Trúarskóli eldri deildar
4 Vera vakandi


„Vera vakandi,“ kafli 4 í Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018)

Kafli 4: Vera vakandi

KAFLI 4

Vera vakandi

Ljósmynd
Geymslukassi

Hin tuttugu og eins árs gamla Emma Hale, heyrði fyrst um Joseph Smith þegar hann kom til að vinna fyrir Josiah Stowell, haustið 1825. Josiah hafði ráðið hinn unga mann og föður hans til að aðstoða við að finna falinn fjársjóð á landi sínu.1 Sögusagnir á svæðinu hljómuðu á þá leið að hópur könnuða hefði fundið silfuræð og falið fjársjóðinn á svæðinu um hundrað árum áður. Vitandi að Joseph hafði gjöf til að nota sjáendasteina þá bauð Josiah honum góð laun og hlut í fjársjóðnum ef hann myndi hjálpa til við leitina.2

Isaac, faðir Emmu, studdi framtakið. Þegar Joseph og faðir hans komu til Stowell bæjarins í Harmony, Pennsylvaniu - þorps sem var í um 240 km fjarlægð suður af Palmyra - þá var Isaac vitundarvottur að undirskrift þeirra er þeir skrifuðu undir samninga sína. Hann leyfði vinnumönnunum einnig að búa í húsi sínu.3

Emma hitti Joseph fljótlega eftir það. Hann var yngri en hún, var rúmlega 180 cm hár og leit út fyrir að vera vanur erfiðisvinnu. Hann var með blá augu og ljós yfirlitum og stakk aðeins við þegar hann gekk. Málfræði hans var óregluleg og stundum notaði hann of mörg orð til að tjá sig, en hann sýndi fram á góða greind þegar hann talaði. Hann og faðir hans voru góðir menn sem völdu að tilbiðja í einrúmi frekar en að sækja kirkju þar sem Emma og fjölskylda hennar tilbáðu.4

Joseph og Emma kunnu því bæði vel að vera utandyra. Fá æsku hafði Emma notið þess að fara í reiðtúra og að sigla á kanó á ánni sem lá nærri heimili hennar. Joseph var ekki mikill reiðmaður en hann var afburða glímumaður og góður í boltaleikjum. Hann átti gott með samskipti við fólk og var fljótur til að brosa, sagði oft gamansögur og spaugaðist. Emma var hlédrægari en hún kunni að meta góðan brandara og gat talað við hvern sem var. Henni líkaði einnig að lesa og syngja.5

Er vikurnar liðu og Emma kynntist Joseph betur, urðu foreldrar hennar áhyggjufull út af sambandi þeirra. Joseph var fátækur daglaunamaður frá öðru ríki og þau vonuðust til þess að dóttir þeirra myndi missa áhugann á honum og giftast inn í einhverja af meira velmegandi ættunum í dalnum þeirra. Faðir Emmu var líka farinn að líta fjársjóðsleitina hornauga og fannst hlutverk Josephs í leitinni vafasamt. Það virtist ekki skipta Isaac Hale máli að Joseph hafði reynt að sannfæra Josiah Stowell um að hætta leitinni þegar það varð augljóst að ekkert kæmi út úr henni.6

Emma kunni betur við Joseph en nokkurn annan mann sem hún þekkti og hún hætti ekki að verja tíma með honum. Eftir að honum tókst að sannfæra Josiah um að hætta að leita að silfrinu þá dvaldi Joseph áfram í Harmony til að vinna á bóndabæ Josiah. Stundum vann hann einnig fyrir Joseph og Polly Knight, sem voru einnig bændur á svæðinu. Þegar hann var ekki við vinnu, var hann að heimsækja Emmu.7


Joseph og sjáendasteinn hans urðu brátt umræðuefni í Harmony. Sumir hinna eldri í bænum trúðu á sjáendur en mörg barna þeirra og barnabarna gerðu það ekki. Frændi Josiah hélt því fram að Joseph hefði notfært sér hann og dró hinn unga mann fyrir dómstóla og ákærði hann fyrir sviksamlegt athæfi.

Er hann stóð fyrir framan dómarann á svæðinu, útskýrði Joseph hvernig hann hefði fundið steininn. Joseph eldri bar vitni um að hann hefði ítrekað beðið Guð um að sýna þeim vilja sinn varðandi hina stórkostlegu gjöf Josephs sem sjáanda. Að lokum stóð Josiah frammi fyrir dómstólnum og fullyrti að Joseph hefði ekki svindlað á honum.

„Skil ég rétt,“ sagði dómarinn, „að þú trúir því að fanginn geti séð með aðstoð steinsins?“

Josiah fullyrti að það gerði hann ekki. „Ég veit fyrir víst að það er satt.“

Josiah var mikils metinn í samfélaginu og fólkið samþykkti það sem hann sagði. Að lokum gátu yfirheyrslur ekki komið fram með neinar sannanir um að Joseph hefði blekkt hann, svo að dómarinn vísaði ákærunum á bug.8

Í september 1826 snéri Joseph aftur í hæðina til að ná í plöturnar, en Moróní sagði að hann væri enn ekki tilbúinn fyrir þær. „Dragðu þig út úr félagskap gullgrafara,“ sagði engillinn. Það væru illir menn meðal þeirra.9 Moróní gaf honum eitt ár í viðbót til að samræma vilja sinn Guði. Ef hann gerði það ekki myndi honum aldrei verða treyst fyrir plötunum.

Engillinn sagði honum einnig að koma með einhvern með sér næst. Það var sama ósk og hafði verið sett fyrir hann í lok fyrstu heimsóknar hans á hæðina. Þar sem Alvin var látinn var Joseph ráðvilltur.

„Hver er rétta manneskjan?“ spurði hann.

„Þú munt vita það,“ sagði Moróní.

Joseph leitaði leiðsagnar Drottins í gegnum sjáendastein sinn. Hann komst að því að rétta manneskjan væri Emma.10


Joseph hafði laðast að Emmu um leið og hann hitti hana. Eins og Alvin þá var hún einhver sem gæti aðstoðað hann við að verða sá maður sem Drottinn þyrfti til að framkvæma verk hans. Það var samt meira að baki þessu með Emmu en það. Joseph elskaði hana og vildi kvænast henni.11

Í desember varð Joseph tuttugu og eins árs gamall. Áður hafði hann látið reika í hinar og þessar áttir eftir væntingum þeirra sem vildu misnota gjöf hans.12 Eftir þessa síðustu heimsókn á hæðina vissi hann hins vegar að hann varð að gera meira til að búa sig undir að meðtaka plöturnar.

Áður en hann snéri aftur til Harmony, ræddi Joseph við foreldra sína. „Ég hef ákveðið að kvænast,“ sagði hann þeim, „og ef þið hafið ekkert á móti því þá myndi ég velja ungfrú Emmu Hale.“ Foreldrar hans voru ánægð með ákvörðun hans og Lucy hvatti hann til að koma og búa með þeim eftir að þau giftust.13

Joseph dvaldi eins mikið og hann gat í félagsskap Emmu þennan vetur og stundum fékk hann sleða Knight hjónanna, þegar erfitt var yfirferðar vegna snjóa og ferðaðist heim til Hale fjölskyldunnar. Foreldrum hennar var hins vegar ekki vel við hann og það var sama hvað hann gerði til að vinna hylli fjölskyldunnar, ekkert gekk. 14

Í janúar 1827 heimsótti Emma heimili Stowell fjölskyldunnar, þar sem hún og Joseph gátu verið saman án vandlætingarsvips frá fjölskyldu hennar. Joseph bað Emmu þar og til að byrja með virtist Emma undrandi. Hún vissi að foreldrar hennar myndu mótmæla hjúskapnum.15 Joseph hvatti hana samt til að hugsa málið. Þau gætu stungið af strax.

Emma íhugaði bónorðið. Foreldrar hennar yrðu vonsviknir ef hún giftist Joseph, en þetta var hennar val og hún elskaði hann.16


Stuttu seinna, þann18. janúar, 1827, giftust Joseph og Emma heima hjá dómaranum á svæðinu. Því næst fóru þau til Manchester og hófu búskap í nýju húsi foreldra Josephs. Húsið var þægilegt en Joseph eldri og Lucy höfðu eytt um efni fram, voru orðin eftirá með greiðslur og misstu svo eignina. Þau leigðu það nú af nýjum eigendum.17

Smith fjölskyldunni var vel við að hafa Joseph og Emmu hjá þeim. Hins vegar olli hin guðlega köllun sonar þeirra, þeim áhyggjum. Fólk í nágrenninu hafði heyrt um gullplöturnar og stundum fór það að leita þeirra.18

Dag einn var Josep að erindast í bænum. Foreldrar hans áttu von á honum tilbaka í kvöldmat en þegar hann kom ekki tilbaka fóru þau að hafa áhyggjur. Þau biðu klukkutímum saman og gátu ekki sofið. Að lokum opnaði Joseph dyrnar, örmagna, og henti sér í stól.

„Hvers vegna ertu svona seinn?“ spurði faðir hans.

„Ég fékk þá mestu ofanígjöf sem ég hef nokkru sinni á ævi minni fengið,“ sagði Joseph.

„Hver var að skamma þig?“ krafðist faðir hans að vita.

„Það var engill Drottins,“ svaraði Joseph. „Hann sagði að ég hefði verið hirðulaus.“ Næsti fundur hans við Moróní var skammt undan. „Ég verð að taka mig á,“ sagði hann. „Ég verð að fara að gera þá hluti sem Guð hefur boðið mér að gera.“19


Eftir haustuppskeruna ferðuðust Josiah Stowell og Joseph Knight til Manchester í viðskiptaerindum. Báðir vissu að það leið brátt að fjórðu heimsókn Josephs til hæðarinnar og þeir voru spenntir að vita hvort Moróní myndi loksins treysta honum fyrir plötunum.

Fjársjóðsleitarmenn á svæðinu vissu einnig að það var komið að þeim tíma að Joseph fengi plöturnar. Undanfarið hafði maður að nafni Samuel Lawrence verið að flækjast um hæðina í leit að plötunum. Joseph hafði áhyggjur af því að Samuel myndi valda vandræðum og bað föður sinn að fara heim til Samuels að kvöldi 21. september til að hafa auga með honum og ræða við hann ef það virtist sem hann væri að fara að hæðinni.20

Joseph bjó sig síðan undir að fara að ná í plöturnar. Árleg heimsókn hans í hæðina átti að vera næsta dag, en til að vera á undan fjársjóðsleitarmönnum ákvað hann að vera kominn á staðinn rétt eftir miðnætti - rétt þegar 22. september væri að byrja - þegar enginn átti von á að hann væri úti.

Hann þurfti samt að finna leið til að vernda plöturnar þegar hann væri búinn að fá þær. Eftir að flestir í fjölskyldunni voru lagstir til hvílu spurði hann móður sína hvort að hún ætti geymslukassa. Lucy átti ekki neitt slíkt og varð áhyggjufull.

„Hafðu ekki áhyggjur,“ sagði Joseph þá. „Ég get alveg gert þetta án þess.“21

Emma kom brátt, klædd til reiðar og hún og Joseph klifruðu upp í hestvagn Josephs Knight og héldu út í nóttina.22 Þegar þau komu að hæðinni, beið Emma hjá vagninum á meðan Joseph gekk upp hæðina að staðnum þar sem plöturnar voru geymdar.

Moróní birtist og Joseph lyfti plötunum og sjáendasteinunum úr steinkistunni. Áður en að hann gekk aftur niður hæðina, minnti Moróní hann á að sýna engum plöturnar nema þeim sem Drottinn tilnefndi og lofaði honum því að plöturnar yrðu verndaðar svo lengi sem hann gerði allt sem í hans valdi stæði til að varðveita þær.

„Þú verður að vera vakandi og trúr ábyrgð þinni,“ sagði Moróní honum, „eða að þú verður yfirbugaður af ranglátum mönnum, því þeir munu hafa uppi allar þær áætlanir og ráðagerðir sem mögulegt er til að ná þeim af þér. Ef þú ert ekki alltaf á verði mun þeim takast það.“23

Joseph hélt á plötunum niður hæðina, en áður en hann kom að vagninum, kom hann þeim fyrir í holum viðarbút þar sem þær myndu vera öruggar þar til hann yrði sér úti um geymslukassa. Því næst fann hann Emmu og þau snéru heim þegar sólin var að rísa á himni.24


Heima hjá Smith fjölskyldunni, beið Lucy, áhyggjufull, eftir Joseph og Emmu á meðan hún gaf Joseph eldri morgunmat, ásamt Joseph Knight og Josiah Stowell. Hjarta hennar sló ört á meðan hún vann, óttaslegin yfir því að sonur hennar yrði að snúa tilbaka án platnanna.25

Stuttu seinna komu Joseph og Emma inn í húsið. Lucy leit til að sjá hvort að Joseph hefði plöturnar en yfirgaf herbergið, skjálfandi, þegar hún sá að hendur hans voru tómar.

Joseph elti hana. „Móðir,“ sagði hann, „vertu ekki áhyggjufull,“ Hann rétti henni hlut, innvafinn í vasaklút. Í gegnum efnið fann Lucy fyrir einhverju sem virtust vera stór gleraugu. Það voru Úrím og Túmmím, sjáendasteinarnir sem Drottinn hafði undirbúið fyrir þýðingu platnanna.26

Lucy varð frá sér numin. Joseph leit út eins og að mikilli byrði hefði verið létt af honum. Þegar hann kom svo fram til hinna í húsinu, setti hann upp sorgarsvip og borðaði morgunmat sinn í þögn. Eftir að hann lauk við að borða, hallaði hann höfði sínu dapurlega í hendur sér. „Ég er vonsvikinn,“ sagði hann við Joseph Knight.

„Jæja“ sagði hinn eldri maður, „mér þykir það leitt.“

„Ég er mjög vonsvikinn,“ endurtók Joseph og svipur hans breyttist í bros. „Þetta er tíu sinnum betra en ég átti von á!“ Hann hélt áfram og lýsti stærð og þyngd platnanna og talaði spenntur um Úrím og Túmmím.

„Ég get séð hvað sem er,“ sagði hann. „Þeir eru stórkostlegir.“27


Daginn eftir að hann fékk plöturnar fór hann til þess að gera við brunn í nálægum bæ, til að safna peningum fyrir geymslukassa. Sama morgun, á meðan að hann var í erindagjörðum hinum megin við hæðina frá heimili Smith fjölskyldunnar þá heyrði Joseph eldri þar sem hópur manna var að skipuleggja að ræna gullplötunum. „Við verðum að ná plötunum,“ sagði einn þeirra, „þrátt fyrir Joe Smith eða alla púka helvítis.“

Áhyggjufullur þá snéri Joseph eldri heim á leið og sagði Emmu frá þessu. Hún sagði að hún vissi ekki hvar plöturnar væru en að hún væri viss um að Joseph hefði verndað þær.

„Já,“ svaraði Joseph eldri, „en mundu að það var fyrir smáhlut sem Esaú missti blessanir sínar og frumburðarrétt. Það getur farið þannig fyrir Joseph.“28

Til að vera viss um að plöturnar væru öruggar, steig Emma á bak hests og reið í meira en klukkutíma, að bænum þar sem Joseph var að vinna. Hún fann hann við brunninn, þakinn óhreinindum og svita eftir erfiði dagsins. Er hann heyrði um hættuna, leit Joseph í Úrím og Túmmím og sá að plöturnar voru öruggar.

Heima við gekk Joseph eldri, fram og tilbaka fyrir utan heimili sitt og leit upp hverja mínútu þangað til að hann sá Joseph og Emmu.

„Faðir,“ sagði Joseph er þau riðu í hlað, „allt er fullkomlega öruggt - það er engin ástæða til að hafa áhyggjur.“29

Það var hins vegar kominn tími til að taka til hendinni.


Joseph flýtti sér síðan upp hæðina, fann viðardrumbinn sem plöturnar voru faldar í og vafði þeim vandlega inn í skyrtu.30 Hann stakk sér svo inn í skóginn og hélt heim á leið, augu hans vakandi fyrir hættu. Skógurinn faldi hann frá fólkinu á aðalveginum, en gaf þjófum fjölmarga staði til að fela sig.

Joseph gekk eins hratt í gegnum skóginn og hann gat og erfiðaði undan þunga heimildanna. Fallið tré var á slóðanum frammi fyrir honum og hann er stökk yfir það fann hann eitthvað hart skella í bak sér. Er hann snéri sér við, sá hann mann koma í áttina að sér, sveiflandi byssu eins og barefli.

Joseph felldi manninn til jarðar, haldandi fast í plöturnar með annari hendinni og hljóp dýpra inn í skógarþykknið. Hann hljóp um tæpan kílómetra þegar annar maður stökk að honum handan trés og sló hann með byssuskefti sínu. Joseph barði hann frá sér og stökk í burtu, örvæntingarfullur yfir því að komast úr skóginum. Áður en að hann komst langt réðst þriðji maðurinn að honum og lamdi hann það harkalega að hann riðaði. Joseph safnaði saman styrk sínum og lamdi manninn fast og hljóp heim. 31

Þegar hann kom heim, ruddist Joseph í gegnum dyrnar með þungan pakkann undir öðrum handleggnum. „Faðir, ég er með plöturnar,“ hrópaði hann.

Fjórtán ára gamla systir hans, Katharine, aðstoðaði hann við að setja pakkann á borðið á meðan að aðrir í fjölskyldunni söfnuðust saman í kringum hann. Joseph sá að faðir hans og yngri bróðir, William, langaði að vefja utan af plötunum en hann stoppaði þá.

„Getum við ekki séð þær?“ Spurði Joseph eldri.

„Nei,“ sagði Joseph. „Ég var óhlýðinn í fyrsta skiptið en ég ætla mér að vera trúr í þetta sinn.“

Hann sagði þeim að þau gætu þreifað á plötunum í gegnum efnið og William, bróðir hans, lyfti pakkanum. Hann var þyngri en grjót og William gat fundið að hann samanstóð af síðum sem hreyfðust eins og blaðsíður í bók.32 Joseph sendi einnig yngsta bróður sinn, Don Carlos, til að ná í geymslukassa frá Hyrum, sem bjó neðar við veginn, með eiginkonu sinni Jerusha og nýfæddri dóttur þeirra.

Hyrum kom fljótt eftir það og um leið og plöturnar voru öruggar í kassanum þá hrundi Joseph niður á nálægt rúm og hóf að segja fjölskyldu sinni frá mönnunum í skóginum.

Er hann talaði, gerði hann sér grein fyrir því að hann verkjaði í höndina. Á meðan á árásunum stóð hafði hann tekið þumalinn úr liði.

„Ég verð að hætta að tala, faðir,“ sagði hann skyndilega, „og fá þig til að setja þumalinn aftur í lið.“33

Heimildir

  1. Agreement of Josiah Stowell and Others, nóv. 1, 1825, í JSP, D1:345–52.

  2. Smith, Biographical Sketches, 91–92; Oliver Cowdery, “Letter VIII,” LDS Messenger and Advocate, okt. 1835, 2:200–202; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 7–8, í JSP, H1:234 (uppkast 2); Smith, On Mormonism, 10. Efni: Treasure Seeking

  3. Agreement of Josiah Stowell and Others, nóv. 1, 1825, í JSP, D1:345–52.

  4. Pratt, Autobiography, 47; Burnett, Recollections and Opinions of an Old Pioneer, 66–67; Woodruff, Journal, júlí 4, 1843, and okt. 20, 1855; Emmeline B. Wells, “L.D.S. Women of the Past,” Woman’s Exponent, feb. 1908, 36:49; Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 289; sjá einnig Staker and Ashton, “Growing Up in the Isaac and Elizabeth Hale Home”; og Ashurst-McGee, “Josiah Stowell Jr.–John S. Fullmer Correspondence,” 108–17.

  5. Baugh, “Joseph Smith’s Athletic Nature,” 137–50; Pratt, Autobiography, 47; Burnett, Recollections and Opinions of an Old Pioneer, 66–67; Recollections of the Pioneers of Lee County, 96; Youngreen, Reflections of Emma, 61, 67, 65, 69; Emmeline B. Wells, “L.D.S. Women of the Past,” Woman’s Exponent, feb. 1908, 36:49.

  6. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 8, í JSP, H1:234 (uppkast 2); Smith, Biographical Sketches, 92; Bushman, Rough Stone Rolling, 51–53; Staker, “Isaac and Elizabeth Hale in Their Endless Mountain Home,” 104.

  7. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 7–8, í JSP, H1:234–36 (uppkast 2); Knight, Reminiscences, 2; Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 290.

  8. William D. Purple, “Joseph Smith, the Originator of Mormonism,” Chenango Union, maí 2, 1877, [3]; sjá einnig An Act for Apprehending and Punishing Disorderly Persons (feb. 9, 1788), Laws of the State of New-York (1813), 1:114. Efni: Joseph Smith’s 1826 Trial

  9. “Mormonism—No. II,” Tiffany’s Monthly, júlí 1859, 169.

  10. Knight, Reminiscences, 2.

  11. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, 96; sjá einnig Knight, Reminiscences, 2.

  12. Sjá “The Original Prophet,” Fraser’s Magazine, feb. 1873, 229–30.

  13. Lucy Mack Smith, History, 1845, 97.

  14. Knight, Reminiscences, 2; Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 289.

  15. Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 289; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 8, í JSP, H1:236 (uppkast 2).

  16. Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 290; Joseph Lewis and Hiel Lewis, “Mormon History. A New Chapter, about to Be Published,” Amboy Journal, apr. 30, 1879, 1; sjá einnig Oliver Cowdery, “Letter VIII,” í LDS Messenger and Advocate, okt. 1835, 2:201.

  17. Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 8, í JSP, H1:236 (uppkast 2); Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 4, [11]–[12]; bók 5, [1]–[3]. Efni: Sacred Grove and Smith Family Farm

  18. “Mormonism—No. II,” Tiffany’s Monthly, júlí 1859, 167–68.

  19. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [4]–[6].

  20. Knight, Reminiscences, 2.

  21. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [6].

  22. Lucy Mack Smith, History, 1845, 105.

  23. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 6, [1].

  24. “Mormonism—No. II,” Tiffany’s Monthly, júní 1859, 165–66; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [6].

  25. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [6]–[7]; Knight, Reminiscences, 2.

  26. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [7]–[8].

  27. Knight, Reminiscences, 2–3; Joseph Smith History, 1838–56, bindi A-1, 5, í JSP, H1:222 (uppkast 2); sjá einnig Alma 37:23.

  28. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [8]–[10]; “Mormonism—No. II,” Tiffany’s Monthly, ág. 1859, 166; Smith, Biographical Sketches, 103; sjá einnig Genesis 25:29–34.

  29. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [10] og adjacent paper fragment.

  30. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [11]. Efni: Gold Plates

  31. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [11].

  32. “The Old Soldier’s Testimony,” Saints’ Herald, okt. 4, 1884, 643–44; Salisbury, “Things the Prophet’s Sister Told Me,” 1945, Church History Library; Ball, “The Prophet’s Sister Testifies She Lifted the B. of M. Plates,” 1954, Church History Library; Smith, William Smith on Mormonism, 11; Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [11]; Joseph Smith III, “Last Testimony of Sister Emma,” Saints’ Herald, okt. 1, 1879, 290.

  33. Lucy Mack Smith, History, 1844–45, bók 5, [11]–[12]. Efni: Lucy Mack Smith

Prenta