Verið eitt með Kristi
Við erum sameinuð í elsku okkar og trú á Jesú Krist og friðþægingu hans. Kjarni sannrar aðildar er að vera eitt með Kristi.
Ég hef fundið djúpt fyrir friðþægingu Jesú Krists frá unga aldri, en raunveruleiki friðþægingar frelsarans sótti mig heim þegar ég var 25 ára. Ég var nýútskrifaður úr lagaháskólanum í Stanford og var að læra fyrir lögmannspróf í Kaliforníu. Móðir mín hringdi og sagði afa minn, Crozier Kimball, sem bjó í Utah, vera að deyja. Hún sagði að ef ég vildi hitta hann ætti ég að koma heim. Afi minn var 86 ára og mjög veikur. Heimsókn mín var dásamleg. Hann var svo glaður að sjá mig og gefa mér vitnisburð sinn.
Þegar Crozier var aðeins þriggja ára lést faðir hans, David Patten Kimball, 44 ára að aldri. Crozier vonaði að faðir hans og afi hans, Heber C. Kimball, myndu samþykkja líf sitt og finnast hann hafa verið trúr arfleifð sinni.
Helsta leiðsögn afa míns til mín var að ég forðaðist hvers kyns tilfinningu um að gera tilkall til þess að vera hafinn yfir aðra vegna þessara trúföstu áa. Hann sagði að ég ætti að einblína á frelsarann og friðþægingu frelsarans. Hann sagði að við værum öll börn kærleiksríks himnesks föður. Sama hverjir jarðneskir áar okkar væru, þá myndi hvert okkar greina frelsaranum frá því hversu vel við héldum boðorð hans.
Afi vísaði til frelsarans sem „varðarins við hliðið“, sem er tilvísun í 2. Nefí 9:41. Hann sagðist vona að hann hefði verið nægilega iðrandi til að fá notið náðar frelsarans.
Ég varð djúpt snortinn. Ég vissi að hann hafði verið réttlátur maður. Hann var patríarki og þjónaði nokkrum sinnum í trúboði. Hann kenndi mér að enginn gæti snúið aftur til Guðs einungis fyrir góð verk, án friðþægingar frelsarans. Ég man fram til þessa dags þá miklu elsku og þakklæti sem afi bar til frelsarans og friðþægingar hans.
Árið 2019 fór ég í loftsal einn meðan á verkefni stóð í Jerúsalem, sem gæti hafa verið nálægt staðnum þar sem frelsarinn þvoði fætur postula sinna fyrir krossfestingu sína. Ég varð andlega hrærður og hugsaði til þess hvernig hann bauð postulum sínum að elska hver annan.
Ég minntist fyrirbænar frelsarans í okkar þágu. Þessi bæn var flutt bókstaflega á síðustu stundum lífs hans, eins og skráð er í Jóhannesarguðspjalli.
Þessari bæn var beint til fylgjenda Krists, þar á meðal til okkar allra. Í bæn sinni til föðurins sárbað hann „að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur“. Frelsarinn sagði áfram: „Og ég hef gefið þeim þá dýrð sem þú gafst mér svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt.“ Eining er það sem Kristur bað fyrir, áður en hann var svikinn og krossfestur. Hægt er að öðlast einingu með Kristi og himneskum föður með friðþægingu frelsarans.
Endurleysandi náð Drottins er ekki háð ætterni, menntun, efnahagsstöðu eða kynþætti. Hún byggist á því að vera eitt með Kristi og halda boðorð hans.
Spámaðurinn Joseph Smith og Oliver Cowdery meðtóku opinberunina um skipulag og stjórnun kirkjunnar árið 1830, stuttu eftir stofnun kirkjunnar. Það efni sem nú er kafli 20 var lesið af spámanninum Joseph á fyrstu ráðstefnu kirkjunnar og var fyrsta opinberunin sem samþykkt var með almennri samþykkt.
Efni þessarar opinberunar er vissulega merkilegt. Það kennir okkur um mikilvægi og hlutverk frelsarans og hvernig við getum fengið aðgang að krafti hans og blessunum gegnum friðþægingarnáð hans. Spámaðurinn Joseph var 24 ára gamall og hafði þegar hlotið fjölda opinberana og lokið við þýðingu Mormónsbókar með gjöf og krafti Guðs. Bæði Joseph og Oliver eru auðkenndir sem vígðir postular og höfðu því valdsumboð til að vera í forsæti kirkjunnar.
Vers 17 til og með 36 geyma samantekt á mikilvægum kenningum kirkjunnar, þar með talið um raunveruleika Guðs, sköpun mannkyns, fallið og sáluhjálparáætlun himnesks föður gegnum friðþægingu Jesú Krists. Vers 37 tilgreinir grunnskilyrðin fyrir skírn í kirkju Drottins. Vers 75 til og með 79 setja fram sakramentisbænirnar sem við notum hvern hvíldardag.
Kenningarnar, reglurnar, sakramentin og trúariðkunin sem Drottinn setti fram með Joseph Smith, spámanni endurreisnarinnar, eru sannlega þýðingarmikil.
Þótt skilyrðin fyrir skírn séu djúpstæð, þá eru þau einstaklega einföld. Þau fela fyrst og fremst í sér auðmýkt frammi fyrir Guði, sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, iðrun allra synda, að taka á okkur nafn Jesú Krists, standast allt til enda og sýna með verkum okkar að við höfum meðtekið af anda Krists.
Mikilvægt er að öll skilyrði skírnar séu andlegs eðlis. Enginn efnahagslegur eða félagslegur ávinningur er nauðsynlegur. Hinir fátæku og ríku búa við sömu andlegu skilyrðin.
Það eru engin skilyrði um kynþátt, kyn eða þjóðerni. Í Mormónsbók kemur skýrt fram að öllum er boðið að meðtaka af gæsku Drottins, „svörtum, … hvítum, ánauðugum, … frjálsum, karli, … konu. … Allir eru jafnir fyrir Guði“. „Allir menn [hafa] sama rétt, og enginn er útilokaður.“
Þar sem við erum eftir „mynd“ Guðs, er lítið vit í því að leggja áherslu á það sem skilur okkur að. Sumir hafa ranglega hvatt okkur til að „sjá fyrir okkur að fólk sé miklu frábrugðnara okkur sjálfum og hvert öðru en það er í raun og veru. [Sumir] taka raunverulegan, en smávægilegan mismun, og magna hann upp í hyldýpi“.
Að auki hafa sumir ranglega ályktað, að þar sem öllum sé boðið að meðtaka gæsku hans og eilíft líf, þá sé engin skilyrt breytni fyrir hendi.
Ritningarnar staðfesta þó að öllum ábyrgum einstaklingum er skylt að iðrast synda sinna og halda boðorð hans. Drottinn gerir ljóst að allir hafi siðferðislegt sjálfræði og „[sé] frjálst að velja frelsi og eilíft líf fyrir atbeina hins mikla meðalgöngumanns allra manna, … og [að hlýða] hinum miklu boðorðum hans – og [vera] trúr orðum hans og [velja] eilíft líf“. Við þurfum af staðfestu að iðka siðferðislegt sjálfræði til að velja Krist og hlýða boðorðum hans, til að hljóta blessanir friðþægingar frelsarans.
Á æviskeiði mínu hefur merking hugtakanna „sjálfræði“ og „frjáls vilji“ verið krufin til mergjar og rædd. Það hefur verið og er enn vitsmunalegur ágreiningur um þessi atriði.
Á nýlegri forsíðu stórs háskólatímarits fullyrðir áberandi líffræðingur og prófessor: „Það er ekkert pláss fyrir frjálsan vilja.“ Það kemur ekki á óvart að vitnað er í prófessorinn segja eftirfarandi í greininni: „Það er ekkert til sem heitir Guð, … og það er enginn frjáls vilji, … og þetta er gríðarstór, skeytingarlaus, tómur alheimur.“ Ég gæti ekki verið meira ósammála.
Grundvallarkenning trúar okkar er sú að við höfum siðferðislegt sjálfræði, sem felur í sér frjálsan vilja. Sjálfræði er hæfileikinn til að velja og framkvæma. Það er nauðsynlegt í sáluhjálparáætluninni. Án siðferðislegs sjálfræðis, gætum við ekki lært, þróast eða valið að vera eitt með Kristi. Vegna sjálfræðisins, er mér „frjálst að velja frelsi og eilíft líf“. Á stórþingi himins í fortilverunni, fól áætlun föðurins í sér sjálfræði sem nauðsynlegan þátt. Lúsífer gerði uppreisn og „reyndi að tortíma sjálfræði mannsins“. Af þeim sökum var Satan og þeim sem fylgdu honum neitað um þau forréttindi að hafa dauðlegan líkama.
Aðrir andar í fortilverunni iðkuðu sjálfræði sitt með því að fylgja áætlun himnesks föður. Andar sem blessaðir eru með fæðingu í þetta jarðneska líf halda áfram að hafa sjálfræði. Okkur er frjálst að velja og framkvæma en við stjórnum ekki afleiðingunum. „Að velja gott og réttlátt, leiðir til hamingju, friðar og eilífs lífs, en að velja synd og illt, leiðir að lokum til sorgar og eymdar.“ Eins og Alma sagði: „Aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti.“
Í þessum afar samkeppnishneigða heimi er stöðugt knúið á um að skara fram úr. Að kappkosta að verða það besta sem við getum orðið, er réttlátt og verðugt viðfangsefni. Það er í samræmi við kenningu Drottins. Sú viðleitni að gera lítið úr öðrum eða vanvirða þá eða setja hindranir á farsældarveg þeirra er andstæð kenningu Drottins. Við getum ekki kennt aðstæðum eða öðrum um þá ákvörðun að breyta andstætt boðorðum Guðs.
Í heimi nútímans er auðvelt að einbeita sér að veraldlegum árangri og velgengni í starfi. Sumir missa sjónar á eilífum reglum og valkostum sem hafa eilíft gildi. Okkur væri ráðlegt að fylgja leiðsögn Russells M. Nelson forseta um að „hugsa himneskt“.
Mikilvægustu ákvarðanirnar geta næstum allir tekið, óháð hæfileikum, getu, tækifærum eða efnahagsaðstæðum. Nauðsynlegt er að leggja áherslu á að hafa fjölskylduvalkosti í fyrirrúmi. Það er skýrt hvarvetna í ritningunum. Hugsið um frásögnina í 1. Nefí þar sem Lehí „hélt út í óbyggðirnar. Og hann yfirgaf hús sitt og erfðaland, og gull sitt og silfur, sem og aðrar dýrmætar eigur og hafði ekkert með sér nema fjölskyldu sína“.
Þegar við horfumst í augu við hverfulleika lífsins, þá gerast margir atburðir sem við höfum litla eða enga stjórn á. Heilsufarsáskoranir og slys geta augljóslega fallið í þann flokk. Nýlegur heimsfaraldur KÓVID-19 hefur haft alvarleg áhrif á fólk sem gerði allt sitt rétt. Við höfum þó stjórn á mikilvægustu valkostunum. Svo ég fari aftur í trúboðstíma minn, þá fól trúboðsforsetinn okkar, öldungur Marion D. Hanks, okkur öllum að læra utanbókar hluta af ljóði eftir Ellu Wheeler Wilcox:
Við erum við stjórnvölinn hvað varðar grundvallarreglur, breytni, trúariðkun og réttlátt líferni. Trú okkar og tilbeiðsla á Guð föðurinn og son hans, Jesú Krist, er valkostur sem við kjósum.
Verið þó viss um að ég er ekki að mæla fyrir minni áhuga á menntun eða starfi. Það sem ég er að segja, er að þegar viðleitni til menntunar og starfs er hafin ofar fjölskyldunni eða því að vera eitt með Kristi, geta ótilætlaðar afleiðingar verið verulega neikvæðar.
Hin skýra og einfalda kenning sem sett er fram í Kenningu og sáttmálum 20 er hjartnæm og sannfærandi, er hún undirstrikar og útskýrir helg andleg hugtök. Hún kennir að sáluhjálp hljótist þegar Jesús Kristur réttlætir og helgar iðrandi sálir, sökum náðar frelsarans. Hún leggur grunn að mikilvægu hlutverki friðþægingar hans.
Við ættum að kappkosta að hafa aðra með í einingarhóp okkar. Ef við hyggjumst fylgja áminningu Russells M. Nelson forseta um að safna saman hinum tvístraða Ísrael beggja vegna hulunnar, verðum við að hafa aðra með í einingarhóp okkar. Eins og Nelson forseti hefur kennt svo dásamlega: „Í öllum heimsálfum og á eyjum úthafs safnast trúfast fólk saman í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Mismunandi menning, tungumál, kyn, kynþáttur og þjóðerni verða ómerkjanleg er hinir trúföstu fara inn á sáttmálsveginn og koma til okkar ástkæra lausnara.“
Við erum sameinuð í elsku okkar og trú á Jesú Krist og sem börn kærleiksríks himnesks föður. Kjarni sannrar aðildar er að vera eitt með Kristi. Helgiathafnir skírnar og sakramentis sem fram eru settar í Kenningu og sáttmálum 20, ásamt musterissáttmálum okkar, sameina okkur á sérstakan hátt og gera okkur mögulegt að vera eitt á eilífan, mikilvægan hátt og lifa í friði og sátt.
Ég ber mitt örugga vitni um að Jesús Kristur lifir og að vegna friðþægingar hans, getum við verið eitt með Kristi. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.