Jólasamkomur
Hin sanna jólagleði


Hin sanna jólagleði

Kæru bræður og systur, mér er það mikil ánægja að vera með ykkur í kvöld er við fögnum í orði og söng, fæðingu frelsara okkar og lausnara — já, Drottins Jesú Krists.

Jólin er dásamlegur árstími. Þau eru líka erilsamur tíma hjá okkur flestum. Það er von mín og bæn að við látum ekki stjórnast svo mikið af þrýstingi þessa árstíma að við tökum að einblína á ranga hluti og missum af hinni einföldu gleði sem hlýst af því að minnast fæðingar hins helga barns frá Betlehem.

Hin sanna gleði jólanna hlýst ekki með sífelldum hlaupum fram og til baka, til að koma sem flestu í verk. Við finnum sanna jólagleði þegar við gerum frelsarann að þungamiðju þessa árstíma.

Hann fæddist í fjárhúsi, var lagður í jötu, og kom frá himnum til að lifa á jörðu sem dauðlegur maður og stofna ríki Guðs. Hið dásamlega fagnaðarerindi hans breytti hugsun heimsins. Hann lifði fyrir okkur og dó fyrir okkur. Hvað getum við gefið honum í staðinn?

Mér þykir vænt um orðin sem enska skáldið Christina Rossetti ritaði:

Hvað get ég honum gefið,

þótt fátækur ég sé?

Ef ég væri fjárhirðir,

ég gæfi honum lamb.

Ef ég væri vitringur,

ég uppfyllti mitt hlutverk,

svo hvað get ég honum gefið?

Hjarta mitt ég gef.1

Jólahátíðin ætti að endurspegla kærleikann og óeigingirnina sem frelsarinn kenndi. Að gefa, ekki að þiggja, vekur anda jólanna til fulls. Við verðum ljúfari við hvert annað. Í kærleika náum við til þeirra sem eru ógæfusamari. Hjörtu okkar mýkjast. Óvinum er fyrirgefið, vina er minnst og Guði hlýtt. Andi jólanna lýsir upp gluggamynd sálarinnar og við horfum á öngþveiti heimsins og sýnum fólki meiri áhuga en hlutum. Við þurfum að átta okkur á raunverulegri merkingu anda jólanna, sem í raun er andi Krists.

David O. McKay forseti sagði: „Sönn hamingja hlýst eingöngu þegar við gerum aðra glaða — með því að hagnýta okkur þá kenningu frelsarans að týna eigin lífi til að finna það að nýju. Í stuttu máli, þá er andi jólanna andi Krists, sem fær hjörtu okkar til að ljóma í bróðurlegum kærleika og vináttu, og knýr okkur til ljúfra þjónustuverka.

Það er andi fagnaðarerindis Jesú Krists og hlýðni við það sem færir ‚frið á jörð,‘ vegna þess að merking þess er — velþóknun til allra manna.“2

Megum við gefa líkt og frelsarinn gaf. Það er helg gjöf að gefa af sjálfum sér. Við gefum til minningar alls þess sem frelsarinn gaf. Megum við líka gefa gjafir sem hafa eilíft gildi, ásamt því að gefa gjafir sem að lokum eyðast eða gleymast. Hve heimurinn væri mikið betri, ef allir gæfu gjafir skilnings og samúðar, þjónustu og vináttu, góðvildar og ljúfmennsku.

Megum við, líkt og vitringarnir, leita hinnar björtu, einstæðu stjörnu, nú er jólin renna í garð með allri sinni dýrð, sem leiðir okkur um fæðingarhátíð frelsarans. Megum við öll fara í hina andlegu ferð til Betlehem og hafa kærleika í hjörtum okkar sem gjöf til frelsarans.

Bræður og systur, megi sérhvert okkar eiga gleðileg jól. Það er von mín og bæn, í hinu helga nafni frelsara okkar, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Í Jack M. Lyon og fl., ritst., Best-Loved Poems of the LDS People (1996), 166–67.

  2. David O. McKay, Gospel Ideals (1953), 551.

Prenta