2010–2019
Búa sig undir að mæta Guði
Apríl 2018


Búa sig undir að mæta Guði

Að framfylgja guðlega tilnefndum ábyrgðarverkum, byggðum á réttlæti, einingu og jafnræði, mun búa okkur undir að mæta Guði.

Eliza R. Snow ræddi um vígslu Kirtland musterisins (sem hún var viðstödd), og sagði: „Hægt væri að æfa athafnir þeirrar vígslu, en ekkert heimsins tungumál færi lýst himneskum sýnum þessa minnisstæða dags. Englar birtust sumum, allir viðstaddir fundu fyrir guðlegri návist og hvert hjarta fylltist ólýsanlegri dýrðargleði.“

Þær guðlegu opinberanir sem áttu sér stað í Kirtland musterinu lögðu grunn að því verki kirkju Jesú Krists að gera sáluhjálp og upphafningu mögulega fyrir börn himnesks föður. Er við búum okkur undir að mæta Guði, getum við þekkt okkar tilnefndu ábyrgðarverk með því að fræðast um hina helgu lykla sem endurreistir voru í Kirtland musterinu.

Í vígslubæninni bað spámaðurinn Joseph Smith Drottin auðmjúklega: „Vilt þú taka á móti þessu húsi … sem þú baðst okkur að byggja.“

Viku síðar, á páskasunnudegi, birtist Drottinn í stórkostlegri sýn og tók á móti musteri sínu. Það gerðist 3. apríl 1836, fyrir hér um bil nákvæmlega 182 árum frá þessum páskasunnudegi. Þetta var líka tíð hinna fornu páska – í einu af þeim sjaldgæfu skiptum er tími fornra páska og páska okkar tíma skarast. Eftir að sýninni lauk, birtust þrír fornir spámenn, Móse, Elías og Elía og veittu lyklana sem nauðsynlegir voru til að framfylgja verki Drottins fyrir endurreista kirkju hans á þessari ráðstöfun. Það verk hefur einfaldlega, en á vandaðan hátt, verið skilgreint sem samansöfnun Ísraels, að innsigla fólk hans sem fjölskyldur og búa heiminn undir síðari komu Drottins.

Að Elía og Móse skildu báðir birtast, var „sláandi hliðstæða … [við] gyðingalegar arfsagnir, þar sem sagt er að Móse og Elía kæmu báðir saman ,við lok tímans.‘“ Í kenningu okkar var þessi koma til að endurreisa ákveðna mikilvæga lykla, „[veitta] … fyrir hina síðustu daga og í síðasta sinn, sem er ráðstöfunin í fyllingu tímanna.“

Kirtland musterið, bæði staðsetning þess og stærð, var tiltölulega óþekkt. Það var mannkyni þó svo gríðarlega þýðingarmikið að það lauk upp eilífðinni. Fornir spámenn endurreistu prestdæmislykla fyrir helgiathafnir fagnaðarerindis Jesú Krists til eilífrar frelsunar. Það varð trúföstum meðlimum kirkjunnar til ólýsanlegrar gleði.

Þessir lyklar veittu „kraft frá upphæðum“ fyrir guðlega tilskipuð ábyrgðarverk, sem eru megin tilgangur kirkjunnar. Á þessum dásamlega páskadegi í Kirtland musterinu voru þrír lyklar endurreistir:

Í fyrsta lagi birtist Móse og veitti lyklana að samansöfnun Ísraels frá fjórum skautum jarðar, sem er trúboðsstarfið.

Í öðru lagi birtist Elías og veitti lyklana að ráðstöfun fagnaðarerindis Abrahams, sem fól í sér endurreisn sáttmála Abrahams. Russell M. Nelson forseti hefur kennt að tilgangur sáttmálslyklanna sé að búa meðlimi undir ríki Guðs. Hann sagði: „Við vitum hver við erum og hvers Guð væntir af okkur.“

Í þriðja lagi birtist Elía og veitti lykla innsiglunarvaldsins á þessari ráðstöfun, sem er ættarsögustarfið og musterishelgiathafnir sem gera sáluhjálp mögulega fyrir lifendur og látna.

Þrjár framkvæmdanefndir eru í höfuðstöðvum kirkjunnar undir stjórn Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar, sem hafa yfirumsjá með þessum þremur tilnefndu ábyrgðarverkum, sem grundvölluð eru á lyklunum sem endurreistir voru í Kirtland musterinu. Þær eru framkvæmdanefndir trúboðs, prestdæmis og fjölskyldu, og musteris og ættarsögu.

Hvernig stöndum við okkur í dag í því að framfylgja þessum guðlega tilnefndu ábyrgðarverkum?

Í fyrsta lagi, hvað varðar hina endurreistu lykla samansöfnunar Ísraels af hendi Móse, þá eru í dag um 70.000 trúboðar víða um heim að prédika fagnaðarerindi Drottins, til að safna saman hans kjörnu. Þetta er upphaf uppfyllingar þess mikla og undursamlega verks sem Nefí sá fyrir meðal bæði Þjóðanna og húss Ísraels. Nefí sá okkar tíma, er hinir heilögu Guðs yrðu hvarvetna um jörðu, en fái að tölu sökum ranglætis. Hann sá þó fyrir að þeir yrðu „vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.“ Sé trúboðsstarfið skoðað í ljósi stuttrar sögu hinnar endurreistu kirkju, þá er það stórmerkilegt. Við erum að sjá uppfyllingu sýnar Nefís. Þótt við séum tiltölulega fá að tölu, munum við halda því verki okkar áfram að ná til þeirra sem bregðast við boðskap frelsarans.

Í öðru lagi birtist Elías og fól okkur ráðstöfun fagnaðarboðskapar Abrahams og sagði að með okkur og niðjum okkar yrðu allar kynslóðir eftir okkur blessaðar. Á þessari ráðstefnu hefur verið veitt mikilvæg leiðsögn til hjálpar við að fullkomna hina heilögu og búa þá undir ríki Guðs. Tilkynningin á prestdæmisfundinum varðandi öldunga- og háprestasveitir, munu leysa úr læðingi kraft og vald prestdæmisins. Heimilis- og heimsóknarkennsla, nú „þjónusta,“ sem svo rækilega var kynnt á þessari samkomu, munu búa Síðari daga heilaga undir að mæta Guði.

Í þriðja lagi veitti Elía innsiglunarlykla þessarar ráðstöfunar. Hvað þau okkar varðar sem eru uppi á þessum tíma, hafa musteris- og ættarsöguverk aukist gríðarlega. Sú aukning mun fara stigvaxandi fram að síðari komu frelsarans, svo jörðin öll verði ekki „gjöreydd við komu hans.“

Ættarsögustarf, blessað frá himni með tækni, hefur aukist gríðarlega á síðustu árum. Það væri óskynsamlegt af okkur að verða andvaralaus yfir þessu guðlega tilnefnda ábyrgðarverki og vænta þess að Jóna frænka eða einhver annar áhugsasamur ættingi taki það að sér. Ég ætla að vitna í skorinorða ábendingu Josephs Fielding Smith forseta: „Engin er undanskilin þessari miklu ábyrgð. Þess er krafist af hendi postula sem og hinum auðmjúkasta öldungi [eða systur]. Staðsetning, staða eða löng þjónusta í kirkjunni, … gefur engum rétt til að vanrækja sáluhjálp sinna dánu.“

Við höfum nú musteri víða um heim og hjálparsjóði musterisþjóna til aðstoðar þeim sem eru í þörf en eru fjarri musteri.

Það yrði sérhverju okkar til gagns að endurmeta framlag okkar til trúboðs-, musteris- og ættarsögustarfs og hvernig við búum okkur undir að mæta Guði.

Réttlæti, eining og jafnræði frammi fyrir Drottni styrkja þessi helgu ábyrgðarverk

Hvað réttlætið varðar, er þetta líf sá tíminn sem við öll búum okkur undir að mæta Guði. Í Mormónsbók eru ótal dæmi um ömurlegar afleiðingar þess er einstaklingar eða samfélög láta af því að halda boðorð Guðs.

Á æviskeiði mínu hefur heimurinn farið frá einum öfgum yfir í annan – frá eftirsókn í hið hégómlega yfir í alvarlega siðferðisbresti. Gott er að ýmis ósamþykkt ósiðsemi hefur verið dregin fram í ljósið og hún fordæmd. Slík ósamþykkt ósiðsemi er brot á lögum Guðs og samfélaga. Þeir sem skilja áætlun Guðs verða líka að standa gegn samþykktri ósiðsemi, sem einnig er synd. Í fjölskylduyfirlýsingunni til heimsins er aðvarað „að þeir sem rjúfa sáttmála skírlífis, sem misþyrma maka eða barni [eða einhverjum öðrum, ef því er að skipta], … munu síðar meir verða að standa ábyrgir gerða sinna frammi fyrir Guði.“

Þegar við lítum umhverfis, sjáum við eyðileggingu ranglætis og ánetjunar við hvert fótmál. Ef við, sem einstaklingar, höfum í raun áhyggjur af lokadómi frelsara okkar, ættum við að leitast við að iðrast. Ég óttast að margir álíti sig ekki lengur ábyrga frammi fyrir Guði og lesi ekki ritningarnar eða leiti handleiðslu spámanna. Ef við, sem samfélag, gerðum okkur grein fyrir afleiðingum syndar, risi upp fjöldahreyfing gegn klámi og hlutgerðingu kvenna. Líkt og Alma sagði við son sinn, Kóríanton, í Mormónsbók: „Aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti.“

Hvað einingu varðar, sagði frelsarinn: „Ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“ Við vitum að andi sundrungar er af djöflinum.

Á okkar tíma er hin mikilvæga ritningaregla einingar að miklu leyti virt að vettugi og margir einskorða sig við menningarhópa, sem oft tengjast metorðum, kyni, kynþætti og ríkidæmi. Í mörgum löndum, ef ekki flestum, hefur fólk mjög ólíkar skoðanir á því hvernig á að haga lífi sínu. Í kirkju Drottins er einungis fagnaðarerindi Jesú Krists kennt og lífsmáti þess. Við sækjumst aðeins eftir einingu við frelsarann og að lifa eftir kenningum hans.

Ef við skoðum megin tilgang kirkjunnar, sjáum við að hann grundvallast allur á jafnræði frammi fyrir Drottni og tileinkun lífsmáta fagnaðarerindis Jesú Krists. Megin skilyrði skírnar í trúboðsstarfi, er að skírnþegi komi auðmjúkur fram fyrir Guð, með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Menntun, ríkidæmi, kynþáttur eða þjóðerni koma þar ekki einu sinni til álita.

Trúboðar þjóna auk þess af auðmýkt, þar sem þeir eru kallaðir til að þjóna. Þeir reyna ekki að þjóna byggt á veraldlegum metorðastöðlum eða undirbúningi að ævistarfi. Þeir þjóna af öllu hjarta, mætti, huga og styrk, hvert sem þeir eru sendir. Þeir velja ekki trúboðsfélaga sína og reyna af kostgæfni að tileinka sér kristilega eiginleika, sem eru kjarni menningar þeirra sem fylgja Jesú Kristi.

Í ritningunum er leiðsögn um okkar mikilvægustu sambönd. Frelsarinn kenndi að æðsta boðorðið væri: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn.“ Annað er þessu líkt: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Frelsarinn útskýrði að því loknu að sérhver maður væri náungi okkar. Í Mormónsbók er skýrt og skorinort mælt gegn -ítum, flokkadráttum eða stéttaskiptingu. Við verðum að vera jöfn og einhuga frammi fyrir Guði.

Helgiathafnir og guðleg ábyrgðarverk byggja á þeirri forsendu. Ég vænti þess að upplifun ykkar í musterinu sé áþekk minni. Þegar ég lauk mínum veraldlega vinnudegi í San Francisco og fór í Oakland musterið, upplifði ég ólýsanlega tilfinningu kærleika og friðar. Stór þáttur í því var að upplifa mig nær Guði og tilgangi hans. Hinar endurleysandi helgiathafnir voru minn megin tilgangur, en stór hluti þessara dásamlegu tilfinninga fólust í einingunni og jafnræðinu sem ríktu í musterinu. Allir eru þar klæddir hvítum fötum. Þar sjást ekki merki um ríkidæmi, stöðu eða menntunargráður; við erum öll bræður og systur, frammi fyrir Guði í auðmýkt.

Í hinu helga innsiglunarherbergi er helgiathöfn eilífs hjónabands sú sama fyrir alla. Ég ann þeirri staðreynd að þau hjón sem búa við fábrotnustu aðstæður upplifa nákvæmlega það sama og þau hjón sem búa við alsnægtir. Þau klæðast samskonar musterisskrúða og gera sama sáttmála við altarið. Þau hljóta líka sömu eilífu blessanir prestdæmisins. Þetta á sér stað í fallegu musteri sem byggt er fyrir tíund hinna heilögu, sem er heilagt hús Drottins.

Að framfylgja guðlega tilnefndum ábyrgðarverkum, byggðum á réttlæti, einingu og jafnræði frammi fyrir Drottni, leiðir til hamingju og friðar í þessum heimi og býr okkur undir eilíft líf í komandi heimi. Það býr okkur undir að mæta Guði.

Við biðjum þess að sérhvert ykkar, burt séð frá ykkar núverandi aðstæðum, muni ráðgast við biskup sinn og verði verðugt musterismeðmæla.

Við erum þakklátir fyrir að mun fleiri meðlimir búa sig nú undir að fara í musterið. Það hefur verið stigvaxandi aukning verðugra musterismeðmælahafa í mörg ár. Takmörkuð meðmæli fyrir verðugt æskufólk hafa aukist til muna á síðustu tveimur árum. Greinilegt er að hinn trúfasti kjarni kirkjunnar hefur aldrei verið sterkari.

Að lokum, verið viss um að eldri kirkjuleiðtogar sem eru í forsæti þessa guðlega tilnefnda verks kirkjunnar, hljóta guðlega handleiðslu. Sú leiðsögn kemur frá andanum og stundum beint frá frelsaranum. Hin andlega leiðsögn er veitt á báða vegu. Ég er þakklátur fyrir að hafa notið slíkrar leiðsagnar. Leiðsögn veitist að tíma Drottins, setning á setning ofan og kenning á kenning ofan, eftir því sem „alvitur Guð ákveður að fræða okkur.“ Leiðsögn fyrir kirkjuna í heild kemur aðeins frá spámanni hans.

Við höfum öll notið þeirra forréttinda að sýna Russell M. Nelson forseta stuðning okkar á þessari ráðstefnu, sem spámanns og forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hinir Tólf, sem hópur og einstaklingar, upplifðu merkilega andlega reynslu þegar hendur voru lagðar á höfuð Nelsons forseta og Dallin H. Oaks forseti mælti fram orðin, vígði hann og setti í embætti sem forseta kirkjunnar. Ég ber vitni um að hann var forvígður og hefur verið undirbúinn allt sitt líf til að verða spámaður Drottins á okkar tíma. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Eliza R. Snow, í Janiece Johnson og Jennifer Reeder, The Witness of Women: Firsthand Experiences and Testimonies from the Restoration (2016), 124; sjá einnig Eliza R. Snow, í Edward Tullidge, The Women of Mormondom (1877), 65.

  2. Sjá Handbook 2: Administering the Church (2010), 2.2.

  3. Kenning og sáttmálar 109:4.

  4. Sjá Russell M. Nelson, “Epistles of the Lord” (ræða flutt á námskeiði fyrir nýja trúboðsforseta, 25. júní 2015) 1-2.

  5. Stephen D. Ricks, “The Appearance of Elijah and Moses in the Kirtland Temple and the Jewish Passover,” BYU Studies, bindi 23, nr. 4 (haustið 1983), 485.

  6. Kenning og sáttmálar 112:30.

  7. Kenning og sáttmálar 38:38; sjá einnig Kenning og sáttmálar 43:16; 84:20–21.

  8. Sjá Handbook 2, 2.2. Fjórða ábyrgðarverkið, að annast fátæka og þurfandi, er ekki bundið endurreistum lyklum, heldur grundvallast það á guðlega innblásinni kirkjustofnun.

  9. Framkvæmdanefnd trúboðs hefur yfirumsjá með þessu guðlega tilnefnda ábyrgðarverki. Sjá Kenning og sáttmálar 110:11.

  10. Framkvæmdanefnd prestdæmis og fjölskyldu hefur yfirumsjá með þessu guðlega tilnefnda ábyrgðarverki. Sjá Kenning og sáttmálar 110:12.

  11. Russell M. Nelson, “Covenants,” Liahona, nóv. 2011, 88.

  12. Framkvæmdanefnd musteris og ættarsögu hefur yfirumsjá með þessu guðlega tilnefnda ábyrgðarverki. Sjá Kenning og sáttmálar 110:13-16.

  13. 1 Ne 14:14; sjá einnig 1 Ne 14:5, 7, 12.

  14. Sjá Mósía 18:9; Alma 6:1; 32:37; sjá einnig Jeffrey R. Holland, “Emissaries to the Church,” Liahona, nóv. 2016, 61–62, 67.

  15. Kenning og sáttmálar 2:3.

  16. Joseph Fielding Smith, Doctrines of Salvation, samant. Bruce R. McConkie (1955), 2:148–49.

  17. Sjá Alma 34:32.

  18. Viðvarandi þráður í Mormónsbók er að fólki er sagt að ef það haldi boðorðin muni það njóta velmegunar í landinu, en ef það haldi ekki boðorðin, muni það útilokað úr návist Drottins. Sjá m.a. 2 Ne 1:9; 4:4; Alma 9:13.

  19. Þetta hefur gerst í hreyfingunni #MeToo movement.

  20. The Family: A Proclamation to the World,” Liahona, maí 2017, 145.

  21. Sjá Ross Douthat, “Let’s Ban Porn,” New York Times, 11. feb. 2018, SR11.

  22. Alma 41:10.

  23. Kenning og sáttmálar 38:27.

  24. Sjá 3 Ne 11:29.

  25. Sjá David Brooks, “The Retreat To Tribalism,” New York Times, 2. jan. 2018, A15.

  26. Sjá Jóh 17:21–22.

  27. Sjá 2 Ne 26:33: „Allir eru jafnir fyrir Guði,“ og hann neitar engum að koma til sín, hvorki „svörtum né hvítum, ánauðugum né frjálsum, karli né konu.“

  28. Sjá Kenning og sáttmálar 20:37.

  29. Sjá Preach My Gospel: A Guide to Missionary Service (2004), kafla 6.

  30. Sjá Matt 22:36-39.

  31. Sjá Lúk 10:29–37.

  32. Sjá 4 Ne 1:17.

  33. Sjá Kenning og sáttmálar 59:23.

  34. Sjá Alma 34:32.

  35. Spurningar musterismeðmælaviðtals eru gott mat á það hvernig við stöndum okkur í því að lifa eftir fagnaðarerindinu.

  36. Sjá 2 Ne 28:30; Kenning og sáttmálar 98:12; 128:21.

  37. Neal A. Maxwell, All These Things Shall Give Thee Experience (2007), 31.