Trúarskóli eldri deildar
Kafli 7: Samþjónar


„Samþjónar,“ kafli 7 í Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018)

Kafli 7: „Samþjónar“

Kafli 7

Samþjónar

Sýnir í skóginum

Vorið 1829 var kalt og blautt vel inn í maí. Joseph og Oliver þýddu eins mikið af heimildunum og þeir gátu á meðan að bændurnir á Harmonysvæðinu héldu sig innandyra og seinkuðu sáningu vorsins þangað til að veðrið lagaðist.1

Þeir voru komnir að frásögninni af því sem gerðist á meðal Nefíta og Lamaníta þegar Jesús dó í Jerúsalem. Þar var talað um gífurlega jarðskjálfta og storma sem eyddu fólkinu og breyttu landslaginu. Sumar borgir sukku í jörðina á meðan að aðrar brunnu til grunna. Eldingar klufu himininn svo klukkutímum skipti og sólin hvarf, svo þeir sem eftir lifðu voru umvafðir myrkri. Í þrjá daga hrópaði fólkið, syrgjandi hina látnu.2

Að lokum rauf rödd Jesú Krists drungann: „Viljið þér nú ekki snúa til mín,“ sagði hann „og iðrast synda yðar og snúast til trúar, svo að ég megi gjöra yður heila?“3 Hann aflétti myrkrinu og fólkið iðraðist. Fljótlega söfnuðust margir saman við musteri á stað sem kallaðist Nægtarbrunnur, þar sem þeir töluðu um þá ótrúlegu breytingu sem orðið hafði á landi þeirra.4

Á meðan að fólkið var á tali við hvort annað, sáu þau son Guðs stíga af himnum ofan. „Sjá, ég er Jesús Kristur,“ sagði hann, „sem spámennirnir vitnuðu um, að koma mundi í heiminn.“5 Hann dvaldi á meðal þeirra um tíma, kenndi fagnaðarerindi sitt og bauð þeim að skírast niðurdýfingarskírn til fyrirgefningar syndanna.

„Og hver, sem trúir á mig og hefur hlotið skírn, mun hólpinn verða,“ sagði hann. „Og það eru þeir, sem erfa skulu Guðs ríki.“6 Áður en hann steig aftur til himna, gaf hann réttlátum mönnum vald til að skíra þá sem trúðu á hann.7

Þetta hafði mikil áhrif á Joseph og Oliver, er þeir unnu við þýðingarnar. Eins og bróðir hans, Alvin, þá hafði Joseph aldrei verið skírður og hann langaði að vita meira um athöfnina og það vald sem var nauðsynlegt til að framkvæma hana.8


Þann 15 maí, 1829, hætti að rigna og Joseph og Oliver gengu inn í skóginn við Susquehanna ánna. Þeir krupu og spurðu Guð um skírn og fyrirgefningu synda. Þegar þeir báðu, mælti rödd lausnarans þeim friði og engill birtist í skýi ljóss. Hann kynnti sig sem Jóhannes skírara og lagði hendur sínar á höfuð þeirra. Gleði fyllti hjörtu þeirra er kærleikur Guðs umvafði þá.

„Yður, samþjónum mínum,“ sagði Jóhannes, „veiti ég í nafni Messíasar Aronsprestdæmið, sem hefur lykla að þjónustu engla og fagnaðarerindi iðrunar og niðurdýfingarskírn til fyrirgefningar syndanna.“9

Rödd engilsins var ljúf, en hún virtist nísta í gegnum Joseph og Oliver.10 Hann útskýrði að Aronsprestdæmið veitti þeim valdsumboð til að framkvæma skírnir og hann bauð þeim að skíra hvorn annan eftir að hann yfirgæfi þá. Hann sagði einnig að þeir myndu hljóta viðbótar prestdæmisvald seinna, sem myndi gefa þeim valdsumboð til að veita hvor öðrum gjöf heilags anda og þeim sem þeir skírðu.

Eftir að Jóhannes skírari fór, gengu Joseph og Oliver að ánni og óðu út í hana. Joseph skírði Oliver fyrst og um leið og hann steig upp úr vatninu hóf Oliver að spá um óorðna hluti. Oliver skírði því næst Joseph, sem steig upp úr vatninu og spáði fyrir um komu kirkjunnar, sem Drottinn hafði lofað að yrði stofnuð á meðal þeirra.11

Því næst hlýddu þeir boði Jóhannesar skírara og snéru aftur í skóginn og vígðu hvorn annan Aronsprestdæminu. Í könnun þeirra á Biblíunni, ásamt þýðingu þeirra á hinum fornu heimildum, þá höfðu Joseph og Oliver oft lesið um valdið til að starfa í nafni Guðs. Nú voru þeir sjálfir handhafar þessa valds.

Eftir skírn þeirra fundu Joseph og Oliver að þær ritningar sem áður virtust torskildar og óræðar, urðu skyndilega skýrari. Sannleikur og skilningur flæddu í huga þeirra.12


Í New York vildi David Whitmer, vinur Olivers, ákafur læra meira um starf Josephs. Þó að David byggi í Fayette, tæpa 50 km frá Manchester, þá urðu hann og Oliver vinir þegar Oliver var að kenna í skóla og bjó með Smith fjölskyldunni. Þeir töluðu oft um gullplöturnar og þegar Oliver flutti til Harmony, lofaði hann að skrifa David og segja honum frá þýðingunum.

Bréfin hófu að berast skömmu seinna. Oliver skrifaði að Joseph vissi um smáatriði úr lífi hans, sem enginn gæti hafa vitað um nema fyrir opinberun frá Guði. Hann lýsti orðum Drottins fyrir Joseph og þýðingum heimildanna. Í einu bréfanna, deildi Oliver nokkrum línum af þýðingu og bar vitni um sannleiksgildi þeirra.

Annað bréf upplýsti David um að það væri vilji Guðs að hann kæmi með eyki sitt og vagn til Harmony til að hjálpa Joseph, Emmu og Oliver að flytja til Whitmer fjölskyldunnar í Fayette, þar sem þeir myndu ljúka þýðingunum.13 Fólkið í Harmony hafði orðið óvinveitt Smith fjölskyldunni. Sumir höfðu jafnvel hótað því að ráðast á þau og ef það hefði ekki verið fyrir áhrif fjölskyldu Emmu, þá hefðu þau getað orðið fyrir alvarlegum meiðslum.14

David deildi bréfum Olivers með foreldrum sínum og systkinum, sem samþykktu að bjóða Joseph, Emmu og Oliver, velkomin á heimili þeirra. Whitmer fjölskyldan voru afkomendur þýskumælandi landnema á svæðinu og voru þekkt fyrir vinnusemi og guðrækni. Bær þeirra var nægilega nálægt Smith heimilinu til að fara í heimsókn, en nógu langt í burtu til að varna þjófum frá því að trufla þau.15

David vildi fara strax til Harmony, en faðir hans minnti hann á að hann ætti eftir að klára tveggja daga erfiðisvinnu áður en hann gæti lagt af stað. Það var tími sáningar og David varð að plægja 8 hektara lands og bera gifsi í jarðveginn til að hjálpa hveitinu til að vaxa betur. Faðir hans sagði honum að hann ætti að biðja fyrst til að komast að því hvort það væri algerlega nauðsynlegt að fara strax af stað.

David fór að ráðum föður síns og er hann bað, fann hann andann segja honum að klára verkið heimavið áður en hann legði af stað til Harmony.

Næsta morgun gekk David út á akrana og sá raðir í jörðinni sem höfðu þegar verið plægðar kvöldið áður. Er hann skoðaði akurinn betur sá hann að rúmlega 2 hektarar höfðu verið plægðir yfir nóttina og að plógurinn beið eftir honum við síðustu röðina, tilbúinn fyrir hann að klára verkið.

Faðir Davids var furðulostinn þegar hann heyrði hvað hafði gerst. „Það hlýtur að vera æðri hönd í þessu,“ sagði hann, „og ég held að þú ættir að fara niður til Pennsylvaníu um leið og þú hefur borið gifsið í jarðveginn.“

David vann hörðum höndum við að plægja afganginn af ökrunum og að undirbúa jarðveginn fyrir árangursríka sáningu. Þegar hann lauk starfinu, festi hann vagn sinn við sterkt eyki hesta og lagði af stað til Harmony, fyrr en hann hafði reiknað með.16


Þegar Joseph, Emma og Oliver fluttu til Fayette þá var móðir Davids með fullar hendur. Mary Whitmer og eiginmaður hennar, Peter, áttu þegar átta börn frá aldrinum fimmtán til þrítugs og þau sem bjuggu ekki ennþá heimavið, áttu heima nálægt. Það að sinna þörfum þeirra, fyllti daga Mary af verkum og þessir þrír næturgestir bættu á hana vinnu. Mary hafði trú á köllun Josephs og kvartaði ekki, en hún var að verða þreytt.17

Það var steikjandi hiti þetta sumar í Fayette. Er Mary þvoði þvott og undirbjó máltíðir, las Joseph fyrir þýðinguna í herbergi á efri hæðinni. Oliver ritaði yfirleitt fyrir hann en einstaka sinnum leysti Emma, eða einhver úr Whitmer fjölskyldunni, hann af.18 Stundum, þegar Joseph og Oliver urðu þreyttir á álaginu af því að þýða, þá gengu þeir að nálægri tjörn og fleyttu steinum eftir yfirborði vatnsins.

Mary fékk lítinn tíma til að hvíla sig sjálf og það var erfitt fyrir hana að standa undir hinni auknu vinnu og því álagi sem það lagði á hana.

Dag einn er hún var úti við hlöðuna þar sem kýrnar voru mjólkaðar, sá hún gráhærðan mann með bakpoka á öxlinni. Það hræddi hana hve skyndilega hann birtist, en er hann nálgaðist, talaði hann við hana hlýrri röddu sem hjálpaði henni að róast niður.

„Ég heiti Moróní,“ sagði hann. „Þú ert orðin all verulega þreytt af allri þessari auka vinnu sem þú verður að sinna.“ Hann sveiflaði bakpokanum af öxl sinni og Mary horfði á er hann byrjaði að opna pokann.19

„Þú hefur verið mjög trúföst og samviskusöm í verkum þínum,“ hélt hann áfram. Það er þar af leiðandi rétt að þú meðtakir vitni svo að trú þín megi verða sterkari.“20

Moróní opnaði bakpoka sinn og fjarlægði þaðan gullplöturnar. Hann hélt þeim frammi fyrir henni og fletti blaðsíðunum svo að hún gæti séð það sem var ritað á þær. Eftir að hann fletti síðustu blaðsíðunni, hvatti hann hana til að vera þolinmóð og trúföst er hún héldi áfram að bera þessa auknu byrði ögn lengur. Hann lofaði henni að hún myndi vera blessuð fyrir það.21

Gamli maðurinn hvarf stundu seinna og skildi Mary eftir eina. Hún átti enn verk að vinna, en það olli henni ekki lengur vandamálum.22


Á Whitmer bænum, þýddi Joseph hratt en sumir dagar voru honum áskorun. Hugur hans reikaði til annarra mála og hann gat ekki einbeitt sér að andlegum hlutum. 23 Litla hús Whitmer fjölskyldunnar var alltaf iðandi af fólki og mikið um ónæði. Það að flytja þangað þýddi að Emma og Joseph urðu að gefa upp það næði sem þau höfðu haft í Harmony.

Dag einn, er hann var að gera sig tilbúinn til að þýða, varð Joseph ósáttur við Emmu. Seinna er hann fór svo á fund við Oliver og David í herberginu uppi, þar sem þeir unnu, gat hann ekki þýtt eitt einasta orð.

Hann yfirgaf herbergið og gekk út í aldingarðinn. Hann var í burtu í um klukkutíma, á bæn. Þegar hann kom tilbaka, bað hann Emmu afsökunar og fyrirgefningar. Því næst fór hann tilbaka og þýddi eins og áður.24

Hann var nú að þýða síðasta hluta heimildanna, sem voru þekktar sem hinnar smærri töflur Nefís, sem myndu svo þjóna sem upphaf bókarinnar. Þær sögðu sögu, svipaðri þeirri sem hann og Martin höfðu þýtt og týnt, um ungan mann að nafni Nefí, sem hafði verið leiddur ásamt fjölskyldu sinni frá Jerúsalem til hins fyrirheitna lands. Þær útskýrðu upphaf heimildanna og hina upphaflegu baráttu sem átti sér stað á milli fólks Nefíta og Lamaníta. Það sem mikilvægara var þá báru þær sterkan vitnisburð um Jesú Krist og friðþægingu hans.

Þegar Joseph þýddi það sem stóð á síðustu plötunni, fann hann að hún útskýrði tilgang heimildarinnar og gaf henni titil, Mormónsbók, eftir hinum forna spámanni og sagnfræðingi, sem hafði sett bókina saman.25

Síðan hann hóf þýðingu Mormónsbókar, hafði Joseph lært mikið um hlutverk sitt í verki Guðs. Á síðum hennar kannaðist hann við grunnkenningar sem hann hafði einnig lært úr Biblíunni, ásamt nýjum sannleika og innsýn í Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Hann afhjúpaði einnig kafla um síðari daga sem spáðu um útvalinn sjáanda að nafni Jósef, sem myndi koma fram með orð Drottins og endurreisa týnda þekkingu og sáttmála.26

Í heimildinni lærði hann að Nefí lagði út af spádómi Jesaja, um innsiglaða bók sem lærðir menn gátu ekki lesið. Er Joseph las spádóminn, hugsaði hann um viðtal Martin Harris við prófessor Athon. Það staðfesti að einungis Guð gæti fært bók úr jörðinni og komið fram með kirkju Krists á hinum síðustu dögum.27


Er Joseph og vinir hans kláruðu þýðinguna, leiddi hugur þeirra að loforði sem Drottinn hafði gefið í Mormónsbók og í opinberunum hans - um að sýna þremur vitnum plöturnar. Foreldrar Josephs og Martin Harris voru í heimsókn á bæ Whitmer fjölskyldunnar á þessum tíma og morgun einn báðu Martin, Oliver og David um það hvort þeir gætu verið þessi vitni. Joseph bað og Drottinn svaraði að ef þeir treystu alfarið á hann og skuldbindu sig til að vitna um sannleikann, þá gætu þeir séð töflurnar.28

„Þú verður að auðmýkja þig frammi fyrir Guði í dag,“ sagði Joseph sérstaklega við Martin, „og ef mögulegt er, fá fyrirgefningu synda þinna.29

Síðar þennan dag, leiddi Joseph þessa þrjá menn út í skóginn, nærri Whitmer heimilinu. Þeir krupu og hver og einn skiptist á að biðja um að fá að sjá plöturnar, en ekkert gerðist. Þeir reyndu í annað sinn, enn gerðist ekkert. Að lokum stóð Martin upp og gekk í burtu og sagði að hann væri ástæða þess að himnarnir væru lokaðir.

Joseph, Oliver og David snéru sér aftur að bæninni og fljótlega birtist fyrir ofan þá, engill í skínandi ljósi.30 Hann hélt á plötunum í höndum sér og fletti þeim einni í einu og sýndi mönnunum táknin sem grafin voru á hverja síðu. Borð birtist við hlið hans og á því voru fornminjar sem lýst var í Mormónsbók, þýðendurnir, brjóstplatan, sverð og hinn undraverði áttaviti sem hafði leitt fjölskyldu Nefí frá Jerúsalem til fyrirheitna landsins.

Mennirnir heyrðu rödd Guðs lýsa yfir: „Þessar plötur hafa verið opinberaðar með krafti Guðs og þær hafa verið þýddar með krafti Guðs. Þýðing þeirra, sem þið hafið séð, er rétt og ég býð ykkur að bera vitni um það sem þið nú sjáið og heyrið.“31

Þegar engillinn hvarf á braut, gekk Joseph lengra inn í skóginn og fann Martin þar á hnjánum. Martin sagði honum að hann hefði enn ekki hlotið vitni frá Drottni en að hann langaði enn að sjá plöturnar. Hann bað Joseph að biðja með sér. Joseph kraup við hlið hans og áður en að þeir höfðu náð að klára orðin þá sáu þeir sama engil, sýna plöturnar og hina fornu gripina.

„Þetta er nóg! Þetta er nóg!“ hrópaði Martin „Augu mín hafa séð! „Augu mín hafa séð!“32


Seinna um eftirmiðdaginn, snéri Joseph aftur til Whitmer heimilisins, ásamt hinum þremur vitnum. Mary Whitmer var að spjalla við foreldra Josephs þegar Joseph æddi inn í herbergið. „Faðir! Móðir!“ sagði hann. „Þið viti ekki hve hamingjusamur ég er!“

Hann henti sér niður við hlið móður sinnar. „Drottinn hefur séð til þess að þremur vitnum, auk mér, hefur verið sýndar plöturnar,“ sagði hann. „Þeir vita það af sér sjálfum að ég fer ekki um og blekki fólk.“

Honum fannst sem þungri byrði hefði verið létt af herðum sér. „Nú verða þeir að bera hluta byrðarinnar,“ sagði hann. „Ég þarf ekki lengur að vera aleinn í heiminum.“

Martin kom inn í herbergið, við það að springa af gleði. „Ég hef nú séð engil af himnum!“ hrópaði hann. „Ég blessa Guð í einlægni sálar minnar að hann hefur sýnt það lítillæti að gera mig - jafnvel mig - að vitni um mikilleik verks hans!“33

Nokkrum dögum seinna hittu Whitmer fjölskyldan, Smith fjölskylduna á býli þeirra í Manchester. Vitandi að Drottinn hafði lofað að staðfesta orð sín „í orðum eins margra vitna og honum þætti sæma,“ þá fór Joseph inn í skóginn ásamt föður sínum, Hyrum og Samuel, ásamt fjórum bræðrum David Whitmer - Christian, Jacob, Peter yngri og John - og mági þeirra Hiram Page.34

Mennirnir komu saman á stað þar sem Smith fjölskyldan fór oft til að biðja í einrúmi. Með leyfi Drottins þá afhjúpaði Joseph plöturnar og sýndi þær hópnum. Þeir sáu ekki engil eins og vitnin þrjú höfðu gert en Joseph leyfði þeim að höndla heimildirnar, fletta blaðsíðunum og skoða forna skriftina. Það að handfjatla plöturnar studdi trú þeirra á að vitnisburður Josephs um engilinn og hinar fornu heimildir, væru sannar.35

Nú er þýðingunni var lokið og hann hafði vitni til að styðja við undraverðan vitnisburð sinn, þá þurfti Joseph ekki lengur á plötunum að halda. Eftir að mennirnir yfirgáfu skóginn og fóru aftur í húsð þá birtist engillinn og Joseph afhenti honum hinar helgu heimildir til vörslu.36