna frið, hamingju og lífstilgang. Að lifa eftir fagnaðarerindinu hjálpar okkur að vaxa og finna styrk þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum lífsins.
Guð vill börnum sínum það besta og þráir að veita okkur æðstu blessanir sínar, sem eru ódauðleiki og eilíft líf (sjá HDP Móse 1:39; Kenning og sáttmálar 14:7). Vegna þess að hann elskar okkur, hefur hann séð okkur fyrir áætlun til að hljóta þessar blessanir. Í ritningunum er þessi áætlun kölluð sáluhjálparáætlunin, hin mikla sæluáætlun og endurlausnaráætlunin (sjá Alma 42:5, 8, 11, 13, 15, 16, 31).
Í áætlun Guðs fer hvert okkar í gegnum fortilveru, fæðingu, jarðneskt líf, dauða og líf eftir dauða. Guð hefur séð okkur fyrir því sem við þurfum í þessu ferðalagi, svo að eftir að við deyjum fáum við loks snúið aftur í návist hans og hlotið fyllingu gleði.
Jesús Kristur er þungamiðjan í áætlun Guðs. Með friðþægingu sinni og upprisu gerði Jesús okkur öllum mögulegt að hljóta ódauðleika og eilíft líf.
Meðan við lifum á jörðinni höfum við ekki minningu um fortilveru okkar. Við skiljum heldur ekki fyllilega lífið eftir dauðann. Hins vegar hefur Guð opinberað mörg sannindi um þessa þætti eilífrar ferðar okkar. Þessi sannindi veita okkur næga þekkingu til að skilja tilgang lífsins, upplifa gleði og vekja okkur von um hið góða fram undan. Þessi þekking er helgur fjársjóður okkur til leiðsagnar meðan við erum á jörðinni.
Ábendingar um kennslu
Þessi hluti hefur að geyma sýnishorn af lexíudrögum til að hjálpa ykkur að undirbúa kennsluna. Hann hefur líka að geyma dæmi um spurningar og boð sem þið gætuð notað.
Þegar þið undirbúið ykkur fyrir kennslu, skuluð þið íhuga í bæn aðstæður og andlegar þarfir hvers og eins. Ákveðið hvað gagnlegast er að kenna. Búið ykkur undir að skilgreina hugtök sem fólk gæti ekki skilið. Skipuleggið í samræmi við hversu mikinn tíma þið hafið og munið að hafa lexíurnar stuttar.
Veljið ritningarvers til að nota þegar þið kennið. Lexíuhlutinn „Kenningarleg undirstaða“ hefur að geyma mörg gagnleg ritningarvers.
Íhugið hvaða spurningar skal að spyrja þegar þið kennið. Ráðgerið að bjóða til að hvetja hvern einstakling til að bregðast við.
Leggið áherslu á fyrirheitnar blessanir Guðs og gefið vitnisburð ykkar um það sem þið kennið.
Það sem þið getið kennt fólki á 15 til 25 mínútum
Veljið eina eða fleiri af eftirfarandi reglum um sáluhjálparáætlunina til að kenna. Hina kenningarlegu undirstöðu fyrir hverja reglu er að finna aftan við þessi lexíudrög.
Fortilveran: Tilgangur og áætlun Guðs fyrir okkur
-
Við erum öll andabörn Guðs. Hann skapaði okkur í sinni eigin mynd.
-
Við lifðum hjá Guði áður en við fæddumst á jörðu. Við erum meðlimir fjölskyldu hans. Hann þekkir og elskar hvert okkar.
-
Guð hefur séð okkur fyrir áætlun um hamingju og framþróun í þessu lífi og í eilífðinni.
-
Í fortilveru okkar ákváðum við að fylgja áætlun Guðs. Það fólst í því að koma til jarðar svo við gætum tekið næsta skref í eilífri framþróun okkar.
-
Jesús Kristur er þungamiðjan í áætlun Guðs. Hann gerir okkur mögulegt að öðlast ódauðleika og eilíft líf.
Sköpunin
-
Jesús Kristur skapaði jörðina undir handleiðslu Guðs.
Fall Adams og Evu
-
Adam og Eva voru fyrstu andabörn himnesks föður til að koma til jarðar. Guð skapaði líkama þeirra og setti þau í aldingarðinn Eden.
-
Adam og Eva brutu af sér, þeim var vísað út úr garðinum og þau voru aðskilin frá návist Guðs. Þessi atburður er kallaður fallið.
-
Eftir fallið urðu Adam og Eva dauðleg. Sem dauðlegir menn, gátu þau lært, tekið framförum og eignast börn. Þau upplifðu líka sorg, synd og dauða.
-
Fallið var framfaraskref fyrir mannkynið. Fallið gerði okkur mögulegt að fæðast á jörðu og taka framförum í áætlun himnesks föður.
Líf okkar á jörðinni
-
Áætlun Guðs kveður á um að við þurftum að koma til jarðar til að hljóta efnislíkama, læra og vaxa.
-
Á jörðinni lærum við að lifa í trú. Himneskur faðir hefur þó ekki skilið okkur ein eftir. Hann hefur séð okkur fyrir mörgum gjöfum og leiðarvísum til að hjálpa okkur að snúa aftur í návist hans.
Friðþæging Jesú Krists
-
Sérhvert okkar syndgar og sérhvert okkar mun deyja. Vegna þess að Guð elskar okkur, sendi hann son sinn Jesú Krist til jarðar til að leysa okkur frá synd og dauða.
-
Vegna friðþægingarfórnar Jesú, getum við hlotið fyrirgefningu og verið hreinsuð af syndum okkar. Hjarta okkar getur breyst til hins betra þegar við iðrumst. Það gerir okkur mögulegt að snúa aftur í návist Guðs og hljóta fyllingu gleði.
-
Vegna upprisu Jesú, munum við öll rísa upp eftir dauða okkar. Það felur í sér að andi og líkami hvers og eins munu sameinast á ný og hvert okkar mun lifa ævarandi í fullkomnum, upprisnum líkama.
-
Jesús Kristur veitir huggun, von og lækningu. Friðþægingarfórn hans er mesta kærleikstjáning hans. Hvaðeina sem ósanngjarnt er í lífinu er hægt að færa í réttar skorður fyrir friðþægingu Jesú Krists.
Andaheimurinn
-
Þegar líkami okkar deyr heldur andi okkar áfram að lifa í andaheiminum. Þetta er tímabundið ástand lærdóms og undirbúnings fyrir upprisuna.
-
Fagnaðarerindi Jesú Krists er kennt í andaheiminum og við getum haldið áfram að vaxa og þróast.
Upprisan, sáluhjálp og upphafning
-
Eftir tíma okkar í andaheiminum er upprisan næsta skrefið í eilífri ferð okkar.
-
Upprisan er sameining anda okkar og líkama. Hvert okkar mun rísa upp og hafa fullkominn efnislegan líkama. Við munum hljóta ævarandi líf. Þetta er mögulegt með friðþægingu og upprisu frelsarans.
Dómur og dýrðarríki
-
Þegar við erum reist upp, mun Jesús Kristur vera dómari okkar. Með örfáum undantekningum, munu öll börn Guðs hljóta stað í dýrðarríki.
-
Þótt við verðum öll reist upp, munum við ekki öll hljóta sömu eilífu dýrðina. Jesús mun dæma okkur eftir trú okkar, verkum og iðrun í jarðlífinu og í andaheiminum. Við getum snúið aftur til að lifa í návist Guðs ef við erum trúföst.
Spurningar sem þið gætuð spurt fólk
Eftirfarandi spurningar eru dæmi um það hvernig þið gætuð spurt fólk. Þessar spurningar geta hjálpað ykkur að eiga innihaldsríkar umræður og skilja þarfir og sjónarhorn einstaklings.
-
Hver finnst þér vera tilgangur lífsins?
-
Hvað færir þér hamingju?
-
Hvaða áskoranir þarfnast þú hjálpar Guðs við?
-
Hvað hefur þú lært af þeim áskorunum sem þú hefur tekist á við?
-
Hvað veist þú um Jesú Krist? Hvernig hefur líf hans og hlutverk haft áhrif á líf þitt?
Boð sem þið gætuð sett fram
-
Vilt þú biðja Guð í bæn um að hjálpa þér að vita að það sem við höfum kennt er sannleikur? (Sjá „Kennsluinnsýn: Bæn“ í aftasta hluta lexíu 1.)
-
Vilt þú koma í kirkju með okkur á sunnudaginn til að læra meira um það sem við höfum kennt?
-
Vilt þú lesa Mormónsbók og biðjast fyrir til að vita að hún er orð Guðs? (Þið gætuð lagt til ákveðna kafla eða vers.)
-
Vilt þú fylgja fordæmi Jesú og láta skírast? (Sjá „Boðið um að láta skírast og vera staðfestur“ sem kemur strax á undan lexíu 1.)
-
Getum við ráðgert tíma fyrir næstu heimsókn okkar?
Kenningarleg undirstaða
Þessi hluti hefur að geyma kenningu og ritningarvers sem þið getið lært til að auka þekkingu ykkar og vitnisburð um fagnaðarerindið og hjálpa ykkur að kenna.
Fortilveran: Tilgangur og áætlun Guðs fyrir okkur
Við erum börn Guðs og lifðum hjá honum áður en við fæddumst
Guð er faðir anda okkar. Við erum bókstaflega börn hans, sköpuð í hans mynd. Hvert okkar hefur guðlegt eðli sem barn Guðs. Þessi þekking getur hjálpað okkur í gegnum erfiða tíma og innblásið okkur til að verða það besta sem við getum orðið.
Við lifðum hjá Guði sem andabörn hans áður en við fæddumst á jörðu. Við erum meðlimir fjölskyldu hans.
„Það er ein mikilvæg sjálfsmynd sem er okkar allra núna og að eilífu, sú sem við ættum aldrei að missa sjónar á og sú sem við ættum að vera þakklát fyrir. Hún er að þið eruð og hafið alltaf verið sonur eða dóttir Guðs með andlegar eilífar rætur.
… Að skilja þennan sannleika – að skilja hann og meðtaka í raun – breytir lífi ykkar. Hann veitir ykkur afar sérstaka sjálfsmynd sem enginn getur nokkru sinni tekið frá ykkur. En meira en það, hún ætti að veita ykkur afar sterka tilfinningu um eigið verðmæti og tilfinningu fyrir óendanlegu gildi ykkar. Að lokum veitir það ykkur guðlegan, göfugan og verðugan tilgang í lífinu“ (M. Russell Ballard, „Children of Heavenly Father“ [trúarsamkoma í Brigham Young-háskóla, 3. mars 2020], 2, speeches.byu.edu).
Við völdum að koma til jarðar
Himneskur faðir elskar okkur og þráir að við verðum eins og hann er. Hann er upphafin vera með dýrlegan efnislíkama.
Í fortilveru okkar lærðum við að Guð hefur áætlun fyrir okkur um að verða eins og hann er. Einn þáttur í áætlun hans var að við myndum yfirgefa himneskt heimili okkar og fara til jarðar til að hljóta efnislíkama. Við þurftum líka að öðlast reynslu og þróa trú á tíma þar sem við erum fjarri návist Guðs. Við myndum ekki muna eftir að hafa lifað með Guði. Hann myndi þó sjá okkur fyrir því sem við þyrftum til að við gætum snúið aftur til dvalar hjá honum.
Sjálfræði, eða frelsið og getan til að velja, er mikilvægur hluti af áætlun Guðs fyrir okkur. Í fortilveru okkar valdi hvert okkar að fylgja áætlun Guðs og koma til jarðar, svo við gætum tekið næsta skref í eilífri framþróun okkar. Við skildum að meðan við værum hér myndum við hljóta mörg ný tækifæri til að vaxa og upplifa gleði. Við skildum líka að við myndum mæta andstöðu. Við myndum upplifa freistingar, raunir, sorg og dauða.
Þegar við ákváðum að koma til jarðar treystum við á kærleika og liðsinni Guðs. Við treystum á áætlun hans okkur til sáluhjálpar.
Himneskur faðir valdi Jesú Krist til að frelsa okkur
Jesús Kristur er þungamiðjan í áætlun Guðs. Áður en við komum til jarðar vissum við að við gætum ekki snúið aftur í návist Guðs á eigin spýtur. Himneskur faðir valdi Jesú Krist, frumgetinn son sinn, til að gera okkur mögulegt að snúa aftur til hans og öðlast eilíft líf.
Jesús samþykkti það fúslega. Hann samþykkti að koma til jarðar og endurleysa okkur með friðþægingarfórn sinni. Friðþæging hans og upprisa myndi gera tilgangi Guðs með okkur mögulegan.
Sköpunin
Áætlun himnesks föður gerði ráð fyrir sköpun jarðar, þar sem andabörn hans myndu hljóta efnislíkama og öðlast reynslu. Líf okkar á jörðinni er nauðsynlegt fyrir okkur til að þróast og verða eins og Guð.
Jesús Kristur skapaði jörðina og allt það sem lifir, undir handleiðslu himnesks föður. Himneskur faðir skapaði síðan karl og konu í sinni mynd. Sköpunin er tjáning á kærleika Guðs og þrá hans til að veita okkur tækifæri til vaxtar.
Fall Adams og Evu
Fyrir fallið
Adam og Eva voru fyrst andabarna himnesks föður til að koma til jarðar. Guð skapaði efnislíkama þeirra í eigin mynd og setti þau í aldingarðinn Eden. Í garðinum voru þau saklaus og Guð sá fyrir þörfum þeirra.
Meðan Adam og Eva voru í garðinum, bauð Guð þeim að neyta ekki af ávexti skilningstrés góðs og ills. Ef þau hlýddu þessu boðorði gætu þau verið áfram í garðinum. Þau myndu þó ekki taka framförum með því að læra af andstöðu og áskorunum jarðlífsins. Þau myndu ekki geta þekkt gleði vegna þess að þau gætu ekki upplifað sorg og sársauka.
Satan freistaði Adam og Evu til að neyta af hinum forboðna ávexti og þau völdu að gera það. Vegna þessarar ákvörðunar, var þeim vísað út úr garðinum og þau voru aðskilin frá návist Guðs. Þessi atburður er kallaður fallið.
Eftir fallið
Eftir fallið urðu Adam og Eva dauðleg. Þau voru ekki lengur saklaus og skildu og upplifðu bæði gott og illt. Þau gætu notað sjálfræði sitt til að velja á milli þessa tveggja. Þar sem Adam og Eva stóðu frammi fyrir andstöðu og áskorunum gátu þau lært og tekið framförum. Vegna þess að þau upplifðu sorg gátu þau líka upplifað gleði. (Sjá 2. Nefí 2:22–25.)
Þrátt fyrir erfiðleikana, fannst Adam og Evu mikil blessun að vera dauðleg. Ein blessunin var sú að þau gátu eignast börn. Það greiddi öðrum andabörnum Guðs leið til að koma til jarðar og hljóta efnislíkama.
Adam og Eva fögnuðu bæði yfir blessunum fallsins. Eva sagði: „Ef ekki væri fyrir brot okkar, hefðum við aldrei eignast [börn] og aldrei þekkt gott frá illu, né gleði endurlausnar okkar og eilíft líf, sem Guð gefur öllum þeim, sem hlýðnast“ (HDP Móse 5:11; sjá einnig vers 10).
Líf okkar á jörðinni
Margir spyrja sig sjálfa: „Af hverju er ég hér á jörðu?“ Líf okkar á jörðu er nauðsynlegur þáttur í áætlun Guðs varðandi eilífa framþróun okkar. Hinn endanlegi tilgangur okkar er að snúa aftur í návist Guðs og hljóta fyllingu gleði. Hér á eftir er tilgreint nokkuð af því hvernig jarðlífið býr okkur undir þetta.
Hljóta efnislíkama
Einn tilgangur þess að koma til jarðar er að hljóta efnislíkama sem andi okkar fær dvalið í. Líkamar okkar eru heilagir, kraftaverkasköpun Guðs. Með efnislíkama getum við gert, lært og upplifað margt sem andi okkar gat ekki. Við getum þróast á þann hátt sem við gátum ekki sem andar.
Vegna þess að líkami okkar er dauðlegur, upplifum við sársauka, sjúkdóma og aðrar raunir. Þessi reynsla getur hjálpað okkur að læra þolinmæði, samúð og aðra guðlega eiginleika. Hún getur verið hluti af leið okkar til gleði. Að velja rétt þegar erfitt er að gera það er oft hvernig trú, von og kærleikur verða hluti af persónu okkar.
Læra að nota sjálfræðið skynsamlega
Annar tilgangur jarðlífsins er að læra að nota sjálfræði okkar skynsamlega – að velja það sem er rétt. Að læra að nota sjálfræði okkar skynsamlega er nauðsynlegt til að verða eins og Guð.
Himneskur faðir og Jesús Kristur kenna okkur hvað er rétt og gefa boðorð til að leiða okkur til hamingju. Satan freistar okkar til að gera rangt, vill að við séum vansæl eins og hann er. Við stöndum frammi fyrir andstæðum góðs og ills, sem er nauðsynlegt til að læra að nota sjálfræði okkar (sjá 2. Nefí 2:11).
Þegar við hlýðum Guði vöxum við og hljótum fyrirheitnar blessanir hans. Þegar við óhlýðnumst fjarlægjumst við hann og tökum á okkur afleiðingar syndar. Þótt það virðist stundum ekki þannig, þá leiðir syndin að lokum til óhamingju. Oft eru blessanir hlýðni – og áhrif syndar – ekki strax augljósar eða sýnilegar út á við. En þær eru vísar, því að Guð er réttlátur.
Jafnvel þegar við gerum okkar besta, syndgum við öll og „skortir Guðs dýrð“ (Rómverjabréfið 3:23). Himneskur faðir vissi þetta og sá okkur fyrir leið til að iðrast svo við getum snúið aftur til hans.
Iðrun færir kraft lausnara okkar Jesú Krists í líf okkar (sjá Helaman 5:11). Þegar við iðrumst, verðum við hreinsuð af synd með friðþægingarfórn Jesú Krists og gjöf heilags anda (sjá 3. Nefí 27:16–20). Með iðrun upplifum við gleði. Leiðin til baka til himnesks föður er okkur opin, því hann er miskunnsamur. (Sjá „Iðrun“ í lexíu 3.)
Læra að lifa í trú
Annar tilgangur þessa lífs er að öðlast reynslu sem getur aðeins hlotist með aðskilnaði frá himneskum föður. Vegna þess að við sjáum hann ekki, þurfum við að læra að lifa í trú (sjá 2. Korintubréf 5:6–7).
Guð hefur ekki skilið okkur eftir ein í þessu ferðalagi. Hann hefur séð okkur fyrir heilögum anda okkur til leiðsagnar, styrktar og helgunar. Hann hefur líka séð okkur fyrir ritningum, spámönnum, bæn og fagnaðarerindi Jesú Krists.
Sérhver hluti af jarðneskri reynslu okkar – gleðin og sorgin, árangurinn og áföllin – getur hjálpað okkur að vaxa þegar við búum okkur undir að snúa aftur til Guðs.
Friðþæging Jesú Krists
Vegna falls Adams og Evu, erum við öll háð synd og dauða. Við getum ekki sigrast á áhrifum syndar og dauða sjálf. Í sáluhjálparáætlun himnesks föður, sér hann okkur fyrir leið til að sigrast á áhrifum fallsins svo við getum snúið aftur til hans. Áður en heimurinn var skapaður, valdi hann Jesú Krist til að vera frelsari okkar og lausnari.
Einungis Jesús Kristur megnaði að frelsa okkur frá synd og dauða. Hann er raunverulegur sonur Guðs. Hann lifði syndlausu lífi, algjörlega hlýðinn föður sínum. Hann var undirbúinn og fús til að fara að vilja himnesks föður.
Friðþæging frelsarans fól í sér þjáningar hans í Getsemanegarðinum, þjáningar hans og dauða á krossinum og upprisu hans. Hann þjáðist svo að við fáum ekki skilið það – svo mikið að honum blæddi úr hverri svitaholu (sjá Kenning og sáttmálar 19:18).
Friðþæging Jesú Krists er dýrðlegasti atburður allrar mannkynssögunnar. Með friðþægingarfórn sinni kom Jesús áætlun föðurins í framkvæmd. Við værum hjálparlaus án friðþægingar Jesú Krists, vegna þess að við getum ekki frelsað okkur frá synd og dauða (sjá Alma 22:12–15).
Fórn frelsara okkar var æðsta kærleikstjáning til föður hans og okkar. „Breidd og lengd og dýpt og hæð“ kærleika Krists eru ofar skilningi okkar (Efesusbréfið 3:18; sjá einnig vers 19).
Jesús Kristur sigraði dauðann fyrir alla
Þegar hann dó á krossinum, fór andi hans úr líkamanum. Á þriðja degi voru andi hans og líkami sameinaðir og verða aldrei aftur aðskildir. Hann birtist mörgum og sýndi þeim að hann hefði ódauðlegan líkama af holdi og beinum. Þessi sameining anda og líkama er kölluð upprisan.
Sem dauðlegir menn mun hvert okkar deyja. En vegna þess að Jesús sigraði dauðann, mun hver maður sem fæddur er á jörðu rísa upp. Upprisan er guðleg gjöf fyrir alla, gefin fyrir miskunn og endurleysandi náð frelsarans. Andi og líkami hvers og eins munu sameinast á ný og hvert okkar mun hljóta ævarandi líf í fullkomnum, upprisnum líkama. Ef ekki væri fyrir Jesú Krist, myndi dauðinn binda enda á alla von um framtíðartilveru með himneskum föður (sjá 2. Nefí 9:8–12).
Jesús gerir okkur mögulegt að hreinsast af syndum okkar
Til að skilja vonina sem við getum hlotið fyrir Krist, þurfum við að skilja lögmál réttvísinnar. Þetta er óbreytanlegt lögmál sem kallar á afleiðingar fyrir gjörðir okkar. Hlýðni við Guð hefur jákvæðar afleiðingar í för með sér og óhlýðni neikvæðar afleiðingar. (Sjá Alma 42:14–18.) Þegar við syndgum verðum við andlega óhrein og ekkert óhreint fær dvalið í návist Guðs (sjá 3. Nefí 27:19).
Meðan á friðþægingarfórn Jesú Krists stóð, tók hann okkar stað, þjáðist og greiddi refsigjaldið fyrir syndir okkar (sjá 3. Nefí 27:16–20). Áætlun Guðs veitir Jesú Kristi kraft til að biðja okkur vægðar – til að standa á milli okkar og réttvísinnar (sjá Mósía 15:9). Vegna friðþægingarfórnar Jesú, getur hann krafist miskunnarréttar síns fyrir okkar hönd, þegar við iðkum trú til iðrunar (sjá Moróní 7:27; Kenning og sáttmálar 45:3–5). „Miskunnsemin [getur] fullnægt kröfum réttvísinnar og [umvafið okkur] örmum öryggisins“ (Alma 34:16).
Aðeins með gjöf friðþægingar frelsarans og iðrun okkar getum við snúið aftur til að lifa með Guði. Þegar við iðrumst er okkur fyrirgefið og við verðum andlega hreinsuð. Sektarbyrði synda verður létt af okkur. Særð sál okkar verður læknuð. Við verðum fyllt gleði (sjá Alma 36:24).
Þótt við séum ófullkomin og okkur kunni að verða aftur á, þá er náðin, kærleikurinn og miskunnin í Jesú Kristi yfirsterkari misbrestum, veikleikum og syndum okkar. Guð er alltaf reiðubúinn og fús til að meðtaka okkur þegar við snúum okkur til hans og iðrumst (sjá Lúkas 15:11–32). Ekkert og enginn mun „geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum“ (Rómverjabréfið 8:39).
Jesús Kristur tók á sig sársauka okkar, þrengingar og vanmátt
Í friðþægingarfórn sinni tók Jesús Kristur á sig sársauka okkar, þrengingar og vanmátt. Vegna þessa, veit hann „í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:12; sjá einnig vers 11). Hann býður: „Komið til mín.“ Þegar við gerum það mun hann veita okkur hvíld, von, styrk, yfirsýn og lækningu (Matteus 11:28; sjá einnig vers 29–30).
Þegar við treystum á Jesú Krist og friðþægingu hans getur hann hjálpað okkur að takast á við prófraunir okkar, sjúkdóma og sársauka. Við getum fyllst gleði, friði og huggun. Hvaðeina sem ósanngjarnt er í lífinu er hægt að færa í réttar skorður fyrir friðþægingu Jesú Krists.
Andaheimurinn
Margir spyrja sig sjálfa: „Hvað tekur við eftir dauðann?“ Sáluhjálparáætlunin veitir nokkur mikilvæg svör við þessari spurningu.
Dauðinn er hluti af hinni „miskunnsömu áætlun“ Guðs fyrir okkur (2. Nefí 9:6). Dauðinn bindur ekki enda á tilveru okkar, heldur er hann næsta skrefið í eilífri framþróun okkar. Við verðum að upplifa dauða til að verða eins og Guð er og síðar hljóta fullkominn, upprisinn líkama.
Þegar líkami okkar deyr heldur andi okkar áfram að lifa í andaheiminum. Þetta er tímabundið ástand lærdóms og undirbúnings fyrir upprisuna og lokadóminn. Við munum áfram búa að þekkingu okkar frá jarðlífinu.
Í andaheiminum er tekið á móti þeim sem meðtóku og lifðu eftir fagnaðarerindi Jesú Krists „inn í sæluríki, sem nefnist paradís“ (Alma 40:12). Einnig er tekið á móti litlum börnum í paradís þegar þau deyja.
Andarnir í paradís munu hljóta frið frá erfiðleikum sínum og sorgum. Þeir munu halda áfram andlegum vexti, vinna verk Guðs og þjóna öðrum. Þeir munu kenna þeim fagnaðarerindið sem ekki meðtóku það í jarðlífi sínu (sjá Kenning og sáttmálar 138:32–37, 57–59).
Í andaheiminum mun fólk sem ekki gat meðtekið fagnaðarerindið á jörðu, eða sem valdi að fylgja ekki boðorðunum, upplifa nokkrar takmarkanir (sjá Kenning og sáttmálar 138:6–37; Alma 40:6–14). En vegna þess að Guð er réttlátur og miskunnsamur, mun það fá tækifæri til að verða kennt fagnaðarerindi Jesú Krists. Ef það meðtekur það og iðrast verður það endurleyst frá syndum sínum (sjá Kenning og sáttmálar 138:58; sjá einnig 138:31–35; 128:22). Tekið verður á móti því inn í frið paradísar. Það mun að lokum hljóta stað í dýrðarríki sem byggist á vali þess í jarðlífinu og í andaheiminum.
Við verðum áfram í andaheiminum fram að upprisu okkar.
Upprisan, sáluhjálp og upphafning
Upprisa
Áætlun Guðs gerir okkur mögulegt að vaxa og öðlast eilíft líf. Eftir tíma okkar í andaheiminum er upprisan næsta skrefið í þeim vexti.
Upprisan er sameining líkama okkar og anda. Sérhvert okkar mun rísa upp. Þetta er mögulegt með friðþægingu og upprisu frelsarans. (Sjá Alma 11:42–44.)
Þegar við rísum upp munum við öll hafa fullkominn efnislíkama, laus við sársauka og sjúkdóma. Við verðum ódauðleg, lifum að eilífu.
Sáluhjálp
Vegna þess að við munum öll rísa upp, munum við öll frelsast – eða hljóta sáluhjálp – frá líkamlegum dauða. Þessi gjöf er okkur gefin fyrir náð Jesú Krists.
Við getum líka frelsast – eða hlotið sáluhjálp – frá þeim afleiðingum sem lögmál réttlætisins krefst fyrir syndir okkar. Þessi gjöf er líka möguleg vegna verðleika og miskunnar Jesú Krists þegar við iðrumst. (Sjá Alma 42:13–15, 21–25.)
Upphafning
Upphafning, eða eilíft líf, er æðsta ástand hamingju og dýrðar í himneska ríkinu. Upphafning er skilyrt gjöf. Russell M. Nelson forseti kenndi: „Þessi hæfnisskilyrði eru meðal annars trú á Drottin, iðrun, skírn, viðtaka heilags anda og trúfesti við helgiathafnir og sáttmála musterisins“ („Sáluhjálp og upphafning,“ aðalráðstefna, apríl 2008).
Upphafning merkir að hljóta ævarandi líf hjá Guði í eilífum fjölskyldum. Hún er að þekkja Guð og Jesú Krists, að verða lík þeim og njóta sama lífs og þeir njóta.
Dómur og dýrðarríki
Athugið: Þegar þið kennið fyrst um dýrðarríkin, skulið þið kenna á grunnstigi í samræmi við þarfir og skilning einstaklings.
Þegar við erum reist upp, mun Jesús Kristur verða okkar réttláti og miskunnsami dómari. Með örfáum undantekningum, munum við öll hljóta stað í dýrðarríki. Þótt við munum öll rísa upp, munum við ekki öll hljóta sömu eilífu dýrð (sjá Kenning og sáttmálar 88:22–24, 29–34; 130:20–21; 132:5).
Einstaklingar sem ekki höfðu tækifæri til að skilja fyllilega og hlýða lögmálum Guðs í jarðlífi sínu, mun hljóta það tækifæri í andaheiminum. Jesús mun dæma hvern einstakling eftir eigin trú, verkum, þrám og iðrun í jarðlífinu og í andaheiminum (sjá Kenning og sáttmálar 138:32–34, 57–59).
Ritningarnar kenna um dýrðarríki sem eru himnesk, yfirjarðnesk og jarðnesk. Hvert þeirra er birtingarmynd kærleika, réttlætis og miskunnar Guðs.
Þau sem iðka trú á Krist, iðrast synda sinna, taka á móti helgiathöfnum fagnaðarerindisins, halda sáttmála sína, taka á móti heilögum anda og standast allt til enda, munu frelsast í himneska ríkinu. Í því ríki mun líka verða fólk sem hafði ekki tækifæri til að meðtaka fagnaðarerindið í jarðlífi sínu en „hefði meðtekið það af öllu hjarta“ og gerði það í andaheiminum (Kenning og sáttmálar 137:8; sjá einnig vers 7). Börn sem dóu fyrir ábyrgðaraldur (átta ára aldur) verða líka hólpin í himneska ríkinu (sjá Kenning og sáttmálar 137:10).
Í ritningunum er himneska ríkinu líkt við dýrð eða birtu sólarinnar. (Sjá Kenning og sáttmálar 76:50–70.)
Þau sem lifðu heiðarlegu lífi „sem meðtóku ekki vitnisburð um Jesú í holdinu, heldur hlutu hann síðar“ munu hljóta stað í yfirjarðneska ríkinu (Kenning og sáttmálar 76:74). Sama á við um þau sem voru ekki hugrökk í vitnisburði sínum um Jesú. Því ríki er líkt við dýrð tunglsins. (Sjá Kenning og sáttmálar 76:71–80.)
Þau sem héldu áfram í syndum sínum og iðruðust ekki í þessu lífi eða meðtóku fagnaðarerindi Jesú Krists í andaheiminum, munu hljóta umbun sína í jarðneska ríkinu. Því ríki er líkt við dýrð stjarnanna. (Sjá Kenning og sáttmálar 76:81–86.)
Stutt til miðlungs lexíudrög
Eftirfarandi lexíudrög eru dæmi um það sem þið gætuð kennt einhverjum ef þið hafið aðeins stuttan tíma. Þegar þið notið þessi lexíudrög, skuluð þið velja eina eða fleiri reglur til að kenna. Hina kenningarlegu undirstöðu fyrir hverja reglu er að finna framar í þessum lexíudrögum.
Spyrjið spurninga og hlustið er þið kennið. Leggið fram boð sem hjálpa fólki að læra hvernig vaxa á nær Guði. Mikilvægt er að bjóða viðkomandi að hitta ykkur aftur. Lengd kennslunnar fer eftir spurningunum sem þið spyrjið og hlustun ykkar.
Það sem þið gætuð kennt fólki á 3 til 10 mínútum
-
Við erum öll andabörn Guðs. Við erum meðlimir fjölskyldu hans. Hann þekkir og elskar hvert okkar.
-
Guð hefur séð okkur fyrir áætlun um hamingju og framþróun í þessu lífi og í eilífðinni.
-
Áætlun Guðs kveður á um að við þurftum að koma til jarðar til að hljóta efnislíkama, læra og vaxa.
-
Jesús Kristur er þungamiðjan í áætlun Guðs. Hann gerir okkur mögulegt að öðlast eilíft líf.
-
Jesús skapaði jörðina undir handleiðslu Guðs.
-
Reynslu okkar á jörðu er ætlað að búa okkur undir að snúa aftur til dvalar hjá Guði.
-
Sérhvert okkar syndgar og sérhvert okkar mun deyja. Vegna þess að Guð elskar okkur, sendi hann son sinn Jesú Krist til jarðar til að leysa okkur frá synd og dauða.
-
Hvaðeina sem ósanngjarnt er í lífinu er hægt að færa í réttar skorður fyrir friðþægingu Jesú Krists.
-
Þegar efnislíkami okkar deyr, heldur andi okkar áfram að lifa. Við munum öll að lokum rísa upp. Það felur í sér að andi og líkami hvers og eins munu sameinast á ný og hvert okkar mun lifa ævarandi í fullkomnum, upprisnum líkama.
-
Þegar við erum reist upp, mun Jesús Kristur vera dómari okkar. Með örfáum undantekningum, munu öll börn Guðs hljóta stað í dýrðarríki. Við getum snúið aftur til að lifa í návist Guðs ef við erum trúföst.