Kenningar forseta
39. Kafli: Líknarfélagið: Guðlegt kvenfélag


39. Kafli

Líknarfélagið: Guðlegt kvenfélag

„Englar munu ekki fá haldið að sér höndum ykkur til aðstoðar, ef þið lifið samkvæmt forréttindum ykkar. “

Úr lífi Josephs Smith

Vorið 1842 voru meðlimir kirkjunnar önnum kafnir við að byggja Nauvoo-musterið. Tveir þeirra meðlima voru Sarah Granger Kimball og saumakona hennar, Margaret A. Cook, sem ákváðu, er þær ræddu saman dag einn, að taka höndum saman og hjálpa verkmönnum musterisins. Systir Kimball sagðist ætla að útvega efni svo að systir Cook gæti saumað skyrtur á karlmennina. Systurnar tvær einsettu sér að bjóða fleiri systrum að ganga til liðs við þær og stofna kvenfélag sem ætlað var að vinna saman að þessu góðgerðarmáli. Sarah Granger Kimball sagði: „Nágrannasystur komu saman í dagstofu minni og ákváðu að stofna félagið. Ég var beðin að hafa samband við systur Elizu R. Snow og biðja hana að rita fyrir okkur stofnreglur og fara með þær til Josephs Smith fyrir næsta fund okkar á komandi fimmtudegi.“

Eftir að hafa lesið tillögur okkar að stofnreglum, lýsti spámaðurinn því yfir að þær væru þær bestu sem hann hefði séð, en sagði síðan: ,Þetta er ekki það sem þið þurfið. Greindu systrunum frá því að fórn þeirra sé Drottni þóknanleg, og að hann hafi nokkuð betra í huga fyrir þær en ritaðar stofnreglur. Ég bauð þeim öllum að koma til fundar við mig og nokkra bræðurna … næsta fimmtudagseftirmiðdag.‘ “1

Hinn 17. mars kom spámaðurinn til fundar við 20 konur á öllum aldri, eins og um var talað, ásamt öldungunum John Taylor og Willard Richards, í þakherbergi Rauðsteinaverslunarinnar. Spámaðurinn stofnaði formlega Kvenlíknarfélag Nauvoo og fræddi hina viðstöddu um tilgang hins nýja félags. Systurnar kusu Emmu Smith sem forseta Líknarfélagsins og Emma valdi sér tvo ráðgjafa. Spámaðurinn las síðan opinberun sem veitt hafði verið tólf árum áður, þar sem Drottinn felur Emmu að safna sálmum til útgáfu og segir hana vera „kjörna konu“ (K&S 25:3). Emma Smith stóð upp, tók til máls og lagði áherslu á yfirgripsmikinn tilgang félagsins: „Við ætlum að gera eitthvað óvenjulegt. … Við væntum óvenjulegs starfs og krefjandi kalls.“2

Emma Smith, fyrsti aðalforseti Líknarfélagsins, bjó ætíð að djúpri þrá eftir að þjóna öðrum og byggja upp ríki Guðs og lýsti því eitt sinn yfir að hún óskaði þess að verða „öllum þeim til blessunar sem á einhvern hátt þarfnast einhvers af minni hendi.”3 Í New York saumaði hún fatnað á trúboðana fjóra sem kallaðir voru til að prédika fagnaðarerindið fyrir Lamanítum. Í Kirtland starfaði hún með öðrum konum við að safna ábreiðum, matvælum og fatnaði fyrir Síonarfylkinguna, til að færa hinum hrjáðu heilögu í Missouri. Hún aðstoðaði við matargerð, við að gera sokka, langbrækur og jakka fyrir verkmennina sem byggðu Kirtland-musterið. Hún tók að sér svo marga musterisverkmenn í húsnæði og fast fæði, að hún og Joseph urðu að sofa á gólfinu. Á fyrstu árum Nauvoo helgaði hún að mestu tíma sinn og erfiði við að hjúkra hinum mörgu fórnarlömbum malaríu sem dvöldu í tjöldum fyrir utan heimili hennar á bökkum Mississippi-fljótsins. Á þennan og margan annan hátt sýndi hún fordæmi hinum fjölmörgu systrum hennar tíma. Polly Angell sagði, að þegar spámaðurinn hefði séð hóp kvenna önnum kafinn við að sauma tjöld til að stúka niður svæði í Kirtland-musterinu, hafi hann sagt: „Já, systur, … þið eruð alltaf að verki. Systurnar eru alltaf fyrstar til að láta til sín taka í öllum góðum verkum.“4

Konur kirkjunnar hafa allt frá fyrstu stundum Líknarfélagsins verið stórkostlegt afl til góðs. Á fundi sem haldinn var viku eftir að Líknarfélagið var stofnað, veitti Lucy Mack Smith, móðir spámannsins, systrunum leiðsögn, sem nær til milljóna kvenna í kirkjunni á okkar tímum: ,Við verðum að umvefja hver aðra, annast hver aðra, hugga hver aðra og hljóta fræðslu, svo við öðlumst allar okkar sæti saman á himnum.“5

Kenningar Josephs Smith

Líknarfélagið, sem er undir prestdæminu og stofnað að reglu þess, er nauðsynlegur hluti kirkjunnar.

Sarah Granger Kimball sagði, að stuttu eftir að spámaðurinn Joseph Smith stofnaði Líknarfélagið, hafi hann sagt: „Ég kem skipan á konur undir prestdæminu, að reglu prestdæmisins.… Kirkjan hefur ekki verið fullkomlega skipulögð fyrr en slíkri skipan hefur verið komið á konurnar.“6

Í sögu spámannsins 24. mars 1842 er skráð: „Stofnun [Kvenlíknarfélagsins] lauk í dag. Frú Emma Smith skipar forsetastólinn; frú Elizabeth Ann Whitney og Sarah M. Cleveland eru ráðgjafar hennar; ungfrú Elvira [Cowles] er gjaldkeri, og okkar vel kunna, hæfileikaríka skáld, ungfrú Eliza R. Snow, er ritari.“7

Eliza R.Snow skráði: „Joseph Smith forseti stóð upp. Hann ræddi um stofnun Kvenlíknarfélagsins, hann sagðist hafa á því mikinn áhuga, að það yrði byggt þannig upp að það yrði boðlegt hinum hæsta.“8

Eliza R. Snow skráði einnig: „[Joseph Smith] hvatti systurnar ætíð til að helga trú sína og bænir í þágu þeirra manna, og hafa sannfæringu um þá … trúföstu menn, sem Guð hefur sett sem höfuð kirkjunnar, til að leiða fólk sitt; að þær ættu í bænum sínum að styrkja þá og styðja.… Ef félag þetta hlítir leiðsögn hins almáttuga, gegnum stjórnendur kirkjunnar, mun það hafa kraft til að gefa drottningum sín á meðal fyrirmæli.“9

„Félagi þessu ber að afla sér fræðslu, að þeirri reglu sem Guð hefur komið á – fyrir tilstilli þeirra sem útnefndir hafa verið til að leiða – og ég veiti ykkur nú lyklana í nafni Guðs, og félag þetta skal fagna, og þekking og viska skal upp frá þessari stundu streyma frá himni – nú hefst betri tíð þessa félags.“10

Líknarfélagið gerir konum kleift að breyta samkvæmt eðlislægri góðvild sinni og annast hina nauðstöddu.

„Þetta er góðgerðarfélag, og í samræmi við eðlisfar ykkar, því það er konum eðlislægt að sýna kærleika og góðvild. Ykkur veitast nú þær aðstæður að geta starfað samkvæmt þeirri samkennd sem Guð hefur blásið ykkur í brjóst.“11

„Jesús sagði: ,Gjörið það, sem þér hafið séð mig gjöra.‘ [Sjá 2 Ne 31:12.] Þetta eru aðallykilorðin sem félagið ætti að starfa eftir.“12

Willard Richards skráði: „Joseph Smith forseti ávarpaði fund [Kvenlíknarfélagsins], til að útskýra viðfangsefni félagsins – að systrafélagið gæti hvatt bræðurna til góðra verka við að huga að þörfUm hinna fátæku – leita kærleiksverka og sinna þörfum þeirra – stuðla að bættu siðferði og efla dyggðir samfélagsins.“13

„Að beiðni sótti ég fund Kvenlíknarfélagsins, sem hefur það viðfangsefni að líkna hinum fátæku, bjargarlausu, ekkjum og munaðarleysingjum, og starfa að öllum góðgerðarmálum.… Það var mikill fjöldi sem sótti stofnfund félagsins, og einnig fundina í kjölfar hans, og sumar okkar vitrustu, góðhjörtuðustu, kærleiksríkustu og virðingarfyllstu konur voru þar mættar. Við erum þess fullvissir, út frá vitneskju okkar um hina hreinu góðvild sem ósjálfrátt streymir frá kærleiksríku hjarta þeirra, að með öllu því sem þær hafa á að skipa, munu þær fúslega líkna hinum ókunnuga; þær munu veita hinum sáru og hrjáðu bæði, viðsmjör og vín’; þær munu þerra tár munaðarleysingjans og vekja fögnuð ekkjunnar.

Konur okkar hafa ætíð þekkst af góðverkum sínum og kærleika; … í miðjum ofsóknum á hendur þeim, þegar brauðið hefur verið tekið frá hjálparvana börnum þeirra af harðbrjósta kúgurum þeirra, hafa þær ætíð fúslega lokið upp dyrum sínum fyrir hinum úrvinda ferðalangi, gefið hungruðum af skorti sínum og miðlað fátæklegum fatnaði sínum þeim sem eru í meiri neyð og bjargarleysi. Og nú er þær búa á betra landsvæði, meðal fólks sem sýnir af sér minni villimennsku, og hafa húsakynni, sem þær hafa hingað til ekki notið, erum við sannfærðir um að sameiginlegt starf þeirra muni bæta ástand hinna þjáðu og blásnauðu, hinna ókunnugu og föðurlausu.“14

Líknarfélagið hvetur konur til að iðka heilagleika og fræða hver aðra.

„Kvenlíknarfélaginu ber ekki aðeins að líkna hinum fátæku, heldur einnig að frelsa sálir.“15

„Ástkæru systur, … Við þráum að þið gerið ykkar hlut, og við munum gera okkar hlut, því við viljum fara að öllum fyrirmælum Guðs, líkt og þau veitast okkur beint frá himnum, að lifa eftir hverju því orði sem út gengur af Drottins munni. Megi Guð úthella blessun sinni yfir höfuð ykkar og leiða ykkur á öllum vegum dyggðar, hreinleika og náðar.“16

„Líknarfélagið hefur látið gott af sér leiða: Tilgangur ykkar er að iðka heilagleika. Guð elskar ykkur og bænir ykkar í mína þágu munu fá miklu áorkað. Látið ekki af því að ákalla Guð stöðugt í mína þágu.“17

„Þið verðið að láta af misgjörðum, og hvetja öldungana til góðra verka með góðu fordæmi ykkar.“18

Willard Richards skráði: „Joseph Smith las opinberunina fyrir Emma Smith, í bókinni Kenning og sáttmálar [K&S 25], og bauð henni að … útlista ritningarnar fyrir öllum, og að kenna konum kirkjunnar; að aðrir mættu auk hennar hljóta þessa sömu blessun.“19

Eliza R. Snow skráði: „Þar sem [spámanninum Joseph Smith] bauðst þetta tækifæri, hugðist hann fræða konur félagsins, og gera þeim grein fyrir því hvernig þær gætu hagað starfi sínu, svo þær störfuðu í samræmi við vilja Guðs. …

Hve mikil og dýrðleg munu laun ykkar verða í himneska ríkinu,ef þið lifið eftir þessum reglum. Englar munu ekki fá haldið að sér höndum við að aðstoða ykkur. Séu konur hreinar og saklausar, geta þær komið í návist Guðs, því hvað er Guði þóknanlegra en sakleysi. Þið verðið að vera saklausar, ella fáið þið ekki staðið frammi fyrir Guði. Ef við hyggjumst koma fram fyrir Guð, verðum við að vera hrein, líkt og hann er hreinn.“20

Líknarfélagið hvetur konur til að fylgja fordæmi frelsarans með því að sýna miskunn og forðast erjur.

„Ef þið viljið að Guð sé ykkur miskunnsamur, sýnið þá öðrum miskunn. … Við erum afar eigingjörn, djöfullinn skjallar okkur og telur okkur trú um að við séum afar réttlát, er við einblínum á galla annarra. Við fáum aðeins lifað með því að tilbiðja Guð, allir verða að gera það fyrir sig sjálfa, enginn getur gert það fyrir aðra. Hve ljúf þessi orð frelsarans til Péturs eru: ,Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.‘ [Lúk 22:32.] Á annarri stundu sagði hann við hann: ,Elskar þú mig?‘ og eftir að hafa fengið svar Péturs, sagði hann: ,Gæt þú sauða minna.‘ [Jóh 21:15–17.] Ef systurnar elska Drottin, ættu þær að gæta sauðanna, en afrækja þá ekki. …

Líknarfélagssystur, ættu erjur að vera meðal ykkar? Ég leyfi slíkt ekki. Þið verðið að iðrast og hljóta elsku Guðs. Burt með sjálfsréttlætið. Besti mælikvarðinn, eða reglan, á að fá hina fátæku til að iðrast, er að uppfylla þarfir þeirra með þjónustu.“21

Eliza R. Snow skráði eftirfarandi orð spámannsins: Þrátt fyrir að hinir óverðugu séu meðal okkar, ættu hinir dyggðugu, sjálfs síns vegna, ekki að hryggja og þjaka að nauðsynjalausu hina ólánsömu – þá ætti jafnvel að hvetja héðan í frá til að sækjast eftir velþóknun þessa félags, sem er besti hluti samfélagsins. Hann sagðist mæla með tvennu fyrir meðlimi þessa félags, að gæta tungu sinnar tvöfalt betur: Ekkert skipulagt félag fær staðist án alls þessa. … Viðfangsefnið er að bæta þá sem ekki teljast nógu góðir og leiða þá inn á veg dyggðar, svo þeir teljist meðal hinna góðu. …

“… Skoðið ykkar innri mann – tunguna er erfitt að temja – hafið á henni hemil jafnvel varðandi það sem litlu skiptir – lítill neisti getur orðið að stóru báli.“22

„Yrðlingarnir skemma víngarðana – hið smáa og illa skaðar kirkjuna mest. Ef tilfinningar ykkar eru slæmar, og þið úthellið þeim yfir aðra, getur það valdið mikilli meinsemd.“23

„Skaðið ekki persónuleika nokkurs. Ef meðlimir félagsins fara að hegða sér óvarlega, ráðið þá fram úr því með þeim, og haldið trúnað í öllu, og lítið á alla menn sem væru þeir helgir.“24

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið orð Emmu Smith efst á bls. 447. Hvers vegna teljið þið að Líknarfélagssystur geti komið einhverju óvenjulegu til leiðar? Á hvað hátt hafið þið og fjölskylda ykkar notið blessana af starfi Líknarfélagssystra? Lesið leiðsögnina sem Lucy Mack Smith veitti, neðst á bls. 447. Hvernig fylgir Líknarfélagið þessari leiðsögn nú?

  • Spámaðurinn Joseph Smith kom skipan á Líknarfélagið „undir prestdæminu, að reglu prestdæmisins“ (bls. 448). Hvernig gerir þetta Líknarfélagið frábrugðið öðrum þjónustufélögum í heiminum? (Sjá dæmi á bls. 448.) Hvers vegna teljið þið að kirkjan hafi „ekki verið fullkomlega skipulögð“ fyrr en Joseph Smith kom skipan á Líknarfélagið?

  • Hvernig eru skyldur Líknarfélagssystra nú sambærilegar þeim sem Joseph Smith fól systrunum? (Sjá dæmi á bls. 448–51.) Lesið alla fyrstu málsgreinina á bls. 449. Hvernig geta tækifæri til þjónustu gert okkur kleift að líkjast frelsaranum?

  • Lesið síðustu málsgreinina á bls. 449. Hvað teljið þið felast í björgun sálar? Hvernig uppfylla meðlimir Líknarfélagsins þá ábyrgð, bæði stundlega og andlega?

  • Lesið alla aðra málsgreinina á bls. 449 og þriðju málsgreinina á bls. 450. Hvað geta Líknarfélagssystur gert til að hvetja prestdæmishafa til góðra verka? Hvað geta prestdæmishafar gert til að styðja Líknarfélagssystur í starfi þeirra?

  • Lesið fjórðu málsgreinina á bls. 450. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessum orðum um ábyrgð og tækifæri hverrar systur?

  • Spámaðurinn varaði við því að „[einblína] á galla annarra“ (bls. 451). Hvað teljið þið að felist í þeim orðum? Hvernig getur slíkt viðhorf kæft starf Líknarfélagsins – eða annarra sveita og hópa innan kirkjunnar? Hvað getum við gert til að gæta sauða Drottins, fremur en að velta okkur upp úr ágöllum þeirra?

Ritningargreinar tengdar efninu: Okv 31:10–31; 1 Kor 13:8; K&S 25:1–16; 88:125

Heimildir

  1. Sarah Granger Kimball, “Autobiography,“ Woman’s Exponent, 1. sept. bls. 51.

  2. Emma Smith, tilvitnun í fundargerðabók Líknarfélagsins, mars 1842 – mars 1844, færsla fyrir 17. mars 1842, bls. 12, skráð af Willard Richards, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  3. Emma Hale Smith, Blessing, 1844, handrit, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. Tilvitnun Polly Angell, í Edward W. Tullidge, The Women of Mormondom (1877), bls. 76.

  5. Lucy Mack Smith, ilvitnun í fundargerðabók Líknarfélagsins, mars 1842 – mars 1844, færsla fyrir 24. mars 1842, bls. 18–19, skráð af Elizu R. Snow, Skjalasafn kirkjunnar.

  6. Tilvitnun í Sarah Granger Kimball, “Autobiography,“ Woman’s Exponent, 1.sept. 1883, bls. 51.

  7. History of the Church, 4:567; úr “Ladies’ Relief Society,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 1.apríl 1842, bls. 743; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  8. History of the Church, 4:570; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 30. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  9. History of the Church, 4:604–5; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  10. Úr fyrirlestri semJoseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elisu R. Snow, í fundargerðabók Líknarfélagsins, mars 1842 – mars 1844 bls. 40, Skjalasafn kirkjunnar.

  11. History of the Church, 4:605; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  12. History of the Church, 5:20; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 26. maí 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  13. Úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 17. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards, í fundargerðabók Líknarfélagsins, mars 1842 – mars 1844, bls. 7, Skjalasafn kirkjunnar.

  14. History of the Church, 4:567–68; úr “Ladies’ Relief Society,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 1.apríl, 1842, bls. 743; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  15. History of the Church, 5:25; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. júní 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  16. Bréf frá Joseph Smith og fleiri kirkjuleiðtogum til Líknarfélagsins í Nauvoo, 1842, Nauvoo, Illinois; í fundargerðabók Líknarfélagsins, mars 1842 – mars 1844, bls. 88, Skjalasafn kirkjunnar.

  17. History of the Church, 5:141; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 31. ágúst 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  18. History of the Church, 4:605; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  19. Úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 17. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards, í fundargerðabók Líknarfélagsins, mars 1842 – mars 1844, bls. 8, Skjalasafn kirkjunnar.

  20. History of the Church, 4:604–5; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  21. History of the Church, 5:24; greinaskilum breytt; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. júní 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  22. History of the Church, 5:20; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 26. maí 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  23. History of the Church, 5:140; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 31. ágúst 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  24. Úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 17. mars 1842, í Nauvoo, Illinois;skráð af Willard Richards, í fundargerðabók Líknarfélagsins, mars 1842 – mars 1844, bls. 10, Skjalasafn kirkjunnar.

organizing of Relief Society

Hinn 17. mars 1842 stofnaði Joseph Smith Kvenlíknarfélag Nauvoo. Spámaðurinn sagði:„Kirkjan hefur ekki verið fullkomlega skipulögð fyrr en slíkri skipan hefur verið komið á konurnar.“

women

„Þetta ergóðgerðarfélag.… Ykkur veitast nú þær aðstæður að geta starfað samkvæmt Þeirri samkennd sem Guð hefur blásið ykkur í brjóst.“