38. kafli
Wentworth-bréfið
Wentworth-bréfið er frásögn spámannsins Josephs Smith um „vöxt, framþróun og trú hinna Síðari daga heilögu og ofsóknir þeim á hendur, “ og þar eru einnig yfirlýsingar sem kunnar eru sem Trúaratriðin.
Úr lífi Josephs Smith
Auk þess að vera forseti kirkjunnar hafði Joseph Smith ýmiss konar ábyrgð í Nauvoo. Í maí 1842 varð hann borgarstjóri Nauvoo, sem hafði það í för með sér að hann var einnig yfirdómari í héraðsdómi Nauvoo. Hann var aðalhershöfðingi og stjórnandi hersveitar Nauvoo. Og í febrúar 1842 tók hann að sér ritstjórn Times and Seasons, tímaritsins sem gefið var út tvisvar í mánuði. Times and Seasons gerði kirkjuleiðtogum kleift að eiga samskipti við hina heilögu, birta opinberanir og mikilvægar ræður og greina frá því sem var að gerast varðandi kirkjuna. John Taylor, meðlimi í Tólfpostulasveitinni, var falið að sjá um margs konar útgáfumál undir leiðsögn spámannsins.
Í fyrsta útgáfublaðinu sem spámaðurinn ritstýrði segir hann að tímaritinu sé ætlað að birta greinar um „mikilvæga atburði, sem daglega eigi sér stað umhverfis okkur; hina hröðu framrás sannleikans; þau margs konar samskipti sem við eigum daglega í við fjarstadda öldunga, bæði hérlendis og í Englandi, á meginlandi Evrópu og í öðrum hlutum heims; umrótarástand þjóðanna; bréfaskriftir og kennslu hinna Tólf; og opinberanir sem við hljótum frá hinum hæsta.“1
Meðan spámaðurinn þjónaði sem ritstjóri Times and Seasons birtust í því mjög mikilvæg skjöl. Texti bókar Abrahams og tvær eftirprentanir birtust í því í mars 1842, og þriðja eftirprentunin var birt í maí. Spámaðurinn hóf einnig í mars að birta „History of Joseph Smith,“ þá frásögn sem síðar varð History of the Church.
Í Times and Seasons, útgefið 1. mars 1842, birti spámaðurinn það sem kunnugt varð sem Wentworth-bréfið. Spámaðurinn sagði, er hann greindi frá ástæðum þess að skjalið var samið: „Að beiðni herra Johns Wentworth, ritstjóra og eiganda blaðsins Chicago Democrat, hef ég ritað eftirfarandi ágrip um „vöxt, framþróun og trú hinna Síðari daga heilögu, sem ég nýt þess heiðurs, undir leiðsögn Guðs, að vera stofnandi að, og um ofsóknir gegn þeim. Herra Wentworth tilgreinir að hann hyggist afhenda skjalið herra [George] Barstow, vini sínum, sem er að rita sögu New Hampshire. Þar sem herra Barstow hefur gert sér far um að leita réttra upplýsinga, fer ég aðeins fram á það við hann, að hann birti alla frásögnina, óskerta og án mistúlkunar.“2
Þegar til kom birti George Barstow ekki frásögn spámannsins í söguriti sínu, því hann ákvað að fjalla aðeins um atburði út árið 1819.3 En Wentworth-bréfið hefur ómetanlegt gildi fyrir Síðari daga heilaga. Það geymir upprunalega frásögn Josephs Smith, þar sem hann vitnar um hina helgu köllun sína frá Guði, sýn sína, þjónustu og kenningar. Það geymir frásögn um vöxt og framgang kirkjunnar og ofsóknir á hendur hinum heilögu. Það geymir spámannlega yfirlýsingu um farsæld kirkjunnar á jörðinni, undir vernd hins mikla Jehóva. Það geymir einnig nokkur mikilvæg atriði sem hvergi finnast annars staðar í spámannlegum kenningum, þar á meðal lýsingu á gulltöflunum og umsögn um efni Mormónsbókar. Það er merkilegt að því leyti, að þar birtir Joseph Smith fyrst frásögnina um fyrstu sýn sína.
Því lýkur með þrettán yfirlýstum kenningaratriðum kirkjunnar, sem nú nefnast Trúaratriðin og eru máttugt vitni um hina guðlegu köllun spámannsins Josephs Smith.
Kenningar Josephs Smith
Guð faðirinn og Jesús Kristur birtust honum sem svar við bæn hans.
„Ég fæddist í bænum Sharon, Windsor-sýslu, Vermont, hinn 23. desember 1805. Þegar ég var tíu ár gamall, fluttu foreldrar mínir til Palmyra, New York, þar sem við áttum heima í um fjögur ár, og þessu næst fluttum við til borgarinnar Manchester. Faðir minn var bóndi og kenndi mér bústörf. Þegar ég var um fjórtán ára gamall, tók ég að hugleiða mikilvægi þess að búa mig undir framtíðina og rannsaka sáluhjálparáætlunina, og komst að því að mikill ágreiningur var um trúarskoðanir. Færi ég í eitt trúfélag, var mér kynnt ein áætlun og síðan önnur í öðru trúfélagi. Hvert trúfélag hélt því fram að sínar kenningar væru hinar einu réttu og sönnu. Ég áleit að allar gætu þær ekki verið réttar, að Guð gæti ekki verið höfundur að slíkri ringulreið og ákvað því að rannsaka efnið enn frekar, í þeirri trú að ef Guð hefði kirkju, væri hún ekki margskipt og klofin, og ef hann kenndi einu trúfélagi að tilbiðja á einhvern einn hátt, og þjónusta ákveðnar helgiathafnir, mundi hann ekki kenna aðrar reglur sem væru í andstöðu við það.
Ég trúði á orð Guðs og hafði sterka sannfæringu um þessa yfirlýsingu Jakobs: ,Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefið.‘ [Jakbr 1:5.] Ég fór á vel falinn stað í trjálundi einum og tók að ákalla Drottin. Meðan ég bað heitt og innilega var huga mínum beint frá öllu því sem umhverfis mig var og ég sá himneska sýn, tvær dýrðlegar verur, sem voru nákvæmlega eins að gerð og útliti, umluktar björtu ljósi, skærara en sólin. Þær sögðu mér að öll trúfélögin tryðu á rangar kenningar, og að ekkert þeirra væri þóknanlegt Guði, sem kirkja hans og ríki. Og mér var ákveðið boðið, að ég ,mætti ekki í neitt þeirra ganga,‘ samhliða því að mér var gefið loforð um að fylling fagnaðarerindisins yrði gerð mér kunn á komandi tíð.“
Mormónsbók var rituð til forna á gulltöflur og færðar Joseph Smith af himneskum sendiboða.
„Að kvöldi 21. september 1823, meðan ég ákallaði Guð og reyndi að iðka trú samkvæmt hinum dýrmætu fyrirheitum ritninganna, sá ég ljós birtast í herbergi mínu, líkt og ljós um hábjartan dag, sem þó var tærara, dýrðlegra og skærara, í fyrstu líkt og húsið fylltist eldbjarma. Birting þess varð til þess að allur líkami minn skalf og á næsta andartaki stóð vera frammi fyrir mér, umlukt dýrð, jafnvel meiri en sú sem þegar umlukti mig. Sendiboðinn kynnti sig sem engil Guðs, sem sendur væri til að boða gleðitíðindi; að sáttmálinn sem Guð gerði við hinn forna Ísrael væri að uppfyllast; að undirbúningurinn fyrir síðari komu Messíasar mundi fljótlega hefjast; að tíminn nálgaðist er fylling fagnaðarerindisins yrði prédikuð með krafti til allra þjóða, svo að búa mætti menn undir Þúsundáraríkið. Ég var upplýstur um að ég væri útvalinn sem verkfæri í höndum Guðs, til að gera að veruleika ætlunarverk hans í þessari dýrðlegu ráðstöfun.
Ég var einnig upplýstur um frumbyggja þessa lands og mér var sýnt hverjir þeir voru, og hvaðan þeir komu. Í stuttu ágripi hlaut ég vitneskju um uppruna þeirra, lífshætti, samfélag, lög og stjórnhætti, um réttlæti þeirra og misgjörðir, og um að blessanir Guðs hafi að endingu verið frá þeim teknar. Mér var einnig gjört kunnugt um hvar töflur nokkrar væru geymdar, sem á voru grafnar heimildir um hina fornu spámenn, sem uppi höfðu verið á þessu meginlandi. Engillinn birtist mér þrisvar sinnum þessa sömu nótt og greindi mér frá þessu sama. Eftir að hafa margsinnis verið vitjað af englum Guðs, sem gerðu mér ljósa hina tilkomumiklu og dýrðlegu atburði sem gerast ættu á efstu dögum, fól engill Drottins heimildirnar mér í hendur að morgni 22. september 1827.
“Heimildir þessar voru letraðar á töflur sem virtust úr gulli; hver tafla var 15 cm breið og 20 cm löng, og ekki jafn þykk og almennar tintöflur. Á þeim var leturgröftur, egypsk rittákn, og voru þær bundnar saman líkt og bók og þrír hringir héldu þeim öllum saman. Allar töflurnar voru um 15 cm þykkar og var hluti þeirra innsiglaður. Letur óinnsiglaða hlutans var smátt og fagurlega rist. Öll bókin var forn á að líta og leturgröftur hennar var afar listrænn. Hjá heimildunum voru forvitnileg verkfæri, sem til forna voru nefnd ,Úrím og Túmmím,’ er voru tveir steinar greyptir í boga, festir við brjóstplötu. Með hjálp Úríms og Túmmíms þýddi ég heimildirnar fyrir gjöf og kraft Guðs.
… Bók þessi … segir frá því að frelsari okkar hafi birtst í þessari heimsálfu eftir að hann var upprisinn; að hann hafi stofnsett fagnaðarerindið þar í allri fyllingu þess og auðlegð, krafti og blessunum; að menn hafi haft postula, spámenn, hirða, kennara og trúboða, sömu regluna, sama prestdæmið, sömu helgiathafnirnar, gjafirnar og blessanirnar og voru fyrir hendi í austurálfu; að menn hafi verið útilokaðir vegna brota sinna; að síðustu spámennirnir sem uppi hefðu verið meðal þeirra hafi fengið fyrirmæli um að rita heimildir um spádóma þeirra, sögu o. þ. h. og fela þær í jörðu, til að þær kæmu fram og sameinuðust Biblíunni og tilgangur Guðs næði fram að ganga á hinum síðari dögum. Ég bendi á Mormónsbók til ýtarlegri frásagnar, en hana má kaupa í Nauvoo eða hjá öllum farand-öldungum okkar.
Um leið og tíðindin um uppgötvun þessa spurðust út, spruttu upp mistúlkanir og rógburður barst á vængjum vindsins út um allt, í allar áttir. Húsið var margsinnis umkringt óaldarlýð og brögðóttum mönnum. Nokkrum sinnum var á mig skotið, en ég slapp með naumindum. Öllum brögðum var beitt til að hafa af mér töflurnar, en máttur og blessanir Guðs voru með mér og nokkrir tóku að trúa vitnisburði mínum.“
Ekkert fær stöðvað framgang kirkjunnar, þrátt fyrir hvers kyns ofsóknir á hendur henni.
„Hinn 6. apríl 1830 var ,Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu‘ stofnuð í borginni Fayette, Seneca-sýslu, New York-fylki. Nokkrir voru kallaðir og vígðir með anda opinberunar og tóku þeir að prédika í samræmi við veitingu andans, og þótt máttvana væru, hlutu þeir styrk af krafti Guðs, og margir iðruðust, létu skírast með niðurdýfingu og fylltust heilögum anda eftir handayfirlagningu. Þeir sáu sýnir og spáðu, djöflar voru út reknir, og sjúkir læknaðir með handayfirlagningu. Frá þeim tíma miðaði verkinu furðu hratt áfram, og söfnuðir voru brátt myndaðar í fylkjunum New York, Pennsylvaníu, Ohio, Indiana, Illinois og Missouri. Í síðast nefnda fylkinu, Jackson-sýslu, var landnám umtalsvert. Margir gengu í kirkjuna og við uxum hratt að fjölda. Við keyptum mörg lönd, býli okkar gáfu vel af sér, og friður og hamingja ríkti meðal okkar sjálfra og um nágrannabyggðir, en þar sem við gátum ekki samlagast nágrönnum okkar (sem margir hverjir voru hinir auvirðulegustu menn, sem flúið höfðu samfélög siðaðra manna undan réttvísinni, upp til sveita) í miðnæturgleðskap þeirra, vanvirðingu hvíldardagsins, hestakeppnum og fjárhættuspilum. Í fyrstu hæðast þeir að okkur, síðan ofsækja þeir okkur og safnast saman í óaldarlýð til að brenna hús okkar, tjarga og fiðra og hýða marga bræður okkar, og loks, í andstöðu við lög og siðferði, hrekja þeir þá frá heimilum sínum, og heimilislausir þurfa þeir að reika um slétturnar, þar til blóð barna þeirra fellur þar til jarðar. Þetta gerðist í nóvembermánuði, og ekki höfðu þeir neitt þak yfir höfuðið nema himininn einan á þessari óblíðu árstíð. Þessu litu stjórnvöld framhjá og jafnvel þótt við hefðum eignarskjal í höndum og hefðum ekki gerst brotleg við nein lög, var í engu bætt úr ástandi okkar.
Margir sjúkir voru þannig ómannúðlega hraktir frá heimilum sínum, og þeir urðu að þola allt þetta ofbeldi og leita sér húsaskjóls þar sem það var að finna. Af þessu leiddi að margir þeirra voru sviptir lífsgæðum og lífsnauðsynjum, mörg börn urðu munaðarlaus, eiginkonur ekkjur og eiginmenn ekklar. Býli okkar voru yfirtekin af óaldarlýð, mörg þúsund nautgripir, sauðir, hestar og alisvín, ásamt heimilistækjum og birgðum, og prentvélar voru brotnar, stolnar eða þær eyðilagðar.
Margir bræðra okkar fluttu til Clay-sýslu, þar sem þeir dvöldu fram til 1836, í þrjú ár. Engu ofbeldi var beitt, en ofbeldishótanir voru viðhafðar. En sumarið 1836 tóku þessar hótanir að verða alvarlegri, þær leiddu til fjöldafunda, ákvarðanir voru teknar, hefndum og eyðileggingu hótað, og enn á ný varð andrúmsloftið óttablandið. Jackson-sýsla hafði gefið fordæmið, og þar sem stjórnvöld í þeirri sýslu höfðu ekkert aðhafst, töluðu stjórnvöld í Clay-sýslu digurbarkalega um að aðhafast heldur ekkert, sem við svo komumst að að satt reyndist, og eftir bjargarleysi og mikinn eignamissi, vorum við á ný hrakin frá heimilum okkar.
Þessu næst settumst við að í sýslunum Caldwell og Daviess, þar sem landnám okkar var yfirgripsmikið, og hugðumst við komast hjá því að þola slíkar ofsóknir á öðru landsvæði, en þar bjuggu afar fáir íbúar. Þar var okkur heldur ekki leyft að vera í friði, því árið 1838 urðum við enn fyrir atlögu óaldarlýðs, fyrirmæli um útrýmingu voru gefin út af Boggs ríkisstjóra, og með stuðningi lagasetninga fóru skipulagðir hópar ruplandi og rænandi um landið og tóku nautgripi, sauði, alisvín o. s. frv., og margir úr hópi okkar voru myrtir með köldu blóði, konur okkar voru svívirtar, og með nauðung sverðsins vorum við látin afsala okkur eigum okkar. Og eftir að hafa þolað sérhverja þá vanvirðu sem ómannúðlegir og ranglátir ræningjar megnuðu að láta okkur þola, voru tólf til fimmtán þúsund sálir, karlar, konur og börn, hraktar frá heimilum sínum og landi, sem þau höfðu eignarskjöl að, og heimilislaus og vinalaus (á miðjum vetri) urðu þau að ráfa um jörðina landflótta eða leita sér hælis í friðsælli sveitum meðal friðsamara fólks. Margir veiktust og dóu úr kulda og vosbúð, margar konur urðu ekkjur og börn urðu munaðarlaus og blásnauð. Ég gæti ritað fleiri orð en hér rúmast til að lýsa óréttlætinu, ranglætinu, morðunum, blóðsúthellingunum, þjófnaðinum, eymdinni og volæðinu sem hin villimannlega, ómannúðlega og stjórnlausa framkoma Missouri-fylkis hefur valdið okkur.
Í því ástandi sem áður er um getið komum við til Illinois-fylkis árið 1839, þar sem gestrisið og vinsamlegt fólk tók á móti okkur: Fólk sem fuslega lét stjórnast af reglum laga og mannúðar. Við höfum hafið byggingu borgar sem hlotið hefur nafnið ,Nauvoo,‘ í Hancock-sýslu. Við erum um sex til átta þúsund hér, auk þess er fjöldi okkar í nærliggjandi sýslu og í næstum öllum sýslum fylkisins. Við höfum fengið í hendur borgarstofnskrá og leyfi til að hafa hersveit, sem nú er skipuð 1.500 mönnum. Við höfum einnig leyfi til að stofna háskóla og landbúnaðar- og framleiðslufélag. Við höfum okkar eigin lög og stjórnhætti og njótum allra þeirra forréttinda sem aðrir frjálsir og upplýstir borgarar njóta.
Ofsóknir hafa ekki stöðvað framrás sannleikans, heldur aðeins verið sem olía á eld. Hann hefur útbreiðst með auknum hraða. Stoltir af þeim málstað sem öldungar þessarar kirkju hafa gengið til liðs við, og meðvitaðir um sakleysi sitt og sannleika trúarbragða þeirra, hafa þeir, mitt í illmælgi og ásökunum, gengið fram og sáð fræi fagnaðarerindisins í næstum hverju fylki Bandaríkjanna. Það hefur breiðst út um bæi okkar og fengið þúsundir skynsamra og göfugra föðurlandsvina til að hlíta þeirri guðlegu tilskipan að láta stjórnast af helgum sannleika þess. Það hefur einnig breiðst út til Englands, Írlands, Skotlands og Wales, en þangað voru fáeinir trúboðar sendir árið 1840 og yfir fimm þúsund manns hafa gengist undir merki sannleikans. Fjöldi manna í hverju því landi gengst undir það nú.
Trúboðar okkar eru nú meðal margra þjóða og í Þýskalandi, Palestínu, Nýja-Hollandi [Ástralíu], Austur-Indíum og fleiri löndum, hefur merki sannleikans verið reist. Engin vanheilög hönd fær stöðvað framrás þessa verks, ofóknir kunna að geisa, múgur sameinast gegn því, herir safnast saman, óhróður breiðst út, en sannleikur Guðs mun sækja fram óháður, ákveðinn og göfugur, þar til hann hefur farið um hvert meginland, vitjað hvers lands, þrætt hvert hérað og hljómað í hverju eyra, þar til tilgangi Guðs er náð og hinn mikli Jehóva segir að verkinu sé lokið.“
Trúaratriðin gera grein fyrir grundvallarkenningum og reglum trúarbragða okkar.
„Vér trúum á Guð, hinn eilífa föður, og á son hans, Jesú Krist, og á heilagan anda.
Vér trúum, að mönnum verði refsað fyrir eigin syndir, en ekki fyrir brot Adams.
Vér trúum, að fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.
Vér trúum, að frumreglur og helgiathafnir fagnaðarerindisins séu: (1) Trú á Drottin Jesú Krist; (2) iðrun; (3) skírn með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda; (4) handayfirlagning til veitingar á gjöf heilags anda.
Vér trúum, að maður verði að vera kallaður af Guði með spádómi og með handayfirlagningu þeirra sem vald hafa, til að prédika fagnaðarerindið og framkvæma helgiathafnir þess.
Vér höfum trú á sama skipulagi og var í frumkirkjunni, þ. e. postulum, spámönnum, hirðum, fræðurum, guðspjallamönnum og svo framvegis.
Vér höfum trú á gjöf til að tala tungum, gjöf spádóma, opinberana, sýna, lækninga, túlkunar tungna og svo framvegis.
Vér höfum trú á, að Biblían sé orð Guðs, að svo miklu leyti sem hún er rétt þýdd. Vér trúum einnig, að Mormónsbók sé orð Guðs.
Vér trúum öllu, sem Guð hefur opinberað, öllu, sem hann nú opinberar, og vér trúum að hann muni enn opinbera margt stórfenglegt og mikilvægt varðandi Guðs ríki.
Vér höfum trú á hinni raunverulegu samansöfnun Ísraels og endurreisn hinna tíu kynkvísla; að Síon verði reist á þessu meginlandi [Ameríku], að Kristur muni sjálfur ríkja hér á jörðu og að jörðin verði endurnýjuð og hljóti paradísardýrð sína.
Vér krefjumst þeirra réttinda að fá að tilbiðja almáttugan Guð, eftir því sem eigin samviska býður, og viðurkennum sömu réttindi til handa öllum mönnum. Lofum þeim að tilbiðja, hvernig, hvar eða hvað sem þeim þóknast.
Vér höfum trú á að lúta konungum, forsetum, stjórnendum og yfirvöldum með því að hlýða lögunum, virða þau og styðja.
Vér trúum, að vér eigum að vera heiðvirð, sönn, skírlíf, góðgjörn, dyggðug og gjöra öllum mönnum gott. Vér getum í sannleika sagt, að vér förum eftir áminningu Páls: Vér trúum öllu, vér vonum allt, vér höfum staðist margt og vér vonumst til þess að geta staðist allt. Sé eitthvað dyggðugt, fagurt, háleitt eða lofsvert, þá sækjumst vér eftir því. [Sjá Trúaratriðin 1:1–13.]
Virðingarfyllst, o. s. frv.,
JOSEPH SMITH.“4
Ábendingar um nám og kennslu
Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.
-
Joseph Smith ritaði Wentworth-bréfið sem svar við beiðni Johns Wentworth og Georges Barstow (bls. 435). Hvenær hefur einhver spurt ykkur um sögu eða kenningar kirkjunnar? Hugleiðið hvernig þið getið brugðist við slíkum spurningum þegar þið lærið eða ræðið um efni kaflans. Hvað getum við lært af orðum Josephs Smith í Wentworth-bréfinu um það hvernig bregðast skuli við slíkum spurningum?
-
Lesið það sem spámaðurinn sagði um fyrstu sýn sína (bls. 435). Hvernig getið þið auðveldað mönnum að skilja Fyrstu sýnina og merkingu hennar fyrir ykkur, næst þegar þið segið einhverjum frá henni?
-
Lesið það sem spámaðurinn segir um komu Mormónsbókar (bls. 436–39). Hverju hefur Mormónsbók breytt í lífi ykkar? Hvernig getum við miðlað vitnisburði okkar um Mormónsbók?
-
Á síðum 439–41 greinir Joseph Smith stuttlega frá tilurð kirkjunnar og ber síðan vitni um hvað fyrir henni á að liggja. Hvað kemur í huga ykkar þegar þið lesið alla aðra málsgreinina á síðu 441? Hvers vegna teljið þið að framrás kirkjunnar verði ekki stöðvuð með ofsóknum? Hvaða dæmi getið þið nefnt um þá sem þroskast hafa af mótlæti? (Hugleiðið dæmi úr ritningunum, kirkjusögunni og lífi ykkar.)
-
Lesið Trúaratriðin (bls. 442–43). Hvernig hafa Trúaratriðin hjálpað ykkur? Hvers vegna teljið þið að við biðjum börnin í Barnafélaginu að læra þau utanbókar? Hugleiðið að gefa ykkur tíma til að læra Trúaratriðin, jafnvel utanbókar.
Ritningargreinar tengdar efninu: Joseph Smith – Saga 1:1–75