Ritningar
Kenning og sáttmálar 18


18. Kafli

Opinberun til spámannsins Josephs Smith, Olivers Cowdery og Davids Whitmer, gefin í Fayette, New York, í júní 1829. Samkvæmt spámanninum kynnti þessi opinberun „köllun tólf postula á þessum síðustu dögum og veitti leiðbeiningar varðandi uppbyggingu kirkjunnar.“

1–5, Ritningar sýna hvernig byggja á upp kirkjuna; 6–8, Misgjörðir heimsins vaxa; 9–16, Verðmæti sálna er mikið; 17–25, Menn verða að taka á sig nafn Krists til að öðlast sáluhjálp; 26–36, Köllun og ætlunarverk hinna tólf er opinberað; 37–39, Oliver Cowdery og David Whitmer eiga að velja hina tólf; 40–47, Til að öðlast sáluhjálp verða menn að iðrast, láta skírast og halda boðorðin.

1 Sjá, vegna þess sem þú, þjónn minn Oliver Cowdery, hefur æskt að fá að vita hjá mér, gef ég þér þessi orð:

2 Sjá, ég hef við mörg tækifæri gjört þér kunnugt með anda mínum, að það, sem þú hefur skráð, er sannleikur. Þú veist þess vegna að það er sannleikur.

3 Og vitir þú að það er sannleikur, sjá, þá gef ég þér þau boð, að treysta því sem ritað er —

4 Því að þar er allt skráð um grundvöll kirkju minnar, fagnaðarerindi mitt og bjarg mitt.

5 Ef þú þess vegna byggir upp kirkju mína á grundvelli fagnaðarerindis míns og á bjargi mínu, munu hlið heljar eigi á þér sigrast.

6 Sjá, misgjörðir heimsins vaxa, og því er nauðsynlegt að vekja mannanna börn til iðrunar, bæði Þjóðirnar og einnig Ísraelsætt.

7 Þar eð þjónn minn Joseph Smith yngri hefur skírt þig að boði mínu, hefur hann uppfyllt það sem ég bauð honum.

8 Og undrast nú ei, að ég hef kallað hann í eigin tilgangi, þeim tilgangi sem ég þekki. Ef hann þess vegna heldur boðorð mín af kostgæfni, mun hann blessaður með eilífu lífi; og nafn hans er Joseph.

9 Og nú tala ég til þín, Oliver Cowdery, og einnig til Davids Whitmer og gef yður boðorð. Því að sjá, ég býð öllum mönnum, alls staðar að iðrast, og ég ávarpa yður, já, eins og Pál postula minn, því að þér eruð einmitt kallaðir til sömu köllunar og hann var kallaður.

10 Hafið hugfast að verðmæti sálna er mikið í augum Guðs —

11 Því að sjá, Drottinn lausnari yðar leið píslardauða í holdinu. Hann leið þess vegna kvalir allra manna, svo að allir menn gætu iðrast og komið til hans.

12 Og hann hefur risið aftur upp frá dauðum, til þess að geta leitt alla menn til sín, gegn því að þeir iðrist.

13 Og hversu mikil er gleði hans yfir þeirri sál sem iðrast!

14 Þess vegna eruð þér kallaðir til að boða þessu fólki iðrun.

15 Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

16 Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín inn í ríki föður míns, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!

17 Sjá, þér hafið fagnaðarerindi mitt frammi fyrir yður og bjarg mitt og hjálpræði mitt.

18 Biðjið til föðurins í mínu nafni í trú, og í trú á að yður muni hlotnast, og þér skuluð hafa heilagan anda, sem opinberar allt það, sem mannanna börnum er æskilegt.

19 En skorti yður trú, von og kærleika, getið þér ekkert gjört.

20 Stríðið ei gegn nokkurri kirkju nema kirkju djöfulsins.

21 Takið á yður nafn Krists og segið sannleikann af árvekni.

22 Og allir þeir sem iðrast og eru skírðir í mínu nafni, sem er Jesús Kristur, og standa stöðugir allt til enda, þeir skulu hólpnir verða.

23 Sjá, Jesús Kristur er það nafn, sem faðirinn gefur, og ekkert annað nafn er gefið, sem frelsað getur manninn —

24 Þess vegna verða allir menn að taka á sig það nafn, sem faðirinn hefur gefið, því að með því nafni verða þeir kallaðir á efsta degi —

25 Ef þeir þess vegna þekkja ekki það nafn, sem þeir verða kallaðir með, geta þeir ekki eignast stað í ríki föður míns.

26 Og sjá nú, aðrir eru kallaðir til að boða fagnaðarerindi mitt, bæði Þjóðunum og Gyðingum —

27 Já, jafnvel tólf, og hinir tólf skulu vera lærisveinar mínir og þeir skulu taka á sig nafn mitt. Og hinir tólf eru þeir, sem þrá munu af öllu hjarta að taka á sig nafn mitt.

28 Og þrái þeir af öllu hjarta að taka á sig nafn mitt, þá eru þeir kallaðir til að fara út um allan heim og prédika fagnaðarboðskap minn hverri skepnu.

29 Og þetta eru þeir, sem ég hef vígt til að skíra í mínu nafni, samkvæmt því sem skrifað stendur —

30 Og þér hafið það, sem skrifað stendur, frammi fyrir yður. Þess vegna verðið þér að framkvæma það í samræmi við þau orð, sem rituð eru.

31 Og nú tala ég til yðar, hinna tólf — Sjá, náð mín nægir yður. Þér verðið að ganga grandvarir frammi fyrir mér og syndga ekki.

32 Og sjá, þér eruð þeir sem ég hef vígt til að vígja presta og kennara, til að boða fagnaðarerindi mitt, samkvæmt krafti heilags anda, sem í yður er, og samkvæmt köllunum og gjöfum Guðs til mannanna —

33 Og ég, Jesús Kristur, Drottinn yðar og Guð yðar, hef talað þetta.

34 Þessi orð eru ekki frá mönnum, né frá nokkrum manni komin, heldur frá mér. Þess vegna skuluð þér bera því vitni, að þau eru mín, en ekki mannanna —

35 Því að það er mín rödd, sem talar þau til yðar. Því að þau eru gefin yður af anda mínum, og fyrir kraft minn getið þér lesið þau hver fyrir annan. Og án krafts míns gætuð þér ekki haft þau —

36 Þess vegna getið þér vottað, að þér hafið heyrt rödd mína og þekkið orð mín.

37 Og sjá, ég fel þér, Oliver Cowdery, og einnig þér, David Whitmer, að leita hinna tólf, sem bera þær þrár í brjósti, sem ég hef talað um —

38 Og af þrám þeirra og verkum þeirra skuluð þér þekkja þá.

39 Og þegar þér hafið fundið þá, skuluð þér sýna þeim þetta.

40 Og þér skuluð falla á kné og tilbiðja föðurinn í mínu nafni.

41 Og þér verðið að prédika fyrir heiminum og segja: Þér verðið að iðrast og láta skírast í nafni Jesú Krists —

42 Því að allir menn verða að iðrast og láta skírast, og ekki aðeins karlar, heldur konur og þau börn, sem náð hafa ábyrgðaraldri.

43 Og eftir að þér hafið nú tekið á móti þessu, verðið þér að halda boðorð mín í öllu —

44 Og með höndum yðar mun ég vinna undursamlegt verk á meðal mannanna barna, þannig að margir sannfærist um syndir sínar, svo að þeir geti iðrast og komist inn í ríki föður míns.

45 Þess vegna eru þær blessanir, sem ég gef yður, öllu æðri.

46 Og ef þér haldið ei boðorð mín, eftir að þér hafið tekið við þessu, getið þér eigi orðið hólpnir í ríki föður míns.

47 Sjá, ég, Jesús Kristur, Drottinn yðar, Guð yðar og lausnari yðar, hef talað þetta með krafti anda míns. Amen.