22. Kapítuli
Áætlanir gerðar um lausn fólksins undan ánauð Lamaníta — Lamanítar gjörðir ofurölvi — Fólkið flýr, snýr aftur til Sarahemla og gjörist þegnar Mósía konungs. Um 121 f.Kr.
1 Og nú bar svo við, að Ammon og Limí konungur tóku að ráðgast við fólkið um það, hvernig þeir ættu að losna úr ánauðinni, og þeir söfnuðu jafnvel öllu fólkinu saman. Og þetta gjörðu þeir til að geta heyrt rödd manna um þetta mál.
2 Og svo bar við, að þeir fundu enga leið til að losna úr ánauð aðra en þá að taka konur sínar og börn, hjarðir sínar og búpening, sem og tjöld sín, og halda út í óbyggðirnar, því að þar sem fjöldi Lamaníta var svo mikill, var ógjörningur fyrir Limíþjóðina að berjast gegn þeim og ætla sér að losna úr ánauð með sverði.
3 Nú bar svo við, að Gídeon gekk fram og staðnæmdist frammi fyrir konungi og sagði við hann: Ó konungur, þú hefur hingað til oft farið að orðum mínum, þegar við höfum átt í útistöðum við bræður okkar, Lamaníta.
4 Ó konungur, hafi þér ekki fundist ég gagnslítill þjónn og hafir þú fram að þessu hlustað á orð mín að marki og þau komið þér að haldi, þá langar mig til, að þú hlustir á orð mín á þessari stundu, og ég mun þjóna þér og leysa fólk þetta úr ánauð.
5 Og konungur leyfði honum að tala, og Gídeon sagði við hann:
6 Mundu eftir leiðinni í gegnum borgarmúrinn að baki borgarinnar. Lamanítar eða verðir Lamaníta gjörast drukknir, þegar kvölda tekur. Þess vegna skulum við láta boð út ganga til allra um að safna saman hjörðum sínum og búpeningi og reka út í óbyggðirnar að næturlagi.
7 Og ég mun fara að boði þínu og gjalda Lamanítum seinasta vínskattinn, og þá verða þeir drukknir. Og þegar þeir eru drukknir orðnir og sofnaðir, munum við fara eftir leynigöngunum vinstra megin við herbúðir þeirra.
8 Á þennan hátt förum við með konur okkar og börn, hjarðir og búpening út í óbyggðirnar, og við munum fara meðfram Sílomslandi.
9 Og svo bar við, að konungur fór að orðum Gídeons.
10 Og Limí konungur lét fólk sitt smala saman hjörðum sínum. Og hann sendi Lamanítum vínskattinn, og einnig sendi hann þeim meira vín að gjöf. Og þeir svolgruðu í sig vínið, sem Limí konungur sendi þeim.
11 Og svo bar við, að þegnar Limís konungs héldu út í óbyggðirnar að næturlagi með hjarðir sínar og búfé, og í óbyggðunum fóru þeir krókaleiðir um Sílomsland, en tóku síðan stefnu á land Sarahemla undir forystu Ammons og bræðra hans.
12 Og þeir höfðu tekið með sér út í óbyggðirnar allt gull sitt og silfur og þau verðmæti, sem þeir gátu borið, ásamt vistum, og þeir héldu ferð sinni áfram.
13 Og eftir marga daga í óbyggðunum komu þeir til Sarahemlalands, sameinuðust fólki Mósía og gjörðust þegnar hans.
14 Og svo bar við, að Mósía tók þeim fagnandi, og hann tók einnig við heimildaritum þeirra ásamt heimildunum, sem Limíþjóðin hafði fundið.
15 Og nú bar svo við, að þegar Lamanítar uppgötvuðu, að þegnar Limís höfðu farið úr landi að næturlagi, sendu þeir her út í óbyggðirnar á eftir þeim —
16 Og þegar þeir höfðu elt þá í tvo daga, gátu þeir ekki lengur fylgt slóð þeirra, og því villtust þeir í óbyggðunum.