„Tillögur að fjölbreyttum kennsluaðstæðum og nemendum,“ Kenna að hætti frelsarans: Fyrir alla sem kenna á heimilinu og í kirkjunni (2022)
„Tillögur að fjölbreyttum kennsluaðstæðum og nemendum,“ Kenna að hætti frelsarans
Tillögur að fjölbreyttum kennsluaðstæðum og nemendum
Lögmál þess að kenna að hætti frelsarans getur átt við hvaða kennslutækifæri sem er – á heimilinu, í kirkjunni og annars staðar. Hins vegar býður hvert tækifæri upp á sína eigin einstöku aðstæður. Þessi hluti veitir viðbótarupplýsingar sem eru fyrir tilgreinda nemendur og kennsluaðstæður.
Heimili og fjölskylda
Heimilið er besti staðurinn til að kenna og læra fagnaðarerindið.
Russell M. Nelson forseti hefur kennt okkur að heimilið skuli vera „miðstöð trúarfræðslu“ („Verum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, október 2018). Kennslan sem fer fram í kirkju eða í trúarskóla yngri deildar, er dýrmæt og þörf, en henni er ætlað að vera til stuðnings þeirri kennslu sem fer fram á heimilinu. Megin vettvangurinn – og ákjósanlegasti vettvangurinn – fyrir trúarfræðslu er heimilið, bæði fyrir okkur sjálf og fjölskyldur okkar.
Það þýðir ekki að góð trúarfræðsla gerist sjálfkrafa á heimilinu, það þarf markvisst átak. Nelson forseti hefur lagt það til að þið gætuð þurft að „breyta“ eða „endurhanna“ heimili ykkar – ekki endilega með því að rífa niður veggi eða leggja nýtt gólfefni, en kannski með því að meta almennt andann á heimili ykkar, þar á meðal hvað þið gerið til að stuðal að þeim anda („Verum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“) Hugleiðið til dæmis tónlistina, myndböndin eða aðra miðla á heimilum ykkar, myndirnar á veggjunum og hvernig fjölskyldumeðlimir tala við og koma fram við hvert annað. Bjóða þessir hlutir áhrifum heilags anda heim? Skipuleggið þið tíma fyrir trúarnám, einstaklingsbundið og sem fjölskylda? Finnst fjölskyldumeðlimum þeir elskaðir, öruggir og nærri Guði þegar þeir eru á heimilum ykkar?
Ykkur finnst ef til vill að þið hafið ekki stjórn á andlegu umhverfi heimilis ykkar. Ef það er málið, verið þá bestu fyrirmyndir sem þið getið verið og biðjið Drottin um aðstoð. Hann mun heiðra heiðarlegt framlag ykkar. Þegar þið reynið að kenna og læra fagnaðarerindið, jafnvel þegar þið sjáið ekki langþráðar niðurstöður strax, þá eruð þið að ná framförum.
Lærdómur á heimilinu byggist á samböndum
„Elskið þá sem þið kennið“ á við um allar aðstæður trúarfræðslu, en á heimilinu ætti kærleikurinn að vera eðlislægur og djúpstæður. Jafnvel þó að heimili ykkar sé ófullkomið, þá er því ætlað að vera miðstöð trúarfræðslu vegna þess að þar eru langvarandi sambönd okkar byggð. Kennarar utan heimilisins gætu búið að meiri reynslu eða þjálfun í kennslu, en þeir geta aldrei hermt eftir möguleikunum á kærleiksríku, eilífu sambandi sem ríkir á heimilinu. Nærið því þessi sambönd. Verjið þeim tíma og setjið fram þá vinnu sem nauðsynleg er í að hlusta á fjölskyldumeðlimi ykkar og byggið samband trausts og skilnings með þeim. Þetta mun hjálpa til við að skapa öruggan grunn til að kenna og læra fagnaðarerindið heima.
Lærdómur á heimilinu getur verið skipulagður, en einnig fyrirvaralaus.
Flestar kennslustundir í kirkjunni fara fram einu sinni í viku, með skipulögðu upphafi og endi, en heima á það ekki alltaf við. Þið gætuð verið með skipulögð fjölskyldukvöld eða ritningarlestur, en kennslutækifæri í fjölskyldunni gerast oft á óformlegan, eðlilegan máta – við máltíðir, heimilisverkin, að spila leiki, í ferðum til og frá vinnu eða skóla, í lestri bóka eða við að horfa á kvikmynd saman. Regnstormur gæti verið tækifæri til að ræða um það hvernig frelsarinn skýlir okkur frá andlegum stormum. Unglingur sem stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun gæti verið tilbúinn að læra um persónulega opinberun. Barn sem er óttaslegið gæti hagnast af vitnisburði ykkar um huggarann. Börn sem eru óþekk eða koma illa fram við hvert annað geta lært um iðrun og fyrirgefningu.
Vegna þess að slíkar stundir eru óskipulagðar, getið þið ekki undirbúið ykkur á sama hátt og fyrir hefðbundna kennslustund. Þið getið hins vegar undirbúið ykkur sjálf með því að vera næm fyrir andanum og að vinna að því að „[vera] ætíð reiðubúin“ (1. Pétursbréf 3:15). Hver stund getur orðið kennslu- eða lærdómsstund.
Heimanám felur í sér smáa, einfalda, staðfasta vinnu.
Foreldrar verða stundum vonsviknir þegar tilraunir þeirra til að kenna virðast ekki ná árangri. Hvert fyrir sig kann eitt fjölskyldukvöld, ein ritningarnámsstund eða umræða um fagnaðarerindið ekki að afkastað miklu. Hins vegar geta nokkrar stundir samanlagt, endurteknar yfir tíma, verið kröftugri og meira styrkjandi en eitt afgerandi atvik eða tímamótakennslustund. „Allt verður að gerast á sínum tíma,“ hefur Drottinn sagt. „Þreytist þess vegna ekki á að gjöra gott, því að þér eruð að leggja grunninn að miklu verki. Og af hinu smáa sprettur hið stóra“ (Kenning og sáttmálar 64:32; sjá einnig Alma 37:6–7). Gefist því ekki upp og hafið ekki áhyggjur af því að afkasta einhverju stórkostlegu í hvert sinn. Verið bara stöðug í framtaki ykkar.
Á heimilinu er lærdómurinn og lífið óaðskiljanlegt
Fagnaðarerindið skiptir strax máli á heimilinu. Þar er fólkið sem lærir með ykkur um fagnaðarerindið, fólkið sem þið lifið það með – daglega. Í raun lærum við fagnaðarerindið oftast þegar við lifum það. Þegar þið lærið og kennið fagnaðarerindið á heimilinu, leitið þá leiða til að tengja það sem þið eruð að læra við það sem þið eruð að gera. Leyfið fagnaðarerindinu á heimilum ykkar að vera eitthvað sem þið leggið ykkur fram við að lifa eftir, ekki bara eitthvað sem þið talið um.
Kenna börnum
Börn þarfnast fjölbreytni
Öll börn eru mismunandi og er þau þroskast, þá breytast einnig þarfir þeirra. Fjölbreytni í kennsluaðferðum ykkar mun hjálpa ykkur að koma til móts við fjölbreytileika þeirra. Hugleiðið til dæmis að nota eftirfarandi atriði:
-
Frásagnir. Frásagnir hjálpa börnum að sjá hvernig fagnaðarerindið tengist hversdagslegu lífi. Notið frásagnir úr ritningunum, úr ykkar eigin lífi, frá fjölskyldusögum eða úr kirkjutímaritum, sérstaklega frásagnir sem fjalla um frelsarann. Skipuleggið leiðir til að blanda börnunum inn í frásögnina – með því að halda uppi myndum, endurtaka setningar eða að leika atriði.
-
Sýnikennsla. Myndir, myndbönd og hlutir geta hjálpað börnum að skilja og muna reglur fagnaðarerindisins. Hægt er að finna margar myndir og myndbönd í Media Library á ChurchofJesusChris.org
-
Tónlist. Sálmar og önnur helg tónlist getur hjálpað börnum að skynja elsku Guðs, finna andann og læra sannleika fagnaðarerindisins. Laglínurnar, takturinn og einfaldir textar geta hjálpað börnum að muna sannleika fagnaðarerindisins um ókomin ár. Þegar þið syngið með börnum, hjálpið þeim að uppgötva og skilja reglurnar sem kenndar eru í söngvunum.
Flest börn læra best þegar nokkur skilningarvit eru virkjuð í einu. Finnið leiðir til að hjálpa börnum að nýta sjón sína, heyrn og snertingu er þau læra. Í sumum tilfellum gætuð þið jafnvel fundið leiðir til að virkja skilningarvit lyktar og bragðs!
Börn eru skapandi
„Þegar þið bjóðið börnum að teikna, byggja, lita eða skrifa eitthvað í tengslum við reglu fagnaðarerindisins, eruð þið að hjálpa þeim að skilja þá reglu og veita þeim áþreifanlega minningu um það sem þau hafa lært. Þau geta einnig notað það sem þau hafa skapað til að miðla öðrum því sem þau hafa lært. Í hverju tölublaði Barnavinarins má finna skapandi verkefni fyrir börn.
Börn eru forvitin
Sjáið tækifæri í því, frekar en truflun, þegar barn spyr spurninga. Spurningar barna eru vísbendingar um að þau séu fús til að læra og spurningar þeirra veita ykkur dýrmæta innsýn í það sem þau eru að hugsa og upplifa. Hjálpið þeim að sjá að svörin við andlegum spurningum þeirra má finna í ritningunum og orðum lifandi spámanna.
Börn þarfnast kærleika, jafnvel þegar þau trufla
Stundum truflar hegðun barna lærdóm annarra. Flest truflandi hegðun kemur út frá þörf sem ekki er mætt. Þegar þetta gerist, verið þolinmóð, kærleiksrík og sýnið þeim áskorunum, sem barnið kann að standa frammi fyrir, skilning. Hann eða hún þarfnast kannski bara fleiri tækifæra til að taka þátt í kennslustundinni á jákvæðan hátt – til dæmis með því að halda á mynd, teikna eitthvað eða lesa ritningargrein.
Ef að barn heldur áfram að trufla, gæti verið hjálplegt að tala einslega við hann eða hana. Útskýrið í anda kærleika og þolinmæði, væntingar ykkar og trú á að hann eða hún geti uppfyllt þær. Hrósið barninu þegar það velur betur.
Börn hafa miklu að miðla
Þegar börn læra eitthvað nýtt, er þeim eðlislægt að vilja miðla öðrum því. Ýtið undir þessa þrá með því að gefa börnum tækifæri til að kenna hvert öðru reglur fagnaðarerindisins, fjölskyldum sínum og vinum. Biðjið þau einnig að miðla ykkur hugsunum sínum, tilfinningum og reynslu sem tengist þeim reglum sem þið eruð að kenna. Þið munið komast að því að þau hafa innsýn sem er einföld, hrein og kraftmikil.
Börn geta skynjað andann en þarfnast kannski aðstoðar við að bera kennsl á áhrif hans.
Jafnvel börn sem hafa ekki enn hlotið gjöf heilags anda, geta skynjað áhrif hans, sérstaklega þegar þau eru að læra um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Þegar þau taka réttlátar ákvarðanir geta þau skynjað ánægju frelsarans með andanum. Kennið þeim um hinar mismunandi leiðir sem andinn talar við okkur. Hjálpið þeim að þekkja rödd hans er hann talar við þau. Þetta mun hjálpa þeim að venja sig á að leita og framkvæma samkvæmt persónulegum opinberunum, allt sitt líf.
Kennsla ungmenna
Ungmenni hafa mikla möguleika
Ungmenni eiga möguleika á að gera stórkostlega hluti í þjónustu Drottins. Mörg tilfelli eru skráð í ritningunum sem sýna fram á að Guð treysti á andlega getu ungs fólks. Ef ungmennin finna að þið treystið þeim, mun sjálfsöryggi þeirra á guðlega möguleika sína vaxa og þau munu koma ykkur á óvart með það sem þau geta komið í verk. Hjálpið þeim af kærleika að sjá hvað himneskur faðir veit að þau geti orðið. Fylgið fordæmi frelsarans með að halda áfram að elska og hvetja þau, vinna með þeim af þolinmæði og gefast aldrei upp á þeim.
Ungmenni læra um sig sjálf
Ungmennin sem þið kennið eru að móta grunn vitnisburðar síns. Þau eru við það að uppgötva trú sína og sannfæringu. Þau eru að taka ákvarðanir sem munu hafa áhrif á lífshlaup þeirra. Til að lifa af andlega á þessum háskalegu tímum og uppfylla hlutverk Drottins fyrir þau, þurfa ungmennin sem þið eruð að kenna, að vita hvernig finna má styrk í raunum sínum, svör við spurningum sínum og hugrekki til að „standa sem vitni Guðs“ (Mósía 18:9).
Ungmenni hafa vaxandi þrá til að læra hluti með rökhyggju og reynslu frekar en að vera sagt frá þeim. Þetta þýðir að það krefst góðra hæfileika til hlustunar að kenna ungmennum. Þegar ungmennin upplifa sig vera skilin, munu þau vera opnari fyrir ráðgjöf og leiðsögn. Fullvissið þau um að Drottinn þekki þau og muni hjálpa þeim er þau takast á við spurningar og mótlæti. Þau geta iðkað trú sína á hann með því að þróa með sér daglegar venjur bænar, ritningarlesturs og þjónustu við aðra. Það að hvetja ungmennin til að taka þátt í kennslustundum í kirkju og læra á eigin spýtur getur hjálpað þeim að fá persónulega reynslu sem mun efla vitnisburð þeirra um guðlega arfleifð þeirra.
Mörgum ungmennum finnst þægilegt að nota tæknina
Ef ungmennin sem þið kennið eiga sinn eigin raftæknibúnað, munið að þessi tæki eru verkfæri til að auka lærdóm. Kennið þeim að nota rafrænu ritningarnar og aðrar heimildir sem finna má í Gospel Library. Þið getið einnig sent skilaboð og hlekki til ungmenna til að hjálpa þeim að undirbúa fyrir komandi lexíur.
Kennsla fullorðinna
Fullorðnir geta borið ábyrgð á eigin lærdómi
Fullorðnir nemendur geta borið ábyrgð á sér sjálfum í trúarnámsaðstæðum (sjá 2. Nefí 2:26). Bjóðið þeim að búa sig undir samræður um fagnaðarerindið með því að læra eitthvað fyrir fram og hvetjið þá til að miðla því sem þeir lærðu með andanum. Þið gætuð einnig spurt þá hverja reglu fagnaðarerindisins þeir myndu vilja nota tímann til að læra um saman.
Fullorðnir nýta reynslu sína þegar þeir læra
Job spurði: „Er spekina að finna hjá öldungum og hyggindin hjá langlífum?“ (Jobsbók 12:12). Venjulega kemur viska og andlegur skilningur eftir áralanga reynslu. Þegar þið kennið fullorðnum, bjóðið þeim að miðla reynslu sem hefur byggt trú þeirra á himneskan föður og Jesú Krist. Þetta mun veita þeim tækifæri til að bera vitni um það hvernig þau hafa lært að þær reglur fagnaðarerindisins sem þeir eru að læra um, séu sannar. Að miðla reynslu mun einnig byggja samband milli þeirra sem þið kennið, hjálpa öllum að „[uppbyggjast] af öllum“ (Kenning og sáttmálar 88:122).
Fullorðnir leita hagnýts gildis
Þeir fullorðnu sem þið kennið kunna að vera í mörgum hlutverkum í atvinnu þeirra, samfélagi, kirkjuköllunum og fjölskyldum. Þegar þeir læra fagnaðarerindið hugsa þeir oft um það hvernig það sem þeir læra, geti hjálpað þeim í þessum hlutverkum. Bjóðið þeim að sjá hvernig orð Guðs eigi við í þeirra einstöku aðstæðum. Þið getið gert það með því að spyrja hvernig reglur fagnaðarerindisins eru þýðingarmiklar og eigi við í lífi þeirra.
Fullorðnir geta hugsað á margbrotinn hátt
Vegna reynslu þeirra og þekkingar, vita fullorðnir að það er ekki alltaf auðveld leið til að svara spurningum um fagnaðarerindið. Þeir kunna að meta það að ritningargrein kunni að hafa margar merkingar og að þeir geti heimfært reglur fagnaðarerindisins á fjölbreyttar aðstæður í lífinu. Bjóðið þeim að hugleiða hvernig reglur fagnaðarerindisins tengist hverri annarri og því sem er að gerast í lífi þeirra. Hvetjið til þátttöku og umræðna svo að þeir geti lært af einstöku viðhorfi hvers annars.
Kenna fólki með fötlun
Hjálpið hverri persónu að vaxa og þroskast
Joseph Smith kenndi: „Sérhver hugur og andi sem Guð hefur nokkurn tíma sent í heiminn er móttækilegur fyrir aukningu“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 207). Gerið ráð fyrir að öll börn Guðs séu móttækileg fyrir aukningu í þekkingu og þroska. Biðjið Drottinn að hjálpa ykkur að vita hvernig að hjálpa hverjum einstaklingi.
Læra um ákveðnar þarfir
Talið við nemendur, foreldra þeirra eða umönnunaraðila. Komist að því hvernig hver einstaklingur lærir best og hvaða aðferð sé hjálplegust. Þið gætuð einnig ráðgast við aðra leiðtoga og kennara sem hafa reynslu og innsýn til að miðla. Hjálplegar aðferðir má finna á disabilities.ChurchofJesusChrist.org
Skapa jákvætt andrúmsloft
Skapið jákvætt andrúmsloft þar sem allir upplifa öryggi og kærleika. Gerið ekki ráð fyrir að allir nemendur með fötlun séu eins, og komið fram við hvern einstakling af kærleika og virðingu. Hvetjið aðra til að sýna góðvild og viðurkenningu.
Tryggja að allir geti tekið þátt
Gera má smá breytingar til að tryggja að allir nemendur geti lært, einnig þeir með líkamlegar hamlanir eða námsörðugleika. Ef verkefni leggur til að sýnd sé mynd, gætuð þið sungið söng sem tengist efninu til að nemendur með skerta sjón geti tekið þátt.
Komið á reglubundnum venjum og mynstri
Ein leið til að koma á reglubundnum venjum er að búa til veggspjald með dagskrá. Dagskráin gæti byggst upp af bæn, kennslutíma og verkefnavinnu. Að hafa dagskrá getur hjálpað til að draga úr óöryggi og kvíða sumra nemenda
Skilja hvers vegna krefjandi hegðun á sér stað
Lærið um fötlun eða aðstæður sem geta haft áhrif á óæskilega hegðun einstaklings. Fylgist vel með því sem er að gerast þegar krefjandi hegðun hefst. Íhugið af kostgæfni hvernig aðlaga má aðstæður til að styðja nemendur betur.
Frekari upplýsingar um kennslu einstaklinga með fötlun má finna á disabilities.ChurchofJesusChrist.org
Netkennsla
Kynna sér tæknimál
Takið ykkur tíma, fyrir kennslustund, til að kynna ykkur þá tækni sem þið munið nota. Kannið ýmsa þætti hennar, eins og hvernig miðla má myndböndum eða myndum. Hugsanlega væri gott að halda „prufu“ fund með fjölskyldumeðlimum eða vinum.
Flestar deildir og stikur eru með tæknimann. Þið gætuð einnig þekkt aðra sem hafa reynslu af netfundum. Biðjið þá um ráð eða leiðbeiningar.
Útiloka mögulega truflun
Ef mögulegt er, finnið hljóðlátan stað til að sitja fundinn. Hávaði í bakgrunni getur verið truflandi. Hvetjið nemendur til að gera slíkt hið sama eða slökkva á hljóðnemum sínum þegar þeir eru ekki að tala.
Notið myndavélina
Ef hægt er, hafið þá kveikt á myndavélinni svo nemendur geti séð andlit ykkar. Biðjið nemendur (en krefjist þess ekki) að hafa líka kveikt á sínum myndavélum. Þetta getur hjálpað til að skapa anda einingar og gagnkvæms stuðnings.
Nota rafræna spjall möguleikann
Mörg fjarfundarforrit hafa möguleika sem gerir þátttakendum kleift að skrifa spurningar eða athugasemdir í spjallglugga. Sum gera þátttakendum einnig kleift að rétta upp hönd stafrænt. Látið nemendur vita af þessum möguleikum. Þið gætuð úthlutað einhverjum það hlutverk að vera vakandi fyrir athugasemdum í spjallinu eða uppréttum höndum, svo þið getið einbeitt ykkur að því að leiða umræðurnar.
Finna leiðir til að fá nemendur til að taka þátt
Rafrænar lærdómsaðstæður gera stundum erfitt fyrir fólk að láta heyra í sér og sjást. Verið meðvituð um að tengja þá inn sem vilja taka þátt. Stundum þýðir það að mynda minni umræðuhópa (til dæmis að skipta upp fjölmennum sunnudagaskólabekk). Stundum þýðir það að biðja nemendur að taka þátt á ákveðinn máta. Látið ekki takmarkanir tækninnar valda því að þið gleymið eða horfið fram hjá fólki sem er áfjáð og viljugt að læra.