Dýrmætar gjafir frá Guði
Lífið getur verið fyllt trú, gleði, hamingju, von og kærleika, ef við iðkum þó ekki sé nema brot af einlægri trú á Krist.
Bræður og systur, við höfum nú tekið þátt í hátíðarfundinum, viðburði sem við getum rakið aftur til Biblíunnar, er Ísraelsmenn til forna komu saman til að finna návist Drottins og fagna blessunum hans. Við njótum þeirra forréttinda að vera uppi á tíma er þessi forna hefð hefur verið endurreist fyrir tilstilli spámannsins Joseph Smith. Ég hvet ykkur til að skrá í dagbók ykkar það sem þið hafið skynjað í tengslum við þennan mjög svo helga viðburð, sem þið tókuð þátt í.
Nýverið kvöddum við okkar kæra vin og spámann, Thomas S. Monson forseta. Þótt við söknum hann öll, erum við afar þakklát fyrir að Drottinn hefur kallað nýjan spámann, Russell M. Nelson forseta, til að vera í forsæti kirkjunnar. Eins og venja er, höfum við nú hafið nýjan kafla í sögu kirkjunnar. Þetta er dýrmæt gjöf frá Guði.
Þegar við studdum Nelson forseta með uppréttingu handar, stóðum við sem vitni frammi fyrir Guði og viðukenndum hann sem réttmætan arftaka Monsons forseta. Með uppréttri hendi, lofuðum við að hlíta rödd hans, er hann hlýtur leiðsögn frá Drottni.
Drottinn hefur sagt:
„Þér [skuluð] … gefa gaum að öllum orðum hans [sem er forseti kirkjunnar] og fyrirmælum, sem hann gefur yður þegar hann meðtekur þau. …
Því að hans orði skuluð þér taka á móti með fullkominni þolinmæði og trú, sem kæmi það af mínum eigin munni.“
Ég hef þekkt okkar nýja spámann og forseta í yfir 60 ár. Ég hef þjónað með honum í Tólfpostulasveitinni í 33 ár og ég get vitnað um að Drottinn hefur verið að búa hann undir að verða ráðandi postula okkar og spámann, til að nota alla lykla hins heilaga prestdæmisins á jörðu. Megi hvert okkar styðja hann og ráðgjafa hans af öllu hjarta og fylgja leiðsögn þeirra. Við bjóðum líka hjartanlega velkomna öldung Gong og öldung Soares, sem meðlimi Tólfpostulasveitarinnar.
Eftir upprisu Jesú, atburðar sem við fögnum á þessari dásamlegu páskahelgi, birtist Jesús lærisveinum sínum og sagði: „Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Takið eftir hinni tvíþættu framkvæmd – Guð sendir son sinn. Sonurinn sendir þjóna sína – dauðlega karla og konur – til að framfylgja verki þeirra.
Við ættum ekki að láta okkur bregða, þótt við að komast að því að þeir einstaklingar sem kallaðir eru til að vinna verk Guðs, séu ekki fullkomnir. Frásagnir í ritningunum segja frá atburðum um karla og konur sem voru kölluð af Guði til að vinna mikið verk – góðum sonum og dætrum himnesks föður, sem voru kölluð til að þjóna í verkefnum sínum í kirkjunni, reynandi sitt besta, en ekkert þeirra var fullkomið. Hið sama á við um okkur í dag.
Hvernig sækjum við fram og styðjum hvert annað, þrátt fyrir raunveruleika okkar mannlega veikleika og breyskleika? Það hefst með trú – sannri og einlægri trú á Drottin Jesú Krist. Trú á frelsarann er fyrsta frumregla kenningar og fagnaðarerindis Krists.
Fyrir nokkrum árum fór ég til Landsins helga. Þegar við ókum framhjá mustarðsplöntum, spurði stjórnandi BYU miðstöðvarinnar í Jerúsalem hvort ég hefði einhvern tíma séð mustarðskorn. Það hafði ég ekki, svo við stöldruðum við. Hann sýndi mér sáðkorn mustarðsplöntunnar. Það var óvenju smátt.
Ég minntist kennslu Jesú: „Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn.“
Ef við höfum trú, jafn litla og mustarðskorn, getur Drottinn gert okkur kleift að færa fjöll ótta og efasemda í þeim verkefnum sem bíða okkar við að þjóna börnum Guðs, þar með talið fjölskyldu, kirkjumeðlimum og öðrum utan kirkjunnar.
Bræður og systur, lífið getur verið fyllt trú, gleði, hamingju, von og kærleika, ef við iðkum þó ekki sé nema brot af einlægri trú á Krist – jafnvel trú mustarðskorns.
Öldungur George A. Smith minntist leiðsagnar sem spámaðurinn Joseph Smith veitti honum: „Hann sagði að ég mætti aldrei láta hugfallast, hverjir sem erfiðleikar mínir væru. Ef ég væri sokkin í dýpsta pytt Nova Scotia og öll Klettafjöllin hryndu yfir mig, mætti ég ekki láta hugfallast, heldur þráast við, iðka trú og sýna hugrekki, þá myndi ég að lokum komast klakklaust frá öllu.“
Við ættum að hafa í huga þessa yfirlýsingu Páls: „Allt megna ég fyrir hjálp [Krists], sem mig styrkan gjörir.“ Að vita þetta er önnur dýrmæt gjöf frá Guði.
Auk gjafanna sem ég nefndi, eru ótal margar aðrar. Ég nefni hér aðeins fáeinar – gjöf hvíldardags, sakramentis, þjónustu við aðra og hin óviðjafnanlega gjöf Guðs, frelsara okkar.
Gjöf hvíldardags er að upplifa í kirkju og á heimilinu ánægju, gleði og ljúfleika þess að finna fyrir anda Drottins, án nokkurrar truflunar.
Of margir leyfa sér að dvelja næstum öllum stundum í snjallsímum sínum – dag og nótt er horft á skjáinn með heyrnartól í eyrum, sem útilokar hina kyrrlátu og hljóðu rödd andans. Ef við finnum ekki tíma til að slíta okkur frá þessu, gætum við orðið af því að heyra orð þess er sagði: „Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð.” Það er ekkert athugavert við að nýta sér þá tækni sem innblásin er af Drottni, en við verðum að nota hana af skynsemi. Hafið í huga gjöf hvíldardagsins.
Sú blessun að meðtaka sakramentið á sakramentissamkomum, má aldrei verða sjálfsögð eða hversdagsleg. Í einungis 70 mínútur af heilli viku getum við tekið smá hlé til að leita aukins friðar, gleði og hamingju í lífi okkar.
Að meðtaka sakramentið og endurnýja sáttmála okkar, er tákn sem við sýnum Drottni um að við höfum hann ávallt í huga. Friðþæging hans er dýrmæt gjöf frá Guði.
Þau forréttindi að þjóna börnum himnesks föður, eru enn annað tækifæri til að fylgja fordæmi hans ástkæra sonar með því að þjóna hvert öðru.
Sum þjónusta er formleg – í fjölskyldu okkar, kirkjuköllunum og með þjónustu í samfélagslegum félagasamtökum.
Kirkjumeðlimir – bæði karlar og konur – ættu ekki að víla fyrir sér, ef þeir hafa þráð það, að bjóða sig fram í opinber embætti á hvaða stjórnvaldsstigi sem er, hvar sem þeir búa. Raddir okkar eru nauðsynlegar í dag og mikilvægt að þær heyrist í skólum okkar, borgum og löndum. Þar sem lýðræði er fyrir hendi, er skylda okkar sem meðlima að kjósa heiðvirða karla og konur, sem eru fús til að þjóna.
Margskonar þjónusta er óformleg – ekki úthlutuð – og á sér stað er við liðsinnum öðrum í ferð okkar um jarðlífið. Hafið í huga það sem Jesús kenndi lögvitringnum með frásögninni um miskunnsama Samverjann, um að okkur bæri að elska Guð og náunga okkar eins og sjálf okkur.
Þjónusta lýkur upp dyrum skilnings á lífi og þjónustu Krists. Hann kom til að þjóna, eins og ritningin kennir: „Eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“
Pétur kann að hafa gefið bestu lýsinguna á jarðneskri þjónustu frelsarans með fimm orðum um Jesú: „Hann fór um og gjörði gott.“
Drottinn Jesús Kristur er dýrmætastur allra gjafa frá Guði. Jesús sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“
Nefí fangaði mikilvægi frelsara okkar, er hann sagði: „Vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“ Við verðum að hafa Krist sem þungamiðju lífs okkar, alltaf og allsstaðar.
Við ættum að hafa í huga að það er hans nafn sem er skráð á tilbeiðsluhúsum okkar; við erum skírð í hans nafni; og við erum staðfest, vígð, hljótum musterisgjöf og erum innsigluð í hjónaband í hans nafni. Við meðtökum sakramentið og lofum að taka á okkur nafn hans – og verða sannkristið fólk. Loks er okkur boðið í sakramentisbæninni að „hafa hann ávallt í huga.“
Er við búum okkur undir páskasunnudag á morgun, skulum við hafa í huga að Kristur er æðstur. Hann er hinn réttláti dómari, okkar tryggi málsvari, blessaði lausnari, góði hirðir, fyrirheitni Messías, sanni vinur og ótal marg annað. Hann er vissulega afar dýrmæt gjöf til okkar frá föðurnum.
Sem lærisveinar höfum við margskonar áhyggjur, verkefni og skyldur. Sumt sem við gerum verður þó ætíð að vera kjarni kirkjuaðildar okkar. „Ver þess vegna trúr.“ býður Drottinn, „Gegn því embætti, sem ég hef útnefnt þér. Styð þá óstyrku, lyft máttvana örmum og styrk veikbyggð kné.“
Þetta er kirkja í verki! Þetta eru sönn trúarbrögð! Fagnaðarerindið í hinni sönnu umgjörði er þegar við liðsinnum, lyftum og styrkjum þá sem búa við andlega og stundlega nauð! Að gera það, krefst þess að við heimsækjum og aðstoðum þá, svo trú þeirra og vitnisburður um himneskan föður og Jesú Krist og friðþægingu hans, verði sem akkeri í hjarta þeirra.
Megi Drottinn liðsinna og blessa okkur, til að varðveita hinar mörgu dýrmætu gjafir frá Guði, þar á meðal aðild okkar að hans endurreistu kirkju. Ég bið þess að við megum fyllast elsku til allra barna himnesks föður og fá greint þarfir þeirra og vera fús til að svara spurningum og áhyggjum þeirra um fagnaðarerindið, af ljúfleika og vinsemd, sem mun auka gagnkvæman skilning og velþóknun.
Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari okkar. Sú kennsla sem fer fram hér á þessari aðalráðstefnu berst okkur sem innblástur frá postulum og spámönnum, frá aðalvaldhöfum og leiðtogum systranna, sem eru aðalembættismenn kirkjunnar. Megi gleði og friður Drottins vera með ykkur öllum, er auðmjúk bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.